Hróarskelda 2003
Ahhh... Hróarskelda. Þótt maður sé kominn heim þá hlýjar tilhugsunin manni ennþá um hjartarætur. Hróarskelda var æðisleg. Frábær. Hreinasta snilld. Þetta var stutta útgáfan af því sem ég hef að segja. Hér á eftir kemur sú lengri.
Við flugum til Köben seinnipartinn á mánudegi, tíu strákar saman. Þar af þekkti ég bara tvo þannig að það voru sjö strákar sem ég þekkti nánast ekkert með í ferðinni, en ég kynntist þeim öllum ágætlega í þessari átta daga ferð. Enginn hafði farið á Hróarskeldu áður og allir orðnir verurlega spenntir. Sumir voru duglegir við að drekka á flugvellinum og í flugvélinni þannig að þeir voru orðnir skrautlegir þegar til Danmerkur var komið. Einhvernveginn tókst okkur þó að komast til Hróarskeldu með lest og með rútu á Festival-svæðið. Þá var komið myrkur, við með hellings farangur, fullir, það var mikil rigning, allt svæðið orðið að leðjusvaði og nánast ómögulegt að finna almennilegt tjaldsvæði því ótrúlegur fjöldi hafði mætt strax deginum áður þegar svæðið var opnað. Þó tókst okkur, á rúmum tveimur klukkutímum, að finna okkur tjaldsvæði (tróðum okkur inn á milli einhverra Svía) og kaupa okkur nokkra kassa af bjór. Svo var nottla dottið í það, en bara hóflega hjá mér þó. Klukkan var orðin það margt að allt var lokað og þeir sem ekki voru með tjald þurftu því að gista hjá þeim sem mættu með tjald. Semsagt, fyrstu nóttina sváfum við tíu strákar í tveimur tveggja manna tjöldum. Það þarf ekki mikinn stærðfræðing til að fatta að það var ótrúlega óþægilegt. Farangurinn mátti nottla ekki blotna og var því hafður inní tjöldunum og skapaði því enn meiri þrengsli. Fyrsta nóttin var ekki góð.
Daginn eftir hafði stytt upp og allt horfði betur við. Fínasta veður bara. Við ákváðum að skella okkur til Köben þar sem við röltum aðeins á Strikinu og fórum í Tívolí. Fyrsta skiptið mitt í tívolí, og það var bara helvíti gaman. Hefði þó samt mátt vera grófari rússíbanar, en sum tækin voru mjög fín, og fórum við oft í svona súlu sem lyftir manni upp í 65 metra hæð, og svo bíður maður með hjartað í buxunum í 5 sek. og blússar svo niður á svona 1.5 sekúntu. Um leið og maður var kominn niður langaði mann að fara aftur, en þegar maður var kominn efst þá skildi maður ekki af hverju í andskotanum mann langaði að gera þetta aftur. Svo langaði mann auðvitað strax aftur þegar maður var kominn niður og svona gekk þetta. Djamm í tjaldbúðunum um kvöldið.
Hátíðin byrjaði seinnipartinn á fimmtudeginum, og þangað til gerðum við lítið annað en að lifa á svæðinu, kynnast fólkinu og svæðinu, og djamma auvðitað. Við kíktum einu sinni inn í Hróarskeldubæinn og spókuðum okkur þar í nokkra tíma. Þá var komið líka þetta æðilslega veður sem átti eftir að haldast út næstum alla hátíðina. 25 stiga hiti og heiðskýrt, algjör geggjun. Stundum bara allt of heitt. Þarna var maður farinn að kynnast tjaldbúðunum og þjónustu svæðunum nokkuð vel, en ekki var búið að opna tónleikasvæðið, en það var annað eins svæði, risastórt og mjög skemmtilegt.
