sunnudagur, október 19, 2003

Who am I?

I'm having trouble with my identity. Who am I? Ég og vinir mínir vorum að tala saman í partýi hjá einum okkar áðan og þetta voru óvenju einlægar samræður miðað við strákasamræður yrfirleitt. Við erum víst líkari en við gerum okkur grein fyrir. Við eigum allir erfitt og við erum ekki bara að þykjast. Hvað við munum verða, kröfur sem eru gerðar til okkar og kröfur sem við gerum til sjálfra okkar. Þetta er ekkert grín. Okkur líður oft illa, og við erum alllt of oft einir að kljást við okkar erfiðleika. Vinkonur (að ég held) taka oftar höndum saman um að leysa vandamál hverrrar og einnar vinkonu og hjálpast að, en við strákarnir erum aldir upp til að trúa því að við séum bara eins og við erum, engar flækjur, það eina sem við hugsum um eru stelpur og kynlíf og við förum að trúa því. Sannleikurinn er sá að við erum alveg jafn miklar tilfinningaverur eins og stelpurnar. Munurinn er sá að við fáum ekki að tjá okkur jafn mikið því það er búið að ala upp í okkur flestum (leyfi ég mér að fullyrða) að byrgja inni okkar vandamál því þau séu okkar eigin og komi engum við.

Þetta er svo mikill misskilningur að það hálfa væri helmingi meira en hellingur. Við hugsum alveg jafn mikið og stelpurnar um ýmsa hluti sem tengjast ímynd okkar og persónuleika. Það er bara miklu meira áberandi hjá stelpum. Ég er ekki að kenna einum né neinum um hvenig orðið er. Þetta er samfélaginu að kenna, og hvernig það hefur þróast. Það er erfitt og nánast ómögulegt að snúa við því sem verða vill, karlmenn verða bældari og bældari og óhamingjusamari að sama skapi. Mikið er talað um vonda sjálfsímynd unglingsstúlkna, en aldrei hef ég heyrt nokkrun mann minnast á sjálfsímynd unglingsstráka. Af hverju ætti það að vera svona miklu meira tabú umræðuefni heldur en hitt? Ég veit ekki betur en að við séum öll manneskjur og í allri umræðunni um "jafnrétti kynjanna" þá er nær undantekningalaust bara rætt um konur. Merkilegt en satt.

Hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki þá munu allir strákar samsvara sér í þessari mynd af stráknum sem er að reyna að finna sjálfan sig í þessum frumskógi tilfinninga sem unglingsárin eru. Ekkert síður en stelpur. Tilfinningar er eitthvað sem stelpur og konur hafa og kemur okkur karlkyninu ekkert við. Þetta er ranghugmynd sem bæði karlar og konur hafa, og þótt það sé erfitt að breyta þessum gildum í okkar samfélagi þá skaðar það vonandi ekki að láta skoðun sína í ljós.

Við verðum að hafa opinn huga í því sem við hugsum um, ekki einbeita okkur bara að öðru kyninu eða einhverjum einstökum hópum sem um er rætt á hvejrum tíma. Þegar rætt er um kynþáttahatur þá er nánast án undantekninga rætt um hatur hvíta mannsins á þeim svarta. Hvað um það gífurlega hatur sem margir svartir menn leggja á þá hvítu og fara hvergi leynt með það? Er það eitthvað skárra í nútíma samfélagi heldur en hitt?

Þegar við ræðum um hluti sem koma okkur öllum við þá verðum við að muna að líta á allar hliðar málsins, ekki bara þá augljósustu. Vonandi hefur þú getað samsvarað þér með eða amk skilið eitthvað af því sem ég var að reyna að koma til skila með þessari færslu. Ég er nefnilega mjööög þreyttur og klukkan er að verða fimm á sunnudagsmorgni þannig að það er kannski ekkert skrítið. Endilega láttu skoðun þína í ljós um þetta málefni sem ég er búinn að vera að velta vöngum yfir þetta laugardagskvöld. Kannski segi ég ykkur eitthvað meira um þetta kvöld, en ég held að sú saga væri ekki þess virði. Frekar slappt verð ég nú að segja því miður. En nú segi ég góða nótt, eða góðan dag eftir því sem á best við hverju sinni þegar einhver les þessi orð í framtíðinni.
..:: magchen ::..
blog comments powered by Disqus