mánudagur, ágúst 30, 2004

Þvílík og önnur eins endeimis vitleysa...

Það er ekki af manni skafið. Ég er búinn að vera að hringla í þessu símanúmera veseni en þetta komst loksins á hreint núna um helgina. Ég sendi semsagt alveg fullt af fólki vitlaust símanúmer! Sko málið er að ég var ekkert búinn að nota númerið mitt fyrstu vikuna eftir að ég keypti mér kortið því síminn minn var læstur. Svo var ég í skólanum og ekki með númerið hjá mér þegar mér tókst að aflæsa honum. Ég mundi ekki hvort númerið mitt endaði á 25 eða 26 þannig að ég brá á það ráð að hringja í bæði númerin. Alltaf þegar ég hringdi í 26 þá var á tali en ekki þegar ég hringdi í 25. Auðvitað dró ég þá ályktun að númerið mitt endaði á 26 því það á að vera á tali þegar maður hringir í sjálfan sig. En neeeiii... ekki í Danmörku. Ef ég hringi í 25 þá kemur ein hringing og svo talhólfið mitt og ég er svo heppinn (eða þannig) að það er bara alltaf á tali þegar maður hringir í 30 58 13 26!! Alveg ótrúlegt. Þannig að ég biðst afsökunar ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum, mér þykir þetta mjög leiðinlegt. Þannig að núna er hægt að ná í mig í þessu blessaða númeri sem er:

+45 30 58 13 25
Annars er allt gott að frétta. Ég var einn heima í kotinu um helgina því Rebekka brá sér í heimsókn uppí sveit. Ég kíkti niður í bæ í heimsókn til vina minna á föstudags og laugardagskvöld og kom ekki heim fyrr en um morgun og skemmti mér mjög vel. Það er alveg fullt af skemmtilegu fólki hérna og ég er búinn að kynnast mörgum, aðallega Íslendingum (enda helmingurinn af nemendunum hérna frá Íslandi). Ég verð duglegri að skrifa og skrifa meira þegar við fáum nettenginu en það verður ekki alveg strax. Það tekur víst alveg nokkrar vikur og við sóttum ekki um fyrr en í dag. Vonandi eru allir hressir heima, kveðja,
Maggi.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Síminn er kominn í gagnið!

Jájá, þetta var þá ekki mikið mál. Þolli benti mér á síðu á netinu sem aflæsti símanum mínum fyrir mig þannig að núna er ég kominn með síma sem virkar! Til að hringja inn í Danmörk er notað númerið 45 þannig að númerið mitt er

+45 30 58 13 25

Allir að senda mér SMS eða hringja! :)
Maggi.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Það er mikið að maður lætur vita af sér...

Jæja, þá er maður fluttur til Danmerkur! Það er auðvitað frá mjög mörgu að segja en ég ætla að reyna að fara fáum orðum um það því ég fer í tíma fljótlega og ég er mjög svangur!
Ég flaug til Danmerkur síðasta föstudag ásamt Rebekku og foreldrum hennar og bróður. Þau voru svo góð að hjálpa okkur að flytja og koma okkur fyrir fyrstu dagana og ég veit ekki hvað við hefðum gert án þeirra. Við komum um kvöldið til Kolding í bílaleigubíl sem var svo troðfullur af dóti að ég veit ekki hvernig við komumst sjálf inní bílinn. Þegar við komum svo fyrst inn í íbúðina við Knud Hansensvej 34 beið þar eftir okkur vinafólk Rebekku og þau voru búin að flytja alveg helling inn í íbúðina þá um daginn! Það var alveg meiriháttar og því fluttum við ekki inní tóma íbúð heldur íbúð með leðursófa og stórum skáp í stofunni og öllu til alls í eldhúsinu og borði og stólum inní stofu og Rebekka var komin með rúm og skrifborð! Þetta fengum við allt að láni (og sumt að gjöf) frá þeim, ótrúlega gjafmilt og yndislegt fólk.

