fimmtudagur, júlí 29, 2004

Akureyriiiiiiii!

Maður situr sko ekki auðum höndum þessa verslunarmannahelgi frekar en endranær. Í ár er stefnan sett á höfuðborg norðurlands og það verður hrikalega gaman. Því miður er þetta stutt fríhelgi, s.s. ég þarf að fara að vinna á mánudagsmorgun, en maður gerir bara það besta úr þessu. Við keyrum í fyrramálið kl. 6 beint eftir næturvaktina mína til þess að losna við traffík og auðvitað til að geta eytt meiri tíma á Akureyri. Mér finnst einhvernvegin eins og stefnan sé almennt sett á Akureyri hjá fólkinu sem ég hef talað við og heyrt um enda verður góða veðrið þar eins og alltaf. Ég kem eflaust með einhverjar svæsnar djammsögur eftir helgina þannig að farið ekki langt...
Maggi.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Stutt og laggott.

Ég bauð nokkrum vinum heim í kvöld og ég og Biggi sýndum þeim myndir úr reisunni okkar. Mér þótti það gaman og vona að aðrir hafi haft gaman að því líka. Ég sýndi þeim rúmlega 900 myndir af þeim 3000 sem ég tók. Já, þannig var nú það.
Maggi.

mánudagur, júlí 26, 2004

Red Shoe Diaries

Ég veit ekki af hverju en í nokkuð langan tíma er mig búið að langa að eiga rauða skó. Í dag rættist sá draumur loksins! Fann líka þessa fínu skó í Bianko, sem er b.t.w. mjög góð skóbúð. Nenni ekki að skrifa meira því ég er á leiðinni í sund. Hvenær hætti þessi síða að vera um pælingarnar mínar og varð upptalning á því sem ég er að gera? Hmmm...
Maggi.
Stundum er bara gaman að vera til

Undanfarnir dagar hafa verið mjög skemmtilegir. Merkilegt hvað það getur ræst úr vinnuhelgum. Ég er voðalega mikið helgarbarn eins og líklega flestir sem ég þekki. Á föstudaginn kíkti ég til Atla og hitti alla strákana og það var mjög gaman. Jói mættur aftur á klakann eftir tvo mánuði á Grænlandi af öllum stöðum! Auðvitað þurfti ég að fara tiltölulega snemma að sofa enda vinna daginn eftir en það var líka bara allt í lagi. Á laugardeginum var mér svo boðið í grillveislu hjá Torgeirz og vitandi að slík veisla myndi eflaust leysast upp í fyllerí og vitleysu reddaði ég mér skiptivinnu fyrripartinn í dag (alveg mögnuð redding á síðustu stundu).

Grillveislan var mjög skemmtileg (takk fyrir mig!) og svo var haldið niður í bæ og kíkt á liðið á Pizza 67 þar sem var staffapartý. Svo tróð ég mér einhvernveginn inn á Traffic, nýjastu tilraunina til að nýta þetta húsnæði við hliðina á 67, en eins og allir vita liggur bölvun á þessu pleisi og allt fer á hausinn. Það var stappað þar inni og mikil stemmning og virkilega gaman. Eftir að hafa svo haldið mjög lítið og stutt eftirpartý (og afskaplega fyndið eitthvað) og svo náð að sofna í klukkutíma, dreif ég mig svo í vinnuna ákaflega hress að sjálfsögðu. Þynnkan var þó ekkert að drepa mig og er það líklegast útaf því að ég náði að borða fjóra hamborgara í grillveislunni! Geri aðrir betur.

Í kvöld kíktum við strákarnir svo í bíó á I, Robot og það er hin fínasta skemmtun og má alveg mæla með henni. Það er farið að hlakka í manni að komast norður og upplifa verslunarmannahelgina þar í enn eitt skptið. Það hefur ekki verið leiðinlegt hingað til og spái ég því að engin breyting verði þar á þetta árið. Svo styttist í að maður sé bara á leiðinni til Danmerkur! Tíminn líður svo ótrúlega hratt eitthvað. Á morgun er ég á leiðinni í bæinn með nokkrum af strákunum og ég er að spá í að kaupa mér skó! Eða amk reyna að byrja á því að leita mér að skóm því það er venjulega um tveggja vikna prósess hjá mér sko. Ég hlýt nú bara að finna eitthvað sniðugt, vonum það. En hvernig lýst ykkur annars á græna litinn?
Maggi.

