sunnudagur, apríl 18, 2004

Þá er komið að því...

Núna rétt á eftir fer ég útá flugvöll og skelli mér um borð í flugvél sem flytur mig til Englands. Mér fannst nú ekki nema rétt að henda inn eins og einni færslu áður en ég færi.

Dagurinn í dag var alveg frábær! Halla systir og Biggi mágur giftu sig með pompi og prakt, og þetta var allt saman alveg yndislegt! Athöfnin var æði, Diddú kom öllum að óvörum og söng eitt lag. Pabbi og Magga plönuðu það surprise fyrir brúðhjónin og það var sko vel heppnað! Þeim, og öllum, fannst það alveg æðislegt. Svo söng Stefán Hilmarsson þrjú lög og allir sögðu já á réttum tíma og svona. Að vísu fór presturinn rangt með nafn brúðgumans en hún leiðrétti sig nú strax og allir hlógu bara að þessu. Ég var bílstjórinn þeirra og keyrði þau í myndatöku eftir athöfnina á geggjuðum (4 milljón króna) Audi. Svo komu þau í veisluna sem var virkilega skemmtileg. Frábær matur (alltof mikið borðað auðvitað!) og góð skemmtiatriði. Margrét Eir söng og dansaði, var rosalega fyndin og skemmtileg. Svo voru mjög góðar ræður og skemmtilegir leikir. Þetta var sjö tíma prógramm (!) og ekki ein mínúta sem manni leiddist. Takk elsku Halla og Biggi fyrir yndislegan dag og til hamingju með daginn! Þið eruð æðisleg.

En nú verður ekki meira bloggað á þessari síðu næstu mánuðina. Það verður gert á annari síðu sem hefur áður verið auglýst hér og kemur hér enn og aftur:
maggiogbiggi.tk


En nú óska ég mér og Bigga bara góðrar ferðar og alls hins besta í reisunni. Megi hún vera jafn farsæl og hún verður skemmtileg. Þið fylgist bara með okkur á nýju síðunni, og verið dugleg við að kommenta! Það er stærsti hlekkurinn okkar við lífið heima. Bless bless,
Maggi.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Z

Þá er ég búinn að gera Heimsreisubloggsíðu fyrir okkur Bigga. Ég ákvað að skrifa ekki inná þessa síðu í ferðinni heldur að búa til nýja og slíta þetta aðeins í sundur. Veit ekki af hverju en mér finnst það betra svoleiðis. Síðan er á slóðinni maggiogbiggi.tk. Svo er ég búinn að kaupa pláss á síðu sem hýsir myndir svo við getum sett myndir inn á netið hvar sem er í heiminum. Vonandi verður það lítið mál og við getum sett inn fullt af myndum. Myndasíðan er á pbase.com/maggisv.

Partýið á Zetunni á föstudaginn hefst klukkan níu og eins og ég var búinn að tala um eru allir sem þetta lesa velkomnir. Auðvitað kostar ekkert inn en aldurstakmarkið er 18 ár því það verður seldur bjór á staðnum. Svo þarf ég bara að drífa mig í að pakka og þá getum við bara lagt í hann!
Maggi.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

And then there were six...

Eða reyndar bara fimm og nokkrir klukkutímar. Last minute preperations í gangi og svona. Kristinn sá er kenndur er við stuð gaf mér aðra málsháttakökuna sína þegar hann pantaði sér kínamat um daginn og ég sagði áður en að ég braut hana að málshátturinn myndi eiga við um ferðina okkar. Úr kökunni kom svo "The smartest thing is to prepare for the unexpected" sem á mjög vel við. En hinsvegar vitum við ekki neitt hvað bíður okkar þannig að það er mjög erfitt að búa sig undir það. Og ef maður er búinn að búa sig undir eitthvað óvænt þá er það ekki lengur óvænt, og það er það sem málshátturinn þýðir held ég. Soldið stúpid ef maður hugsar útí það og voðalega kínverskt eitthvað. :)

