föstudagur, september 03, 2004

Danaveldi í öllu sínu veldi

Það er bara helvíti fínt að búa í Danmörku. Veðrið (ég er nottla ennþá Íslendingur þannig að ég er skuldbundinn að tala um veðrið) er búið að vera frekar skítt síðan við komum út eins og reyndar í allt sumar hérna í Danmörku. Rigning uppá hvern einasta dag, en aldrei samfleytt í heilan dag því það er oft sólskin þar á milli. Voða skrítið eitthvað. Maður kannast kannski við þetta að heiman en ekki margar vikur í röð.

Í þessari viku er ég búinn að vera voða duglegur að hreyfa mig því það eru alltaf einhverjir að hittast til að spila hinar og þessar íþróttir. Á miðvikudaginn fór ég í fótbolta, í gær fór ég í körfubolta, og á eftir fer ég í Beach-Volley! Strandblak er (eins skringilega og það hljómar) vinsælasta íþróttin í skólanum og það er bara alveg þrusu gaman að spila! Við spilum nú ekki tveir á tvo eins og á ólympíuleikunum heldur eru fjórir (eða fjögur) í liði og alltaf mikil stemmning.

Skólinn gengur bara vel. Við erum byrjuð á fyrsta verkefninu og það gengur alveg ágætlega. Öll verkefnin hérna eru gerð í hópvinnu og við erum búin að læra ýmislegt um hvernig hópvinna á að ganga fyrir sig. Námið mitt skiptist í fjóra hluta. Það er viðskiptahlutinn, hönnun, forritun og samskipti. Þannig skiptast tímarnir sem við förum í og bækurnar sem við lesum. Verkefnin eru stór og viðamikil og snúa að öllum þessum greinum. Þetta verður yfirleitt útlitshönnun og forritun á vefsíðum, ásamt miklum undirbúningi og alskonar skipulagningu sem við lærum í viðskiptaáfanganum. Svo lærum við hvernig við eigum að markaðssetja vöruna okkar og hvernig við eigum að tala við viðskiptavini okkar og ná okkur í fleiri kúnna í samskiptaáfanganum.

Þetta nám er sem sagt mjög sniðugt því þótt maður fari meira í eina átt en aðra að loknu þessu námi, t.d. í að forrita vefsíður eða í grafsíka hönnun, þá er rosalega gott að hafa grunn í hinu svo maður viti útá hvað það gengur. Fyrir utan auðvitað að það lítur mjög vel út þegar maður sækir um vinnu að maður geti hoppað inní hvaða stöðu sem er og hjálpað til. Ég veit ekki enn hvað ég vill gera eftir þetta nám en það getur vel verið að ég komist að því þegar ég er að grúska í öllum þessum greinum á sama tíma. Það lítur sem sagt út fyrir að þessi tvö ár hérna í NoMA verði mjög skemmtileg.
Maggi.

E.s: Ég lofa að skrifa oftar ef þið farið að kommenta meira! Það er eins og öllum sé sama um mann þegar maður er fluttur til útlanda! Voruði kannski bara fegin að losan við mig?
blog comments powered by Disqus