mánudagur, desember 31, 2007

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Hér er lokaverkefnið mitt á þessari önn, þrívíddarstuttmyndin Ace From Space! :)

Maggi.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Á Íslandi núna

Ennþá þreyttur.

Maggi.

Ísland á eftir

Ég er ansi þreyttur.

Maggi.

mánudagur, desember 10, 2007

Britney, Britney, Britney

Er engin sía á fréttum um Britney Spears sem berast frá Bandaríkjunum? Þessi frétt birtist á Vísi.is í dag.

Britney stelur kveikjara

Ég get svo svarið það.

Maggi.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Skrapp frá í tíu mínútur, kem aftur eftir þrjá klukkutíma...

...eða í mínu tilviki 34 daga. Skömm að þessu. Skamm Maggi. Skammaggi.

Það er ekki búin að vera lognmolla hjá okkur skötuhjúunum í Rødovre undanfarið. Við höfum í nógu að snúast og það virðist sem listinn yfir hluti sem maður ætti að vera að gera lengist hraðar í annan endan en hann styttist í hinn. Með þessu áframhaldi förum við að eiga eftir það sem við erum búin að gera. Nei það er nú kannski ekki alveg svo slæmt. Við getum samt ekki kvartað yfir því að hafa ekki skemmt okkur reglulega því nú hafa allir viðburðirnir sem ég skrifaði um um daginn átt sér stað, og þeir voru hver öðrum skemmtilegri. Tökum þetta bara skipulega:

19. okt: An Evening with SigurRós
SigurRós stóðu fyrir sínu og spiluðu nokkur lög áður en þeir sýndu heimildarmyndina sína "Heima". Þeir spiluðu órafmagnað og það var alveg ótrúlega flott hjá þeim! Ég hef aldrei heirt þá spila þannig áður (enda hafa þeir aldrei gert það fyrr en nýlega) og eftir myndina sögðu þeir frá því að þetta hafi bara verið útaf tónleikunum sínum hjá Kárahnjúkum þar sem þeir neyddust til þess að prófa það. Það hljómaði líka svona vel að þeir hafa spilað órafmagnað á nokkrum tónleikum síðan. Eftir myndina var semsagt spjall við hljómsveitina og leikstjóra myndarinnar þar sem áhorfendur gátu spurt spurninga og það var mjög áhugavert og fékk mann til að sjá hljómsveitina og myndina þeirra í öðru ljósi. Mjög vel heppnað kvöld með SigurRós.

24. okt: Muse í Forum
Ég bloggaði síðast þegar við vorum á leiðinni á Muse í Forum, og það var mikill spenningur í okkur. Þeir stóðu fyrir sínu, með flott show, og auðvitað ótrúlega kraftmikla og góða frammistöðu. Lögin þeirra eru svo tónleikavæn að það er engu lagi líkt. Sjúklega mikill troðningur við fatahengið eftir tónleikana setti svip sinn á kvöldið og það leið næstum því yfir Ósk sem hræddi okkur bæði frekar mikið. Það fór samt allt vel að lokum.

7. nóv: Arcade Fire í KB-Hallen
Við höfðum beðið eftir þessum tónleikum síðan í mars, þegar þeir hættu við tónleikana deginum áður en þeir áttu að vera haldnir. Til að vera örugg með að miðarnir okkar síðan þá væru enn í gildi hafði ég sent Billetlugen, fyrirtækninu sem sá um miðana, póst og spurt hvor svo væri ekki. Þeir staðfestu það og sögðu okkur engar áhyggjur að hafa. Sama dag og tónleikarnir voru, eftir að hafa heyrt að sumir hafi fengið endurgreitt án þess að hafa beðið um það, athuga ég svo kreditkortið mitt í netbankanum og sá að við höfðum fengið miðana endurgreidda í apríl! Ég neitaði að trúa því og við fórum á tónleikana með miðana okkar, og útprentaðan tölvupóstinn frá fyrirtækinu, því við höfðum alls ekkert viljað fá endurgreitt! Eftir að gaur í dyrunum hafði eytt 10 mínútum í símann við einhvern (kannski þann sem sendi mér póstinn) til að athuga hvort við mættum fara inn, var okkur svo hleypt inn. Það voru ófáir sem voru ekki svo heppnir og stóðu fyrir utan með ógilda miða.

En nóg um það! Tónleikarnir voru frábærir, vægast sagt. Við vorum í stúkunni allan tímann, ólíkt Muse tónleikunum en þá vorum við á gólfinu. Það var virkilega skemmtilegt að sjá hvað hljómsveitin skemmti sér vel, og auðvitað er æðislegt að heyra tónlist sem maður þekkir eins og handarbakið á sér spilaða á sviði. Þetta var æðislegt, og skrítið að hugsa til þess hversu litlu munaði að við hefðum ekki fengið að fara inn.

21. nóv: Ísland - Danmörk, EM-forkeppni í Parken
Eins og flestir vita eflaust þá tapaði Ísland fyrir Danmörku 3-0 í EM-forkeppninni. Leikurinn skipti þó engu máli því hvorug þjóðin hefði getað komist áfram. Kannski útskýrir það litla aðsókn, en Gilli frændi benti á það í komment-kerfinu að það hefði ekki verið svona lítil aðsókn á landsleik á Parken í 30 ár! Kannski á það bara vel við, því Ísland skoraði síðast mark í landsleik í Danmörku árið 1974, fyrir 33 árum síðan. Við vonuðumst eftir því að þeir næðu að pota boltanum amk einu sinni í netið hjá Baunum, en varð ekki að ósk okkar. Það var samt mjög gaman að prófa að fara á landsleik í fótbolta, og líka á svona stórum leikvangi. Þannig að þetta var mjög gaman þrátt fyrir tapið. :)

26. nóv: múm á Lille-Vega
Í gærkvöldi voru síðustu tónleikarnir okkar í þessari tónleika-hrinu þegar við sáum múm spila á litla Vega. Við höfum ekki hlustað á þá lengi, en höfðum heyrt góða hluti um frammistöðu þeirra á tónleikum og ákváðum því að skella okkur. Þeir stóðu sig mjög vel og þrátt fyrir að við höfum ekki þekkt lögin þá var gaman að sjá hvað þau eru frumleg og hæfileikarík. Þó má segja að upphitunarhljómsveitin Seabear hafi stolið senunni, því við vorum alveg yfir okkur hrifin af þeim og keyptum okkur diskinn þeirra eftir tónleikana. Þau eru líka íslensk og ég held að þau hafi átt einhver vinsæl lög á Íslandi þótt ég viti ekkert hvort fólk viti af þeim eða ekki. Þetta er mjög þægileg og róleg tónlist en hress og skemmtileg inn á milli. Mæli hiklaust með þeim, og auðvitað múm líka. :)


Jól
Ég kem heim 18. desember en stoppið verður stutt því fyrsta prófið okkar er 4. janúar. Þangað til verðum við á milljón að vinna lokaverkefnið okkar því það er lítið eftir af önninni en við eigum langt í land með að klára verkefnin.

