mánudagur, október 25, 2010

Í þínum eigin heimi

Heilinn okkar vinnur merkilega vinnu. Hann heldur utan um það sem við skynjum með öllum okkar mögnuðu skilningarvitum, hann geymir minningar okkar, hann stjórnar líkama okkar, hann geymir persónuleika okkar. Hann er okkur allt.

Mér finnst áhugavert að velta því fyrir mér að ég upplifi heiminn á minn hátt og mun alltaf gera það. Enginn mun nokkurntíman sjá eins og ég sé, hugsa eins og ég hugsa, vera eins og ég er. Á sama hátt mun ég aldrei upplifa heiminn sem nokkur annar. Ég mun aldrei nokkurntíman vita hvernig þér líður. Ég mun aldrei skynja neitt með öðrum skilningarvitum nema mínum eigin.

Heimurinn eins og hann leggur sig, er inní hausnum á mér. Heilinn minn er eina tenging mín við umheiminn. Fyrir mér er það sem ég sé/upplifi/hugsa o.s.frv. það eina sem er til og mun nokkurtíman vera til. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta nema kannski með hástöfum, það er EKKERT í heiminum nema mín hugsun.

Við fæðumst ein og við deyjum ein. Ætli það sé þetta sem er átt við þegar fólk segir það? Þetta eru kannski frekar einmannalegar pælingar hjá mér. Máski spruttu þær útfrá því að ég hef verið meira einn undanfarið en ég hef áður vanist. Ég er félagsvera og elska að vera innan um fólk, og nú bý ég einn í fyrsta sinn í lífi mínu. Ég er ekki einmanna og ég nýt þess að vera til, en maður fer að hugsa um allskonar undarlega hluti ef maður hefur ekki annað fólk nálægt sér.

***

Önnur stutt pæling í lokin. Ég hef verið að spila póker á netinu og stundum koma upp svekkjandi aðstæður. Ég hef vanið mig á að hugsa að ég stjórna því ekki hvað hinir gera og ég stjórna því ekki hvaða spil koma upp. Það þýðir því ekkert að svekkja sig á þeim hlutum leiksins. Það eina sem ég stjórna er það sem ég geri sjálfur og auðvitað geri ég mitt besta og reyni svo að læra af mistökum mínum.

Þú sérð kannski hvert ég er að fara með þetta. Þetta á ekki bara við um póker á netinu, heldur á þetta við um allt. Maður stjórnar því sem maður gerir (ef þá það, ekki samkvæmt "Ástæðum alls" sem ég skrifaði hér um árið en það er önnur saga) og því þýðir ekki að svekkja sig á utanaðkomandi aðstæðum. Auðvitað hefur maður áhrif á umhverfi sitt upp að vissu marki, en það er svo margt sem við einfaldlega ráðum ekkert um. Við þurfum bara að taka því sem kemur. Þetta er svipað og ég minntist á í færslunni um daginn, ömurlegur dagur. Við stjórnum ekki veðrinu og það ætti ekki að stjórna okkur. Við ættum ekki að láta allt það neikvæða sem gerist stjórna okkur á neinn hátt. Við eigum bara að taka hlutunum eins og þeir eru, lifa í núinu og hugsa ekki of mikið.

Ef þig langar að losna við hugsanirnar þínar í smá stund, lokaðu augunum og hugsaðu: Hver ætli næsta hugsun mín verði? Reyndu svo að hugsa um það (s.s. um ekkert) eins lengi og þú getur. :)

Maggi.

mánudagur, október 04, 2010

Nú er kominn tími til að hafa áhyggjur!