Hörku partý á Zetunni á föstudaginn! Vinir okkar snillingarnir halda kveðjupartý fyrir okkur og þar munu spila tvær hljómsveitir og alles. Allir sem þekkja okkur eru velkomnir. Þeir sem eiga staðinn fá að selja þarna bjór þannig að ég held að fólk yngra en átján ára komist ekki inn, og enginn með eigið áfengi (á greinilegum stöðum að minnsta kosti, wink wink). Nánari upplýsingar hér á síðunni þegar nær dregur. Næsta helgi verður ein sú skemmtilegasta í mínu lífi hingað til held ég. Svaka partý fyrir mig og Bigga á föstudaginn, Halla systir og Biggi (ekki sami Biggi samt) að gifta sig á laugardaginn, og svo byrjar heimsreisan á sunnudaginn! Þetta er svakalegt. I'm living in the fast lane! :) Ekki laust við að það sé kominn smá kvíða-tilhlökkunar-hnútur í magann. Nennir einhver að kenna mér andlega íhugun?
Maggi.

föstudagur, apríl 09, 2004

Mædd er orðin mamma hans Gutta

Mamma hans Gutta var orðin mædd á fíflaganginum í drengnum. Vísan segir frá þessu svona: "Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag." Ok. Mín spurning er sú, hvað er hún að mæla? Er hún að mæla Gutta því hún heldur að hann sé að verða veikur? Þetta var amk pælingin þegar ég var yngri, og aftur í vinnunni í morgun. En svo fattaði ég að ef maður hættir að einblína á það sem virðist vera fáránleg setning, og kíkir aðeins á framhaldið þá sér maður svarið. "Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag: "Hvað varst þú að gera Gutti minn? Geturðu ekki skammast þín að koma svona inn? ..."" Já, hún mælti þetta semsagt, en hún var ekki að mæla eitt né neitt. Svona er maður nú vitlaus.

Niðurtalningin heldur áfram og nú eru aðeins átta og hálfur dagur þar til við Biggi leggjum af stað í heimsreisuna okkar. Þetta verður eitthvað fróðlegt. Ennþá eru tvær mismunandi hugsanir sem læðast að mér til skiptis þegar ég hugsa um þetta. Annað hvort er það bara eintóm tilhlökkun og hugsunin um hvað þetta verður gaman. Hins vegar fer ég líka stundum að hugsa um hvað gæti farið úrskeiðis og að við vitum ekkert hvað við erum að fara útí. En þetta er ævintýri þannig að maður má ekki vita allt fyrirfram.

Ég skráði mig í rithringinn fyrir nokkrum vikum og loksins komst ég að með sögu í rýni. Ég sendi inn söguna um Guðvald og Gullfoss sem ég setti hér inn á bloggið fyrir nokkrum vikum. Og fyrsta gagnrýnin mín var bara feykigóð! Talað um að þetta væri eitt það besta sem undirrituð hafði lesið í rithringnum og að ég væri góður penni. Það er spurning um hvort maður haldi ekki bara áfram og sendi inn eitthvað meira! :) Merkilegt hvað manni finnst gaman að fá svona hrós þótt það sé frá algjörlega ókunnugri manneskju.

Kvöldið í kvöld er alveg óráðið. Merkilegt hvað manni tekst aldrei að skipuleggja neitt í þessum vinahóp. Það er alltaf svona, annaðhvort gerist eitthvað spontant á síðustu stundu eða það gerist bara ekki neitt. Þannig að ég gæti allt eins endað á balli í stapanum, eða jafnvel bara heima hjá mér sofandi fyrir miðnætti. Enginn veit sitt föstudagskvöld fyrr en allt er.
Gleðilega páska öllsömul!
Maggi.
Eilíft sólskin

Eternal Sunshine of the Spotless Mind er yndisleg mynd. Ætla að segja sem fæst orð um hana því ég hefði sjálfur viljað vita sem minnst þegar ég sá hana. Jim Carey og Kate Winslet leika aðalhlutverkin og standa sig vel, en það kúlasta er að Charlie Kaufman er handritshöfundurinn! Fyrir þá sem ekki kannast við hann (skamm) þá skrifaði hann t.d. Being John Malcovich og Adaptation, sem eru líka frábærar myndir. Þeir sem fíluðu þær ættu deffinetlí að sjá þessa. Samt tekst honum að toppa sig, því þessi er betri en þær báðar. Fær líka miklu mun hærri einkunn á imdb.com, sem er biblían mín.