Maggi.

miðvikudagur, október 24, 2007

MUSE Í KVÖLD

Muse eru ekki vanir því að leggja lítið í show-ið þegar þeir spila á tónleikum. Ég held að kvöldið í kvöld verði lengi í minnum haft.





miðvikudagur, október 17, 2007

Tónleikar og fótbolti

Það er búið að vera brjálað að gera hjá okkur undanfarið í skólanum. Fyrir utan verkefnavinnu þá erum við búin að vera í fyrirlestra-törn og ótrúlega mikið lesefni fyrir hvern tíma og oft á tíðum heimaverkefni eftir tímann. En nú er betri tíð framundan. Ekki það að skólavinnan eigi eftir að minnka eitthvað, heldur er að taka við törn af tónleikum og uppákomum! :D Hérna er það sem er planað hjá okkur Ósk í október og nóvember:

19. okt: An Evening with SigurRós
24. okt: Muse í Forum
7. nóv: Arcade Fire í KB-Hallen
21. nóv: Ísland - Danmörk, EM-forkeppni í Parken
26. nóv: Múm á Lille-Vega



An Evening with SigurRós er núna á föstudaginn, þá verður myndin Heima sýnd en á undan því spilar SigurRós nokkur lög fyrir áhorfendur. Ísland - Danmörk í EM undankeppninni verður örugglega virkilega gaman því við Ósk ætlum að fjölmenna með slatta af Dönum úr deildinni okkar. Þannig að þið leitið að okkur í dönsku stúkunni, eina fólkið með íslensku litina! Úff, ef við vinnum þá erum við í vondum málum.



Fyrir utan allt þetta erum við búin að kaupa miða á The Cure 13. febrúar! Þannig að við ætlum heldur betur að verðlauna okkur fyrir allt stritið. Það er líka miklu ódýrara að fara á tónleika hérna heldur en á Íslandi, þannig að auðvitað nýtir maður tækifærin þegar þau gefast. :)

Magggi.

mánudagur, október 08, 2007

Stop Motion

Um daginn í skólanum gerðum við stutt animation á nokkrum klukkutímum. Hópurinn minn notaðist við Street Fighter kall auk annarra hluta og hérna er afraksturinn!



Maggi.

mánudagur, september 17, 2007

Netið heim

Ég er reyndar í skólanum að blogga núna, en við erum komin með netið heima! Og því ekkert til fyrirstöðu að við getum verið á Skype eða MSN þegar við eigum að vera að læra. :)

Við eigum enn eftir að snurfusa pínulítið í íbúðinni áður en við tökum myndir af öllu og setjum á netið.

Við erum ekki enn komin með sjónvarp en það er á dagskrá að kaupa eitt slíkt. Við erum þó með skjávarpann og höfum horft á nokkrar bíómyndir síðan við komum út og merkilegt nokk þá hafa flestar þeirra verið virkilega góðar.


Reign Over Me

Adam Sandler fer á kostum í þessari frábæru mynd sem er þó langt frá því að vera týpísk "Sandler-mynd". Lýsingin á myndinni á imdb.com er á þessa leið: A man (Sandler) who lost his family in the September 11 attack on New York City runs into his old college roommate (Cheadle). Rekindling the friendship is the one thing that appears able to help the man recover from his grief.


Knocked Up

Sáum þessa í gærkvöldi. Mjög fyndin, eða fíluðum við Ósk amk húmorinn í henni í tætlur. Tekur sig ekki of alvarlega. imdb.com: or fun loving party animal Ben Stone, the last thing he ever expected was for his one night stand to show up on his doorstep eight weeks later to tell him she's pregnant.


Hot Fuzz

Snilldar grínmynd frá gaurunum sem gerðu Shaun of The Dead. imdb.com: Jealous colleagues conspire to get a top London cop transferred to a small town and paired with a witless new partner. On the beat, the pair stumble upon a series of suspicious accidents and events.

Skrifa kannski um fleiri myndir síðar, en ég mæli amk hiklaust með þessum þremur. :)

Maggi.

fimmtudagur, september 13, 2007

Netþurrð

Ég lofa að blogga þegar við erum komin með netið heima, en það gengur eitthvað brösulega. Við pöntuðum það um leið og við vissum hvar við myndum búa og áttum að fá það í gang í gær, en við höfðum engan útbúnað fengið eins og þeir voru búnir að lofa! Vonandi reddast það fljótlega. Annars allt gott að frétta, búin að koma okkur mjög vel fyrir í íbúðinni og við erum ótrúlega sátt með hana! Alveg fullkomin fyrir okkur og við komum öllu dótinu okkar fyrir. :) Skólinn gengur ágætlega, nóg að gera og flestir tímarnir mjög áhugaverðir. Meira síðar! :)

Maggi.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Góða ferð, góða ferð, góða feeeeerð!

Svo mæltu Stebbi og Eyfi og voru eflaust að tala til mín og Óskar. Við förum til Danmerkur næsta sunnudag til að takast á við þriðju önnina okkar í Medialogy. Við höfum reynt hörðum höndum allan mánuðinn að redda okkur íbúð í Köben og það var ekki fyrr en núna um helgina að við höfðum erindi sem erfiði. Og gott betur en það! Við fengum æðislega íbúð, ódýra, á fínum stað. Það er hægt að sjá myndir af íbúðinni hér á robinhus.dk og hægt er að sjá staðsetningu hennar með hjálp findvej.dk. Það er virkilega almennilegur gaur sem á hana og vildi hjálpa einhverjum góðum stúdentum með því að leigja ódýrt á meðan hann reynir að selja íbúðina. Jon vinur okkar úr skólanum fór og spjallaði við hann og skrifaði undir samning í okkar nafni, þannig að allt er klappað og klárt!

Eini ókosturinn er nafnið á hverfinu og götunni. Það er ekki nóg með að við búum í Rødovre, þá búum við á Rødovrevej! Og fyrir þá sem ekki vita, þá er mjööög erfitt að segja Rødovre með réttum dönskum hreim! Það er ekki sjens að Danirnir skilji okkur ef við segjum þetta með íslenskum hreim, þannig að við erum í vondum málum ef við ætlum að taka leigubíl heim til okkar. Ósk stakk uppá því að við búum okkur til plöstuð kort með heimilisfanginu okkar á! Ætli það sé ekki besta lausnin.

Maggi.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Maggi Simpson

mánudagur, júlí 23, 2007

Roskilde, Taður o.fl.

Eins og aðrir bloggarar vita þá verður alltaf erfiðara að blogga því lengra sem líður frá því að maður bloggaði síðast. Í það minnsta þeir bloggarar sem segja frá því sem á daga þeirra drífur. En það þýðir ekki að leggja árar í bát og gefast upp heldur bretta upp ermarnar og gefa 110%.