Ég sá þessa setningu á mbl.is fyrir nokkrum misserum og hún stakk í augun. Frekar saklaus lína í sjálfu sér, en ef maður hugsar um hana í smá stund þá sér maður að hún á aldrei við. Ég hef séð svipaðar fullyrðingar reglulega síðan, nú síðast í þessari frétt á visir.is. Þar segir Guðbjartur Hannesson ráðherrra velferðarmála meðal annars: „Ég hef áhyggjur af því fólki sem er í rauninni að standa í skilum, standa við allar sínar skuldbindingar en hefur afar takmarkaða peninga til framfærslu. Það þarf líka að hafa áhyggjur af þeim hópi ekki síður en mörgum öðrum."

Síðan hvenær er það einhver lausn að hafa áhyggjur af hlutunum? Áhyggjur eru í raun aldrei af hinu góða. Jú, áhyggur geta kannski ýtt fólki útí að gera eitthvað sem er nauðsynlegt, en er ekki betra að gera hlutina á góðum forsendum en slæmum? Maður getur stundum ekki gert neitt að því, maður hefur áhyggjur af ýmsum hlutum, það er frekar algeng tilfinning. Það ætti samt aldrei að vera val manns. Maður á ekki vijandi að hafa áhyggjur af neinu, maður á bara að gera eitthvað í hlutunum.

Engar áhyggjur!

Maggi.

miðvikudagur, september 29, 2010

Tilgangur lífsins

Pælingar, pælingar. Ég gæti eflaust aldrei gefið út bók því Páll Skúlason er nú þegar búinn að gefa út bók sem heitir Pælingar og því er það nafn frátekið. Þótt það endi kannski aldrei í bók, í mesta lagi sem setningar ritaðar á þetta blogg, þá geri ég mikið af því að velta hlutunum fyrir mér, pæla, hugsa, spá og spögulera. Ég er ekkert að ýja að því að ég sé eitthvað sérstakur með það, langt í frá. Ég býst fastlega við því að allir pæli, bara mis mikið.

Þessi færsla ætti kannski frekar að heita tilgangur mannkyns. Ég hef pælt svolítið í því undanfarið af hverju við séum á þessari jörð. Nei annars, ég get ekki orðað það þannig. Ég hef pælt í því af hverju fólk pælir í því af hverju við séum á þessari jörð.

Nú er það talin nokkuð almenn vitneskja að heimurinn "varð til" við miklahvell, sama hvort hann hafi verið til fyrir það eða ekki, fyrir ansi löngu síðan. Eftir dúk og disk varð til líf á þessum hnetti sem við búum á. Það líf þróaðist í mannskepnuna sem hófst handa við að pæla, pæla í því af hverju í ósköpunum við værum hér.

Auðvitað eru þeir til, líklegast flestir mjög trúaðir, sem trúa öðrum kenningum um upphaf heimsins, jarðarinnar og mannkyns. Allt í góðu með það. Svo lengi sem þeir skaða engan (sem er því miður ekki alltaf raunin) þá mega þeir trúa því sem þeir vilja.

En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Svona fyrir okkur hin sem trúum ekki á Biblíuna eða Kóraninn. Hver er tilgangurinn með manninum og dýrunum, jörðinni, sólkerfinu, alheiminum? Mér finnst sú spurning skemmtileg og það er gaman að velta sér uppúr henni, en ég held að þeir sem komast að einhverri niðurstöðu séu strax komnir á villigötur. Af hverju þarf að vera tilgangur? Það að það sé tilgangur þýðir fyrir mér að það sé eitthvað æðra en við. Eitthvað sem veit betur, eitthvað sem "skapaði" okkur, hvort sem það var kall í skýjunum eða einhverskonar "intelligent design" eins og einhver sagði. En ekkert er æðra okkur, og ekkert er óæðra. Hlutirnir bara eru. Heimurinn varð til, við urðum til. Á sama hátt munum við hætta að verða til og heimurinn mun hætta að verða til. Það er hvorki gott né slæmt, þannig er það bara.

