fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Það er mikið að maður lætur vita af sér...

Jæja, þá er maður fluttur til Danmerkur! Það er auðvitað frá mjög mörgu að segja en ég ætla að reyna að fara fáum orðum um það því ég fer í tíma fljótlega og ég er mjög svangur!
Ég flaug til Danmerkur síðasta föstudag ásamt Rebekku og foreldrum hennar og bróður. Þau voru svo góð að hjálpa okkur að flytja og koma okkur fyrir fyrstu dagana og ég veit ekki hvað við hefðum gert án þeirra. Við komum um kvöldið til Kolding í bílaleigubíl sem var svo troðfullur af dóti að ég veit ekki hvernig við komumst sjálf inní bílinn. Þegar við komum svo fyrst inn í íbúðina við Knud Hansensvej 34 beið þar eftir okkur vinafólk Rebekku og þau voru búin að flytja alveg helling inn í íbúðina þá um daginn! Það var alveg meiriháttar og því fluttum við ekki inní tóma íbúð heldur íbúð með leðursófa og stórum skáp í stofunni og öllu til alls í eldhúsinu og borði og stólum inní stofu og Rebekka var komin með rúm og skrifborð! Þetta fengum við allt að láni (og sumt að gjöf) frá þeim, ótrúlega gjafmilt og yndislegt fólk.

Um helgina versluðum við svo það sem vantaði, ég keypti mér dót til að geyma fötin mín (lítið fatahengi og skáp) og við keyptum allar þessar litlu nauðsynjar sem þarf til að búa. Og það er sko alls ekki eins og það búi fátækir námsmenn í þessari íbúð! Það er allt rosalega fínt og flott og við erum búin að koma okkur ótrúlega vel fyrir með litlum tilkostnaði, þökk sé foreldrum og vinafólki Rebekku. Þvílík heppni fyrir mig! :) Á sunnudaginn fórum við í heimsókn til fjölskyldunnar sem hjálpaði okkur svona mikið en þau eiga heima í klukkutíma akstursfjarlægð. Þau búa í 200 ára gömlu sveitasetri þar sem þau eru með hesta og hunda á smá landsvæði þar í kring. Það minnistæðasta við þessa heimsókn var bíltúr sem ég fór með Ole, fjölskylduföðurnum, sem er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann á 35 milljón króna Ferrari!!! Það var alveg magnað að sitja í þessum gullfallega bíl sem var eins og límdur við götuna þótt við höfum keyrt ansi hratt um tíma! Mest fórum við í 270 km/klst og hann opnaði gluggann mín megin og landið þaut framhjá á ógnarhraða! Þessum bíltúr gleymi ég seint.

Á mánudaginn kvöddum við svo Ottó og Hrafnhildi og Gauta, fjölskyldu Rebekku, en þau fóru á flakk um Danmörku. Í gærkvöldi kom vinafjölskylda Rebekku í mat til okkar og færði okkur meira dót í leiðinni! Þau komu með tölvuborð fyrir mig og 28'' sjónvarp og sjónvarpsborð í stofuna. Við erum búin að kaupa okkur DVD spilara (sem spilar DivX!) og því mun okkur ekki leiðast þegar við tökum okkur frí frá lærdómnum. Ég fékk svo loksins rúm á þriðjudaginn en það keypti ég notað en hér er fullt af búðum sem selja notuð húsgögn. Nýju rúmin voru því miður of dýr, meira að segja í ódýrustu verslununum. En rúmið sem ég fékk er alveg ágætt.

Skólinn byrjaði á mánudaginn og mér líst bara ansi vel á þetta allt saman. Það eru einn bekkur þar sem er kennt á dönsku og tveir þar sem er kennt á ensku og ég og Rebekka lentum í sitthvorum. En það er í fínu lagi, þá þurfum við ekki að vera kringum hvort annað 24/7 og það er ágætt því þá gerum við hvort annað ekki alveg brjáluð. Kennararnir virðast vera fínir og það er mjög mikið af skemmtilegum krökkum, og ótrúlega mikið af Íslendingum! Helmingurinn í mínum bekk er frá Íslandi. Þannig að það er ekki erfitt að eignast vini enda einhver undarleg samkennd hjá Íslendingum erlendis. Að vísu ná allir vel saman frá öllum löndunum og við skemmtum okkur bara vel í tímum og í hléunum. Við erum aðallega búin að vera í smá kynningum þannig að við erum ekki farin að gera nein verkefni en það byrjar strax í næstu viku. Á morgun er svo strandblaks keppni og ég er í einhverju liði sem er þó aldrei búið að æfa neitt. Sumir taka þetta mót mjög alvarlega og æfa á hverjum degi! En maður hefur heyrt að þetta sé aðallega bara fyllerí til að hrista hópinn saman og um kvöldið verður grillað og allir drekka bjór og skemmta sér vonandi fram á nótt.

Þannig að það er allt frábært að frétta héðan frá Kolding. Síminn minn kemst vonandi í lag fljótlega en hann er læstur og ég er að reyna að aflæsa honum einhvernvegin. Síminn minn verður 30 58 13 25 en það númer virkar ekki núna. Ég læt vita þegar þetta er allt komið í gang. Svo fæ ég örugglega tölvu fljótlega og við fáum okkur ADSL í íbúðina okkar þannig að ég verð á MSN aftur áður en langt um líður. Vonandi eru allir í góðu stuði heima! Kær kveðja,
Magnús.
blog comments powered by Disqus