Við fórum á Hróarskeldu. Hún var blaut, drullug og skemmtileg. Björk, Arcade Fire og Muse voru bestu tónleikarnir eins og við bjuggumst við. Í staðinn fyrir að setja myndir á netið setti ég myndir í TVF (Tímarit Víkurfrétta) og þið getið nálgast það í sjoppum og matvörubúðum hér á Suðurnesjum. :)

Síðan við komum heim hefur ýmislegt gerst líka. Hið árlega, opna, alþjóðlega Biggapúttmót var haldið fyrir rúmri viku síðan og ég kom, sá og sigraði með því að byrja fyrstu 18 holurnar á 6 undir pari. Það hef ég ekki gert áður og verður erfitt að leika eftir. Á mánudaginn fyrir viku átti ég afmæli og fyrst fjölskyldan mín var öll annað hvort úti á landi eða í Danmörku þá fékk ég Óskar fjölskyldu lánaða. Ósk eldaði fyrir mig og bakaði köku og hvort tveggja var mjög vel heppnað. Ég fékk líka fullt af pökkum og þar stendur hæst svona harður diskur frá Ósk. Algjör snilld því hann er pínulítill og það þarf ekki að stinga honum í samband við rafmagn. Mælimeðissu. :) Eftir afmælismatinn fórum við í keilu og það var mjög gaman! Nokkrir lögðu leið sína í Öskjuhlíðina alla leið úr Keflavík og nokkrir úr Reykjavík líka.

Um helgina fórum við svo í hinn árlega AfmælisTað og var hann virkilega vel heppnaður. Þar fékk ég enn fleiri pakka, og hæst ber þar að nefna 4.7 kg Toblerone! Rosalega, rosalega, rosalega stórt! Mikið hlegið að því sem og öðru sem gerðist um helgina. Takk fyrir mig og takk fyrir komuna allir sem mættu!

Vinnan hefur gengið vel og hefur mikið snúist um golf. Og það mun ekki linna mikið á næstunni, Íslandsmótið í golfi verður haldið á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði um helgina og ég verð þar alla fjóra keppnisdagana að skjóta og klippa vídjó.

Hmm, þetta varð nú ekki jafn langt og ég bjóst við! Enda var þetta farið á hundavaði. Kannski ég bloggi aftur fljótlega. Hver veit! Ekki ég.

Maggi.

laugardagur, júní 30, 2007

Roskilde Festival

Eftir fyrstu Hróarskelduna mína sagði ég að ég myndi fara næstu tíu árin. Þetta er fimmta árið og ég er ekki enn búinn að sleppa hátíð! Við erum að leggja af stað rétt á eftir. Vonandi rætist veðurspáin EKKI. :) Sjáumst á Íslandi.

Maggi.

föstudagur, júní 29, 2007

25. kafli

Þegar við skildum við Magnús síðast var hann í miðjum prófundirbúningi í hitabylgju í Kaupmannahöfn. Það er heldur betur búið að skipast veður í lofti síðan þá. Það er komin rigning. Við skyggnumst inní hugarheim hans...

Já við erum búin að standa í ströngu síðan ég bloggaði síðast. Prófin okkar gengu vel. Við vitum ekki enn hvað við fáum í forritunarprófinu en náum eflaust bæði, við náðum bæði stærðfræði (engin einkunn í því fagi, bara fallið eða náð), og fengum bæði flotta einkunn í stóra lokaprófinu.

Um leið og prófin kláruðust fór að rigna og hefur rignt síðan! Eða því sem næst. Við erum reyndar alveg sátt við það svo lengi sem rigningin teygir sig ekki yfir Hróarskeldu. Veðurspáin er búin að breytast fram og til baka undanfarna daga og við vitum eiginlega ekki við hverju við eigum að búast. En að öllum líkindum verður sitt lítið af hverju, smá rigning, smá sól. Eflaust smá drulla. En bara smá.

Undanfarin vika er búin að fara í að pakka, þrífa og flytja. Og í þessum skrifuðu orðum er allt sem við eigum pakkað, þrifið og flutt! Við erum búin að afhenda lyklana og fá "thumbs up" á þrifin okkar og ástand íbúðarinnar. Kolla, Birna og Camilla voru svo frábærar að geyma allt dótið okkar í sumar og það var flutningabíll frá Rent-A-Wreck sem hjálpaði okkur að flytja dótið til þeirra.

Næst á dagskrá er svo... Hróarskelda! Og við stefnum á að hún verði góð. Vonandi eruð þið heima ekki að drukkna í umferðinni, er búinn að heyra hryllingssögur af undanförnum ferðahelgum. :)

Maggi.

föstudagur, júní 08, 2007

Snertanlegt hljóð

24°C hiti í dag. Heitara á morgun. Búið að vera svipað undanfarna daga og er ekkert að fara að kólna í bráð eins og sjá má á veðurspánni fyrir næstu daga. 25-30°C hiti amk fram á miðvikudag!



Mikið rosalega er erfitt að fá sig til að læra undir próf í svona hita. Hvað þá forritun sem er búin að vera hrikalega leiðinleg þessa önnina. Forritun getur verið fín, en þetta snýst allt um að búa til "diagrams" og skipuleggja sig og einhver leiðindi.

Í dag fórum við á Sound Days, þar sem einhverjir skólar og listamenn sýndu ýmis verk sem tengjast hljóði. Hópurinn hennar Óskar fór með lokaverkefnið sitt fyrir þessa önn sem snýst um að gera hljóð snertanlegt. Þau stálu senunni og fengu virkilega jákvæð viðbrögð hjá öllum, jafnt krökkum sem gamalreyndu fólki í hljóð-bransanum. Við fengum okkur líka ís og spiluðum Hacky Sack og höfðum það notalegt í skugganum. Frábær dagur. Þegar við komum heim gerði ég við hjólið mitt og við ætlum að hjóla í skólann á morgun í hitanum. Held að við verðum að taka fram sólvörnina. :)

Over and out!

Maggi.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Búin, loksins búin

Þá er lokaverkefnið á enda. Um leið og við erum búin að ná andanum aftur þá hefst þriggja vikna prófatörn. Þrátt fyrir að skýrslan hafi ekki verið tilbúin fyrr en kvöldið fyrir skil þá náði ég að eyða nóttinni í að búa til smá vídjó fyrir verkefnið. Þetta er nú hvorki stórt né mikið vídjó en við lentum í eintómu veseni við að búa það til og þessvegna tók það alla nóttina. Hér er afraksturinn.





Maggi.

miðvikudagur, maí 30, 2007

Vf.is Widget

Á meðan ég er ekki að vinna að lokaverkefninu mínu þá bý ég til Widget! Hér er Vf.is Widget sem sýnir nýjustu greinarnar á síðunni. Þið Suðurnesjafólk sem notið makka getið sótt hann hér! Hér sjáið þið svo framan og aftan á Widget-inn.





Maggi.

þriðjudagur, maí 29, 2007

Fallegt lag fyrir svefninn

Alexi Murdoch er mjög hugljúfur og skemmtilegur tónlistarmaður. Hér er lag með honum sem heitir Orange Sky af plötunni Time Without Consequence.



Maggi.