Ef allt mannkyn myndi deyja í dag, væri það slæmt? Segjum að öll dýr og plöntur, allt líf á jörðinni myndi deyja á sama tíma. Game over. Þýðir það að eitthvað hafi misheppnast? Að eitthvað hafi farið úrskeiðis og að við hefðum átt að geta betur? Nei, við erum ekki í tölvuleik. Það er ekkert lokaborð. Það er enginn endakall. Það er enginn sigurvegari, og enginn sem tapar. Það er líka allt í lagi. Af hverju þurfum við tilgang?

Sumir segja að tilgangurinn sé ást, nú eða hamingja. Mér finnst það göfug markmið og ég held að mannkynið eigi algjörlega að lifa eftir þeim. Það er ekki það sem ég á við hinsvegar. Tilgangurinn er ekki ást, tilgangurinn er ekki hamingja. Tilgangurinn er ekki að lifa að eilífu eða að láta mannkynið aldrei deyja út. Douglas Adams sagði að tilgangur lífsins væri 42 og tilgangur jarðarinnar væri að finna út raunverulegu spurninguna um tilganginn. Það er jafn gáfulegt svar og hvað annað. :)

Þetta á alls ekki að vera leiðinleg eða þunglynd færsla. Hún breytir í sjálfu sér ekki miklu fyrir mig eða aðra. Ég er ekki sá fyrsti sem kemst á þessa skoðun og ég verð ekki sá síðasti og ég er alls ekki að taka sjálfan mig mjög alvarlega. Ég og allir hinir munum vakna og fara framúr á morgun alveg eins og alla daga og lifa lífinu.

Hverju breytir þetta þá fyrir mér? Mér finnst þægileg tilhugsun að það er óþarfi að taka hlutina of alvarlega, eða taka sjálfan mig of alvarlega. Það er enginn sigurvegari og allir eru jafnir. Enginn er æðri en þú, og það sem er kannski mikilvægara, enginn óæðri. Allt tekur enda. Þar til það gerist, láttu þér líða vel og komdu vel fram við alla í kringum þig. :)

Maggi.

mánudagur, september 20, 2010

Ömurlegur dagur?

Í dag í Kaupmannahöfn er allt frekar grámyglulegt. Það er rigning, frekar kalt, og augljóst að haustið er alveg að koma og fáir eða engir sólardagar eftir í þessu sumri. Flestir kannast eflaust við að hugsa í svona aðstæðum, "Oj hvað þetta er ömurlegur dagur."

En það er ekki rétt! Eina sem er ömurlegt er manns eigin hugsun, það er ekkert ömurlegt við daginn. Maður ræður því algjörlega hvernig maður upplifir hlutina og það er ekki hægt að skella skuldinni á þennan dag. Hann er bara eins og hann er. :)

fimmtudagur, september 16, 2010

Eyrnakonfekt

Ég elska tónlist. Ég hlusta á tónlist næstum allan daginn og er duglegur að sanka að mér nýjum plötum. Ef ég heyri lag í sjónvarpsþætti, sé tónlistarmyndband sem einhver setur á Facebook, eða heyri fólk tala um hljómsveit sem það hefur gaman að þá er ég oftast snöggur að kynna mér viðkomandi tónlist. Sæki diska, les um uppruna sveitarinnar á Wikipedia og skoða tónlistarmyndbönd. Þegar ég er kominn með leið á öllu eða langar í eitthvað ferskt þá fer ég stundum á metacritic.com og sæki tónlistina sem fær bestu dómana. Meira að segja þó það sé eitthvað sem ég myndi vanalega ekki hlusta á. Stundum er það eitthvað sem er alls ekki fyrir mig en þá er enginn skaði skeður. Ég hef meira að segja tekið uppá því nokkrum sinnum undanfarið að hlusta á Hip-Hop playlista á YouTube sem ég hef haft mjög gaman að þó ég sé ekki mikil hipphoppari í eðli mínu.