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Ég henti síðustu færslu því hún var ekki nógu up-beat. Þeir sem náðu að lesa hana áður en ég henti henni verða að fyrirgefa mér leiðindin.
Kv. Maggi.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Oh Crappy Day

It's just one of those days. Ég ætti ekki að vera að blogga núna. Það er bara eitt á eftir öðru. Í gær og dag er ég búinn að þurfa að borga um 20 þúsund kall í óvæntan og óþarfa kostnað. Ömurlegt, sérstaklega þegar maður er svona fátækur eftir heimsreisuna. En ég ætla ekki að draga ykkur niður með einhverju væli, það hjálpar engum. Spurning um að koma sér bara í vinnuna. Ég er nefnilega kominn yfir á næturvaktir, sem er reyndar alveg besta mál. Vonandi gengur þessi vika betur hjá ykkur en hjá mér. Og já, svo er búið að bjóða mér í bústað og partý um næstu helgi og mig langar í bæði, en ég get ekki farið í bæði. Ég get farið í hvorugt! Vinna, alla helgina. Næsta vika verður betri, og þá sérstaklega helgin því þá er verslunarmannahelgi! Woohoo! Ég ætla að skella mér norður og heimsækja liðið þar og jafnvel kíkja á ball. Það verður sko hrikalega gaman.
Maggi.

sunnudagur, júlí 18, 2004

Taður* Dauðans

Það var ekkert smá gaman hjá okkur um helgina uppí sumarbústað. Alltaf þegar maður heldur að það bara sé ekki hægt að toppa bústaðaferðirnar okkar þá gerum við akkúrat það! Þessi sló flest met held ég og allir skemmtu sér konunglega leyfi ég mér að fullyrða. Á föstudagskvöldinu voru kringum 15 manns og þá var mikið sungið og spilað á gítar og auðvitað grillað og hangið í heita pottinum. Á laugardeginum voru svo vaktaskipti og slatti af fólki fór heim og nýjir komu í staðinn. Það hafa verið um 12 manns í gærkvöldi og það var töluvert öðruvísi stemmning í gær heldur en á föstudaginn. Reglan er að seinna kvöldið er alltaf skemmtilegra og það breyttist ekkert með þessari ferð. Bústaðurinn breyttist skyndilega í dansstað þar sem fólk missti sig í hamslausri gleði á dansgólfinu við undirleik Fatboy Slim**. Þegar líða tók á nóttina tóku sumir ónefndir menn örlítið flipp og ég get svo svarið það, ég hef oft hlegið mikið, en aldrei eins mikið og í gær. Ég stóð ekki í lappirnar.
 
Gaman að segja frá því að í gærkvöldi tókum ég og Stinni og Nelson smá labbitúr niður að vatni og á leiðinni heyrðum við þvílík læti frá einum bústað uppí hlíðinni. Við urðum auðvitað að athuga hvort þar væri ekki gott partý að finna og bönkuðum uppá. Og viti menn! Við lentum í partýi með eintómum Keflvíkingum! Þetta voru aðeins eldri krakkar en maður kannaðist samt við langflest andlitin. Það var mjög gaman að heimsækja þau en við stoppuðum stutt því okkur vantaði bjór. Þegar við komum svo aftur í okkar bústað var svo rosalega gaman þar að við nenntum alls ekki aftur en fengum þó einn góðan gest úr hinum bústaðnum til okkar.
 
Allir sem misstu af þessari snilld verða bara að mæta næst. Ammælisbústaðaferðirnar eru besta skemmtun sem völ er á segi ég og skrifa. Þar sem ég er að flytja til Danaveldis þá verður líklega engin bústaðaferð fyrr en næsti Ammælis-taður verður haldinn. Þá skulu sko allir taka sér frí á föstudeginum í vinnunni og það verða þrjú kvöld og þrír dagar sem fara í að fagna 23ja ára afmælinu mínu! En núna þarf ég að fara að sofa svo ég lifi nú daginn af í vinnunni á morgun. Það var nefnilega ekki mikið sofið um helgina. :)
Maggi
 
* (Taður = Bústaðuinn Góuhlíð)
** (Fatboy Slim = Feiti mjói feiti mjói)

föstudagur, júlí 16, 2004

Hanná ammælí dag (á morgun)

