fimmtudagur, mars 31, 2005

Heimsókn!

Atli og Biggi koma á morgun! WooHooo!! :D Það verður fjör. Mikið fjör og mikið gaman. Ég ætla að vera duglegur að taka myndir eins og vanalega og þið fáið að sjá hvað var gaman hjá okkur eftir helgina! Ég og Jói fáum hamborgaratilboð frá Básnum! :D Hahahahaha!
Maggi.

þriðjudagur, mars 29, 2005

PáskaKøbenMyndir

Nýjar myndir!

Ég skrifaði færslu sem Blogger ákvað að eyðileggja. Hún var greinilega ekki nógu merkileg til að birta hana hér þannig að ég nenni ekki að skrifa hana upp aftur. Biggi skrifaði einu sinni e-mail sem eyðilagðist þrisvar áður en hann náði að senda það. Hann var orðinn svo pirraður að síðasta útgáfan af e-mailinu var orðin hrikalega orðljót og leiðinleg og hann varð að marg-biðjast afsökunar á því að hafa sent það þegar hann hitti loksins viðtakandann aftur. Það var fyndið. En allavega, hér eru myndir frá því í Køben um daginn!
Maggi.

sunnudagur, mars 27, 2005

Gleðilega páska!

Nú er páskadagur og ég er fjarri heimahögum í fyrsta sinn (að mig minnir). Ekki að það sé neitt slæmt því páskarnir eru ekki mjög stór hátíð í mínum huga. Það er alveg hægt að chilla og borða páskaegg annarsstaðar en heima! Ég fékk sent Nóa Síríus páskaegg númer fimm í vikunni og það var meira að segja óbrotið! Ég gæddi mér á því áðan (náði samt ekki nærri því að klára) og málshátturinn var Iðnin eykur alla mennt. Ætli það þýði að ég sé ekki að leggja nógu hart að mér í skólanum? Naaahh...

Núna er ég staddur í Horsens hjá Jóa og Kristjönu og við erum að fara að borða páskamat! Þau voru ekki mjög sátt með málshættina sína, því þau fengu sama málsháttinn! Það eyðilagði næstum því páskana fyrir Jóa, og hann er að spá í að senda kvörtunarbréf til Nóa Síríus. Málshátturinn var Kenna má fyrr en klipið er til beins.

Á föstudaginn kom Hlynur í heimsókn til Kolding! Hann er búinn að vera í S-Ameríku í fjóra mánuði og er í Danmörku yfir helgina áður en hann fer heim. Það var rosa gaman að sjá kallinn og Jói og Kristjana kíktu líka til Kolding og eyddu deginum með okkur. Við röltum um bæinn og kíktum í bíó um kvöldið þar sem við sáum Ring 2. Hún er frekar spooky en svipuð og fyrri myndin. Meira af því sama. Svo kom ég hingað til Horsens í gær og kíkti út á lífið með Jóa og Kristjönu og íslenskum vinum þeirra. Það var mjög fínt þrátt fyrir frekar leiðinlegan endi á kvöldinu útaf ömurlegum dyravörðum með valdahroka. En það er búið að vera mjög gaman hjá okkur. Vonandi eigiði ánægjulega páskahátíð hvar sem þið eruð stödd í veröldinni!
Magnús.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Myndarlegt

En hvað maður er myndarlegur! Ef það telst til myndugleika að lofa einhverju og standa svo við það nokkrum vikum seinna. Það eru í það minnsta komnar nýjar myndir á netið! Þið nennið kannski ekki að skoða þetta allt en hérna eru þær samt. Fyrri skammturinn eru myndirnar sem ég tók þegar við fórum á fyrirlestur í Koldinghus fyrir tveimur vikum og nokkrar myndir úr skólanum fá að fljóta þar með. Þetta eru aðllega artý myndir af einhverjum hlutum á safninu í Koldinghus (ég veit að sumir fíla ekki artý, þeir mega sleppa því að opna þær myndir) og svo nokkrar teknar yfir bæinn ofan af turninum.