Um helgina versluðum við svo það sem vantaði, ég keypti mér dót til að geyma fötin mín (lítið fatahengi og skáp) og við keyptum allar þessar litlu nauðsynjar sem þarf til að búa. Og það er sko alls ekki eins og það búi fátækir námsmenn í þessari íbúð! Það er allt rosalega fínt og flott og við erum búin að koma okkur ótrúlega vel fyrir með litlum tilkostnaði, þökk sé foreldrum og vinafólki Rebekku. Þvílík heppni fyrir mig! :) Á sunnudaginn fórum við í heimsókn til fjölskyldunnar sem hjálpaði okkur svona mikið en þau eiga heima í klukkutíma akstursfjarlægð. Þau búa í 200 ára gömlu sveitasetri þar sem þau eru með hesta og hunda á smá landsvæði þar í kring. Það minnistæðasta við þessa heimsókn var bíltúr sem ég fór með Ole, fjölskylduföðurnum, sem er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann á 35 milljón króna Ferrari!!! Það var alveg magnað að sitja í þessum gullfallega bíl sem var eins og límdur við götuna þótt við höfum keyrt ansi hratt um tíma! Mest fórum við í 270 km/klst og hann opnaði gluggann mín megin og landið þaut framhjá á ógnarhraða! Þessum bíltúr gleymi ég seint.

Á mánudaginn kvöddum við svo Ottó og Hrafnhildi og Gauta, fjölskyldu Rebekku, en þau fóru á flakk um Danmörku. Í gærkvöldi kom vinafjölskylda Rebekku í mat til okkar og færði okkur meira dót í leiðinni! Þau komu með tölvuborð fyrir mig og 28'' sjónvarp og sjónvarpsborð í stofuna. Við erum búin að kaupa okkur DVD spilara (sem spilar DivX!) og því mun okkur ekki leiðast þegar við tökum okkur frí frá lærdómnum. Ég fékk svo loksins rúm á þriðjudaginn en það keypti ég notað en hér er fullt af búðum sem selja notuð húsgögn. Nýju rúmin voru því miður of dýr, meira að segja í ódýrustu verslununum. En rúmið sem ég fékk er alveg ágætt.

Skólinn byrjaði á mánudaginn og mér líst bara ansi vel á þetta allt saman. Það eru einn bekkur þar sem er kennt á dönsku og tveir þar sem er kennt á ensku og ég og Rebekka lentum í sitthvorum. En það er í fínu lagi, þá þurfum við ekki að vera kringum hvort annað 24/7 og það er ágætt því þá gerum við hvort annað ekki alveg brjáluð. Kennararnir virðast vera fínir og það er mjög mikið af skemmtilegum krökkum, og ótrúlega mikið af Íslendingum! Helmingurinn í mínum bekk er frá Íslandi. Þannig að það er ekki erfitt að eignast vini enda einhver undarleg samkennd hjá Íslendingum erlendis. Að vísu ná allir vel saman frá öllum löndunum og við skemmtum okkur bara vel í tímum og í hléunum. Við erum aðallega búin að vera í smá kynningum þannig að við erum ekki farin að gera nein verkefni en það byrjar strax í næstu viku. Á morgun er svo strandblaks keppni og ég er í einhverju liði sem er þó aldrei búið að æfa neitt. Sumir taka þetta mót mjög alvarlega og æfa á hverjum degi! En maður hefur heyrt að þetta sé aðallega bara fyllerí til að hrista hópinn saman og um kvöldið verður grillað og allir drekka bjór og skemmta sér vonandi fram á nótt.

Þannig að það er allt frábært að frétta héðan frá Kolding. Síminn minn kemst vonandi í lag fljótlega en hann er læstur og ég er að reyna að aflæsa honum einhvernvegin. Síminn minn verður 30 58 13 25 en það númer virkar ekki núna. Ég læt vita þegar þetta er allt komið í gang. Svo fæ ég örugglega tölvu fljótlega og við fáum okkur ADSL í íbúðina okkar þannig að ég verð á MSN aftur áður en langt um líður. Vonandi eru allir í góðu stuði heima! Kær kveðja,
Magnús.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Þetta er alls ekki dautt blogg sko... :þ

Það er ekki hægt að neita því að maður sé með tlihlökkun í maganum yfir því að vera að fara að flytja til annars lands. Danmörk er kannski ekki ljósár í burtu en það er sem örugglega nokkuð mikil viðbrigði að fara þangað í nýtt samfélag og segja bless í bili við fjölskyldu og vini. Auðvitað eignast maður bara fleiri vini, útlenska vini (og jafnvel íslenska) og það er auðvitað frábært. Námið lofar líka góðu þannig að þetta verður eflaust mjög skemmtilegt allt saman. Ég ætla að vera miklu duglegri að blogga eftir að ég er kominn út því maður hefur auðvitað frá miklu að segja í nýja lífinu sínu og svo eru líka fleiri sem vilja fylgjast með manni því maður er svolítið langt í burtu. Þó mun ég líklegast ekkert blogga fyrstu dagana því það tekur okkur smá tíma að fá internet tengingu.