Ég get ekki sagt að ég sé alæta á tónlist (eins og er svo algengt að heyra frá fólki hvort sem það meinar það eða ekki) en það er ansi margt sem ég get hlustað á. Hljómsveitirnar sem ég hlusta mest á í augnablikinu eru Arcade Fire, Fanfarlo, Edward Sharpe & The Magnetic Zeros og Beirut svo einhverjir séu nefndir. Í vor og sumar hlustaði ég mjög mikið á Bon Iver, The Temper Trap, Gorillaz, The xx og Miike Snow. Þetta er fljótt að breytast og ég verð eflaust kominn með eitthvað nýtt á fóninn þegar líður á haustið. Ég set auðvitað líka oft eldri tónlistina á fóninn, en það er svo gaman að hafa tilbreytingu í þessu og prófa eitthvað nýtt.

***

Saint Augustine of Hippo skrifaði; Dilige, et quod vis fac. Það þýðir á ensku; Love, and do what you will. Mér finnst það fallegt og mikil speki. Fyrir mér þýðir það að maður eigi að gera hvað það sem gerir mann hamingjusaman svo lengi sem maður gerir það af ást. Með öðrum orðum; þú átt að gera það sem þig langar til svo lengi sem það kemur ekki niður á hamingju annara.

***

Mig langar ekki að þetta blogg lognist alveg útaf. Ég hef skrifað hér síðan 2002 og mér þætti synd að hætta því. Ekki bara til að halda í einhverja gamla hefð heldur hef ég gaman að því að skrifa og gaman að því að lesa það seinna meir. Ég hef reyndar dottið í þá grifju eins og svo margir bloggarar að eyða of miklu púðri í upptalningu á öllu sem maður tekur sér fyrir hendur. Mig langar að minnka það töluvert, enda er allt mitt fólk á Facebook sem gæti langað að fylgjast með mér. Það er miklu skemmtilegra að blogga um vangaveltur um hitt og þetta, ákveðin efni (eins og tónlist t.d.) eða ákveðna atburði sem gaman er að segja frá.

Svo ég geri nú samt upp sumarið sem var gersamlega bloggsnautt þá skemmti ég mér konunglega. Fór fyrst á Hróarskeldu sem var hreint út sagt æðisleg, flutti inní nýja íbúð á kollegíinu, fór beint til Íslands á ættarmót á Ísafirði, hélt afmælisbústað, fór í eins árs afmæli, fór í þrefalt afmæli á bát, fór á fáránlega skemmtilega Þjóðhátíð í Eyjum, heimsótti pabba á Akureyri, fór í innflutningspartý, fór í tveggja ára afmæli, fór á bjórþróttamót, fór í brúðkaup, átti besta bæjardjamm í manna minnum, púttaði með afa, spilaði Wii með Bigga, spilaði fótbolta með strákunum, heimsótti systur mínar, knúsaði allar litlu frænkurnar og frændana, kynntist nýju frábæru fólki, bjó til besta bragðarefs-kombó sem um getur og svo miklu miklu fleira. Haustið hefur líka byrjað með trompi með Hot Chip tónleikum, öðru brúðkaupi (þar sem ég mætti í vitlausa kirkju ásamt fleirum), Klakamóti í Svíþjóð og fleiru. Nú þarf ég bara að komast á skrið í að skrifa Mastersritgerðina mína og klára skólann með stæl.

Bless kex!
Maggi.

þriðjudagur, maí 11, 2010

Hvað gerðist?

Það væri kannski fyrsta setningin hjá mér ef ég myndi vakna úr dái. Bloggið mitt hefur verið í dái í einhverja mánuði, og að sumu leyti ég líka. Það er kannski kominn tími til að vakna!