Seinni skammturinn er frá CeBIT tæknisýningunni í Hannover. Við komumst þangað fyrir rest og auðvitað var ég með myndavélina á lofti. Ein myndin í seríunni er þó tekin á aðra stafræna myndavél í Kodak básnum á sýningunni. Það var einhver gaur sem smellti mynd af Elvu, Láru og mér og prentaði hana beint af myndavélinni í þremur eintökum handa okkur. Hún heppnaðist bara vel okkur til mikillar furðu og því tók ég mynd af útprentuninni og setti með á netið. Svo set ég inn myndirnar frá Köben fljótlega.
Maggi.

Ekki bjóða ruslpósti í heimsókn!

Fyrst ég er nú byrjaður að hjálpa fólki með bloggin sín þá get ég nú varla látið hér við sitja! Ein mesta plága sem til er á netinu er ruslpóstur. Ruslpóstur er alveg óþolandi eins og allir vita og með því að setja link sem heitir "Sendið mér póst" á vefsíðuna sína er maður að sýna öllum heiminum póstfangið sitt. Það eru til óteljandi leitarvélar sem skanna kóða á heimasíðum bara til að finna póstföng svo óprúttin fyrirtæki geti sent póst til sem flestra. Þannig að auðvitað viljum við ekki setja tölvupóstfangið okkar beint á síðuna okkar! Það er til einföld lausn á þessum vanda. Í staðinn fyrir @ merkið í póstfanginu okkar þá setjum við @ sem er html kóðinn fyrir @ merkið. Flestar leitarvélarnar sem lesa kóðann sjá því ekkert @ merki og halda því að ekkert póstfang sé á síðunni. Passið ykkur á því að setja @ í staðinn fyrir öll @ merkin í kóðanum. Til dæmis:

<a href="mailto:maggisv&#64;gmail.com>Sendið póst á maggisv&#64;gmail.com</a>

Þessi lausn er þó ekki fullkomin því sumar leitarvélarnar kunna þetta bragð og setja @ merkið sjálfkrafa í staðinn fyrir þennan kóða. Ef þú vilt enn betri lausn á þessum vanda þá geturu fundið hana hér (býr sjálfkrafa til JavaScript fyrir þig) og svo eru enn fleiri lausnir hér. Maður þarf auðvitað oft að gefa upp póstfangið sitt þegar maður skráir sig í hitt og þetta á netinu og þá er gott að hafa eitt póstfang sem manni er alveg sama um og nota það í þeim tilvikum. Þá veistu amk að pósturinn sem þú færð á aðal póstfangið þitt er ekki rusl!
Maggi.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Polaroid

Hvernig gat ég gleymt að minnast á þetta í síðustu færslu? Ég keypti mér myndavél í Køben! Við fórum inní myndavélabúð og ég sá til sölu Polaroid myndavél á hundraðkall danskar! Hvernig gat ég sleppt því að kaupa hana? Mig hefur lengi langað að eiga Polaroid myndavél og þótt maður noti hana kannski ekki mikið þá er mjög gaman að gera það einstöku sinnum. Þetta er nottla ekkert verð, þúsundkall íslenskar. Að vísu keypti ég enga filmu því þær eru mjög dýrar. Ég fer í verslunarferð til Þýskalands eftir páska og þá mun ég kaupa mér einhverjar filmur. Vonandi eru þær ódýrari þar eins og flest annað.

Það verður eitthvað lítið að gerast hjá mér um páskana. Allir annaðhvort í öðru landi eða með fjölskylduna í heimsókn. Það er svaka djamm alla páskana frá og með kvöldinu í kvöld (miðvikudag) hér í Kolding. En ég mun ekki taka þátt í því þar sem enginn er til að djamma með! Ég tek bara tvöfalt á því helgina eftir páska því þá koma Biggi og Atli í heimsókn til Danaveldis! :D Það verður frábært enda miklir snillingar þar á ferð. Jói B. kemur þá hingað frá Horsens eða ég fer þangað, það kemur allt í ljós síðar. En tvennt er víst, það verður drukkinn bjór og það verður hrikalega gaman!