Lokaspretturinn

Tveir dagar eftir af lokaverkefninu! Brjálað að gera.



Maggi.

mánudagur, maí 28, 2007

A-N-DRÉ-S!

Það klikkaði fyrir mánuði síðan að setja inn myndbandið sem við gerðum fyrir hann Andrés. Ef einhver vanmetur þá vinnu sem fer í að gera tónlistar myndband þá... ég veit ekki alveg hvernig ég ætlaði að klára þessa setningu. En það er amk mikil vinna! :D Þrátt fyrir að eitthvað skorti uppá sönghæfileikana hjá okkur sem gerðum myndbandið þá er textinn við lagið þeim mun betri. :) Njótið vel!





Maggi.

laugardagur, maí 26, 2007

Widget

Ég rakst á mjög skemmtilegt forrit í gær. Það heitir Dashcode og er það notað til að búa til Widgets á auðveldan hátt. Þeir sem eru makka-notendur þekkja þetta hugtak væntanlega vel en fyrir hina, þá eru þetta lítil forrit sem birtast á skjánum þegar maður kallar á Dashboard, sem er í öllum epla-tölvum.

Að sjálfsögðu stóðst ég ekki mátið og bjó mér til minn eigin Wdget sem sýnir öll nýjustu kommentin á blogginu mínu. Þannig að ég þarf ekki að opna bloggið mitt til að skoða kommentin heldur opna ég bara Dashboard og þar eru þau! Fyrir utan að þetta sparar tíma þá eru líka minni líkur á því að ég missi af kommenti ef einhver kommentar á eldri færslur. Svona lítur Widget-inn minn út:



Ég efast um að einhver sé svo mikil áhugamanneskja um bloggið mitt að þau langi í þennan Widget, en hey, af hverju ekki að leyfa ykkur makkafólki að prófa. :)

maggi.tk comments widget

Maggi.

föstudagur, maí 25, 2007

Fleiri getraunir

Þetta var greinilega allt of auðvelt í síðustu færslu. Hér kemur önnur getraun. Í þetta skiptið eru það þrjú mismunandi geisladiskahulstur;



Það er leyfilegt að giska bara á eitt ef þú nærð ekki öllum.

Maggi.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Getraun

Brjálað að gera! Vika í skil á lokaverkefni. Hér er getraun.

Framan á hvaða geisladisk er þessi mynd?
(Ath. þetta er bara lítill hluti af myndinni)



Maggi.

fimmtudagur, maí 17, 2007

One

Ég veit að Metallica or U2 eru sammála mér, þetta orð er til. Hérna er líka sönnun á því! En sumir vilja bara ekki viðurkenna þetta.



Maggi.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Loka

Lokaverkefnið okkar er nú í algleymingi (alltaf hefur mér þótt þetta orð verið vitlaust notað, mér finnst það sem er í "algleymingi" vera mjög auðgleymt, en svo er víst ekki). Við erum í skólanum alla daga þótt fyrirlestrarnir séu löngu búnir og vinnum eins og við ættum lífið að leysa. Þegar þetta er skrifað eru tvær og hálf vika í skil.

Þetta er dæmi um það sem ég hef verið að vinna undanfarna daga og vikur. Þetta er "patch" í forriti sem heitir Max/MSP. Þetta forrit er notað til að búa til tónlist meðal annars en það sem ég sýndi ykkur notum við í verkefninu til að reikna stigin í tölvuleiknum okkar. Þetta er svona einn tíundi af því sem ég er búinn að gera í forritinu. Ég veit þetta lítur illa út (og þess vegna sýndi ég ykkur það!) en þetta er frekar skemmtilegt barasta. Alltaf gaman að kunna eitthvað sem lítur út fyrir að vera rosalega flókið! :)

Allt gott að frétta úr Danmörku. Gott veður flesta daga en við náum að sjálfsögðu ekki að njóta þess. En það styttist í að mánaðarkortin okkar í strætó renni út og þá verður hjólað í skólann á hverjum degi! Þá verðum við sko brún og stælt, bíðiði bara.

Maggi.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Smá próf...

## Update! Könnunin er búin. Til ykkar sem tókuð þátt, takk fyrir! ##

Ég ætla að biðja þig lesandi góður að taka smá próf fyrir mig. Þetta tekur eina mínútu og þú þarft að prófa smá leik og svara svo einni spurningu í lokin. Þetta er á ensku en ég býst nú við því að flestir sem þetta lesa kunni ensku.

Smelltu hér til að taka prófið

Takk fyrir hjálpina! :)
Maggi

"Help, I'm in a nutshell!"

Ég var að lesa blogg hjá manni sem er mjög ósáttur við íslenskukunnáttu þeirra sem vinna hjá mbl.is. Ég er hættur að kippa mér upp við að þar komi fram stafsetningar- og málvillur því þær eru orðnar ansi algengar. En ég varð að röfla svolítið sjálfur um uppsetningu frétta hjá þeim. Þeir taka sig stundum til og setja neðst í fréttina stuttan texta með fyrirsögninni "Í hnotskurn". Maður hefði ætlað að það þýddi að fréttin væri endursögð í mjög stuttu máli fyrir þá sem vilja vita eitthvað um innihald hennar án þess að lesa hana alla. Maður hefði líka búist við því að sniðugra væri að hafa slíkan texta fyrir ofan fréttina svo maður reki ekki augun í þetta þegar maður er búinn að lesa fréttina. Þeir sem eru búnir að lesa alla fréttina ættu heldur ekki að þurfa að lesa hana "í hnotskurn" því þeir eru búnir með hana alla. En þetta er bara það sem mér finnst.

Þeim hjá mbl.is finnst greinilega að fréttin í hnotskurn þurfi ekki að innihalda eina einustu staðreynd sem kom fram í fréttinni heldur eingöngu nýjar staðreyndir. Sbr. þessi frétt:

Hætt við Live Earthtónleika í Reykjavík

Mér finnst þetta alveg fáránlegt. Vonandi átta þeir sig á þessu og breyta þessu fyrirkomulagi.

Í hnotskurn
- Stærsti fíll sem veiðst hefur var 12 tonn og 4.2 metrar á hæð.
- Lake Geneva er stærsta stöðuvatn í mið-Evrópu.
- Susie Hewer á heimsmetið í "að prjóna trefil á meðan maður hleypur maraþon". Trefillinn hennar var 1.2 metrar.


Maggi.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Please wait

Mér fannst þetta fyndið.

Maggi.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Þrívídd á baráttudegi verkalýðs

Ekki versnar það.

Í dag var síðasti dagurinn hans Hilmars hjá okkur hér í Köben og nýttum við hann í að skoða Planetarium Tycho Brahe. Það var mjög fínt, byrjuðum á að fara í þrívíddarbíó í IMAX bíósal og skoðuðum okkur svo um á safninu og fræddumst um stjörnufræði. Svo var meira þrívíddarbíó, bæði rússíbani og safarí í Afríku, en safaríið var toppurinn á þessari heimsókn að mínu mati. Ótrúlegar myndir af fílum í návígi og ennþá ótrúlegra að sjá þá í þrívídd svona nálægt.

