Geitungur í Trapholti
StudiestartÞað var mjög gaman í gær en þá hélt Koldingbær svokallað Studiestart fyrir alla nýja nemendur hér í Kolding. Það voru nemendur úr fjórum skólum sem tóku þátt og var ýmislegt gert til að kynna bæinn fyrir okkur nýnemunum. Dagurinn byrjaði í Koldinghus en það er líklegast frægasta mannvirki í Kolding. Að vísu kann ég ekki sögu þess enda þótti mér aðeins of gott að sofa og missti því af þessum fyrsta hluta dagsins. Næst var haldin róðarkeppni milli skólanna og það var hörku spennandi. NoMA lenti í öðru sæti en við hefðum átt að vinna! Sætið í bátnum bilaði í fyrstu umferðinni og það kostaði okkur titilinn. Ég tók ekki þátt að vísu en ég hvatti þau áfram af miklum móð. :)
Eftir að við fengum að borða og róðrarkeppnin var búin var okkur smalað uppí rútu og við fórum í Trapholt sem er listasafn rétt fyrir utan bæinn. Þar var mikið af flott hönnuðum húsgögnum og frekar nútímalegri list. Ég tók sjálfur smá arty flipp fyrir utan safnið og tók fullt af myndum af geitungum og blómum, sumar nokkuð góðar. Eftir Trapholt fórum við svo í sund sem var langþráð hjá mér enda hef ég ekki komið mér af stað ennþá og farið að synda eins og ég ætti að gera. Þeir eiga mjög flotta sundhöll hérna í Kolding en það kostar líka nógu mikið að fara í sund. 45 kr. danskar sem er fimmhundruð íslenskar! Það er heldur mikið fyrir fátækan námsmann. Mánaðarkort kostar þrjúþúsund íslenskar og það er spurning hvort ég skelli mér á eitt svoleiðis fljótlega. En það var mjög gaman í sundi þrátt fyrir mikla vöntun á heitum pottum. Það var einn pínulítill nuddpottur og þá má vera í honum í 10 mínútur í senn en þess á milli þarf að leyfa honum að hreinsa sig kortér! Alveg fáránlegt finnst mér, bæði að hafa bara einn pott og að banna fólki að vera í honum meirihluta dagsins.
Við ákváðum svo að fara út að borða saman hópurinn sem tók þátt í þessum degi frá NoMA og fyrst það var fullt á Jensens Bøfhus fórum við á ágætan ítalskan stað. Eftir að þjónninn hafði komið með súpu til mín sem ég bað ekkert um gerðu þeir loksins hálfmánann sem ég hafði beðið um og allir voru ánægðir með matinn. Eftir það drifum við okkur svo á Godset sem er aðal tónleikastaðurinn hér í bæ, en þar voru tvennir tónleikar í sambandi við þennan Studiestart dag. Þeir fyrri voru mjög góðir, hljómsveit sem ég held að heiti Dicta, og með ótrúlega hæfileikaríkri söngkonu. Hún var með rosalega töff ráma rödd og söng blús og rokk og allt heila klabbið og klikkaði ekki einu sinni. Hún spilaði líka til skiptis á kassagítar og rafmagnsgítar og var bara þvílíkt töff rokk-gella. :)
Seinni tónleikarnir voru ekki að fara vel í mannskapinn, einhver frekar slöpp dönsk strákasveit, og því fór mannskapurinn á Knuds Garage sem er vinsæll viðkomustaður hjá NoMA krökkum. Hann var pakkaður eins og alla fimmtudaga og fín stemmning. Ég var þó ekki að drekka og fór frekar snemma heim enda mikið um að vera í kvöld (föstudag). Annars árs nemendur eru nefnilega að bjóða nýnemana velkomna í skólann og bjóða okkur flottan mat og skemmtiatriði og svo verður haldið niður í bæ á skrallið.
Ég tók alveg fullt af myndum í gær og er búinn að setja þær á netið
hérna! Vonandi hafiði gaman að því. Kveðja,
Magnús.