Ég heiti Magnús Sveinn Jónsson. Fyrir tuttugu og tveimur árum kom ég í heiminn á Ísafirði af öllum stöðum. Þar bjó ég í hamingjusamlegri fáfræði æsku minnar þar til ég komst til vits og ára og varð fimm ára. Þá áttaði ég mig á því að Ísafjörður var ekki að uppfylla bernskudrauma mína og ég fluttist til Akureyris. Þar hóf ég nám og eltist og vitkaðist með hverju árinu. Ég hraktist burt frá Akureyri eftir skilnað foreldra minna þá rétt tæplega tíu ára gamall, og settist að í Keflavík. Þar hef ég svo búið í hvorki meira né minna (að vísu aðeins meira) en tólf ár! Og nú er komið nóg...

...enda hygg ég á breytingar. Eftir að hafa tekið einn rúnt um jarðarkringluna sem við búum á (og þykjumst nokkuð viss um að sé eina plánetan í heiminum með nokkru viti, hvað er málið með það?) áttaði ég mig á því að Ísland er ekki miðja alheimsins, og þaðan af síður Keflavík. Því mun ég flytjast til Danmerkur og loksins læra að standa á eigin fótum (vonandi) og læra meira um það áhugamál mitt sem þessi heimasíða er afsprengi af. Nefnilega hönnun og vefsíðugerð, og heitir námið því feykifína nafni, margmiðlun.

Í Danmörku verður heimabær minn (í þau tvö ár sem námið stendur yfir) Kolding á Jótlandi. Þar er öllum guðvelkomið að heimsækja mig og sandgerðismærina Rebekku sem verður meðleigjandi minn. Þetta verður eflaust mjög skemmtilegur tími og námið lofar góðu. Ég er farinn að hlakka virkilega til að yfirgefa klakann á ný og lenda í fleiri ævintýrum.

En í sambandi við afmælið á morgun þá eru pakkar vel þegnir, harðir sem mjúkir, litlir sem stórir (en ef þeir eru litlir þá verða þeir að vera þeim mun verðmætari). Blóm og kransar afþakkaðir (en gjafabréf í ÁTVR gæti komið þeirra í stað). Ég verð að vísu ekki á heimili mínu um helgina, heldur mun ég kíkja í sumarbústað með góðum vinum og fagna þessum merka áfanga í lífi mínu.
Maggi ammælisbarn.

fimmtudagur, júlí 15, 2004

La Ballade of Lady and Bird

Bird: Lady?

Lady: Yes Bird?

Bird: It's cold

Lady: I know

Lady: Bird... I cannot see a thing

Bird: It's all in your mind

Lady: I'm worried

Bird: No one will come to see us

Lady: Maybe they come but we just don't see them
What do you see?

Bird: I see what's outside

Lady: And what exactly is outside?

Bird: It's grown-ups

Lady: Well maybe if we scream they can hear us

Bird: Yeah, maybe we should try to scream

Lady: Ok, Bird

Lady & Bird:
Heeeelp, Heeeelp
Can you hear us now ?
Hello !
Help !
Hello it's me
Hey
Can you see
Can you see me
I'm here
Nana come and take us
Hello
Are you there
Hello

Lady: I don't think they can hear us

Bird: I can hear you lady

Bird: Do you want to come with me lady

Lady: Will you be nice to me Bird

Lady: You're always be nice to me because you're my friend

Bird: I try but sometimes I make mistakes

Lady: Nana says we all make mistakes

Bird: Maybe we should scream more

Lady: Yes, Bird let's scream more

Lady & Bird:
Help ! Help us ! Come on ! Help
Hello !
Help
Hello !
We're lost

Lady: I don't think they cannot see us

Bird: Nobody likes us

Lady: But they all seem so big

Bird: Maybe we should just jump

Lady: What if we fall from the bridge and then nobody can catch us

Bird: I don't know let's just see what happens

Lady: Okay

Bird: Come with me

Lady: Shall we do it together

Bird: Yeah

Lady & Bird: 1 2 3....Aaaaaaah

Bird: Lady?

Lady: Yes Bird

Bird: It's cold

Lady: I know

Lady: Bird...I cannot see a thing

Bird: It's all in your mind

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Mr. Brown

Já það vantaði aðeins að hressa uppá síðuna og þar sem ég hef aldrei verið mikill aðdáandi brúna litarins þá ákvað ég að hafa síðuna brúna. Spurning hvort að Skeldan hafi einhver áhrif á þetta... Eftirá að hyggja, svei mér þá... nei ég held bara ekki. Einar Freyr benti mér óbeint á að ég hafði ekki hróflað við neinu hér á síðunni í fleiri mánuði (skiljanlega svosem) þannig að ég ákvað að gera smávægilegar breytingar. En ekki örvænta, það verður sama innihaldslausa bullið í stóru hvítu kössunum sem þið flykkist hér inn til að lesa.

Myndin sem ég setti inn er drullumynd frá liðinni Hróarskelduhátið. Jú, ætli drullan hafi ekki bara náð örlítið til mín því ég hafði endalaust af fallegum sólarlagsmyndum frá Bora Bora og myndir af ótrúlega fallegum hlutum frá Ítalíu um að velja en samt valdi ég þessa. Eins og sést á þessari mynd var þrusugaman (ekki drullugaman, því orði hefur verið raðnauðgað síðan hátíðarsvæðið varð að hátíðarsvaði) þrátt fyrir drulluna.

Ég horfði á alveg hreint magnaða mynd í gærkvöldi. Ég mæli eindregið með henni bæði fyrir þá sem þjást af alvarlegu svefnleysi og þá sem hafa mikla unun af því að horfa á veggi tímunum saman. Í þessari mynd gerðist nákvæmlega þetta. Tveir óþekktir gaurar sem heita báðir Gerry (en það heitir myndin einmitt) fara í gönguferð um eyðimörk af óþekktum ástæðum, og þeir villast. Þeir ákveða að ganga áfram svona fyrst að þeir eru villtir. Þeir segja ekki neitt. Þeir gera ekki neitt. Þeir einfaldlega arka um þessa blessuðu eyðimörk í einn klukkutíma og fjörtíu mínútur. Labba og labba og labba og labba í eyðimörkinni þar til annar þeirra drepst og hinn fer heim. Þetta er sú allra tilgangslausasta og langdregnasta mynd sem ég hef nokkurntíman séð. Ég kláraði þó að horfa á hana alla svo ég gæti nú drullað yfir hana og hafa örugglega ekki misst af neinu. Ég hefði vart lifað af ef ég hefði ekki sent á bilinu 1.3 og 1.4 milljón SMS á meðan. Þannig að allir útá leigu og fá sér eitthvað annað en Gerry! Ekki láta blekkjast af því að Matt Damon og Casey Afflek leika aðalhlutverkin (og einu persónurnar) og að Gus Van Sant leikstýrir henni. Það þarf einhver að hringja í þá og spyrja hvað þeir voru að pæla.

Mig langar að sjá fundinn þar sem Gus Van Sant útskýrir hugmyndina að myndinni sem hann vantar fjármagn fyrir (hún var skotin í Argentínu þannig að hún hefur nú kostað eitthvað). "Sko, þetta er mynd um tvo gaura, annar heitir Gerry og hinn heitir... eh... Gerry. Þeir labba um eyðimörk í tæpa tvo tíma... og svo deyr annar þeirra! ... " Það er hægt að komast upp með allan fjandann ef maður er frægur. Jæja, ég er farinn að sofa. Bless bless, og ekkert kex!
Bert.

mánudagur, júlí 12, 2004

Takk

Hugsaðu þér hvað lífið væri miklu betra ef fólk væri jafn oft þakklátt fyrir það sem gott er eins og það er oft vanþakklátt fyrir það sem því þykir miður. Prófaðu þetta: Í hvert sinn sem þú hugsar eitthvað neikvætt að mæta því með einhverju jákvæðu. Til dæmis ef þú hugsar "það er svo ógeðslega mikið að gera í vinnunni að ég er að brotna undan álaginu!", þá gætiru hugsað á móti "en tíminn líður þó amk hratt meðan ég hef eitthvað að gera" eða jafnvel "en ég er þó svo heppin/n að hafa vinnu og fæ mjög vel borgað". En svo þegar þú færð launatjékkann og hugsar "helvítis skatturinn hirðir alla peningana mína!" þá áttu að hugsa strax eftirá "en vá hvað ég er heppin/n að búa í landi með frábæra heilsugæslu og skóla og allt til fyrirmyndar vegna skattpeninganna minna".

Þetta þarf ekki að vera svo erfitt. Þetta hljómar auðvitað alveg fáránlega og eins og eitthvað sem maður myndi lesa í sjálfshjálparbók (ef maður hrækti ekki á svoleiðis peningaplokk og kjaftæði því maður er svo fullkominn). En sannleikurinn er sá að það tekur rosalega orku frá manni að einblína á hið neikvæða og sama hvað einhver sem þú þekkir röflar og vælir mikið þá get ég lofað því að þeirri manneskju þykir ekki gaman að vera í vondu skapi yfir einhverju sem hún fær ekki breytt.

Fyrst þú ert að lesa þetta þá ert þú ákaflega lánsöm manneskja. Auðvitað eiga allir sín vandamál bæði stór og smá, en þau leysast mun fyrr ef fólk hugsar jákvætt og tekst á við lífið með það í huga hvað það er heppið að langflestu leyti.
Maggi.

Þessi prédikun var í boði ORA. Grænar baunir eins og þær gerast bestar.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Ísland fyrir mig?

Ég hef alltaf gert mitt besta í að hafa þetta ekki nöldurblogg. Nöldurblogg geta verið svo leiðinleg, það eru ekki nema allra færustu nöldrarar sem geta haldið uppi áhugaverðri síðu með eintómu væli og skítkasti. En ég verð bara að tala smá um eitt.

Eftir að ég kom heim er íslenskt þjóðfélag farið að fara meira og meira í taugarnar á mér. Það gerði það svosem áður en ég fór út, en þrefalt meira núna. Ég fæ mig ekki til þess að hlusta á útvarp eða horfa á íslenska dagskrárgerð í sjónvarpinu. Ekki einu sinni fréttir eða álíka. Dagblöðin fara mest af öllu í taugarnar á mér. Og einhver myndi kanski spyrja hvað það væri sem færi svona í taugarnar á mér. Því er svosem ekki auðsvarað en ég skal reyna.

Ég er ekki að segja að ég sé betri en aðrir, enda er ég partur af þessu þjóðfélagi eins og allir Íslendingar. Og ég er ekki að segja að ég sé betri fyrir að hafa farið í þessa heimsreisu, alls ekki. Kanski í mesta lagi að hún hafi opnað augu mín fyrir ýmsu sem ég kom ekki auga á áður. Það er þessi smáboraraháttur í öllu. Það sem er í umræðunni er svo innilega léttvægt og skiptir engu máli. Einhver fáránleg rifrildi um pólitík og hluti sem í raun breyta engu fyrir þjóðina. Veltum okkur uppúr asnalegum hlutum því við höfum í raun ekkert að kvarta yfir.

Við höfum það svo gott. Erum rík og hamingjusöm þjóð, en auðvitað með alveg jafn mikla þörf fyrir að bæði röfla yfir hlutum og tala vel um hluti, skemmta okkur og og svo framvegis. En í svona litlu þjóðfélagi þá verður þetta svo fáránlegt. Við elskum hluti eins og Júróvisjón því við fáum að keppa við stóru þjóðirnar þó við séum svo lítil, og við elskum að keppast við alla og reyna að vinna. Svo snúum við baki við þeim sem gengur illa um leið. Við dýrkum Ísland og allt sem íslenskt er, en á sama tíma þolum við það ekki, hvorki menninguna né þjóðarandann og tölum illa um allt (eins og ég er að gera).

Ég veit ekki hvort hægt sé að lýsa þessari tilfinningu almennilega og því reyni ég ekki meira í þetta skiptið. En ég verð bara að segja að ég er pínulítið feginn að hún þurfi ekki að halda sér lengi því ég er að fara að flytja til Danmerkur. Eftir tvö ár þar gæti alveg eins verið að hún hafi bara magnast upp og að ég geti ekki hugsað mér að búa hérna heima. Áður fyrr sagði ég alltaf að ég gæti hvergi annarstaðar búið, en núna er ég alls ekki svo viss. Núna langar mig miklu frekar að búa í stærra landi og kynnast annari menningu og að ég tali nú ekki um öðruvísi þjóðaranda. Ég er alls ekki að segja að Ísland sé alslæmt eða að ég muni ekki búa hérna í framtíðinni því auðvitað er það óráðið eins og allt annað, en ég finn fyrir því að ég þarf að víkka sjóndeildarhringinn.

myndir
Það hlýtur bara að fara að koma að því að ég nenni að setja inn restina af myndunum úr ferðinni. Af nógu er að taka og fullt af flottum myndum sem ég á eftir að henda inn á netið við tækifæri. Langar ykkur annars ekki að sjá fleiri myndir úr reisunni? ég trúi ekki öðru. :)
Maggi.

