föstudagur, apríl 09, 2004

Mædd er orðin mamma hans Gutta

Mamma hans Gutta var orðin mædd á fíflaganginum í drengnum. Vísan segir frá þessu svona: "Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag." Ok. Mín spurning er sú, hvað er hún að mæla? Er hún að mæla Gutta því hún heldur að hann sé að verða veikur? Þetta var amk pælingin þegar ég var yngri, og aftur í vinnunni í morgun. En svo fattaði ég að ef maður hættir að einblína á það sem virðist vera fáránleg setning, og kíkir aðeins á framhaldið þá sér maður svarið. "Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag: "Hvað varst þú að gera Gutti minn? Geturðu ekki skammast þín að koma svona inn? ..."" Já, hún mælti þetta semsagt, en hún var ekki að mæla eitt né neitt. Svona er maður nú vitlaus.

Niðurtalningin heldur áfram og nú eru aðeins átta og hálfur dagur þar til við Biggi leggjum af stað í heimsreisuna okkar. Þetta verður eitthvað fróðlegt. Ennþá eru tvær mismunandi hugsanir sem læðast að mér til skiptis þegar ég hugsa um þetta. Annað hvort er það bara eintóm tilhlökkun og hugsunin um hvað þetta verður gaman. Hins vegar fer ég líka stundum að hugsa um hvað gæti farið úrskeiðis og að við vitum ekkert hvað við erum að fara útí. En þetta er ævintýri þannig að maður má ekki vita allt fyrirfram.

Ég skráði mig í rithringinn fyrir nokkrum vikum og loksins komst ég að með sögu í rýni. Ég sendi inn söguna um Guðvald og Gullfoss sem ég setti hér inn á bloggið fyrir nokkrum vikum. Og fyrsta gagnrýnin mín var bara feykigóð! Talað um að þetta væri eitt það besta sem undirrituð hafði lesið í rithringnum og að ég væri góður penni. Það er spurning um hvort maður haldi ekki bara áfram og sendi inn eitthvað meira! :) Merkilegt hvað manni finnst gaman að fá svona hrós þótt það sé frá algjörlega ókunnugri manneskju.

Kvöldið í kvöld er alveg óráðið. Merkilegt hvað manni tekst aldrei að skipuleggja neitt í þessum vinahóp. Það er alltaf svona, annaðhvort gerist eitthvað spontant á síðustu stundu eða það gerist bara ekki neitt. Þannig að ég gæti allt eins endað á balli í stapanum, eða jafnvel bara heima hjá mér sofandi fyrir miðnætti. Enginn veit sitt föstudagskvöld fyrr en allt er.
Gleðilega páska öllsömul!
Maggi.
blog comments powered by Disqus