miðvikudagur, október 29, 2003

Pétur


Það fer að styttast í tíunda þúsundið. Þá á ég við heimsóknir á síðuna. Það eru nú ágæt tíðindi í sjálfu sér en það er svolítið síðan að mér varð bara alveg sama hverjir (og hvort einhverjir yfir höfuð) væru að kíkja á síðuna mína. Í byrjun snerist nottla allt um það, trekkja inn einhverjar heimsóknir og svona. Auðvitað er það skiljanlegt að maður sé ekki að blogga á hverjum degi eins og maður gerði, neistinn er að hverfa, og spurning hvort maður nenni að halda þessu áfram mikið lengur. Ekki missskilja mig, ég er ekkert að fara að hætta í bráð, en ég geri þetta fyrir mig og ef mér sýnist svo þá hætti ég bara. En ég hef ennþá gaman að þessu þannig að það er um að gera að halda áfram. En, nú er nóg búið að skrifa um ekki neitt. Tími kominn á að koma sér í rúmið.

Eða nei, ég ætla að segja ykkur eitt enn. Það gerðist alveg óvart að ég fékk skiptivinnu fyrir sunnudaginn, ég þarf að vinna núna á fimmtudaginn í staðinn. Fínt að detta niðrá svona. Það er nú ekkert planað ennþá, en það er alltaf gott að hafa möguleika á að taka sig til og kíkja á lífið ef fólkið í kringum mann er þannig stemmt. Annars er bara svaðalega fínt að hafa frí á sunnudögum, slappa af og gera sem minnst. Ég biðst afsökunnar á þessari innihaldslausu færslu, ég er mjög þreyttur. Góðar stundir.
..:: magz ::..

mánudagur, október 27, 2003

Ég nenni ekki í vinnuna.

Þetta verður mjög stutt færsla.

..:: magchen ::..

laugardagur, október 25, 2003

Ritzkex með Felix


Vá, ég vissi ekki að Felix væri svona cheesy staður. Tók ekkert smá eftir því í gær og reyndi hvað ég gat að losna þaðan. Það gekk illa því vinir mínir vildu vera hjá fallega kvenfólkinu. Það vildi ég líka en var ekki að meika þessa tónlist. Ég skaust aðeins (við þriðja mann) á Kapital og það var ágætt. Svona house tónlist, heldur hæg, hefði mátt vera hraðari hærri og helst í kjallaranum. En það var lokað í kjallaranum þannig að við dönsuðum bara uppi í soldinn tíma og fórum svo aftur til gauranna á Felix. Með stuttu stoppi á hundahótelinu Nellys. Voff. Ákaflega slappt þar enda kunna hundar ekki að dansa.

Þetta var svosem ágætt kvöld, ekkert brill samt, enda eru þau kvöld orðin afar sjaldgæf undanfarið. Spurning hvort þetta djamm dæmi sé svoldið óld eitthvað. Eða þá að ég sé bara óld, eða bara dán. Ég veit það ekki. Erfitt að segja. Ég held ég taki því nú bara rólega í kvöld og horfi jafnvel á Spirited Away. Hún er víst besta teiknimynd sem gerð hefur verið. Svo á ég líka Finding Nemo og á eftir að horfa á hana. Gamanaðessu.
..:: magchen ::..

föstudagur, október 24, 2003

Fæð


Einn maður...Ég vill ekki nefna þau blótsyrði sem streyma stanslaust gegnum huga minn núna því þau eru of hræðileg lesningar. Ég þurfti að búa til nýtt safn hrikalegra blótsyrða á íslensku til að geta lýst þeim tilfinningum sem ég ber í brjósti mér þetta fimmtudagskvöld í október. Einn maður ber ábyrgð á þessu. Einn maður.