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Special Needs

Placebo í höllinni áðan. Rokk og sviti. Þrusu gaman.

Mér gengur ekki alveg nógu vel að gera ekki neitt. Ég ætlaði bara að liggja í rúminu mínu og stara útí loftið eða sitja í sófanum og horfa á sjónvarpið allan daginn í nokkra daga eftir að ég kæmi heim. En nei, ég þarf að redda einhverju tollveseni og sækja um íbúðir í Danmörku og sækja um vinnu (sem ég byrja örugglega í um helgina) og þess á milli hangi ég í tölvunni!

Þar sem ég hangi í tölvunni ætti ég auðvitað að vera að sortéra allar myndirnar sem við tókum en ég nenni því bara ekki. Það er svo rosalega mikið verk. Ég er þó búinn að henda þeim inná tölvuna, og þær voru ekki fjögur þúsund eins og ég hélt. Þær voru bara þrjú þúsund. BARA þrjú þúsund. Það er alveg slatti af myndum. Það gerir að meðaltali um 38 myndir á dag, og ef ég reikna með því að ég hendi eitthvað af þessu þá er hægt að segja að ég hafi tekið heila 36 mynda filmu á hverjum einasta degi!

Þannig að ef ég hefði verid með venjulega filmumyndavél þyrfti ég að framkalla 79 36 mynda filmur. Ef við segjum að það kosti um 2200 krónur að famkalla eina filmu myndi það kosta 173.800 krónur að framkalla þetta. Ég myndi þurfa albúm og 200 mynda albúm á 1000 kall myndi bæta við 15 þúsund kalli. Þetta myndi því kosta mig kringum 200.000 krónur. Ég veit að þetta er ekki raunverulegt dæmi því ég myndi aldrei taka svona mikið af myndum á filmu, en það er ekki spurt að því í þessu dæmi. Ég borgaði bara 50 þúsund fyrir myndavélina og því er hún búin að borga sig fjórfalt upp bara í þessari ferð. Allir að kaupa sér stafræna vél! :)

- kók -
Ég held að ég sé endufæddur sem kókisti. Íslenskt kók er svo gott að ég er farinn að drekka það í lítratali á hverjum degi. Magnað hvað maður finnur mikinn mun. Þeir hljóta að setja meira koffein eða eitthvað í kókið hérna ég get svo svarið það. Ég er að drekka kók núna. Ahh... hvað það er gott.
Maggi.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Fögur er hlíðin

Ahhh... gott að vera kominn heim, þó ekki væri nema vegna þess að nú get ég fram haldið þeirri iðju að skrifa innihaldslausar hugsanir mínar á netið í engum augljósum tilgangi. Það er þó ekki svo gott að vera kominn heim að það sé ekki um leið alveg ömurlegt. Ég sit hér við tölvuna mína og blogga um miðja nótt alveg eins og ég var duglegur við fyrir þremur mánuðum, mörg hundruð þúsund krónum fátækari, og hvað hefur áunnist? Ég sit uppi með höfuð (tiltölulega sólbrúnna þó) stútfullt af minningum sem skjóta upp kollinum margoft á dag og valda mér hugarangri því heimsreisan mín er búin. Híhí, það er gott að vera ég þegar ég get bara setið hérna og emjað yfir því að vera kominn heim þegar eflaust nokkrir af mínum lesendum (ef einhverjir eru) voru á klakanum allan tímann meðan ég var úti og öfunduðust út í mig og Bigga fyrir að gera það sem alla langar til, flýja á vit ævintýranna og gleyma raunveruleikanum í þó ekki væri nema nokkrar vikur. Ég áskil mér samt allan rétt til þess, enda er þetta mín síða, and I do what I damn well please.