Ég fer út í hádeginu á föstudaginn og er alveg að verða búinn að pakka. Mér finnst erfitt að velja hvað ég á að taka með því ég hef auðvitað aldrei flutt áður til útlanda. Sumir segja að maður eigi auðvitað bara að taka allt sem maður á! En það er ekki tilfellið, mig langar að taka mest lítið sko! Frekar merkilegt reyndar, ég tek bara með mér það sem mér finnst vera algjörar nauðsynjar, ekkert dúllerí eitthvað. Það þýðir ekkert að byrja nýtt líf í nýju landi og hafa allt gamla ruslið í kringum sig!

Ég náði því miður ekki að halda kveðjupartý en það er allt í lagi finnst mér. Ég er búinn að vera duglegur að umgangast alla sem ég þekki í sumar og ég verð nú ekki svo lengi í burtu. Ég ætla hinsvegar að kveðja landið með því að fara í leikhús á morgun og sjá Rómeó og Júlíu sem mig hefur lengi langað til að sjá.

Þegar ég kem út fæ ég mér símafrelsi og læt ykkur vita númerið um leið og ég veit það sjálfur. Það kostar jafn mikið að senda SMS út til Danmerkur og hérna heima þannig að go nuts! :) Heyri í ykkur seinna! Kær kveðja,
Magnús.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Því miður...

Það lítur ekki út fyrir að það verði neitt partý á morgun. Það eru svo margir búnir að boða forföll og svo var ég ekki búinn að tala við alla hina og það beila örugglega fleiri. Svo nenni ég varla að standa í þessu því miður. Þetta hljómaði samt rosalega vel, ég veit. Þið verðið bara að finna einhvera aðra aðferð til að kveðja mig! Og það er bara vika þar til ég fer út! Á hádegi næsta föstudag verð ég á leið til Danmerkur og guð veit hvenær ég kem aftur á klakann.
Maggi.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Lausn í sjónmáli

Góða veðrið á víst að haldast fram á laugardag. Ef spáin breytist lítið og ég hef nægan kjark og nennu til skipulags þá stefnir allt í heljarinnar teiti á laugardaginn. Og þá á ég ekki við laugardagskvöldið, heldur laugardaginn, úti í góða veðrinu. Gannels kom með þá snilldarhugmynd í dag er við sátum á svölunum hjá Bakkusi í góða veðrinu að halda bara partý í Skrúðgarðinum! Líklegast var þessu slegið fram í gríni fyrst en eftir sem við veltum okkur meira uppúr því hljómaði þetta bara betur og betur! Bjór og pítsuveisla í Skrúðgarðinum til að kveðja kallinn sem senn flyst af landi brott! Já þið heyrðuð rétt, bjór og pítsur á liðið! Enda vinna allir sem ég þekki á Pizza 67 og þeir sem ekki vinna þar vinna í ÁTVR. Lítið mál að redda veigum. Og nú er bara að redda fólki! Væri ekki snilld að sitja úti á teppi á grasinu og hlusta á gítarspil og syngja með og beðja í sig pítsusneiðum og þamba bjór í lítra vís í góða veðrinu næsta laugardag!? Ég held það nú.

Hins vegar væri lögreglan víst ekki glöð með of mikið af áfengum drykkjum á svona miklu almannafæri um miðjan dag (eða haldiði það ekki annars?) þannig að það er kannski spurning um að finna aðra staðsetningu fyrir þetta. Einhvern góðan fallegan grasflöt ekki of langt í burtu en ekki og augljósan. Talað var um rómantíska svæðið milli Garðahverfis og Eyjabyggðar, það gæti virkað. Ertu með betri staðsetningu í huga? Láttu mig vita. Og svo er bara að fylgjast spennt með hér á síðunni eða bjalla bara í kallinn og sníkja boð í teitið. (Ég býð engum fyrr en allt verður komið á hreint, ekki örvænta.) En finnst ykkur þetta annars ekki snilldarhugmynd!??
Maggi.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Þetta er eiginlega pínulítið merkilegt...

Ég er að flytja til Danmerkur 20. ágúst. Alltaf þegar fólk segir "Og hvað, ertu svo að fara í skóla í haust eða...?" þá svara ég á þá leið að ég sé að fara í Háskóla í Danmörku og flytji út um miðjan ágúst. Samt er ég ekkert að fatta það. Enganvegin. Ég segi þetta bara af því að þetta er planið mitt enn ekki af því að ég viti að það muni gerast. Ég er að flytja að heiman í fyrsta skipti og það er frekar stórt skref þótt það sé ekki tekið neitt sérstaklega snemma í mínu tilviki. En 22ja er ágætis aldur til þess, alveg jafn góður og hver annar.