Einn maður...Þessi maður benti mér á forrit nokkurt til að spila tónlist. Ég ætla ekki að segja ykkur strax hvaða forrit þetta er, heldur segja ykkur hversvegna ég legg fæð á það, algjörlega og innilega. Forritið spurði mig þegar ég hlóð því inní tölvuna mína hvort það ætti að leita að tónlistarskrám fyrir mig til að setja í svokallað 'Library'. Ég sagði 'nei', því ég vissi ekki hvað það hefði í för með sér. Þegar ég komst svo inn í forritið sá ég að ekki væri hægt að spila neitt í því nema tónlistin væri í þessu safni. Fyrst þessi fyrrnefndi maður hrósaði þessu forriti í hástert ákvað ég ekki að gefast upp áður en ég sæi hvað væri svona gott við það.

Einn maður...Því fór ég í 'Properties' og valdi þar möppuna með tónlistinni minni sem inniheldur rúmlega 1800 lög af ýmsu tagi. Ég valdi ekki þann kost að öll lögin yrðu vistuð í annari spes undirmöppu í þessu forriti því þá hefði ég tapað sjö gígabætum af harða diskinum mínum. Þessi lög birtust svo í forritinu og ég skoðaði fídusana í forritinu og allt í góðu lagi með það. Ekkert sérstakt svosem, bara venjulegt 'jukebox' forrit. Eða svo taldi ég í fyrstu.

Einn maður...Þegar ég svo fór að skoða þessa möppu mína blasti við mér skelfileg sjón. Þetta forrit, sem djöfullin sjálfur hefur eflaust klakið út í eigin persónu í hreiðri sínu í helvíti, hafði tekið allar tónlistarskrárnar og skipað þeim í möppur merktum viðkomandi listamanni!!! Það bjó til þrettán hundruð og sextíu möppur og sami listamaðurinn fékk fleiri fleiri möppur undir lög sem voru jafnvel af sömu geislaplötu!! Ekki nóg með þetta, heldur endurskýrði forritið allar skrárnar sem ég átti þannig að þær hétu einungis nafni lagsins en ekki nafni listamannsins eða númeri lagsins á plötunni sem það birtist á! Þvílíkar hörmunar hef ég ekki litið augum áður. Ef þetta hefði ekki fyllt mig morðóðum blóðþyrstum hatursfullum limlestingartilfinningum í garð skapanda forritsins og mannverunnar sem benti mér á það, þá væri ég eflaust gráti næst.

Einn maður...Ímyndaðu þér að einhver hefði tekið eitthvað sem þér þykir mjög vænt um, t.d. allar myndir sem þú hefur tekið í gegnum árin eða fjölskyldu þína og nánustu ættingja, og skellt þeim í risastóran þreskjara þannig að þau spíttust út hinumegin í tætlum, nær óþekkjanleg og vægast sagt viðbjóðsleg. Jújú, allir myndahlutarnir og líkamspartarnir væru enn til staðar, en ekki í þeirri mynd sem þú hefðir helst kosið. Svona líður mér, akkúrat eins og þér hefði liðið ef eitthvað í líkingu við það sem ég var að lýsa hefði komið fyrir þig. Ekki góð tilfinning, er það?

Ís...Ég held ég geti ekki komið fram hefndum á djöflinum, eða afkvæmum hans hjá Apple fyrirtækinu sem urðu valdir að þessari hörmung, en maðurinn sem sagði mér að bíta í eplið er í seilingarfjarlægð. Ég veit hvar hann á heima. Ef hann getur útvegað tíu bretti af bjór, 10 flutningabíla fulla af snakkpokum og nammi og 10 litla ísa í brauðformi á skemmri tíma en ég get útvegað mér haglabyssu, hlaðið hana og beint henni í átt til hans, þá er möguleiki að honum verði fyrirgefið um það leiti sem ég klára kræsingarnar.
..:: revenge ::..