Minns er pínulítið veikur. Reyndi að gera sem minnst úr þessu, mætti í vinnuna (eins og fáviti bæ ðe vei með klósettpappír troðinn í aðra nösina því ég fékk mestu blóðnasir sem ég hef nokkurntíman fengið rétt eftir að ég vaknaði klukkan fimm í morgun, alveg fáránlegt) og eyddi deginu þar í að hósta á vinnufélagana þannig að það verða örugglega allir veikir yfir páskana. Leiðinlegt að vera veikur. En maður getur annaðhvort lagst niður og vorkennt sér og reynt að fá aðra til þess að vorkenna sér líka og gefa sér súpu, eða þá að maður getur sagt fokkit og mætt bara í vinnuna og smitað alla í kringum sig og bjargað Flugleiðum frá gjaldþroti vegna seinkanna. Ég voða hetja eitthvað, yfirleitt þegar ég veikist þá vel ég fyrri kostinn og nenni engu þar til mér er batnað. Ef batnandi manni er best að lifa, er þá ekki bara fínt að vera veikur?

Ég er búinn að vera á leiðinni að laga til í herberginu mínu í alveg allt of langan tíma. Það er ekkert alveg á hvolfi, en það er fullt af litlu rusli á skrifborðinu sem þarf amk að stinga einhverstaðar þar sem maður rekur augun ekki í það. Í því felast nefnilega hreingerningar hjá mér, koma draslinu fyrir þar sem maður þarf ekki að horfa á það. Einn daginn verður þetta eins og í teiknimyndunum að ég opna hjá mér skápinn og þrettán tonn af dóti og drasli grafa mig lifandi í herberginu mínu. Ég hef hinsvegar lítið á móti ryki. Ekkert mál að koma hlutunum á sinn stað (þegar maður er hættur að finna nokkurn skapaðan hlut) en að færa allt til bara til þess eins að geta lógað einhverri ló? Það finnst mér óþarfi. Fínt að bíða með það nógu lengi og þá getur maður týnt upp ryk-kanínurnar af gólfinu með höndunum. Skemmtilegt orð, ryk-kanínur. Það hefur örugglega verið fundið upp af einhverjum kana sem fannst of vont orðspor á rykinu (eins og mér). Dust bunnies.
Maggi.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Super Duper Countdown-O-Meter Thingy: 11,5 dagar.

Já það eru aðeins ellefu og hálfur dagur þar til að við stígum uppí flugvélina í fyrsta skiptið af sextán næstu þrjá mánuði. Pældíðí! Sextán flugferðir! Og þær ekkert smá langar sumar hverjar. Frá tveimur klst. og uppí örugglega þrettán! Þetta verður svakalegt. Ég og Biggi verðum örugglega komnir með legusár á rassinn eftir að vera búnir að sitja svona svakalega mikið og lengi í einu. Og og á þeim stöðum þar sem við verðum ekki með legusár verðum við með flakandi brunasár því við erum rauðhærðir menn og sólin er ekki bezti vinur okkar, sérstaklega í þeim löndum þar sem hún er þráðbeint fyrir ofan hausinn á okkur. Svo verðum við með magakveisu og pípandi niðurgang allan tímann því maturinn í þessum framandi löndum á eflaust ekkert eftir að fara vel í magann okkar. Fyrir utan nottla að við verðum búnir að fá ógeð af hvor öðrum um leið og við verðum komnir uppí flugstöð þannig að það er bara spurning um hvor okkar mun verða á undan að drepa hinn. Svo erum við að gera þetta svo hratt að við náum ekki að skoða neitt, og það verður eflaust magra daga vesen á hverjum einustu landamærum og flugvöllum sem við förum á og skilur engan tíma eftir til að gera neitt skemmtilegt. Allt sem við kaupum og sendum heim mun týnast í pósti og ef við kynnumst nýju fólki þá verðum við flognir til næsta lands áður en það nær að læra nöfnin okkar.

