Fæð
Ég vill ekki nefna þau blótsyrði sem streyma stanslaust gegnum huga minn núna því þau eru of hræðileg lesningar. Ég þurfti að búa til nýtt safn hrikalegra blótsyrða á íslensku til að geta lýst þeim tilfinningum sem ég ber í brjósti mér þetta fimmtudagskvöld í október. Einn maður ber ábyrgð á þessu.
Einn maður.
Þessi maður benti mér á forrit nokkurt til að spila tónlist. Ég ætla ekki að segja ykkur strax hvaða forrit þetta er, heldur segja ykkur hversvegna ég legg fæð á það, algjörlega og innilega. Forritið spurði mig þegar ég hlóð því inní tölvuna mína hvort það ætti að leita að tónlistarskrám fyrir mig til að setja í svokallað 'Library'. Ég sagði 'nei', því ég vissi ekki hvað það hefði í för með sér. Þegar ég komst svo inn í forritið sá ég að ekki væri hægt að spila neitt í því nema tónlistin væri í þessu safni. Fyrst þessi fyrrnefndi maður hrósaði þessu forriti í hástert ákvað ég ekki að gefast upp áður en ég sæi hvað væri svona gott við það.
Því fór ég í 'Properties' og valdi þar möppuna með tónlistinni minni sem inniheldur rúmlega 1800 lög af ýmsu tagi. Ég valdi ekki þann kost að öll lögin yrðu vistuð í annari spes undirmöppu í þessu forriti því þá hefði ég tapað sjö gígabætum af harða diskinum mínum. Þessi lög birtust svo í forritinu og ég skoðaði fídusana í forritinu og allt í góðu lagi með það. Ekkert sérstakt svosem, bara venjulegt 'jukebox' forrit. Eða svo taldi ég í fyrstu.
Þegar ég svo fór að skoða þessa möppu mína blasti við mér skelfileg sjón. Þetta forrit, sem djöfullin sjálfur hefur eflaust klakið út í eigin persónu í hreiðri sínu í helvíti, hafði tekið allar tónlistarskrárnar og skipað þeim í möppur merktum viðkomandi listamanni!!! Það bjó til
þrettán hundruð og sextíu möppur og sami listamaðurinn fékk fleiri fleiri möppur undir lög sem voru jafnvel af sömu geislaplötu!! Ekki nóg með þetta, heldur endurskýrði forritið allar skrárnar sem ég átti þannig að þær hétu einungis nafni lagsins en ekki nafni listamannsins eða númeri lagsins á plötunni sem það birtist á! Þvílíkar hörmunar hef ég ekki litið augum áður. Ef þetta hefði ekki fyllt mig morðóðum blóðþyrstum hatursfullum limlestingartilfinningum í garð skapanda forritsins og mannverunnar sem benti mér á það, þá væri ég eflaust gráti næst.
Ímyndaðu þér að einhver hefði tekið eitthvað sem þér þykir mjög vænt um, t.d. allar myndir sem þú hefur tekið í gegnum árin eða fjölskyldu þína og nánustu ættingja, og skellt þeim í risastóran þreskjara þannig að þau spíttust út hinumegin í tætlum, nær óþekkjanleg og vægast sagt viðbjóðsleg. Jújú, allir myndahlutarnir og líkamspartarnir væru enn til staðar, en ekki í þeirri mynd sem þú hefðir helst kosið. Svona líður mér, akkúrat eins og þér hefði liðið ef eitthvað í líkingu við það sem ég var að lýsa hefði komið fyrir þig. Ekki góð tilfinning, er það?
Ég held ég geti ekki komið fram hefndum á djöflinum, eða afkvæmum hans hjá Apple fyrirtækinu sem urðu valdir að þessari hörmung, en maðurinn sem sagði mér að bíta í eplið er í seilingarfjarlægð. Ég veit hvar hann á heima. Ef hann getur útvegað tíu bretti af bjór, 10 flutningabíla fulla af snakkpokum og nammi og 10 litla ísa í brauðformi á skemmri tíma en ég get útvegað mér haglabyssu, hlaðið hana og beint henni í átt til hans, þá er möguleiki að honum verði fyrirgefið um það leiti sem ég klára kræsingarnar.
..:: revenge ::..