þriðjudagur, október 21, 2003

Hotaru no haka


Ég sá áhugaverða mynd um daginn. Það var mynd sem ég sótti á netinu af því að hún fékk góða dóma á IMDb.com og hún heitir Grave Of The Fireflies (eða Hotaru no haka á frummálinu). Hún er japönsk frá árinu 1988 og er anime-mynd. Undanfarið hefur áhugi minn á slíkum myndum aukist mikið og er ég búinn að sækja nokkrar slíkar myndir og horfa á eitthvað af þeim. Þessi er virkilega góð og mæli ég með henni fyrir alla sem hafa áhuga á góðum bíómyndum. Þetta er ekki feel-good-movie, er er þó ekki jafn niðurdrepandi og sumir vilja meina á spjallinu á IMDb.com.

Hún fjallar um japönsk systkini og áhrif loftárása í seinni heimsstyrjöldinni á þau. Svolítið undarlegt í fyrstu að horfa á teiknimynd um svona viðfangsefni, en eftirá fór ég að velta fyrir mér ástæðunum. Auðvitað er dýrara að gera leikna mynd, amk þegar verið er að gera svona mynd því teikningarnar eru ekki ýkja flóknar. Þá meina ég miðað við gífurlega flóknar þrívíddar-teiknimyndir, en þó eru teikningarnar mjög fallegar. En önnur ástæða er aldur aðalleikarana. Það er að segja strákur sem er kringum fjórtán ára og stelpa sem er líklegast fjögurra ára. Ef gera á leikna mynd með svo ungum leikurum þá verður hún ekki sannfærandi. Teikningarnar aftur á móti gera þeim mjög góð skil og maður lifir sig algjörlga inní dramantíkina þrátt fyrir að myndin sé teiknuð. Litla stelpan er alveg æðisleg og myndin fjallar mest um samband þeirra systkina og erfiðleika þeirra.

Myndin er sem stendur í sæti #216 yfir bestu myndir allra tíma á síðunni, en í fimmta sæti yfir bestu teiknimyndirnar. Gaman að segja frá því að Kill Bill er í sæti 88, og færist sífellt ofar. Að mínu mati mætti hún fara enn ofar, amk í topp 20. Ég skrifa eflaust eitthvað um aðrar teiknimyndir sem ég sé því ég er búinn að ná í fleiri og þarf núna bara að finna mér tíma til að horfa á þær! Miklu skemmtilegra að tala um góðar myndir sem fáir hafa séð heldur en nýlegar slappar myndir sem allir eru búnir að mynda sér skoðun á, ekki satt? Ekki dæma þessa þótt hún hljómi kannski ekki spennandi því ég hafði mínar efasemdir líka, og því kom hún virkilega skemmtilega á óvart. Ef þú vilt vita meira þá hefur Roger Ebert fjallað um hana hér og svo er umfjöllun og nokkrar skemmtilegar myndir úr henni hér. Ef þig langar að sjá þessa mynd en getur ekki sótt hana á netinu eða fundið á leigu (ég hef ekki hugmynd um hvort hún sé til einhverstaðar) þá er lítið mál að tala bara við mig og ég lána hana fúslega. Maður er svo góðhjartaður þú skilur. :)
..:: good machen ::..

sunnudagur, október 19, 2003

Who am I?

I'm having trouble with my identity. Who am I? Ég og vinir mínir vorum að tala saman í partýi hjá einum okkar áðan og þetta voru óvenju einlægar samræður miðað við strákasamræður yrfirleitt. Við erum víst líkari en við gerum okkur grein fyrir. Við eigum allir erfitt og við erum ekki bara að þykjast. Hvað við munum verða, kröfur sem eru gerðar til okkar og kröfur sem við gerum til sjálfra okkar. Þetta er ekkert grín. Okkur líður oft illa, og við erum alllt of oft einir að kljást við okkar erfiðleika. Vinkonur (að ég held) taka oftar höndum saman um að leysa vandamál hverrrar og einnar vinkonu og hjálpast að, en við strákarnir erum aldir upp til að trúa því að við séum bara eins og við erum, engar flækjur, það eina sem við hugsum um eru stelpur og kynlíf og við förum að trúa því. Sannleikurinn er sá að við erum alveg jafn miklar tilfinningaverur eins og stelpurnar. Munurinn er sá að við fáum ekki að tjá okkur jafn mikið því það er búið að ala upp í okkur flestum (leyfi ég mér að fullyrða) að byrgja inni okkar vandamál því þau séu okkar eigin og komi engum við.