Ég ákvað að það væri leiðinlegt að hafa þessa auglýsingu frá Blogger efst á síðunni og fór því á stúfana til að finna lækningu við því. Hún fannst og er svona ef einhver hefur áhuga. Maður fer inní Template og bætir eftirfarandi klausu beint á undan </head> :

<style type="text/css">
#b-navbar {display:none;}
</style>
<script type="text/javascript">
/*
</head>
*/
</script>

Og það er nóg! Ekki taka neitt út, bara bæta þessari runu inní beint á undan </head> sem er frekar ofarlega inní Template. Þetta gæti varla verið einfaldara. Maður getur fundið lausn við öllum vandamálum ef maður nennir bara að leita að henni. :)
Maggi.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Skyndilega Køben

Datt mér ekki í hug! Ég var svo gott sem búinn að ákveða að fara ekki til Køben (sem þýðir að ég var enn að hugsa um það því ég get ekki tekið ákvarðanir) en þá frétti ég að það voru fleiri að hugsa um að skella sér í höfuðborgina og þá fór ég meira að segja að reyna að sannfæra fólk um að fara með! Þannig að það endaði þannig að ég, Elva, Lára, Kolla og Sara (frænka Kollu) fórum til Køben með lestinni á laugardagskvöldið. Og ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun því það er búið að vera virkilega gaman! Ég hitti Gulla og Pálu nokkrum sinnum og það var alveg frábært, og hvatti ég þau auðvitað eindregið til að flytja út til Baunalands í haust. Vonandi sáu þau hvað er gott að búa hér í þessari heimsókn og drífa sig í að skipuleggja flutninga! ;)

Svo rölti ég um bæinn með stelpunum og sá fullt af dóti sem ég hef aldrei séð áður því ég hef í raun aldrei verið túristi í Køben. Við löbbuðum höfnina þvera og endilanga og ég sá litlu hafmeyjuna í fyrsta sinn. Fólk var búið að tala um að hún væri mun minni en maður byggist við þannig að ég bjóst við að hún væri svipað stór og fimm sentímetra háa eftirlíkingin sem amma og afi eiga, en hún var bara í svipuðum hlutföllum og venjuleg manneskja! Já, eða venjuleg manneskja með sporð. Þannig að hún var stærri en ég bjóst við.

Ég tók nóg af myndum (þegar þetta er skrifað er ég kominn uppí 250 myndir) og margar þeirra eru mjög skemmtilegar þannig að ég verð nú að setja eitthvað af þeim á netið. Ég var víst búinn að lofa að setja inn myndir frá CeBIT og ég mun standa við það en þær verða nú ekki svo margar því það var svo mikið af því sama. En ég er enn í Køben og því gerist þetta ekki fyrr en á morgun. Ég er í páskafríi! Fullt af fólki í fríi útum allar trissur en samt eitthvað af fólki í bænum þannig að vonandi getur maður fundið sér eitthvað skemmtilegt til að gera.

Ég fékk skrítið komment um helgina. Stelpurnar sögðu mér að vinur þeirra sem ég hitti í stutta stund um helgina og sem les bloggið mitt stundum hélt að ég væri meiri töffari en ég er! Ég er búinn að vera að spá í hvort ég eigi að taka þessu sem hrósi eða ekki því ég er ekkert að reyna að vera töffari, hvorki hér né í lífinu sjálfu. En ég get sagt ykkur sem lesið þetta en þekkið mig ekki að ég er ekki töffari! Spyrjið bara einhvern sem þekkir mig. :) Skrítið samt að maður geti siglt undir fölsku flaggi án þess að vita af því. Er eftirsóknarvert að vera töffari?
Maggi.

laugardagur, mars 19, 2005

Skyndilega Saybia

Ég fór á tónleika í gær. Ég var heima í tölvunni og allt í einu stóð ég fyrir framan svið og dillaði mér við tónlist Saybia. Eða næstum því. Fyrirvarinn í það minnsta var ákaflega lítill. Ég var búinn að gleyma þessum tónleikum en langaði samt á þá. Ég var að spá í að fara að leggja mig en þá minntust stelpurnar á tónleikana og við ákváðum að fara og ég hoppaði í sturtu og beint útí strætó og beint á tónleikana! Þetta voru fínustu tónleikar, bæði upphitunarhljómsveitin og Saybia sjálfir.

