mánudagur, júlí 12, 2004

Takk

Hugsaðu þér hvað lífið væri miklu betra ef fólk væri jafn oft þakklátt fyrir það sem gott er eins og það er oft vanþakklátt fyrir það sem því þykir miður. Prófaðu þetta: Í hvert sinn sem þú hugsar eitthvað neikvætt að mæta því með einhverju jákvæðu. Til dæmis ef þú hugsar "það er svo ógeðslega mikið að gera í vinnunni að ég er að brotna undan álaginu!", þá gætiru hugsað á móti "en tíminn líður þó amk hratt meðan ég hef eitthvað að gera" eða jafnvel "en ég er þó svo heppin/n að hafa vinnu og fæ mjög vel borgað". En svo þegar þú færð launatjékkann og hugsar "helvítis skatturinn hirðir alla peningana mína!" þá áttu að hugsa strax eftirá "en vá hvað ég er heppin/n að búa í landi með frábæra heilsugæslu og skóla og allt til fyrirmyndar vegna skattpeninganna minna".

Þetta þarf ekki að vera svo erfitt. Þetta hljómar auðvitað alveg fáránlega og eins og eitthvað sem maður myndi lesa í sjálfshjálparbók (ef maður hrækti ekki á svoleiðis peningaplokk og kjaftæði því maður er svo fullkominn). En sannleikurinn er sá að það tekur rosalega orku frá manni að einblína á hið neikvæða og sama hvað einhver sem þú þekkir röflar og vælir mikið þá get ég lofað því að þeirri manneskju þykir ekki gaman að vera í vondu skapi yfir einhverju sem hún fær ekki breytt.

Fyrst þú ert að lesa þetta þá ert þú ákaflega lánsöm manneskja. Auðvitað eiga allir sín vandamál bæði stór og smá, en þau leysast mun fyrr ef fólk hugsar jákvætt og tekst á við lífið með það í huga hvað það er heppið að langflestu leyti.
Maggi.

Þessi prédikun var í boði ORA. Grænar baunir eins og þær gerast bestar.
blog comments powered by Disqus