laugardagur, mars 19, 2005

Skyndilega Saybia

Ég fór á tónleika í gær. Ég var heima í tölvunni og allt í einu stóð ég fyrir framan svið og dillaði mér við tónlist Saybia. Eða næstum því. Fyrirvarinn í það minnsta var ákaflega lítill. Ég var búinn að gleyma þessum tónleikum en langaði samt á þá. Ég var að spá í að fara að leggja mig en þá minntust stelpurnar á tónleikana og við ákváðum að fara og ég hoppaði í sturtu og beint útí strætó og beint á tónleikana! Þetta voru fínustu tónleikar, bæði upphitunarhljómsveitin og Saybia sjálfir.

Í kvöld eru svo tónleikar með Emilíönu Torrini í Köben en ég asnaðist til að bíða með að versla mér miða og núna er uppselt! Alveg týpískt. Þannig að ég er líklegast ekki á leiðinni til Köben. Ég var nefnilega á leiðinni þangað til að hitta Gulla og Pálu en það er möguleiki að þau geti kíkt í heimsókn eftir helgina, og því ætla ég að spara mér peninginn í lestina og vera bara heima. Nema ég ákveði allt í einu að fara núna á eftir. Ég er nefnilega ákaflega lélegur í að taka ákvarðanir og bíð alltaf með það fram á síðustu stundu eða jafnvel lengur og hef þá aðeins einn valmöguleika eftir. Það er auðveld leið til að ákveða eitthvað en gallinn er sá að maður verður næstum aldrei ánægður með útkomuna því maður fékk ekki að ráða henni. Svona getur maður verið skrítinn.
Maggi.
blog comments powered by Disqus