Ég lenti inná eldgömlum færslum á þessu bloggi áðan. Fyndið að lesa um það sem maður var að hugsa fyrir sex sjö árum síðan. Skrítið að segja frá því, en ég saknaði mín svolítið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi, var nýhættur í H-skólanum og vissi ekkert í minn haus. Eitthvað var ferðabakterían farin að segja til sín og ég var á leiðinni á mína fyrstu Hróarskeldu. Ég var yngri, vitlausari, óheflaðri og hressari! Ég held ég hafi yfir höfuð verið mjög hress á þessum tíma. Ég er ekki að segja að ég sé dauður úr öllum æðum núna, en það er líklega óumflýjanlegt að maður róist aðeins með árunum. Nú hljóma ég eins og ég sé helmingi eldri en ég er, en ég býst við að margir hafi einhverntíman hugsað eitthvað svipað. :)

Maður er þó ekki orðinn of gamall fyrir Hróarskeldu! Ég á reyndar enn eftir að kaupa mér miða en það stefnir allt í að ég sé að fara á mína sjöundu hátíð. Ég fór samfleytt frá 2003 til 2008. Svo tók ég mér eitt ár í pásu og ætla að mæta aftur og endurnýja kynnin við þessa æðislegu upplifun. Eftir fyrstu hátíðina mína sagði ég hverjum sem vildi heyra að ég ætlaði að fara tíu ár í röð. Aldrei bjóst ég þó við því að ég myndi komast svona nálægt því!

Það skal engan að undra en ég er farinn að gæla við tilhugsunina um að fá mér iPad. Ég er ekki að ljúga því að sjálfum mér að ég þurfi að eignast slíkt tæki, en það breytir því ekki að mig langar í það! Ég held að ástæðan sé 50% tækjafíkn og 50% forvitni. Ég er nefnilega mjög forvitinn hvort ég myndi falla í hinn stóra hóp fólks sem segir að iPad sé búinn að taka yfir 90% þeirra verka sem fólk notar tölvuna sína í. En eins og ég segi, ég hef enga þörf fyrir þetta, mann langar bara alltaf í nýtt dót.

Ég fékk mér reyndar nýtt Apple dót um daginn! Ég keypti mér Magic Mouse í fríhöfninni á Íslandi. Þetta er fínasta mús og ég er bara nokkuð sáttur með hana. Ég hikaði lengi vel við að kaupa svona, en það virðist bara enginn annar músaframleiðandi skilja að það er hægt að gera Bluetooth mús sem er stærri en eldspýtustokkur. Það er mjög gaman að skrolla (kann ekki að segja það á góðri íslensku) með nýju músinni, það virkar svipað og í iPhone (og iPad). Skrollið nær ákveðinni ferð og stoppar rólega eins og eitthvað sem rúllar og hægir svo á sér. Mér finnst að þetta ætti að vera möguleiki í öllum músum og snertiflötum (e. trackpads). Kannski taka fleiri þetta upp. Jæja venjulegt fólk fer að fara á fætur þannig að kannski ætti ég að fara að sofa! :)

..:: maggiPad ::..

laugardagur, febrúar 27, 2010

Kristjánshöfn

Bike
Þá er austurríska ævintýrinu lokið. Síðustu dagarnir okkar áður en við fórum aftur til Danmerkur voru heldur betur viðburðaríkir. Við fórum á handboltaleik, fórum á skíði og héldum partý eins og ég minntist á í síðustu færslu. Ég fékk skíðabakteríu eftir að við fórum á skíði og við ákváðum að nýta tækifærið fyrst skíða-útsölurnar voru byrjaðar og kaupa handa mér skíði! Þannig að við skelltum okkur til Linz og ég fékk mér svaka flottar græjur á hálfvirði, og ég hlakka ótrúlega mikið til að fara til Akureyrar um páskana og prófa þær. Við nýttum ferðina til Linz vel því við skelltum okkur líka á Ars Electronica safnið með Hannesi og það var virkilega skemmtilegt. Með skemmtilegri söfnum sem ég hef komið á.