Þetta er svo mikill misskilningur að það hálfa væri helmingi meira en hellingur. Við hugsum alveg jafn mikið og stelpurnar um ýmsa hluti sem tengjast ímynd okkar og persónuleika. Það er bara miklu meira áberandi hjá stelpum. Ég er ekki að kenna einum né neinum um hvenig orðið er. Þetta er samfélaginu að kenna, og hvernig það hefur þróast. Það er erfitt og nánast ómögulegt að snúa við því sem verða vill, karlmenn verða bældari og bældari og óhamingjusamari að sama skapi. Mikið er talað um vonda sjálfsímynd unglingsstúlkna, en aldrei hef ég heyrt nokkrun mann minnast á sjálfsímynd unglingsstráka. Af hverju ætti það að vera svona miklu meira tabú umræðuefni heldur en hitt? Ég veit ekki betur en að við séum öll manneskjur og í allri umræðunni um "jafnrétti kynjanna" þá er nær undantekningalaust bara rætt um konur. Merkilegt en satt.

Hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki þá munu allir strákar samsvara sér í þessari mynd af stráknum sem er að reyna að finna sjálfan sig í þessum frumskógi tilfinninga sem unglingsárin eru. Ekkert síður en stelpur. Tilfinningar er eitthvað sem stelpur og konur hafa og kemur okkur karlkyninu ekkert við. Þetta er ranghugmynd sem bæði karlar og konur hafa, og þótt það sé erfitt að breyta þessum gildum í okkar samfélagi þá skaðar það vonandi ekki að láta skoðun sína í ljós.

Við verðum að hafa opinn huga í því sem við hugsum um, ekki einbeita okkur bara að öðru kyninu eða einhverjum einstökum hópum sem um er rætt á hvejrum tíma. Þegar rætt er um kynþáttahatur þá er nánast án undantekninga rætt um hatur hvíta mannsins á þeim svarta. Hvað um það gífurlega hatur sem margir svartir menn leggja á þá hvítu og fara hvergi leynt með það? Er það eitthvað skárra í nútíma samfélagi heldur en hitt?

Þegar við ræðum um hluti sem koma okkur öllum við þá verðum við að muna að líta á allar hliðar málsins, ekki bara þá augljósustu. Vonandi hefur þú getað samsvarað þér með eða amk skilið eitthvað af því sem ég var að reyna að koma til skila með þessari færslu. Ég er nefnilega mjööög þreyttur og klukkan er að verða fimm á sunnudagsmorgni þannig að það er kannski ekkert skrítið. Endilega láttu skoðun þína í ljós um þetta málefni sem ég er búinn að vera að velta vöngum yfir þetta laugardagskvöld. Kannski segi ég ykkur eitthvað meira um þetta kvöld, en ég held að sú saga væri ekki þess virði. Frekar slappt verð ég nú að segja því miður. En nú segi ég góða nótt, eða góðan dag eftir því sem á best við hverju sinni þegar einhver les þessi orð í framtíðinni.
..:: magchen ::..