Eftir það fór Hilmar uppá flugvöll en ég og Ósk nýttum bæjarferðina og fórum í Fields og keyptum okkur brauðrist! Hún er búin að vera lengi á innkaupalistanum en við fundum ekki þá réttu (lesist; nógu ódýra) fyrr en í dag.


Hver man ekki eftir þessum?

Framundan er brjáluð vinna við að klára lokaverkefnið sem á að skila í lok mánaðarins. Nóg er eftir og því þurfa hóparnir okkar að láta hendur standa fram úr ermum ef við viljum skila góðum verkefnum. Báðir hóparnir voru með þeim hæstu á síðustu önn og vonandi verður engin breyting þar á.

Maggi.

mánudagur, apríl 30, 2007

Einkahúmor

Það leiðinlega við að blogga á hverjum degi er að maður fær svo fá komment! Hér kemur myndbandið sem við gerðum fyrir hann Jóa. Það er stuttmynd og fjallar um nokkur umtöluð atriði í hans lífi. Þetta er frekar mikill einkahúmor þannig að ætli það séu ekki mest þeir sem þekkja Jóa sem hafa gaman að þessu.




Maggi.

sunnudagur, apríl 29, 2007

Göngutúr







Hilmar pabbi hennar Óskar er í heimsókn hjá okkur og við röltum um borgina og skoðuðum nokkra fræga túristastaði, til dæmis Nyhavn og Litlu hafmeyjuna. Það var frábært veður eins og er búið að vera undanfarna daga og þetta var mjög góður göngutúr. Í kvöld er svo planið að horfa á mafíósamyndina The Departed og hafa það gott. Vonandi var þessi sunnudagur hjá ykkur jafn næs og hjá okkur.
Maggi.

laugardagur, apríl 28, 2007

Nýjung(agirni)

Það eru ár og aldir síðan ég hef gert eitthvað nýtt á blogginu mínu og það var því heldur betur kominn tími til. Ég bjó til smá Flash sem birtir nýjustu bókamerkin sem ég set inn í Firefox. Ég rakst nefnilega um daginn á síðu sem heitir því óþjála nafni del.icio.us og er mikið notuð af fólki sem vill hafa bókamerkin sín á netinu svo hægt sé að nálgast þau úr öllum tölvum. Auðvitað langaði mig að prófa þetta og ákvað að deila því sem mér finnst vert að muna með fólkinu sem les bloggið mitt. Þannig að ef þú kemur hér inn og ég hef enga færslu skrifað (sem er þó harla ólíklegt) þá getur þú fundið einhverja afþreyingu í að kíkj á linkalistann hér á hægri hönd. :)
Maggi.

E.s: Það eru víst smá byrjunarörðugleikar á þessu. Endilega látið vita hvort þetta virkar hjá ykkur og hvaða stýrikerfi og vafra þið eruð að nota. (Gæti verið að þú þurfir að leyfa pop-up fyrir þessa síðu.)

föstudagur, apríl 27, 2007

Sumar

Þetta er ekki amalegt.



Það er heldur betur farið að vora hjá okkur, jafnvel hægt að segja að sumarið sé komið í allri sinni dýrð. Verst að við þurfum að hanga inni í heilan mánuð í viðbót og vinna að lokaverkefninu okkar. Eftir það taka við þrjár vikur af prófum. Síðustu vikuna í júní þurfum við svo að flytja úr íbúðinni okkar. Eftir það er það Hróarskelda og svo heim! Jább, ákvörðunin er tekin, við munum fara á Hróarskeldu. Það eru verðlaunin okkar eftir fyrsta árið okkar í skólanum. Gott að taka sér pínulítið frí áður en maður fer svo heim til að vinna í allt sumar. Við Ósk vinnum á sömu stöðum og í fyrra og allt stefnir í mjög gott sumar. Ekki verra að byrja það á smá hitabylgju! :p

Maggi.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

X-Moto

Ég og fleiri höfum endurvakið gamla fíkn á þessari önn en fíknin hefur nú breytt um nafn. Hún hét áður Elasto Mania, æðislegur mótorhjólaleikur sem var mjög undarlegt að stjórna. Það er komin ný útgáfa af þessum leik og heitir hann X-Moto.



Það er alveg merkilegt hvað maður getur festst í honum og tíminn flýgur frá manni ef maður álpast til að opna hann. Leikurinn er ókeypis og má hann finna hér:

Sækja X-Moto

Svo hef ég ákveðið að setja inn vídjóið hans Andrésar sem átti afmæli um daginn. Textinn er mun betri en söngurinn! :p





Maggi.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

DVD

Ætlaði ég annars ekki að byrja á blogg átakinu í dag? :) Það er margt búið að drífa á daga okkar undanfarið. Sista mamma hennar Óskar kom í heimsókn til okkar um páskana og fjölskyldan hans Bigga líka! Það var mjög gaman, fjölskyldupáskar og auðvitað ofát á íslenskum páskaeggjum og meira að segja íslenskt lambalæri og hangikjöt á boðstólnum líka!

Eftir páskana tók við mikil vinna við að klára myndbönd sem við höfðum ákveðið að gera í tilefni af 25 ára afmælum Jóa og Andrésar. Jói átti reyndar afmæli í mars en við náðum ekki að klára myndbandið í tæka tíð eftir að afmælinu var flýtt. Það kom þó ekki að sök því við gerðum myndböndin bara á sama tíma og sýndum þau í afmælinu hans Andrésar sem var haldið síðustu helgi. Það var virkilega vel heppnað og þeir voru mjög ánægðir með gjafirnar sínar. Við bjuggum líka til DVD-cover fyrir myndirnar og DVD diska með alvöru valmynd og aukaefni og flottheitum. Ég set kannski myndböndin hérna inná fljótlega til að halda smá spennu í þessu en til að byrja með set ég DVD coverinn hér inn.

DVD-hulstrið hans Andrésar.
DVD-hulstrið hans Jóa.

Maggi.

mánudagur, apríl 23, 2007

Metnaður

Ég get sko svarið það. Ég er búinn að blogga á hverjum degi í þennan mánuðinn en einhvernvegin tekst blogger að henda út hverri færslunni á fætur annarri! Það virðist vera að ég hafi ekki bloggað síðan 25. mars!

...neeeeiii, ég fæ mig ekki til þess að ljúga að ykkur. Þetta er leti. Það má kalla það blogg-leti, skrif-leti eða bara almenna leti. Ég er ekki búinn að blogga í tæpan mánuð og það er skammarlegt! Ég ætla að bæta úr því. Það besta er að setja markmið eins og ég gerði um daginn. Eitt blogg á dag í amk viku! Höfum það amk átta daga svo það sé nú meira en síðast. :)

Í tilefni þess hvað ég ætla að vera duglegur næstu daga þá ætla ég að láta hér staðar numið. Meira á morgun!

Maggi.

sunnudagur, mars 25, 2007

Our House, in the middle of our street!