Eftir þessa viðburðaríku viku tók við helgi sem var undirlögð verkefnavinnu. Við þurftum að klára stóra verkefnið okkar og áttum ansi mikið eftir. Einu pásurnar sem við tókum voru til að horfa á undanúrslitaleikinn við Frakkland í EM, og úr því að við töpuðum honum þá lentum við á móti Póllandi í leiknum um þriðja sætið. Það var lán í óláni hjá okkur því Rafa l vinur okkar er frá Póllandi og okkur langaði mikið að horfa á Ísland - Pólland einu sinni í keppninni. Við horfðum á leikinn hjá Rafal og það var mjög gaman, sérstaklega af því að við unnum! :)

Okkur tókst að klára verkefnið okkar og eftir helgina sýndum við kennaranum okkar það. Við fórum líka á tvær aðrar kynningar á verkefnum og þær tókust bara vel. Við tókum semsagt engin próf heldur áttum bara að skila verkefnum í öllum áföngunum. Svo voru öll verkefnin sýnd á sérstökum kynningum og við fengum spurningar frá kennurunum og nemendum um vinnslu verkefnisins. Við misstum þó af þremur kynningum því við þurftum að koma okkur aftur til Danmerkur og byrja á næstu önn. Við þurftum að kveðja alla nýju vini okkar sem var frekar sorglegt, en vonandi munum við hitta þau flest aftur. Við vitum í það minnsta að bestu vinir okkar úr Hagenberg munu koma til Danmerkur eða Íslands einhvern daginn, en suma mun maður aldrei hitta aftur.

Áður en við flugum frá Austurríki stoppuðum við tvo daga í Vín hjá Mandý og fjölskyldu. Það var gaman að fá að hitta þau einu sinni í viðbót, við áttum heldur betur margar góðar stundir með þeim í Vín og Nóru og fjölskyldu í Passau á önninni. Á föstudeginum 5. febrúar flugum við svo til Danmerkur. Við vorum með hvorki meira né minna en níu töskur og eitt par af skíðum! Það var frekar skrautlegt að taka lestina uppá flugvöll, við tvö að drösla tíu hlutum með okkur. Við vorum þó búin að borga fyrir töskurnar fyrirfram þannig að við þurftum enga auka yfirvikt að borga. Reyndar stálumst við með allt of mikinn handfarangur, en það slapp einhvernvegin fyrir horn. :)

Það er voða gott að vera komin aftur í íbúðina okkar. Við þurftum að flytja allt dótið okkar aftur heim, því það var í geymslu hjá Jóa og Rakel, og það tók nokkra daga að koma okkur fyrir aftur. Fyrstu dagarnir, og því miður vikurnar, fóru í að skrifa skýrslur um önnina okkar fyrir skólann hér í Köben. Við þurftum að gera eina skýrslu um verkefnin sem við unnum og aðra um aðstæðurnar í Hagenberg.

Um miðjan mánuðinn héldum við svo partý sem var hálfgert afmælispartý fyrir Birnu sem átti afmæli fyrr í mánuðinum. Við buðum íslensku vinum okkar og vinum okkar úr Medialogy líka. Það var mjög vel heppnað og eiginlega ótrúlegt að engir nágrannar hafi kvartað! :)

Ég er búinn að kaupa mér mánaðarkort í líkamsrækt, og sú líkamsrækt snýst ekki um að lyfta lóðum eða hlaupa á hlaupabretti. Ég get valið milli þess að fara í Kickboxing, Jiu Jitsu, Rosstraining, Kettlebells eða Mixed Martial Arts. Ég er búinn að prófa nokkra mismunandi tíma og þetta er hörku fjör, sérstaklega þar sem ég fer þarna með Jóa og Andrési sem drógu mig með í þetta. Ég er allur marinn og blár og rispaður, en það er bara partur af programmet. Vonandi kemst maður í ágætis form við þessi læti.

Það eina sem við eigum að vera að hugsa um núna er að koma mastersverkefninu okkar á skrið, en það hefur gengið mjög hægt svona til að byrja með. Það er bara allt of gaman að búa í Köben! Þetta reddast samt allt vonandi einhvernvegin, það gerir það vanalega. :)

Myndin efst í póstinum er tekin hér á Christianshavn á miðnætti fyrir viku síðan. Það var mjög fallegt og stillt veður og ég ákvað að fara út með þrífótinn og myndavélina og taka nokkrar myndir. Útkoman er á flickr.