föstudagur, október 17, 2003

Kill Bill


Kill Bill er algjör snilld. Ég fór semsagt á hana í bíó í kvöld og allir sem fíluðu Pulp Fiction verða að gera slíkt hið sama. Hún er ótúlega flott og fyndin og algjör splatter. Uma Thurman er bara allt of kúl og er eins og fædd í þetta hlutverk. Enda er myndin skrifuð í kringum hana. Ég er frekar svekktur að þurfa að bíða þar til í febrúar til að sjá seinni hlutann en það verður bara að hafa það. S.s. fyrir þá sem ekki vita var myndin næstum fjórir tímar þegar hún var tilbúin svo þeir gerðu bara tvær myndir úr einni. Ég er algjörlega sáttur við þá ákvörðun því þetta var fínn skammtur í einu, maður varð ekkert leiður heldur hlakkar bara til að sjá hvernig þetta ævintýri endar. Tarantino er algjör snillingur og nú get ég með sanni sagt að hann sé minn uppáhalds leikstjóri. Djöfull var líka fyndið að sjá hann útúrdrukkinn í Jay Leno um daginn. Lét eins og fíbbl. Hann hefur eflaust ekkert skammast sín neitt lítið eftirá. En allavega, allir að fara að sjá Kill Bill. Mig langar líka að sjá fullt af fleiri myndum í bíó, t.d. Hero og Elephant og ætla að reyna að sjá þær um helgina því Eddu kvikmyndahátíðin er búin á sunnudag. Allir í bíó!
..:: max ::..

fimmtudagur, október 16, 2003

277 dagar í ammælið mitt!


Ég las grein í tímariti (sem þú færð þegar þú ferð í flugvélinni á leiðinni út) um daginn. Hún var um New York og var með fullt af flottum myndum og skemmtilegum texta um hin mismunandi hverfi í borginni. Allan daginn hugsaði ég varla um annað, mig langaði svo út. Ég var alveg að deyja sko. Mig langar þvílíkt að fara bara út strax á morgun, en ég verð víst að bíða. Ég var eiginlega bara ánægður með þetta því þetta kveikti í útþránni minni alveg uppá nýtt. Út vil ek.

Sem betur fer er Airwaves mjög slöpp í ár, því það er vinnuhelgi hjá mér þessa helgina. Ég var næstum búinn að kíkja á Kastró til að sjá einhverja dídjeija en svo gerði ég það ekki. Góð saga?

Lag dagsins: Maybe Tomorrow með Stereophonics.

Kona dagsins: Gamla konan sem ég sá þegar ég keyrði Hafnargötuna í kvöld, hún hélt á málverki.

Maður dagsins: Læknirinn sem tók á móti mér í heiminn.

Málsháttur dagsins: Sjaldan fellur óbarinn biskup langt frá eikinni.

Brandari dagsins: Kvað þaf marrga lessblindan til að skipa um ljósberu?

Friends quote dagsins: Pheobe: "Good bye Ross... forever!"

Simpsons quote dagsins: Bart: "I can't promise I'll try, but I'll try to try."

South-Park quote dagsins: Cartman: "Come on you guys you know the words! I hate you guys! ... You guys are assholes! ... Especially Kenny! ... (lalala)

Spurning dagsins: Hvað er langt í ammælið þitt?

Staðreynd dagsins: Women = Evil. Þetta er vísindalega sannað.

Orð dagsins: Cellar door.

Bíómynd dagsins: Hero með Jet Li.

Vefur dagsins: IMDb.com

Búddatrúarmaður dagsins: Jin Wo Hun.

Tíbet-búi dagsins: Hrafnkell Ómarsson Nef.

Hamborgari dagsins: MacDonalds hamborgarinn sem Davíð Oddson borðaði, fyrstur á Íslandi.

Dagsetning dagsins: 2. maí 1928.

Álfur dagsins: Bibbi úr steinvölu fyrir utan Ljótustaði í Suður-Múlasýslu.

Tilgangsleysi dagsins: Þessi listi.

Bloggari dagsins:
..:: mad magchen ::..

þriðjudagur, október 14, 2003

Framtíðin


Ótrúlegt hvað ég sé stutt fram í tímann núna í augnablikinu. Vinnan sem ég er í er bara örugg til áramóta, og ég held ég endist ekki til áramóta án þess að hengja mig í heyrnartólunum uppfrá í frílagernum. Ég er ekki að meika þessa heiladauðu þrælavinnu. Eina ástæðan fyrir því að ég lifi dagana af er að ég er alltaf að hlusta á tónlist, tónlist sem ég er búinn að elska lengi og nýja tónlist sem ég er búinn að sækja af netinu og fíla. En ég hef ekki enn komið mér í það að leita að annarri vinnu, og veit því ekkert hvernig það myndi ganga.

Ég segist ætla í skóla næsta haust, og meina það í hvert skipti sem ég segi það, en ég veit samt ennþá ekkert hvað mig langar að verða eða læra. Fyrir utan það á ég ekki bíl til að keyra í skóla í bænum og er viss um að ég yrði snargeðveikur á því að búa einn. Ég fullyrði það að ég geti það ekki, og ég ætti nú að þekkja sjálfan mig betur en flestir aðrir.

Heimsreisan er ennþá á teikniborðinu en ég er ekki búinn að ákveða neitt með hana. Nú hefur komið í ljós að það er stórviðburður í familíunni minni í apríl sem ég má helst ekki missa af, og það gengur ekki alveg eins og í sögu að safna peningum. Nema kannski ef sagan væri Oliver Twist eða Vesalingarnir eða eitthvað. Peningarnir virðast hverfa úr mínum höndum jafnharðan og hefur upphæðin staðnað á reikningnum. Ég eyði jafn mikið og ég græði. Og það sem ég á er minna en helmingur þess sem ég áætlaði að ferðin myndi kosta.

Þannig að það eru spennandi mánuðir framundan í mínu lífi þar sem flettist ofan af hverri ráðgátunni af annari! Vonum bara að ég verði duglegur að skrifa hérna um þær flækjur sem kunna að myndast, og þær sem vonandi leysast að lokum að sama skapi. Þetta var Magchen sem skrifaði og þú sem last. Takk fyrir. (ný könnun)
..:: magchen ::..

föstudagur, október 10, 2003

Hundrað í hættunni


Mig langar að skrifa svona hundrað lista eins og nokkrir bloggarar hafa verið að gera. Ég skrifa hann örugglega en ég efast um að ég þori að birta hann því mér finnst oft óþægilegt að viðurkenna of mikið fyrir fólki sem maður þekkir án þess að fá eitthvað á móti. Mér er alveg sama hvort fólkið sem ég þekki ekki lesi eitthvað svona um mig. Jæja, það verður víst bara að koma í ljós hvort listinn endi hér eða ekki. Þetta er samt mjög sniðugt, maður kemst að svo miklu um viðkomandi á svo stuttum tíma. Þessir hafa t.d. gert svona lista nýlega: Einar Örn, Beta, Þórir, Katrín.is og þessi. Þið verðið bara að tjékka aftur hérna fjótlega! :)
..:: max ::..

miðvikudagur, október 08, 2003

One of those days...


Ef ég myndi blogga núna þá myndi það eflaust enda í reiðilestri yfir alheiminum og sjálfum mér. Þannig að ég ætla bara að hlífa ykkur við því. Sumir dagar eru bara svona.
..:: shell ::..

mánudagur, október 06, 2003

Mista mista


Lítið af frétta af vinnuvígstöðvunum núna. Enginn vill bakka með neitt þannig að það er allt í hers höndum ennþá. Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer, en ég held að ég þurfi að fara að leita mér að annari vinnu. Ég ætla ekki að láta bjóða mér þetta þannig að ef þetta tekst ekki hjá okkur þá fer ég eitthvað annað. Það var meira að segja inní myndinni að ég reyndi að redda mér vinnu á Akureyris, og myndi þá búa hjá pabba nottla bara. Það væri örugglega gaman. Ég er ekki búinn að prófa það í... vá, tólf ár. Það er svoldið mikið. Það væri nottla fínt að fá tilbreytingu, en ég er ekkert að búast við að ég fengi einhverja svaka vinnu þarna uppfrá (miðað við íslandskort). Never say never.

Annars held ég bara áfram að sækja bíómyndir í tölvuna mína. Það er líka svona helvíti gaman. Ekki það að ég hafi tíma til að horfa á þetta allt. Sportið er bara að sækja myndirnar. Þetta er svona eins og að hnýta flugur. Það er gaman að hnýta flugu eftir flugu þótt þú ætlir ekkert að veiða fist með hverri einustu... Vá, þetta var örugglega ein versta samlíking í sögunni. Hey, common, ég er svoldið þreyttur. Samt er ég ekki að fara að sofa því það er ekki vinna á morgun. Þegar ég er í fríi vill ég ekkert eyða kvöldunum (eða nóttunum) í það að sofa því ég get sofið út daginn eftir. En ef það er vinna daginn eftir þá vill ég heldur ekki fara snemma að sofa því þegar ég vakna þá þarf ég að fara að vinna, og ég vakna hvort sem er alltaf þreyttur sama hversu lengi ég sef. Um að gera að nýta því bara tímann og sofa sem minnst. Nýta tímann segi ég. Eyða honum í vitleysu væri nærri lagi. En það er allt í lagi því undanfarið hef ég verið að lifa eftir mottóinu "Life is what happens while you're busy making other plans." Þannig að ég ætla að plana sem minnst. Þetta er lífið sama hver stefnan er. Og núna ert þú að eyða lífi þínu í að lesa bloggið mitt. Þú myndir hvort eð er ekkert gera neitt merkilegt í dag. Af hverju ekki að rifja upp kynni þín af þessari síðu og lesa allar færslurnar uppá nýtt!? :) Já, það er góð hugmynd.

Þetta var vinnuhelgi þannig að ég gerði ekkert merkilegt. Fyrir utan eitt. Ég hitti vinkonu mína sem ég hef ekki hitt í rúmlega eitt ár, en ég hitti hana að vísu bara í þetta eina skipti fyrir rúmu ári. Við höfum semsagt verið í símasambandi (aðallega sms sambandi) í þetta ár án þess að hittast. En núna erum við orðnir beztu vinir og ætlum að hittast oftar. Hún er frábær.

Mig langar í kisu.
..:: mista mista ::..

föstudagur, október 03, 2003

(það er komin ný könnun)


Gaman að vera í verkfalli. Samt erum við ekkert í verkfalli, það er meira að segja bannað að segja það. Við mætum bara ekkert í yfirvinnu þar til að þessir fáránlegu stjórnendur þessa fyrirtækis (sem vita ekkert skemmtilegra en að níðast á fólkinu sem þeir eru með í vinnu til að halda öllum hundóánægðum og til að græða nokkrar krónur í viðbót) viðurkenna að það sem þeir eru að bjóða okkur er fyrir neðan allar hellur og taka það til baka. Þeir eru að reyna að gera allt til að vélarnar komist út á tíma. Allir verkstjórarnir á öllum vöktunum eru alltaf í vinnunni alveg á milljón að reyna að láta þetta ganga. Ég held að þeir geti bara ekki haldið þessu svona áfram. Það er vonandi að allir haldi þessari frábæru samstöðu áfram og mæti ekki á aukavaktir svo þeir skilji hversu öflug við getum verið ef við stöndum öll saman. Vonandi að fleiri deildir í fyrirtækinu taki okkur til fyrirmyndar og hætti að láta níðast á sér. Það er voða gaman í vinnunni núna, svaka baráttuhugur í öllum og fátt talað um annað en hvernig þetta gengur og hversu mikið er búið að fjalla um þetta í fjölmiðlum. Gaman að hafa eitthvað til að berjast gegn. :)

