Í fréttum er þetta helst
Ég horfi voða lítið á fréttir. Ég hef verið ásakaður af fjölskyldumeðlimum að ég fylgist ekki nógu vel með og sé ekki inní heimsmálunum og sé ekki nógu góður samfélagsþegn fyrir vikið. Ok, kannski ekki alveg með þessum orðum en það var ýjað að öllu þessu. Málið með fréttirnar er alveg eins og málið með mig og pólitík. Ég er bara búinn að mynda mér skoðun á þessu, og ég fíla þetta ekki. Fréttirnar endurspegla enganveginn þjóðfélagið eins og það er, eða lífið í heiminum í dag. Þær draga fram það versta á öllum vígstöðvum og spara ekki stóru orðin. Ef maður eyðir lífinu í að velta sér uppúr sora heimsins, hvað ávinnst þá? Ekkert. Maður græðir ekkert af því.
Ok, tvöhudruð manns dóu í Ísrael því að einhver heilaþveginn hálfviti sprengdi sig í loft upp á lestarstöð. Auðvitað er þetta hrikalegur og ömurlegur atburður en er ég betri maður fyrir vikið ef ég horfi á brennandi líkin í beinni útsendingu á CNN? Nei. Þetta er langt frá mér og mig langar ekki að heyra um þessa hluti. Fyrir utan að við fáum bara að heyra eina hlið málsins. Við erum mötuð á fréttum, sumt fáum við að vita og sumt ekki. Þeir sem fylgjast grant með "gangi mála í heiminum" í gegnum íslenskar fréttastofur eru svo gott sem engu nær. Lífið er ekki svo einfalt, maður gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því hvað ritstjórar hafa mikil völd. Þeir ráða því sem við sjáum. Hvernig getum við mögulega myndað okkur rétta og vel ígrundaða skoðun á því sem er að gerast ef við heyrum bara eina hlið málsins?
Ef maður horfir á fréttirnar þá gæti maður farið að halda að það eina sem á sér stað í heiminum sé stríð og eymd og volæði. Fáir komast í fréttirnar ef þeir lifa lífinu vel og samviskusamlega og eru góðir við náungann. En því fleiri sem þú drepur því fleiri þekkja nafnið þitt. Það er sá raunveruleiki sem við búum við í dag. Þannig að fyrirgefðu ef ég sest ekki fyrir framan sjónvarpið klukkan sjö hvert kvöld til að horfa á nýjasta skammtinn af rjúkandi saklausu fólki sem lét lífið útaf einhverju sem ég gat ekkert gert að. Frekar langar mig að fara út og láta sem lífið sé gott, því ég trúi því. Og ef ég hef rangt fyrir mér, so be it. Ignorance is bliss.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum