...eða í mínu tilviki 34 daga. Skömm að þessu. Skamm Maggi. Skammaggi.
Það er ekki búin að vera lognmolla hjá okkur skötuhjúunum í Rødovre undanfarið. Við höfum í nógu að snúast og það virðist sem listinn yfir hluti sem maður ætti að vera að gera lengist hraðar í annan endan en hann styttist í hinn. Með þessu áframhaldi förum við að eiga eftir það sem við erum búin að gera. Nei það er nú kannski ekki alveg svo slæmt. Við getum samt ekki kvartað yfir því að hafa ekki skemmt okkur reglulega því nú hafa allir viðburðirnir sem ég skrifaði um um daginn átt sér stað, og þeir voru hver öðrum skemmtilegri. Tökum þetta bara skipulega:
19. okt: An Evening with SigurRósSigurRós stóðu fyrir sínu og spiluðu nokkur lög áður en þeir sýndu heimildarmyndina sína "Heima". Þeir spiluðu órafmagnað og það var alveg ótrúlega flott hjá þeim! Ég hef aldrei heirt þá spila þannig áður (enda hafa þeir aldrei gert það fyrr en nýlega) og eftir myndina sögðu þeir frá því að þetta hafi bara verið útaf tónleikunum sínum hjá Kárahnjúkum þar sem þeir neyddust til þess að prófa það. Það hljómaði líka svona vel að þeir hafa spilað órafmagnað á nokkrum tónleikum síðan. Eftir myndina var semsagt spjall við hljómsveitina og leikstjóra myndarinnar þar sem áhorfendur gátu spurt spurninga og það var mjög áhugavert og fékk mann til að sjá hljómsveitina og myndina þeirra í öðru ljósi. Mjög vel heppnað kvöld með SigurRós.
24. okt: Muse í ForumÉg bloggaði síðast þegar við vorum á leiðinni á Muse í Forum, og það var mikill spenningur í okkur. Þeir stóðu fyrir sínu, með flott show, og auðvitað ótrúlega kraftmikla og góða frammistöðu. Lögin þeirra eru svo tónleikavæn að það er engu lagi líkt. Sjúklega mikill troðningur við fatahengið eftir tónleikana setti svip sinn á kvöldið og það leið næstum því yfir Ósk sem hræddi okkur bæði frekar mikið. Það fór samt allt vel að lokum.
7. nóv: Arcade Fire í KB-HallenVið höfðum beðið eftir þessum tónleikum síðan í mars, þegar þeir hættu við tónleikana deginum áður en þeir áttu að vera haldnir. Til að vera örugg með að miðarnir okkar síðan þá væru enn í gildi hafði ég sent Billetlugen, fyrirtækninu sem sá um miðana, póst og spurt hvor svo væri ekki. Þeir staðfestu það og sögðu okkur engar áhyggjur að hafa. Sama dag og tónleikarnir voru, eftir að hafa heyrt að sumir hafi fengið endurgreitt án þess að hafa beðið um það, athuga ég svo kreditkortið mitt í netbankanum og sá að við höfðum fengið miðana endurgreidda í apríl! Ég neitaði að trúa því og við fórum á tónleikana með miðana okkar, og útprentaðan tölvupóstinn frá fyrirtækinu, því við höfðum alls ekkert viljað fá endurgreitt! Eftir að gaur í dyrunum hafði eytt 10 mínútum í símann við einhvern (kannski þann sem sendi mér póstinn) til að athuga hvort við mættum fara inn, var okkur svo hleypt inn. Það voru ófáir sem voru ekki svo heppnir og stóðu fyrir utan með ógilda miða.
En nóg um það! Tónleikarnir voru frábærir, vægast sagt. Við vorum í stúkunni allan tímann, ólíkt Muse tónleikunum en þá vorum við á gólfinu. Það var virkilega skemmtilegt að sjá hvað hljómsveitin skemmti sér vel, og auðvitað er æðislegt að heyra tónlist sem maður þekkir eins og handarbakið á sér spilaða á sviði. Þetta var æðislegt, og skrítið að hugsa til þess hversu litlu munaði að við hefðum ekki fengið að fara inn.
21. nóv: Ísland - Danmörk, EM-forkeppni í ParkenEins og flestir vita eflaust þá tapaði Ísland fyrir Danmörku 3-0 í EM-forkeppninni. Leikurinn skipti þó engu máli því hvorug þjóðin hefði getað komist áfram. Kannski útskýrir það litla aðsókn, en Gilli frændi benti á það í komment-kerfinu að það hefði ekki verið svona lítil aðsókn á landsleik á Parken í 30 ár! Kannski á það bara vel við, því Ísland skoraði síðast mark í landsleik í Danmörku árið 1974, fyrir 33 árum síðan. Við vonuðumst eftir því að þeir næðu að pota boltanum amk einu sinni í netið hjá Baunum, en varð ekki að ósk okkar. Það var samt mjög gaman að prófa að fara á landsleik í fótbolta, og líka á svona stórum leikvangi. Þannig að þetta var mjög gaman þrátt fyrir tapið. :)
26. nóv: múm á Lille-VegaÍ gærkvöldi voru síðustu tónleikarnir okkar í þessari tónleika-hrinu þegar við sáum múm spila á litla Vega. Við höfum ekki hlustað á þá lengi, en höfðum heyrt góða hluti um frammistöðu þeirra á tónleikum og ákváðum því að skella okkur. Þeir stóðu sig mjög vel og þrátt fyrir að við höfum ekki þekkt lögin þá var gaman að sjá hvað þau eru frumleg og hæfileikarík. Þó má segja að upphitunarhljómsveitin Seabear hafi stolið senunni, því við vorum alveg yfir okkur hrifin af þeim og keyptum okkur diskinn þeirra eftir tónleikana. Þau eru líka íslensk og ég held að þau hafi átt einhver vinsæl lög á Íslandi þótt ég viti ekkert hvort fólk viti af þeim eða ekki. Þetta er mjög þægileg og róleg tónlist en hress og skemmtileg inn á milli. Mæli hiklaust með þeim, og auðvitað múm líka. :)
JólÉg kem heim 18. desember en stoppið verður stutt því fyrsta prófið okkar er 4. janúar. Þangað til verðum við á milljón að vinna lokaverkefnið okkar því það er lítið eftir af önninni en við eigum langt í land með að klára verkefnin.
Maggi.