Maggi.

fimmtudagur, janúar 28, 2010

Hálfleikur

Ísland er að vinna Noreg með tveimur mörkum þegar þetta er skrifað. Vonandi vinnum við þennan leik og komumst í undanúrslit! Það væri geggjað. Við Ósk fórum á leik um daginn, sáum Ísland - Austurríki hér í Linz. Það var virkilega gaman þrátt fyrir að hafa misst unnin leik úr höndunum á okkur á síðustu mínútunni. Það var samt gaman að sjá austurrísku áhorfendurna tryllast þegar boltinn lak í markið í lokin, þakið ætlaði að rifna af!

Þetta er ekki það eina sem við erum búin að gera undanfarið, við erum búin að vera ótrúlega iðin, bæði í skólanum og utan hans. Við fórum á skíði á eitt af flottustu skíðasvæðum Austurríkis. Vá hvað það var flott. Endalaust margar brekkur, kringum 40 lyftur, aldrei biðraðir, góður snjór og við fengum mjög gott veður. Það besta var þó eiginlega útsýnið, því hvert sem maður leit sá maður ótrúlega falleg fjöll og snævi þakta skóga. Þetta var ævintýri líkast. Því miður gátum við bara verið þarna einn dag. Ég væri mikið til í að fara í skíðaferðalag hingað einhverntíman seinna, og hitta þá austurrísku vini okkar í leiðinni.

Sama dag og við fórum á skíði var haldið Bad Taste partý í skólanum. Þemað þýddi að allir áttu að klæða sig eins asnalega og mögulegt var. Við Ósk höfðum keypt okkur föt sérstaklega fyrir partýið. Við eyddum þó ekki miklum pening því þetta voru ljótustu fötin sem við fundum á útsölu í H&M. Það var mjög gaman í partýinu þrátt fyrir að við höfum verið virkilega þreytt eftir skíða-ævintýri dagsins.

Við héldum líka partý, það fyrsta og síðasta sem við höldum hér í Hagenberg. Það var fyrir skiptinemana vini okkar og það var mjög vel heppnað. Við spiluðum og drukkum og spjölluðum og skemmtum okkur mjög vel. Þetta er mjög skemmtilegt fólk frá hinum ýmsu löndum hér í Evrópu. Vonandi eigum við eftir að hitta einhver þeirra aftur.

Það er margt annað búið að gerast en leikurinn er að byrja aftur og ég klára að segja frá síðar! ÁFRAM ÍSLAND! :D

Maggi.

þriðjudagur, janúar 12, 2010

Þotuliðið

Í dag eru 24 dagar þar til við förum aftur til Danmerkur. Við eigum s.s. flug frá Vín til Köben þann 5. febrúar! Reyndar byrjar önnin okkar 1. febrúar í Danmörku en tæknilega séð er önnin okkar hérna ekki búin fyrr en 11. febrúar eða jafnvel seinna, þannig að við þurftum að gera smá málamiðlun. Missa smá af hvorri önn. Við þurfum ekki að taka nein próf hér úti þannig að það skiptir ekki öllu máli. Við tökum próf þegar við komum aftur til Danmerkur.

Fyrst maður er að nefna dagsetningar á fullu þá er hægt að minnast á að við erum líka búin að bóka flug til Íslands! Þann 23. mars förum við til Íslands og verðum í þrjár vikur! Við ætlum að nýta tímann og vinna að verkefninu okkar, sem er mjög gott að gera á Íslandi (ef maður er að vinna í samvinnu við íslenskt fyrirtæki) og það spillir ekki fyrir að páskarnir eru akkúrat á þessum tíma! Slá fullt af flugum í einu höggi.