Í kvöld eru svo tónleikar með Emilíönu Torrini í Köben en ég asnaðist til að bíða með að versla mér miða og núna er uppselt! Alveg týpískt. Þannig að ég er líklegast ekki á leiðinni til Köben. Ég var nefnilega á leiðinni þangað til að hitta Gulla og Pálu en það er möguleiki að þau geti kíkt í heimsókn eftir helgina, og því ætla ég að spara mér peninginn í lestina og vera bara heima. Nema ég ákveði allt í einu að fara núna á eftir. Ég er nefnilega ákaflega lélegur í að taka ákvarðanir og bíð alltaf með það fram á síðustu stundu eða jafnvel lengur og hef þá aðeins einn valmöguleika eftir. Það er auðveld leið til að ákveða eitthvað en gallinn er sá að maður verður næstum aldrei ánægður með útkomuna því maður fékk ekki að ráða henni. Svona getur maður verið skrítinn.
Maggi.

föstudagur, mars 18, 2005

Elvis is in the building!

CeBIT kom og fór. Og var skemmtileg. Svæðið var riiisastórt, meira að segja alveg fáránlega stórt. Hallirnar tuttugu og sjö voru hver um sig eins og tvær til fjórar Laugardalshallir svona til að miða við eitthvað og við reyndum að komast yfir sem mest á þeim tíma sem við höfðum. Eftir nokkurra klukkutíma rölt var maður samt orðinn þreyttur og stoppaði því stutt á hverjum stað og var duglegur við að setjast niður úti og hvíla sig. Ég keypti mér ekkert, en reyndi þess í stað að fá sem mest af fríu rusli. Ég fékk slatta af dóti, en það sem er mest nýtilegt er blakbolti sem ég mun eflaust nota uppí skóla á strandblakvellinum þegar líður nær sumri!

Við erum búnir að vinna eins og brjálæðingar í verkefninu okkar og kláruðum það í dag! Það eru enn nokkrar litlar breytingar sem okkur langar að koma með áður en við kynnum það í skólanum en það er til fín útgáfa sem er komin á netið! Endilega kíkið á hana hér. Segið mér svo hvað ykkur finnst! :)
Maggi.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ég get svo eiðsvarið það

Þetta er nottla fyrir neðan allar hellur. Við mættum niðrí bæ á rútustoppistöðina til að taka rútuna til Hannover, og hvað haldiði? Skólanum tókst að klúðra þessu eins og öllu öðru! Engin rúta, hún var víst pöntuð fyrir morgundaginn! Æ, æ. Mætið bara um miðja nótt á morgun aftur til að taka rútuna þá og fara á CeBIT. Ok, upplýsingaflæðið er mjög slæmt í þessum skóla og enginn virðist vita hvað á að gerast hvenær hvorki kennarar né nemendur, en að þeim takist að klúðra því að panta eina skitna rútu!? Það eru bara fáránleg vinnubrögð og maður á ekki að láta bjóða sér svona! Enda var mikil reiði í mannskapnum sem var búinn að bíða úti í skítakulda í klukkutíma eftir rútunni eða staðgengils-rútu sem var reynt að ná í án árangurs.

