miðvikudagur, júlí 07, 2004

Fögur er hlíðin

Ahhh... gott að vera kominn heim, þó ekki væri nema vegna þess að nú get ég fram haldið þeirri iðju að skrifa innihaldslausar hugsanir mínar á netið í engum augljósum tilgangi. Það er þó ekki svo gott að vera kominn heim að það sé ekki um leið alveg ömurlegt. Ég sit hér við tölvuna mína og blogga um miðja nótt alveg eins og ég var duglegur við fyrir þremur mánuðum, mörg hundruð þúsund krónum fátækari, og hvað hefur áunnist? Ég sit uppi með höfuð (tiltölulega sólbrúnna þó) stútfullt af minningum sem skjóta upp kollinum margoft á dag og valda mér hugarangri því heimsreisan mín er búin. Híhí, það er gott að vera ég þegar ég get bara setið hérna og emjað yfir því að vera kominn heim þegar eflaust nokkrir af mínum lesendum (ef einhverjir eru) voru á klakanum allan tímann meðan ég var úti og öfunduðust út í mig og Bigga fyrir að gera það sem alla langar til, flýja á vit ævintýranna og gleyma raunveruleikanum í þó ekki væri nema nokkrar vikur. Ég áskil mér samt allan rétt til þess, enda er þetta mín síða, and I do what I damn well please.

Hróarskelda
Hróarskelda var æðisleg. Það ringdi alla dagana, svæðið var orðið eitt drullusvað (þar sem ekki mynduðust stöðuvötn) strax á öðrum degi og hélst þannig út hátíðina, maður þurfti að fara (þunnur) í grútskítug fötin aftur á hverjum morgni eftir mjög lítinn og óværan svefn og ganga allan daginn um í óþægilegum stígvélum (ef maður var heppinn) sem festust í drullunni í öðru hverju skrefi. En....
Maður fékk að vakna og opna sér bjór á hverjum degi umkringdur vinum sínum, fylgjast með mannhafi af fólki leika sér í sátt og samlyndi, verða vitni að frábærum tónleikum með ótrúlega hæfileikaríkum tónlistarmönnum, djamma langt fram á nótt syngjandi og trallandi með stórskemmtilegu fólki og síðast en ekki síst, upplifa þá einstöku tilfinningu að maður hafi verið partur af þessari frábæru hátið sem Hróarskelda er á hverju einasta ári.

Ég skal vel viðurkenna það að hátíðin í fyrra var betri en í ár. Tónleikarnir voru betri og veðrið var mun betra sem myndaði skemmtilegri og léttari stemmningu. Það breytir því samt ekki að hátíðin í ár var frábær skemmtun og ég mun svo sannarlega reyna að fara aftur að ári þótt ég geri mér grein fyrir því að það verði erfitt. Ég er nefnilega að fara í skóla fyrir utan landssteinana sem hefur augljósa fjárhagslega erfiðleika í för með sér, ekki síst fyrir þá staðreynd að í heimsreisunni ég eyddi bróðurpartinum af þeim skildingum sem ég var búinn að sanka að mér á mánuðunum þar á undan. Þó hjálpar það mér eflaust að skólinn sem ég er að fara í er í Kolding í Danmörku, en Hróarskelda er einmitt í sama landi. Einstaklega skemmtileg tilviljun.

Heimsreisa
Ég veit ekki hvort ég mun blogga beint um heimsreisuna hérna. Það er frá óendanlega miklu að segja, og það fær að fljóta hér í litlum skömmtum þegar mér dettur eitthvað í hug. Ferðin er auðvitað ofarlega í huga mér og því mun það eflaust vera ósjaldan. Það þarf vart að taka það fram (og eflaust hafa einhverjir sem lesa þetta komist að því á síðunni minni og Bigga) að heimsreisan okkar var alveg yndisleg æðisleg snilld og skemmtileg framar öllum vonum. Við hugsuðum útí það undir lok ferðar hvernig við myndum svara miður skemmtilegum spurningum eins og "Hvað var skemmtilegast?" og "Hvað var best?", og niðurstaðan var að það er ekkert svar. Hvernig í ósköpunum er hægt að bera það saman hvernig manni líður þegar maður stendur í steikjandi hita á Kínamúrnum og gapir á þetta ótrúlega mannvirki við það hvað það var gaman að kynnast átta ólíkum manneskjum með því að eyða með þeim fjórum tímum aftan á pallbíl í Kambódíu? Við ætlum hins vegar að reyna að búa til lista yfir minnistæðustu hlutina til að fólk geti fengið stuttu útgáfuna af reisunni okkar beint í æð, en ég efast um að listinn verði stuttur. Hann mun ég birta hér á síðunni þegar hann verður tilbúinn.

Frammi fyrir okkur Bigga stendur sú gríðarlega vinna sem felst í að sortera allar myndirnar sem teknar voru, enda hlaupa þær á þúsunum. Ég lofa að segja ykkur nákvæmlega hvað ég tók margar myndir, en það er amk óðs manns æði að ætla að skoða þær allar í einum rykk.

Kveðja
Ég veit ekki af hverju þessi færsla var háfleygari en vanalega, en ég var í það minnsta ánægður með hana. Vonandi munu eitthvað af lesendum mínum skila sér aftur inn á síðuna og þá helst alla leið í spjallkerfið, því mér þykir fátt leiðinlegra að tala við sjálfan mig. Það skilar yfirleitt engum árangri og ég er oftar en ekki sammála sjálfum mér og því verða rökræður mín á milli ansi einhæfar. Ef þú last þetta (sem ég veit þú gerðir) þá máttu gjarnan bjóða mig velkominn aftur til landsins og þar með láta mig vita að þú sért á lífi og í góðu stuði í netheimum. Ætli ég endi þetta ekki bara eins og allar færslurnar á maggiogbiggi.tk. Kær kveðja frá Keflavík,
Maggi (og enginn Biggi í þetta skptið).
blog comments powered by Disqus