Það gengur vel hjá okkur Jóa, við erum enn að pósta einni mynd á dag á Tumblr síðurnar okkar. Ég (eða öllu heldur nördinn í mér) bætti litlum glugga við hér til hægri á síðunni þar sem sjá má nýjustu myndina sem ég setti inn. Sumir skilja ekkert í mér að þurfa að tengja allt svona saman, en ég hef bara gaman að því. Það skaðar í það minnsta ekkert að hafa þetta þarna. :)

Mig langar að benda á bloggið hennar Óskar, hún skrifaði svaka annál um árið 2009 með myndum og vídjóum og alles. Ég ætla ekki að gera slíkt hið sama heldur læt hennar annál nægja, við gerðum hvort sem er nokkurnvegin nákvæmlega það sama. :)

Maggi.

miðvikudagur, janúar 06, 2010

Jólin og nýtt ár

Þessi jól og áramót voru öðruvísi en áður. Í stað þess að fara til Íslands vorum við Ósk hér í þýskumælandi löndunum með systrum Óskar og fjölskyldum þeirra. Fyrst fórum við til Nóru og fjölskyldu í Passau í Þýskalandi, rétt við landamæri Austurríkis, og vorum þar í tæpa viku. Þar héldum við jólin hátíðleg og höfðum það virkilega gott. Við komum með risa ferðatösku með okkur fulla af pökkum, bæði pökkum frá okkur til fjölskyldnanna tveggja sem voru með okkur og pökkum til okkar frá Íslandi. Maður hefði haldið að fyrst við vorum ekki á klakanum þá fengjum við töluvert færri pakka en vanalega en sú var nú ekki raunin! Ég bjóst líka við því að sakna matarins á Íslandi meira, en við fengum svo gott að borða að það var lítill tími til að velta sér uppúr hangiketsleysi. :)

Planið hafði svo verið að kíkja á skíði með Hannesi og Helenu en úr því að það rigndi svo mikið fyrir jólin að það var voða lítill snjór og við ákváðum að fresta því. Í staðinn fyrir það kíktum við á heimaslóðir Helenu nálægt Salzburg. Salzburg er virkilega flott borg og gaman að heimsækja hana. Við sáum flottustu byggingarnar, borðuðum ekta austurrískan mat og fórum á geggjaðan útýnisstað þar sem við sáum yfir alla borgina.

Yfir áramótin vorum við svo í Vín hjá Mandý og fjölskyldu. Þar héldu veisluhöldin áfram, fengum rosa gott að borða, þ.á.m. súkkulaði-fondu í fyrsta sinn sem var rosa gott. Það var meira sprengt af flugeldum í Vín en við áttum von á, og á miðnætti dönsuðum við vals. Það er hefð í Austurríki, allar útvarpsstöðvarnar spila vínarvals og allir dansa heima í stofu eða hvar sem þeir eru. Áður en við fórum heim aftur til Hagenberg skelltum við okkur öll saman á skauta sem var voða gaman. Við Ósk fórum líka í bíó að sjá Avatar sem var mikil upplifun að sjá í 3D.

Við Jói ákváðum að fara í smá keppni sem byrjaði um áramótin. Kannski er betra að kalla það tilraun. Það snýst um að taka eina mynd á dag og setja hana á netið. Jói er líka kominn með iPhone og því er það frekar lítið mál, bara spurning um að muna eftir þessu. Við notum Tumblr bloggþjónustuna til að pósta myndunum. Ég sett líka hlekk á nýjustu myndina hér til hægri á síðunni.

Myndasíða Magga

Myndasíða Jóa

Ég er líka kominn með nýtt kommentakerfi hér á síðuna. Haloscan hætti og vildi láta mann borga fyrir nýja þjónustu og því fór ég yfir til Disqus. Ekki vera feimin við að nota nýja kerfið! ;)

Nú erum við komin aftur til Hagenberg og lokatörnin er er hefjast. Við förum aftur til Danmerkur þann 5. febrúar. Við erum líka komin með flug til Íslands um páskana! Allt að gerast.

Maggi.