Fólkið var hissa og reitt og auðvitað svekkt, og því var kalt og það var pirrað og bara fúlt yfir höfuð. Sumir komast ekki einu sinni á morgun og þurfa því að sleppa ferðinni. Aðrir munu líklegast mæta með semingi og með mun minna bros á vör heldur en áðan. Enn einn svartur blettur í kladdann hjá skólanum. Vonandi að þetta hafi verið síðasta hálmstráið og nemendur hreinlega krefjist þess að upplýsingaflæði og allri skipulagningu hjá skólanum verði umturnað og bara löguð í eitt skipti fyrir öll. Það er svekktur Maggi sem kveður og ætlar að reyna að leggja sig og mæta í skólann á eftir í verkefnavinnu.
Maggi.

mánudagur, mars 14, 2005

CeBIT í Hannover

Á morgun (eða réttara sagt núna á eftir) er för okkar NoMA-linga haldið á CeBit tæknisýninguna í Hannover í Þýskalandi. Við leggjum af stað klukkan fjögur í nótt og erum sex tíma á leiðinni í rútu. Svo eyðum við deginum á sýningunni og klukkan sex um daginn eyðum við öðrum sex tímum í að keyra aftur heim til Kolding og komum heim á miðnætti. Þannig að það er heljarinnar utanlandsferð fyrir höndum.

Fyrir þá sem ekki vita er CeBIT sýningin stærsta tæknisýning í heiminum hvorki meira né minna. Það dugar enginn kofi undir svona sýningu heldur er hún í 27 höllum sem eru hver um sig töluvert stærri en Laugardalshöllin heima. Þetta er því algjör draumastaður fyrir tæknifíkil eins og mig! Ég vildi óska að ég gæti eytt svona þremur dögum þarna en maður verður bara að vera þakklátur fyrir það sem maður fær. Þið heima fáið til dæmis ekkert að fara! Múhahahaha! Allavega, ætli það sé ekki best að leggja sig soldið áður en maður fer í þessa reisu í nótt. Ég set svo inn myndir sem ég tek á sýningunni ef þær verða skemmtilegar.
Maggi.

GIR

sunnudagur, mars 13, 2005

Flash

Það getur verið rosalega gaman að vinna í Flash þegar allt gengur upp. Það er jafn rosalega leiðinlegt þegar allt gengur á afturfótunum. En eins og í öllu þá verður maður bara að halda áfram og vona að allt gangi einhvernvegin upp áður en maður missir allt vit.
Maggi.

laugardagur, mars 12, 2005

Laundry day

Þvílíkur dugnaður! Haldiði ekki að ég hafi sett í fjórar vélar í dag. Þvo, þvo, þvo.
Maggi.

miðvikudagur, mars 09, 2005

It's picture-time! :D

Þá eru myndirnar mættar og ég ákvað að gera smá tilraun með framsetninguna á þeim og sjá hvernig það leggst í mannskapinn. Ég fékk smá Flash dót uppí hendurnar sem ég fiktaði svolítið í til að nota hérna á síðunni. Þannig að uppsetningin er svolítið öðruvísi en vanalega.

Þetta eru myndir af ýmsum hlutum. Fyrsti hlutinn byrjar á nokkrum myndum síðan ég fór til Køben þegar Torgeirz og Jobu Kretz voru í heimsókn, svo koma myndir af stóru myndunum sem við erum búin að setja uppá vegg inní stofu, myndir af grillinu mínu nýja (sem var að sjálfsögðu myndað í bak og fyrir), myndir frá Ågade og Munkegade og fleira. Vá, hvað sagði ég myndir oft í þessari setningu. Það tók svolítið langan tíma að setja þetta allt uppí Flash þannig að ég nenni varla að gera mikið af þessu, en hver veit.

Svo eru myndir úr Hip-Hop partýinu í tveimur hlutum. Fyrst þegar við vorum að taka okkur til og stelpurnar voru að búa til rappara úr mér, og svo þegar við vorum að koma okkur út og nokkrar myndir úr partýinu sjálfu. Nóg af myndum af mér í þessari syrpu aldrei þessu vant því ég var í svaka múnderingu í tilefni þemans sem var þetta kvöld. Myndirnar segja meira en mörg orð.