Innskot:
Bjórinn niðrá tjaldsvæðunum kostaði ekki nema 180 kr. danskar á kassann, sem voru 30 bjórar. Það gerir tæpar 2200 kr. ísl. á kassann, sem er 72 kr. bjórinn. Á tónleikasvæðinu mátti hinsvegar ekki hafa flöskur og var bjórinn seldur í plastglösum á 18 kr. danskar eða 216 kr. ísl. Svoldið mikill munur en maður varð að láta sig hafa það. Svo var hægt að fara á allskonar bari þarna og kaupa sér sterkara og kokteila og svona eins og hver vildi. Maturinn þarna var fínn, fullt af básum útum allt með allskonar mat, dönskum, mexíkóskum, kínverskum og allskonar venjulegum mat, pítsum, hamborgurum og frönskum. Ég kynntist næst síðasta daginn lang besta matsölustaðnum þarna sem hét Mongolian Barbeque. Þar fengust þeir bestu hamborgarar sem ég hef nokkurntíman smakkað! Vá hvað þeir voru góðir! Ég fæ bara vatn í munninn við að hugsa um þá. Það verður sko það eina sem ég ét þarna á næsta ári, ójá, ég verð þarna á næsta ári. Þarna var svo allt til alls, sturtur, hraðbankar, fínasta hreinlætisaðstaða, bíó, fullt af básum sem seldu allt milli himins og jarðar (þar af fullt af mjög flottum fötum), þannig að það var mjög auðvelt að búa þarna inná svæðinu í þetta langan tíma.
Á miðvikudeginum sáum við Ske spila á
Camp stage og voru þeir bara fínir. Það voru tónleikar á þessu sviði alla dagana áður en hátíðin sjálf hófst. Rétt hjá voru líka allskonar hlutir til dægrastyttingar, t.d. völlur sem á var spilaður körfubolti og bandý, sandhóll þar sem spilað var strandblak, einhverstaðar var víst trampólín þótt ég hafi aldrei séð það, svo svar svona kassaklifurskeppni í gangi í tvo daga, og alltaf fullt af fólki í þessu öllu. Á kvöldin breyttist svo Camp stage í útibíó þar sem voru sýndar myndir öll kvöld þar til hátíðin byrjaði.
Á fimmtudeginum hófst svo hátíðin. Við sáum
Electric Six (sem spila
Danger, High Voltage, og
GayBar),
Interpol (sem voru bara mjög góðir, ég fór of snemma) og
Stone Sour (sem er víst með meðlimum úr Slipknot). Allir þessir tónleikar voru ágætir, en hátíðin hófst fyrst fyrir alvöru þegar
Metallica spilaði um kvöldið. Þegar þeir tónleikar byrjuðu var ég búinn að týna öllum strákunum og taldi ekki möguleika á að finna þá innanum 60 þúsund manns þannig að ég gerði bara eins gott úr þessu og ég gat og klifraði uppí staur sem var þarna ekkert allt of langt frá sviðinu og var þar nær alla tónleikana. Þessir tónleikar voru alveg frábærir, þeir tóku öll gömlu frægu lögin sín,
One,
Nothing Else Matters og
Master Of Puppets til að nefna nokkur. Þeir voru líka með sprengingar og flugelda og svoldil svona læti til að auka á showið og það var nokkuð flott. Það var frábært að vera uppí þessum staur því þá sá ég yfir allan mannfjöldann, og þvílíkt magn af fólki hef ég aldrei séð! Ekki á tónleikum amk. Það var alveg geggjað. Eftir tónleikana fann ég svo strákana aftur niðrá tjaldsvæði og við djömmuðum eitthvað fram eftir nóttu.
Innskot:
Eftir tónleikana og djammið alla dagana var maður nottla alveg búinn og ég var kominn inn í tjald milli 3 og 5 flestar næturnar, en maður vaknaði alltaf á morgnana klukkan svona átta eða níu því þá var hitinn inni í tjöldunum orðinn alveg óbærilegur. Ég var heppinn að deyja ekki bara úr súrefnisskorti eða hita eða eitthvað því þetta var alveg svakalegt. Maður skreið svo útúr tjaldinu og fór í stuttbuxur og kannski bol í mesta lagi og gat ekki sofið meir. Því var fæsta dagana sofið mikið.