Þetta er eiginlega nákvæmlega eins og þegar heimreisan var á næstu grösum. Nokkrum mánuðum fyrir 18. apríl var ég farinn að segja fólki sem spurði hvað væri framundan hjá mér að ég væri að fara í heimsreisu. Ég var búinn að plana hana, panta flug, fara í sprautur, fá vegabréfsáritanir og kynna mér lönd (hæfilega lítið þó) en samt var ég ekkert að fatta að ég væri á leiðinni í þvílíkt ævintýr kringum heiminn! Þegar nær dró fór maður að átta sig á því en maður bægði hugsuninni frá sér því hún gerði mann hræddan. Það er frekar spúkí að vera á leiðnni í heimsreisu og hafa ekki grænan grun um hvað býður manns. Þessvegna er bara málið að demba sér útí það.

Þetta er svipað með að fara til Danmerkur. Ég er þó enganvegin búinn að plana þetta eins og ég var með heimsreisuna. Ég var í útlöndum þegar ég sótti um og það var mamma sem skrifaði umsókina mína. Svo kom að því að redda íbúð og þá hitti ég Rebekku sem er á sömu leið og ég og hún reddaði því alveg fyrir okkur. Restina ætlaði ég bara að láta ráðast en Rebekka er að ég held bara búin að redda þessu öllu að mestum hluta held ég, innbúi og alles! Algjör hetja. Þannig að ég þarf lítið annað en að henda einhverju dóti í tösku og kassa og fara til útlanda. Það átti að vera síðasta verk mitt að halda kveðjupartý en móðir mín sem á húsið sem ég bý í sem stendur er búin að fá nóg af endalausu partýstandi á mér (ég er búinn að halda tvö partý, des 2001 og júl 2002) og því fæ ég ekki húsið afnota. Þannig að nema einhver góðhjartaður lumi á samastað fyrir kveðjupartýið mitt verðið því bara að kasta á mig kveðju í síðasta sinn í dágóðan tíma ef þið sjáið mig útá götu næstu daga.
Maggi.

laugardagur, ágúst 07, 2004

Flennifínt

Ég er nú sérdeilis ekki duglegur að skrifa þessa dagana enda lítið að gerjast í heilabúinu mínu sem stendur. Lífið snýst um að vinna, vinna sér inn pening því það kostar víst peninga að flytja til útlanda. Þó verður maður líka að lifa lífinu og því fékk ég mér frí í vinnunni í kvöld til þess að fá mér bjór og kíkja á lífið með vinunum. Það eru bara tvær helgar eftir á elsku ískalda fróni og svo er maður flúinn enn á ný. Þá verð ég eflaust duglegur að blogga enda töluvert forvitnilegra að lesa um einhvern sem er nýfluttur til útlanda í fyrsta sinn og svo er maður líka svo... þenkjandi, hmmm... skemmtilegt orð... þegar maður er kominn aftur í nám eftir einhverja fjarveru. Gaman að því. Vonum bara að þessu bloggi sé viðbjargandi. Jú ég held það nú. Eruði annars ekki bara hress öll sömul?
Maggi.

mánudagur, ágúst 02, 2004

ZZZzzzzzzz.....

Ég er að fara að sofa, en klukkan er bara hálf níu. Það er sökum gífulegrar þreytu sem hefur heltekið líkama minn. Það vill gerast þegar maður djammar heila helgi og sefur svo bara klukkutíma áður en maður tekur 12 tíma vakt í vinnunni sinni.

Það var virkilega gaman á Akureyri. Gaman að hitta fjölskylduna fyrir norðan og gaman að djamma með vinunum (sem voru svo sniðugir að kíkja norður). Ég fór ekki á eitt einasta ball heldur var bara niðri í bæ og á klúbbunum þar og á röltinu um tjaldstæðin. Við lögðum svo ekki af stað heim fyrr en hálf ellefu í gærkvöldi og vorum því ekki komnir heim fyrr en hálf fjögur, klukkutíma áður en ég þurfti að hafa mig til fyrir vinnuna. Því er ég þreyttur og frekar pirraður og ætla því ekki að skrifa meira hér í þetta skiptið. Ég vona að þið hafið átt skemmtilega verslunarmannahelgi hvort sem þið brugðuð ykkur af bænum eða slöppuðuð bara af heima.
Maggi.