Þessi litla ræða var fyrir ykkur sem öfundið okkur pínulítið af því að vera við þröskuldinn á einu stærsta og skemmtilegasta ævintýri lífs okkar. Raunin er að við munum skemmta okkur svo vel og blogga svo nákvæmlega um allt sem við gerum, að þið sitjið heima við tölvuna ykkar meðan regnið ber rúðuna og nagið á ykkur húana þar til lyklaborðið er alblóðugt og glerungurinn í tönnunum á ykkur er búnn að eyðast niður að rót. Úff hvað það verður gaman og, tjah... ég er bara ekki frá því að ég sé farinn að hlakka oggopínulítið til! :)
Maggi.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Steggur og gæs

Halla systir og Biggi kallinn hennar eru loksins að fara að gifta sig. Í gær voru þau tekin í gegn eins og góðir siðir segja til um og það var mjög skemmtilegt. Biggi var klæddur upp í Spiderman-búning og látinn syngja og spila á gítar fyrir fólk útum allan bæ og látinn gera allskonar hundakúnstir. Halla var klædd upp í mótorhjólagalla og látin þeysast um á mótorfák og leika einhverjar listir. Hápunkturinn var svo körfuboltaleikurinn þar sem mikið fór fyrir þeim skötuhjúum. Frábær dagur.

Í dag fór ég svo í fermingarveislu í Reykjavík, og skemmst er frá því að segja að þetta var bara ein fermingarveislulegasta fermingarveisla sem ég hef farið í. Helst bar það til tíðinda að Biggi vann risapáskaegg í bingó. Sniðug hefð hjá þessari familíu að hafa alltaf bingó, svona svo fólkið geri nú eitthvað saman. Spurning um að kíkja í körfu í kvöld eða skella sér bara í bíó í bæinn á Dawn of the Dead?
Maggi.

föstudagur, apríl 02, 2004

Úff

Best að ég haldi mig innan dyra þar til ég fer út.
Maggi.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Time is fun when you're having flies

I don't suffer from insanity, I enjoy every minute of it. Life is something that passes you by while youre busy making other plans. Life is not measured by the number of breaths we take, but by the moments that take our breath away. Life must be lived and curiosity kept alive. Many of life's failures are people who did not realize how close they were to success when they gave up. Do unto others... Then split! If you think there is good in everybody, then you obviously haven't met everybody. Suicidal twin kills sister by mistake. Half the people in the world are below average. Strip mining prevents forest fires. If a thing is worth doing, wouldn't it have been done already? If we weren't meant to eat animals, why are they made of meat? I used up all my sick days, so I'm calling in dead. Proofread carefully to see if you any words out. I'd explain it to you, but your brain would explode. If one synchronized swimmer drowns, do the rest have to drown too? Help Wanted: Telepath . . . you know where to apply.
Maggi.
Flöktandi ást

Einhverstaðar í heiminum
veit ég þú bíður mín,
því einhverstaðar í heiminum
hugsa ég stöðugt til þín.

Ég sá þig bara einu sinni
og aðeins í sekúntubrot
en ég vissi strax í hjarta mínu
að þetta var meira en lítið skot.

Þú varst aukaleikari í bíómynd
sem ég man ekki hvað hét.
Ég skildi ekki hugsanir mínar
eða hvernig hjartað mitt lét.

Í fjóra daga og fjórar nætur
í huganum dvaldi hjá þér.
Þá varð ég að komast aftur í bíó
bara einn með sjálfum mér.

Ég skimaði yfir tjaldið hvíta
en hvergi ég þig sá.
Ég trúði vart að í raun þú værir
að eilífu horfin mér frá.

Að við eyðum ekki ævinni saman
er skelfileg ótrúleg synd.
Ég mun að eilífu elska þig,
eða þar til ég sé næstu mynd.

Maggi.