Hvað var Dr. House að gera á miðri götunni?

Einar Freyr var nokkuð nálægt því að finna lausnina á gátunni! Þar sem það var ekki til nein ákveðin lausn þá fær hann verðlaunin. Verðlaunin eru sú að hann fær ókeypis áskrift að blogginu mínu til ársins 2015. Til hamingju Einar! Lausnin hans Einars var:

Will heaven fix a knife for the tree to win?
No, heaven will fix 7654321 knives to win.

Önnur lausn hefði getað verið;

Will heaven fix a knife for the tree to win?
Yes, seven will six a five four the three two one.

En nóg af þessu bulli. Þetta er Ísland.




Ég bjó til vídjó sem mun spilast á undan fréttum í Vef-TV-inu á vf.is. Það er ekki enn komið í notkun en fylgist með og sjáið hvað mér tókst að galdra fram með After Effects.

Við týndum klukkutíma í dag! Þannig að núna erum við hér í Danmörku tveimur tímum á undan ykkur á Íslandi.

Þetta er ein samhengislausasta færsla á þessu bloggi.

Maggi

miðvikudagur, mars 21, 2007

Hint

Heaven, fix, knife, for, tree, to, win.

Maggi.

sunnudagur, mars 18, 2007

Gáta

Mér datt í hug kjánaleg gáta í gær. Hún hljóðar svona:

Will heaven fix a knife for the tree to win?

Ég veit hún hljómar ekki einu sinni eins og gáta, en það er samt til lausn á henni.

Þetta tókst hjá mér! Að blogga einu sinni á dag í eina viku. Reyndar fylgdi svo vika þar á eftir sem ég bloggaði ekki neitt. Vá hvað tíminn er fljótur að líða! Það er alveg ótrúlegt. Það er miður mars, það eru að koma páskar! Ég skil bara ekkert í þessu.

Síðustu helgi fórum ég og Biggi til Horsens í afmælið hans Jóa. Það var vel heppnað, mikið af fólki og góð stemmning. Ég gaf Jóa dónapúðann í afmælisgjöf. Þeir sem fatta djókinn fatta hann, hinir fatta hann ekki.

Annars er lítið að frétta. Nóg að gera í skólanum og á öðrum vígstöðvum. Við erum farin að hjóla í skólann og það er komið vor! :)
Maggi.

laugardagur, mars 10, 2007

Myspace

Myspace.com er ekkert sérlega falleg heimasíða. Á Myspace eru kringum 100 milljón notendur og eiga þeir hver sína síðuna. Maður hefði haldið að Myspace myndi hjálpa notendum að búa til síður sem líta ágætlega út en því miður, þvert á móti, þá eru síðurnar hjá þessum 100 milljón notendum virkilega ljótar. Myspace gefur notendum lausan tauminn við það að hanna síðurnar sína og þar sem fæstir þeirra eru vefhönnuðir þá er útkoman sú að þessar 100 milljón síður eru hver annari ljótari. Þetta er gríðarleg afturför á netinu, og minnir mann helst á árabilið 1998-2001 þegar fólk var að uppgötva að það gæti búið til heimasíður og tróð þær fullar af GIF myndum og öðrum óþverra.



Jájá, Myspace er æðislegt, og þú getur sýnt öllum heiminum að þú eigir átta þúsund vini og þröngvað uppáhalds laginu þínu uppá alla þá sem heimsækja síðuna þína sama hvort þeir vilji það eða ekki. En ég fatta þetta bara alls ekki. Maður á kannski ekki að dæma bók eftir kápunni en ég geri það hiklaust í þessu tilfelli. Mér finnst Myspace síður pirrandi, virkilega ljótar og illa upp settar og ég fer sjaldnast inná þær. Hver einasta síða lítur út fyrir að vera hönnuð af 12 ára stelpu sem reyndi að troða eins miklu rusli og hún gat inná hana og hefur ekki hundsvit á vefhönnun. Ef þú, lesandi góður, átt Myspace síðu sem er með þungum bakgrunni sem scrollast ekki niður með textanum, textinn á síðunni er í mörgum litum og vart læsilegur útaf bakgrunninum, og það spilast sjálfkrafa lag þegar maður kemur inná síðuna, gerðu þá öllum greiða og lagaðu þessa hluti á síðunni, eða lokaðu henni með öllu.
Maggi.

föstudagur, mars 09, 2007

Rétt slapp!

Já, það er vesen að setja sér eitthvað svona markmið og svo er maður næstum því búinn að klúðra því. Ég er nú bara farinn að sötra bjór því vinkonur Óskar og Arndísar eru í heimsókn og við ákváðum að gera okkur glaðan dag. Á morgun er svo planið að kíkja til Horsens í amælisveislu hjá Jóhannesi Bjarna Bjarnasyni vini okkar Bigga. Stelpurnar verða eftir til að skemmta hinum stelpunum en við Biggi mætum til Horsens og tryllum lýðinn. Það verður stuð. Vonandi verður helgin ykkar skemmtileg. :)
Maggi.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Norsk hrísgrjón

Fyndið hvað maður dæmir vörurnar sem maður kaupir mikið af pakkningunum. Maður hefur kannski ekki hugmynd um gæði einhverrar vöru en ef pakkningin lítur vel út þá bara hlýtur þetta að vera eðal-vara. Við keyptum okkur hrísgrjón um daginn. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema af því að þegar kom að því að sjóða þau kom babb í bátinn.



Pakkinn leit mjög vel út, professinal pakkningar ef svo má að orði komast. En þegar kom að því að lesa leiðbeiningarnar aftaná var augljóst að það hafði ekki mikið verið vandað til verks. Það fer eftir því í hvaða landi maður er hversu lengi maður á að sjóða grjónin.

Í Svíþjóð skulu þau sjóða í 15 mínútur og malla undir loki í 5 mínútur. Í Danmörku hinsvegar eiga grjónin að sjóða í 10 mínútur og svo heilar 10-15 mínútur undir loki. Norðmennirnir eru hinsvegar á því að grjónin eigi að sjóða í 15 mínútur og malla svo í 3-5 mínútur undir loki. Svo er pæling með aðra hluti eins og hvort það eigi að vera akkúrat 1/4 teskeið af salti eða bara um það bil. Þetta geta norrænu þjóðirnar ekki verið sammála um.



Ég sauð að lokum bara hrísgrjónin þar til mér fannst þau vera tilbúin.
Maggi.

miðvikudagur, mars 07, 2007

House-Cola

Við Ósk vorum að horfa á þáttinn okkar, House, í dag og Ósk fattaði eitthvað í þættinum sem ég fattaði ekki. Hún sagði mér hvað það var og ég sagði "Vá hvað þú ert klár!". Þá sagði hún "Ég veit, enda er ég í háskóla!" Við litum á hvort annað og föttuðum brandarann á sama tíma... "House-Cola!"

Já svona erum við með góðan húmor. Ég vildi að það væri til House-Cola, ég myndi drekka það.