Fljótlega set ég svo myndir sem ég tók í dag þegar við heimsóttum Koldinghus sem er kastalinn hér í bænum. Við hlustuðum á fyrirlestra um húsið og um kynningarstarfsemina sem fer fram hjá þeim fyrir safnið sem er í kastalanum. Það var ágætt að prófa eitthvað nýtt, fara á fyrirlestra í kastala frekar en í glerhúsinu (skólanum okkar). Nóg að gera þessa dagana og gaman að vera til, ekki síst vegna þess að vorið er að koma í Danmörku! Snjórinn er að fara og flugur komnar á stjá. Vonandi verður vorið og sumarið gott því Danir hafa nú ekki verið heppnir með veðrið undanfarið ár.
Maggi.

föstudagur, mars 04, 2005

Einn, tveir og elda!

Gærdagurinn var heldur betur viðburðaríkur. Ég ætla að renna fljótt í gegnum það sem ég gerði: Vaknaði og fór í skólann sem kláraðist á hádegi, fór niðrí bæ með Rebekku og við borguðum reikninga, fór heim og eldaði Bixie-mad og spældi egg handa mér og Gústa, fór í sturtu og hjólaði niður í bæ þar sem ég fór í verkefnavinnu með strákunum og við undum algjörlega kvæði okkar í kross og ákváðum að gera allt annað en það sem upphaflega var talað um, þaut þaðan rétt fyrir sjö og fór með Munkegade-genginu og Ísaki á Jensens Bøfhus og fékk mér steik, fór svo með krökkunum yfir á Munkegade tar sem við sátum og spjölluðum restina af kvöldinu og svo hjólaði ég heim. Góður dagur.

Í dag eftir skóla fór ég svo með í þvottavéla-verslunarleiðangur. Engin þvottavél var keypt fyrir Munkegade en hins vegar fann ég svolítið yndislegt í búið fyrir Knud-Hansensvej. Ég keypti mér grill! Ég er búinn að röfla um að ég verði að fá mér samlokugrill síðan við fluttum út en aldrei látið verða af því. Svo sá ég þetta yndi í ElGiganten og bara varð að kaupa það! Þetta er eins og George-Forman grill á sterum (ekki sú tegund heldur Hitachi) og kostaði ekki nema 299 kr. danskar! Geri aðrir betur! Ég vígði þessa elsku áðan með því að grilla mér kjúklingaborgara og ég get sko lofað ykkur því að ég mun nota það mikið og eflaust löngu eftir að ég er fluttur frá Danmörku.

Í kvöld er innflutnings/afmælis/þema-partý hjá Camillu, Tiinu og Bodil, finnskum vinkonum okkar úr skólanum. Þær voru að flytja úr stúdíó-íbúðunum sínum og saman í eina stóra, og Tiina verður 21 árs á morgun. Þemað er Hip-Hop og ég ætla að vera skuggalega flottur! Segi ekkert meira um það hérna núna, en þið fáið að sjá myndir af því fljótlega! Svo á morgun er annað afmæli, en þá er það Heimir sem verður þrítugur og ætlar að halda uppá það með pompi og prakt á Republican sem er pöbb hér niðrí bæ. Þetta verður eflaust frábær helgi! :D
Maggi.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Oh Happy Day!!!

Oh happy day! Oh happy day! When Jesus washed... when Jesus washed... washed my bills away!!! Oh happy day! Ójá gott fólk, leikþátturinn Fátæki maðurinn í Danmörku er á enda. Persónur og leikendur: Magnús Sveinn Jónsson lék sjálfan sig og talsetti. Leikmunir: Kolding LejePlejeMaskine. Sérstakar þakkir: Allir í heiminum! WooHoo!!! Hallelúja!
(undirspil undir þessari færslu, Oh Happy Day í flutninigi Arethu Franklin, eða einhvers annars!)