Hróarskelda
Hróarskelda var æðisleg. Það ringdi alla dagana, svæðið var orðið eitt drullusvað (þar sem ekki mynduðust stöðuvötn) strax á öðrum degi og hélst þannig út hátíðina, maður þurfti að fara (þunnur) í grútskítug fötin aftur á hverjum morgni eftir mjög lítinn og óværan svefn og ganga allan daginn um í óþægilegum stígvélum (ef maður var heppinn) sem festust í drullunni í öðru hverju skrefi. En....
Maður fékk að vakna og opna sér bjór á hverjum degi umkringdur vinum sínum, fylgjast með mannhafi af fólki leika sér í sátt og samlyndi, verða vitni að frábærum tónleikum með ótrúlega hæfileikaríkum tónlistarmönnum, djamma langt fram á nótt syngjandi og trallandi með stórskemmtilegu fólki og síðast en ekki síst, upplifa þá einstöku tilfinningu að maður hafi verið partur af þessari frábæru hátið sem Hróarskelda er á hverju einasta ári.

Ég skal vel viðurkenna það að hátíðin í fyrra var betri en í ár. Tónleikarnir voru betri og veðrið var mun betra sem myndaði skemmtilegri og léttari stemmningu. Það breytir því samt ekki að hátíðin í ár var frábær skemmtun og ég mun svo sannarlega reyna að fara aftur að ári þótt ég geri mér grein fyrir því að það verði erfitt. Ég er nefnilega að fara í skóla fyrir utan landssteinana sem hefur augljósa fjárhagslega erfiðleika í för með sér, ekki síst fyrir þá staðreynd að í heimsreisunni ég eyddi bróðurpartinum af þeim skildingum sem ég var búinn að sanka að mér á mánuðunum þar á undan. Þó hjálpar það mér eflaust að skólinn sem ég er að fara í er í Kolding í Danmörku, en Hróarskelda er einmitt í sama landi. Einstaklega skemmtileg tilviljun.

Heimsreisa
Ég veit ekki hvort ég mun blogga beint um heimsreisuna hérna. Það er frá óendanlega miklu að segja, og það fær að fljóta hér í litlum skömmtum þegar mér dettur eitthvað í hug. Ferðin er auðvitað ofarlega í huga mér og því mun það eflaust vera ósjaldan. Það þarf vart að taka það fram (og eflaust hafa einhverjir sem lesa þetta komist að því á síðunni minni og Bigga) að heimsreisan okkar var alveg yndisleg æðisleg snilld og skemmtileg framar öllum vonum. Við hugsuðum útí það undir lok ferðar hvernig við myndum svara miður skemmtilegum spurningum eins og "Hvað var skemmtilegast?" og "Hvað var best?", og niðurstaðan var að það er ekkert svar. Hvernig í ósköpunum er hægt að bera það saman hvernig manni líður þegar maður stendur í steikjandi hita á Kínamúrnum og gapir á þetta ótrúlega mannvirki við það hvað það var gaman að kynnast átta ólíkum manneskjum með því að eyða með þeim fjórum tímum aftan á pallbíl í Kambódíu? Við ætlum hins vegar að reyna að búa til lista yfir minnistæðustu hlutina til að fólk geti fengið stuttu útgáfuna af reisunni okkar beint í æð, en ég efast um að listinn verði stuttur. Hann mun ég birta hér á síðunni þegar hann verður tilbúinn.

Frammi fyrir okkur Bigga stendur sú gríðarlega vinna sem felst í að sortera allar myndirnar sem teknar voru, enda hlaupa þær á þúsunum. Ég lofa að segja ykkur nákvæmlega hvað ég tók margar myndir, en það er amk óðs manns æði að ætla að skoða þær allar í einum rykk.

Kveðja
Ég veit ekki af hverju þessi færsla var háfleygari en vanalega, en ég var í það minnsta ánægður með hana. Vonandi munu eitthvað af lesendum mínum skila sér aftur inn á síðuna og þá helst alla leið í spjallkerfið, því mér þykir fátt leiðinlegra að tala við sjálfan mig. Það skilar yfirleitt engum árangri og ég er oftar en ekki sammála sjálfum mér og því verða rökræður mín á milli ansi einhæfar. Ef þú last þetta (sem ég veit þú gerðir) þá máttu gjarnan bjóða mig velkominn aftur til landsins og þar með láta mig vita að þú sért á lífi og í góðu stuði í netheimum. Ætli ég endi þetta ekki bara eins og allar færslurnar á maggiogbiggi.tk. Kær kveðja frá Keflavík,
Maggi (og enginn Biggi í þetta skptið).