Langt síðan ég hef upplifað aðra eins rigningu. Það er búið að rigna í allan dag, og þessu ætlar ekkert að linna. En það er allt í lagi, regndropahljóðið er bara róandi, og ég þarf ekkert að fara út í kvöld. Það rigndi líka á okkur í Berlín um helgina þegar við vorum í búðarápi.
Já, skyndiákvarðanir eru oftast bestu ákvarðanirnar. Fyrir síðustu helgi fékk Elva Sara þá hugdettu að við myndum öll kíkja til Berlínar þar sem við gætum gist hjá bróður hennar og gert eitthvað sniðugt seinni helgina okkar í vetrarfríinu. Við pöntuðum bílaleigubíl á fimmtudagskvöldinu og vorum lögð af stað út úr Kolding um hádegi á föstudeginum.
Með í för voru ég, Biggi (sem var í heimsókn í fríinu), Jói, Kristjana og svo auðvitað Elva Sara og Lára Ósk. Strax á föstudagskvöldinu hitti svo Halli okkur, sem er vinur Jóa og Kristjönu frá Horsens. Við höfðum stoppað í landamærabúðunum og keypt okkur bjór, og auðvitað fengum við okkur bjór og kíktum á næturlífið í Berlín. Fyrra kvöldið fórum við á riisastóran skemmtistað sem heitir Matrix. Hann er eiginilega fjórir skemmtistaðir í einum, því það eru fjögur dansgólf, öll með mismunandi tónlist, og of margir barir til að telja þá. Staðurinn var fullur af fólki og mikil stemmning, og við skemmtum okkur mjög vel við að dansa útum allt, meðal annars inní búri fyrir ofan eitt dansgólfið sem var mjög áhugavert. :)
Á laugardeginum röltum við svo um verslunargötur og ég kíkti í heimsókn í H&M þar sem ég gerði góð kaup eins og hefðin er þegar ég kíki til Þýskalands. Ótrúlegt hvað það er hægt að finna fín föt á lágu verði. Um að gera að nýta tækifærið segi ég bara og lífga uppá fataskápinn. Um kvöldið kíktum við svo á stað sem við höfðum heyrt að hafi verið rosaleg stemmning á kvöldið áður. Það var töluvert minni stemmning þetta kvöldið, staðurinn hálftómur, en það var allt í lagi. Þarna var ágætis tónlist og ódýrt á barnum. :þ
Á sunnudeginum röltum við svo um hverfið með Ívari bróður hennar Elvu Söru og sáum stórmerkilega pönkarabyggð. Einhverjir pönkarar sem eru búnir að gera sér heimili í einum garðinum í Berlín og sanka að sér allskonar rusli og drasli. Þetta var svo ljótt að það var eiginlega orðið flott aftur.
Svo drifum við okkur af stað og skutluðum krökkunum til Horsens og brunuðum svo aftur til Kolding. Það tekur um fimm tíma að keyra frá Kolding til Berlínar. Elva keyrði báðar leiðir og stóð sig eins og hetja. Biggi fór svo aftur til Íslands í gærmorgun (mánudag) eftir vel heppnaða heimsókn til Danaveldis.
Það hættir ekki gestagangurinn, því á fimmtudaginn koma Ósk og Arndís í heimsókn til Kolding og ætla að vera alla helgina. Mamma og Ægir ætla líka að kíkja í heimsókn á laugardaginn því þau verða í Köben í vikunni með kennurunum úr FS. Á laugardagskvöldið er svo Halloween partýið á Munkegade, og helgina eftir það er ferðin okkar til Svíþjóðar á SigurRósar-tónleikana! Það má segja að það sé nóg að gera! Fyrir utan þetta allt vorum við að fá stórt verkefni í skólanum, þannig að það á aldeilis að taka þetta með trukki eftir erilsamt frí.
Jæja, núna myndi ég segja að ég væri búinn að bæta upp fyrir heldur stuttar færslur síðustu tvo daga. Ég ætla ekki að tapa þessari blogg keppni! Kíkið endilga á bloggið hans
Jóa og gáið hvort hann hafi nokkuð gleymt að setja inn færslu í dag. :)
Maggi.