Fyrir þá sem langar til að vita um hvað deilan snýst, þá er stjórnin að byrja á nýju ráðningakerfi. Allir sem koma nýjir inn í fyrirtækið eiga að fara á tvöfaldar vaktir, sem þýðir að á milli traffíka, semsagt frá átta á morgnana til þrjú á daginn, fara þeir og sinna öðrum störfum hjá fyrirtækinu. Vefja heyrnartól eða hjálpa í fraktinni eða verkstæðinu. Þetta er miklu meiri vinna og ekkert borgað aukalega. Tíminn þarna á milli er heldur alls ekki alveg dauður tími því það eru oft vélar á morgnanna eftir átta, alltaf ein,tvær eða þrjár vélar í hádeginu og traffíkin er farin að byrja klukkan tvö en ekki þrjú. Svo þarf að setja olíu á tækin, setja tækin á stæðin og gera allt klárt fyrir traffíkina. Allt þetta leggst núna á miklu færri manneskjur því það eru svo margir sem fara í eitthvað annað milli traffíka. Semsagt, aukning á vinnu hjá öllum, og enginn fær meira borgað.

Einhverjir segja auðvitað, isss þið getið nú bara unnið þann tíma sem þið fáið borgað og þurfið ekkert að fá einhvern svaka hvíldartíma á milli. Málið er að í fyrsta lagi erum við að vinna við ömurlegar aðstæður. Við erum á hnjánum allan tímann að hlaða á fullu, oft erfiðri frakt og þungum töskum (sem mega vera eins þungar og fólkið vill á leið til ameríku, töskurnar eru oft þrjátíu uppí fjörtíu og stundum fimmtíu kíló hver). Því er mikið álag á bak og axlir og mikið um meiðsli þess vegna. Þetta er skorpuvinna og því vinnum við á fullu, oft án þess að fá kaffipásu, alla traffíkina. Auðvitað þarf maður hvíld á milli traffíka því þetta þarf maður að gera tvisvar á dag. Þetta er illa launað og stjórnin gerir allt til að halda fríðindum okkar í lágmarki. Þegar á því að skella miklu meiri vinnu á allan mannskapinn án þess að fólkið fái meira borgað þá er skiljanlegt að við látum í okkur heyra. Ég réð mig í það starf að vera hlaðmaður, ekki að vefja heyrnartól (sem er b.t.w. alveg hrikalega leiðinlegt og fer illa með bakið). Vonandi taka þeir bara sönsum sem fyrst. Ég læt ykkur vita hvernig gengur. Baráttukveðjur vel þegnar! ;)
..:: mags ::..

miðvikudagur, október 01, 2003

Koma so!!


Það er ekkert smá. Ég er alveg hlessa á þessum viðbrögðum. Við ákváðum í vinnunni að standa saman og mótmæla þessum fáránlegu aðgerðum sem stjórn IGS er að taka í þessum nýjustu ráðningum. Við ákváðum að frá og með morgundeginum munum við ekki mæta á aukavaktir þar til þeir hlusti á okkur og viðurkenni vald okkar ef svo má að orði komast. Það má ekki koma fram við okkur eins og skít endalaust. Við héldum fund í dag sem var virkilega vel sóttur og þar mætti verkalýðsforingi og fór yfir málin með okkur. Svo fór ég bara á fótboltaæfingu og svona með vinnuköllunum og skellti mér svo í bíó með strákunum. Og núna þegar ég er kominn heim þá er þetta bara forsíðufrétt á textavarpinu og líka efst á mbl.is og þar var sagt að þetta hefði líka verið í tíufréttum í sjónvarpinu! Ef þetta er ekki spark í rassgatið fyrir stjórnendur þessa fyrirtækis þá veit ég ekki hvað. Svo eru allar deildir innan fyrirtækisins að fara að tala saman og vonandi hætta þeir að koma svona illa fram við alla, ekki bara okkur hlaðmenn. En ef allt gengur að óskum og við fáum fram það sem við viljum þá þarf ég ekki að fara í þessi guðsvoluðu heyrnartól! Og það eru svo sannarlega gleðifréttir. Joy to the world! ;)
..:: magchen ::..