Mouse.

P.s: Við ætlum á Hróarskeldu! Ósk bloggaði um það.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Kaupmannahöfn

Hér er mynd af Kaupmannahöfn og inná hana er ég búinn að merkja hvar við eigum heima og hvar skólinn okkar er. Við erum 20 mínútúr niður í miðbæ með strætó, og svipað á leiðinni í skólann. Við erum mjög sátt við þessa staðsetningu og langar helst ekkert að fara frá Brønshøj.



Stutt og laggott í dag.
Maggi.

mánudagur, mars 05, 2007

In Theaters July 2007

Mér hefur alltaf þótt The Simpsons skemmtilegir þættir og um tíma var ég meira að segja aðdáandi og tók alla þætti sem ég gat upp á spólu. Ég átti einhverjar tíu fullar spólur af þáttum sem er nú ágætis slatti. En svo flutti Simpsons yfir á Stöð 2 og við vorum aldrei með Stöð 2 á mínu heimili. Ég reyndi stundum að sjá þættina hjá vinum sem voru betur settir í sjónvarpsmálum en að lokum hætti ég að reyna. Ef ég slysast til að sjá þátt þá þykir mér það skemmtilegt en ég sækist ekki í það eins og áður. Í sumar kemur hinsvegar hin langþráða Simpsons bíómynd og þá held ég að gamall aðdáandi vakni nú til lífsins og maður skelli sér í bíó, með popp í annari og kók í hinni og hlægi að öllum gömlu vinunum í Springfield. Sýnishornin sem búið er að gefa út lofa mjög góðu og mæli ég með að fólk kíki á þau hér.



Dagur tvö og enn blogga ég! Svei mér þá, þetta er nú ekki svo erfitt. Kannski ég taki tvö blogg á dag í næstu viku. Eða eitt blogg á klukkutíma! Eða ég eyði öllu mínum tíma að röfla hérna inná þannig að enginn nenni nokkurntíman að lesa alla þessa vitleysu!! AAAAAAAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!!!

Nei, ok, ég lofa að gera það ekki.
Maggie.

sunnudagur, mars 04, 2007

Heit

Ég ætla að blogga á hverjum degi í þessari viku! Það er sunnudagur í dag og er hann að mestu búinn að fara í leti. Ég er að reyna að losna við þessa pest sem ég fékk og er því búinn að hanga uppí rúmi og sofa mikið og horfa á House. Ég og Ósk erum alveg búin að missa okkur í House, mjög fínir þættir. Fyrir þá sem ekki vita er House læknir sem er kaldhæðinn og leiðinlegur við fólk en hefur næstum alltaf rétt fyrir sér. Sem sagt alveg óþolandi, en maður elskar að hata hann af einhverjum ástæðum.

Ósk fór út í búð í gær og ég var eftir heima útaf veikindunum (aftur, ekki kindur sem segja vei (ég elska þennan brandara (ætli það sé löglegt að gera sviga innan sviga (kannski má allt þegar maður bloggar)))) og hún var svo sæt að kaupa handa mér blóm! Páskaliljur meira að segja enda styttist í páskana. Eggin komin í hillur búðanna og... já, eggin komin. Kannski ekki margt sem breytist þegar páskarnir nálgast. En maður getur átt von á því að fá blóm! Hér er mynd af blómunum því til sönnunar:



Hvernig ætli þetta gangi, að blogga á hverjum degi? Mun Magga takast ætlunarverk sitt? Er þetta dæmt til að mistakast? Fylgist spennt með. Hvatningarorð eru vel þegin í kommentkerfið.
Maggi ofurbloggari.

laugardagur, mars 03, 2007

Partý

Eyjólfur Ásberg er í heimsókn frá Íslandi og ætlum við því að bjóða fólki heim í kvöld. Því miður verð ég takmarkað með í gleðskapnum vegna veikinda. Nei, það eru ekki kindur sem segja vei, heldur óþverraskítur í hálsinum á mér og nefinu. Ég var slæmur þegar ég vaknaði í morgun, en er skárri núna. Það verður samt eflaust gaman að fá fólk í heimsókn.
Maggi.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Sjaldan er ein báran stök

Það var ofsaveður í Danmörku í síðustu viku. Það heitir a.m.k. ofsaveður á danskan mælikvarða en þætti nú ekki stórmál á Íslandi. Í Danmörku er nefnilega enginn á vetrardekkjum og Danir kunna ekki fyrir sitt litla líf að keyra í snjó. Það fara allar samgöngur á annan endann og allt er ómögulegt. Það kom okkur samt á óvart að við skyldum fá póst frá skólastjórnendum á miðvikudaginn um að öll kennsla yrði felld niður daginn eftir. Við vorum ánægð með þær fréttir enda var ég að drukkna úr vinnu bæði frá skólanum og vinnunni minni hjá Víkurfréttum. Ég fékk því aukadag til að sinna þeim skyldum.

Á fimmtudaginn var svo fínasta veður, og við hefðum fengið samviskubit yfir því að mæta ekki í skólann á svona degi ef ekki hefði verið fyrir það að okkur var skipað að vera heima. En það kom okkur virkilega á óvart að fá aftur póst um það að öll kennsla væri felld niður á föstudeginum líka! Við sáum því fram á rólega fjögurra daga helgi og ákváðum að horfa á bíómyndirnar sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna yfir helgina. En...

Það vildi svo óheppilega til að hleðslutækið mitt fyrir tölvuna eyðilagðist. Það var of mikið álag á snúruna og hún juðaðist í sundur. Það væri svosem allt í lagi því Ósk á eins tölvu og eins hleðslutæki. En sama dag eyðilagðist líka hleðslutækið hennar! Það of-hitnaði því það lenti undir sæng og vildi ekki virka eftir það. Við vorum því tölvulaus á föstudeginum og ákváðum að fara niður í bæ í Apple búðina að athuga hvort þeir vildu laga þetta fyrir okkur. Þeir vildu heldur betur ekki samþykkja það og það var ekki fyrr en Hilmar, pabbi hennar Óskar, fór í Apple búðina á Íslandi og athugaði þetta fyrir okkur að þeir loksins samþykktu að taka við biluðu hleðslutækjunum. Það var íslenskur kvenskörungur sem vinnur hjá Apple sendi þeim harðort bréf þannig að þeir gátu ekki annað en samþykkt þetta.

Við ætluðum svo að redda bíómyndamaraþoninu með því að sækja myndirnar uppá nýtt og horfa á þær í tölvunni hans Bigga. Biggi sótti myndirnar og við hófumst handa við maraþonið á laugardeginum með The Queen sem var tilnefnd sem besta mynd. En þegar myndin var tæplega hálfnuð slökkti skjávarpinn á sér! Ég reyndi allt sem mér datt í hug til að koma honum í gang, en það kom í ljós að peran er ónýt! Hún var ekki einu sinni búin að duga eins lengi og hún átti að gera, heldur sprakk hún bara eða eitthvað. Svona pera kostar vel yfir 20 þúsund kr. Þannig að við fórum að þrífa húsið í staðinn. Bíómynda-maraþonið hélt svo áfram á 14 tommu skjánum hans Bigga, ekki alveg það sama og 110 tommurnar sem skjávarpinn sýndi.