Ég fékk góðar fréttir í dag. Lánsáætlunin mín er komin frá LÍN og ég er hreint ekki eins fátækur og ég hélt! Ég á töluvert meiri pening í afgang en ég bjóst við á hverjum mánuði, og get því lifað allt að því mannsæmandi lífi fram á vor. Ég held þó að ég hafi haft gott af því að halda að ég væri langt undir fátæktarmörkum í rúman mánuð. Með því lærði ég að spara peningana mína töluvert betur og auðvitað held ég því áfram. En í kvöld verður farið á Jensens Bøfhus til að fagna! Að vísu er ég að fara með Ísaki og stelpunum því Ísakinn verður nottla að prófa að fara á Jensens áður en hann fer heim. Jensens er algjör snilld! Æðislega gott og ódýrt steikhús sem er með staði um alla Danmörku. Næst þegar þú ferð til DK þá verðuru einfaldlega að prófa Jensens. Ég mæli sérstaklega með öllu á matseðlinum! Það er hreinlega allt jafn gott. Later!
Maggi.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Jónas Lalli og Eurofunk!!!

WooHoooo!!! Við fórum á Pub Quiz í gær á Knuds Garage og það var aldeilis frábært. Ég, Kolla og Birna mynduðum liðið Eurofunk og öttum kappi við liðið Who Did You Have to Fuck to Get This Number, sem var skipað af Elvu, Láru, Rósu, Snorra og Ísaki. Eina markmið okkar í Eurofunk var að vinna þau og var nokk sama um hin liðin þrettán. Svo þegar við vorum búin að svara spurningunum af mikilli natni og Quiz-masterinn fór að lesa upp hvaða lið voru neðst og efst, þá fór það svo að liðin okkar voru saman í efsta sæti með 26 stig!! (af 32 spurningum.) Það er alltaf ein tie-brake spurning og sú spurning var "Hvað eru margir hundar í París?". Við svöruðum 700.000 hundar alveg útí loftið og Who Did You Have to Fuck to Get This Number sögðu 732.526 hundar. Ekkert samráð var á milli okkar og því algjör tilviljun að tölurnar hafi verið svona svipaðar.

Spennan var í algleymi þegar Jerry Quiz-master var í þann mund að tilkynna hver rétta talan hefði verið! Ég er ekki frá því að hárin á nokkrum þarna inni hafi tekið að rísa því loftið var svo rafmagnað! Rétta svarið var svo 300.000, þannig að Eurofunk var nær því og við unnum!!! Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út (hjá okkur þremur) og rosalegt svekkelsi hreiðraði um sig hjá hinu liðinu við borðið. Við vorum bara þrjú í Eurofunk en unnum okkur samt inn fjóra bjóra með því að vinna keppnina og runnu þeir ljúflega niður. Þau voru svo fúl í hinu liðinu að þau fóru að reyna að kasta pappírsboltum ofan í glösin okkar og í hausinn á okkur en ekkert gekk að bæla niður sæluvímuna sem við vorum í eftir að hafa unnið. Ég held meira að segja að það hafi verið enn meiri ánægja hjá okkur með að vinna þau heldur en að vinna Quizið sjálft.

Svo færðum við okkur fljótlega yfir götuna á Munkegade 6, þar sem beið mín enn önnur skemmtileg og óvænt uppákoma. Ég fékk pakka!! Nei ég átti ekki afmæli og það voru ekki jólin, en samt fékk ég pakka frá Elvu, Láru og Ísaki! Ég var að sjálfsögðu í sjöunda himni þegar ég tók utan af pakkanum, og í ljós kom þessi líka æðislega leikfangaskjaldbaka! Með langar lappir sem hægt er að beygja að vild og setja í ýmsar stellingar. Upphófst mikil leit að nafni og að lokum ákvað ég að skýra hana í höfuðið á stelpunum. Þannig að skjaldbakan heitir Jónas Lárus Magnússon, kölluð Jónas Lalli. Stundum einnig nefnd Jonni Kjuði. Frábær endir á vel heppnuðu kvöldi.

Í skólafréttum er það helst að við tókum smá könnun í gær og fengum úr henni í dag. Ég svaraði 23 spurningum rétt af 24 og var efstur í árganginum. Gaman að þessu. :) Svo erum við byrjuð í nýju hópverkefni og ég er í nýjum hópi með Starra, Hauki og Rúnari nágranna. Við erum með góðar hugmyndir og þetta verður eflaust skemmtilegt. Over and out.
Maggi.