þriðjudagur, mars 22, 2005

Skyndilega Køben

Datt mér ekki í hug! Ég var svo gott sem búinn að ákveða að fara ekki til Køben (sem þýðir að ég var enn að hugsa um það því ég get ekki tekið ákvarðanir) en þá frétti ég að það voru fleiri að hugsa um að skella sér í höfuðborgina og þá fór ég meira að segja að reyna að sannfæra fólk um að fara með! Þannig að það endaði þannig að ég, Elva, Lára, Kolla og Sara (frænka Kollu) fórum til Køben með lestinni á laugardagskvöldið. Og ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun því það er búið að vera virkilega gaman! Ég hitti Gulla og Pálu nokkrum sinnum og það var alveg frábært, og hvatti ég þau auðvitað eindregið til að flytja út til Baunalands í haust. Vonandi sáu þau hvað er gott að búa hér í þessari heimsókn og drífa sig í að skipuleggja flutninga! ;)

Svo rölti ég um bæinn með stelpunum og sá fullt af dóti sem ég hef aldrei séð áður því ég hef í raun aldrei verið túristi í Køben. Við löbbuðum höfnina þvera og endilanga og ég sá litlu hafmeyjuna í fyrsta sinn. Fólk var búið að tala um að hún væri mun minni en maður byggist við þannig að ég bjóst við að hún væri svipað stór og fimm sentímetra háa eftirlíkingin sem amma og afi eiga, en hún var bara í svipuðum hlutföllum og venjuleg manneskja! Já, eða venjuleg manneskja með sporð. Þannig að hún var stærri en ég bjóst við.

Ég tók nóg af myndum (þegar þetta er skrifað er ég kominn uppí 250 myndir) og margar þeirra eru mjög skemmtilegar þannig að ég verð nú að setja eitthvað af þeim á netið. Ég var víst búinn að lofa að setja inn myndir frá CeBIT og ég mun standa við það en þær verða nú ekki svo margar því það var svo mikið af því sama. En ég er enn í Køben og því gerist þetta ekki fyrr en á morgun. Ég er í páskafríi! Fullt af fólki í fríi útum allar trissur en samt eitthvað af fólki í bænum þannig að vonandi getur maður fundið sér eitthvað skemmtilegt til að gera.

Ég fékk skrítið komment um helgina. Stelpurnar sögðu mér að vinur þeirra sem ég hitti í stutta stund um helgina og sem les bloggið mitt stundum hélt að ég væri meiri töffari en ég er! Ég er búinn að vera að spá í hvort ég eigi að taka þessu sem hrósi eða ekki því ég er ekkert að reyna að vera töffari, hvorki hér né í lífinu sjálfu. En ég get sagt ykkur sem lesið þetta en þekkið mig ekki að ég er ekki töffari! Spyrjið bara einhvern sem þekkir mig. :) Skrítið samt að maður geti siglt undir fölsku flaggi án þess að vita af því. Er eftirsóknarvert að vera töffari?
Maggi.
blog comments powered by Disqus