Óskarsverðlaunin redduðust líka, horfðum á þau í tölvunni hans Bigga og það var mjög gaman að hafa séð svona mikið af myndunum sem voru tilnefndar. En þessi óvænta fjögurra daga helgi varð ekki jafn skemmtileg og hún hefði getað orðið. Raftækin voru ekki með okkur í liði.
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Gestagangur

Það er heldur betur nóg að gerast á Edelsmindevej þessa dagana. Síðustu helgi voru Einar Þorgeirs og Birna kærastan hans í heimsókn hjá okkur og það var mjög skemmtilegt. Oftar en ekki rammíslensk gítarstemning og fjör. Þau fóru aftur á klakann á mánudaginn en þá tóku við Jóhann Már, Bebba og Hjörleifur! Þau eru búin að lifa í vellystingum hér í Köben og hafa tekið veitingastaðinn Kalaset ástfóstri. Það er reyndar ekkert skrítið þar sem það er ótrúlega góður matur þar.

Stuttu eftir að við vorum búnir með lokaprófið urðum við strákarnir í hópnum varir við það að vídjóið sem ég gerði fyrir Bomberman verkefnið var orðið ansi vinsælt á netinu. Einhver hefur greinilega séð vídjóið og haldið að gefa ætti leikinn út! Þannig komst vídjóið inná GameTrailers.com og þar stóð að útgáfudagur væri ekki vitaður á þessum nýja Bomberman leik. 65 þúsund manns sáu vídjóið á nokkrum dögum á þessari síðu og við fylgdumst spenntir með tölunni hækka.

Það linkuðu líka margir á YouTube.com þar sem vídjóið var staðsett líka og 41 þúsund manns hafa séð það þar. Ef maður googlar Bomberman Evolved þá getur maður fundið yfir 20 leikjasíður á hinum ýmsu tungumálum, sumar risastórar, sem hafa fjallað um leikinn. Margar þeirra hafa comment kerfi og við höfum fengið ótrúlega góð comment frá allskonar fólki. Flestir vilja prófa leikinn og finnst þetta geggjuð hugmynd. Ótrúlega gaman að fá svoleiðis undirtektir, sérstaklega hjá fólki sem skoðar svona leikjasíður og er greinilega mikið inní svona málum. Þannig að það hafa yfir 100 þúsund manns séð vídjóið sem ég vann einn frá byrjun til enda! Maður verður nú bara að monta sig pínulítið af því. :)

Annars er allt gott að frétta af okkur, nýja önnin komin á skrið og okkur líst bara vel á þetta allt saman. Önnin snýst um sensors annars vegar og audio design hins vegar. Hópurinn minn gerir líklega aftur nýja leið til að stjórna tölvuleik, en það hefur reynst okkur erfitt að komast að niðurstöðu um hvað okkur langar að gera. Sama hvað það verður þá verður þetta eflaust mjög áhugaverð og skemmtileg önn eins og sú fyrsta.
Maggi.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Próflok

Þá er maður búinn í prófum! Þetta var ágætis törn þótt prófin hefðu ekki verið mörg. Forritunarprófið var í byrjun mánaðarins og við erum nýbúin að fá útúr því prófi. Við Ósk fengum bæði 11 í einkunn sem er hæsta einkunn fyrir utan 13 sem er sjaldan gefin. Við erum að sjálfsögðu hæstánægð með þann árangur! :)

Svo tók við undirbúningur hjá mér fyrir stærðfræðipróf. Ég frétti viku fyrir prófið að það væri engin einkunn gefin heldur bara fall eða staðið. Og ég náði prófinu og allir í stærðfræðihópnum mínum þannig að það var bara ánægja með það.

Á mánudaginn fór hópurinn minn svo í síðasta prófið sem snýst um að verja lokaverkefnið og að svara spurningum úr þremur áföngum í skólanum. Fyrst fluttum við 50 mínútna kynningu á verkefninu okkar og eftir það var hópurinn spurður útí kynninguna og verkefnið. Það tók bara 15 mínútur og eftir það fór hver og einn inn í 20 mínútur og svaraði spurningum. Kennarinn og prófdómararinn voru svo sáttir með okkur að við fengum allir 13! Það þarf vart að taka það fram að við vorum ótrúlega sáttir með það og alveg steinhissa bara því við vorum hættir að láta okkur dreyma um þá tölu. 13 er mjög sjaldan gefin því maður þarf að sýna framá framúrskarandi hæfni og hæfni umfram það sem er kennt í námsefninu.

Við vorum líka á síðasta sjens að fá þessa einkunn því eftir þessa önn verður kerfinu breytt og hæsta einkunnin verður 10 eins og á Íslandi. Þetta er því líklegast hæsta einkunn sem ég fæ á skólaferli mínum. Núna er ég á leiðinni heim til eins hópfélaga míns að spila póker og fagna próflokum og góðum einkunnum. Á laugardaginn verður svo próflokapartý hjá Kollu, Birnu og Camillu og þá fær fólk að sletta úr klaufunum eftir að hafa legið yfir námsefninu allan mánuðinn.

Kveðja úr kuldanum í Danmörku, aldrei þessu vant er mun kaldara hér en á klakanum!
Maggi.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Dramantík í krummaskurði

Já það var sko heldur betur dramantík um daginn í krummaskurðinu. Þannig var mál með vexti að einn af leigjendunum í Penthousinu hefur misskilið þessi tvö orð frá barnæsku. Það eru nokkur ár síðan þetta með krummaskuðið kom uppá yfirborðið en það var nýleg að dramatíkin gerði vart við sig. Skrítið hvað maður tekur ekki eftir svona hlutum. Maður sér þessi orð nú sjaldan á blaði og það er ekki hægt að heyra mun í framburði.

Það hefur samt farið í taugarnar á mér misskilningur sem ég hef tekið eftir í nokkurn tíma. Það er þegar fólk víxlar orðunum 'fyrst' og 'víst' í samhenginu "Fyrst ég er að þessu þá get ég alveg eins gert hitt." Margir segja alltaf "Víst ég er að þessu þá get ég alveg eins gert hitt.". Ég hef minnst á þetta við nokkra og iðulega trúir fólk ekki að einhver segi þetta. En reynið að taka eftir þessu. Ef einhver sem þetta les segir 'víst' í staðinn fyrir 'fyrst', kommentaðu þá endilega! :p

Það er allt á fullu í prófalestri á þessum bænum. Ég er að læra fyrir stærðfræðipróf sem er á mánudaginn, og Ósk er að skrifa tvær ritgerðir sem hún á að skila núna á föstudaginn. Fyrsta prófið okkar, í forritun, sem var fyrir tæpri viku síðan gekk bara vel og við vorum sátt. Fáum einkunnirnar úr því síðar í mánuðinum.
Maggi.