miðvikudagur, september 15, 2004

Ísland er lítið land...

Ég lenti í ótrúlega fyndnu atviki á sunnudaginn. Ég var bara heima í mestu makindum (þynnka + sjónvarp) og fékk mjög skrítið SMS. Þar var ég spurður hvort ég hefði verið staddur í utandyra house partýi klæddur í kjól og með sjal viku áður en ég flutti til Danmerkur. Eins skrítið og þetta hljómar þá er þetta akkúrat það sem gerðist! Ég fór í partý til vinkonu minnar viku áður en ég flutti út, og það breyttist í furðufatapartý og ég fór í alveg forljótan kjól, setti á mig hatt og sjal og við fórum svoleiðis á djammið. Ég var líka í því að draga fólk inn til að velja sér föt og á sunnudaginn uppgötvaðist að ein af stelpunum sem er með mér hérna í bekk hérna úti var í þessu partýi! Ég talaði meira að segja við hana og lét hana fara í forljóta bleika blússu! Ég mundi ekkert eftir henni þegar skólinn byrjaði og hún ekki nógu mikið eftir mér til að fatta að ég hafi verið sami gaurinn. Þetta er ótrúlega tilviljun finnst mér. Og sýnir vel hvað ég er mannglöggur eða þannig að hafa ekki þekkt hana aftur viku seinna þegar við hittumst svo í skólanum. (Og nei, ég var ekki mjög fullur því þetta var frekar snemma um kvöldið þegar við vorum að dressa okkur upp...)

Ég hætti skyndilega við tölvukaup um daginn. Ég ákvað að sleppa því að fá mér eitthvað voða merki og ákvað að kaupa mér bara ódýra tölvu sem er næstum alveg jafn góð. Ég sparaði mér rúmlega 50 þúsund kall og fékk DVD skrifara að auki! Þannig að ég er sáttur. Fátækir námsmenn verða líka að læra að spara. Ég er að fara að sækja tölvuna núna eftir hálftíma og ætla að reyna að koma henni í netsamband í kvöld. :)

Loksins tókst mér að ná í skottið á húsverðinum okkar þannig að hann gæti selt mér kort sem virkar í sameiginlega þvottahúsið. Ég hef ekkert náð að þvo síðan ég kom hérna út og það er allt orðið skítugt og ég hef þurft að þvo í höndunum tvisvar. En ég fékk kortið loksins í morgun og get því farið þvo allt sem ég á!

Það er annars bara allt gott að frétta, fyrsta stóra verkefnið er að klárast í skólanum og það er sýning núna á föstudaginn þar sem við sýnum allt sem við gerðum. Þetta verkefni fjallar um Max Havelaar sem er stofnun sem hjálpar bændum og vinnufólki í fátækum löndum og veitir þeim gott aðgengi á markaði hér í Evrópu og tryggir að þau fái mannsæmandi laun. Við áttum að gera heimasíðu til að kynna nýja merkið þeirra fyrir aldurshópinn 18-25 ára. Þetta gekk alveg ágætlega hjá okkur en það verður gott að komast í nýtt verkefni. Það byrjar strax á mánudaginn! Þá verða engar kennslustundir heldur eyðum við öllum okkar tíma í verkefnið. Það verður spennandi og vonandi krefjandi.

Og fyrir þá sem halda að ég eyði ekki nægum tíma í námið hérna úti þá fengum við úrlausnir úr fyrstu prófunum okkar í dag og ég var einn af fjórum efstu í árganginum. Það ættu allir að vera sáttir við þá útkomu held ég. :) Þetta voru ekki próf sem gilda til einkunnar heldur bara til að sjá hvar við stöndum í námsefninu og ég stóð mig bara ágætlega í þessu. Ég er búinn að horfa mjög mikið á Malcolm in the Middle og það hefur kannski hjálpað mér. :) Bið að heilsa öllum heima sem ekki lesa bloggið! Kveðja,
Maggi.
blog comments powered by Disqus