Ísland fyrir mig?
Ég hef alltaf gert mitt besta í að hafa þetta ekki nöldurblogg. Nöldurblogg geta verið svo leiðinleg, það eru ekki nema allra færustu nöldrarar sem geta haldið uppi áhugaverðri síðu með eintómu væli og skítkasti. En ég verð bara að tala smá um eitt.
Eftir að ég kom heim er íslenskt þjóðfélag farið að fara meira og meira í taugarnar á mér. Það gerði það svosem áður en ég fór út, en þrefalt meira núna. Ég fæ mig ekki til þess að hlusta á útvarp eða horfa á íslenska dagskrárgerð í sjónvarpinu. Ekki einu sinni fréttir eða álíka. Dagblöðin fara mest af öllu í taugarnar á mér. Og einhver myndi kanski spyrja hvað það væri sem færi svona í taugarnar á mér. Því er svosem ekki auðsvarað en ég skal reyna.
Ég er ekki að segja að ég sé betri en aðrir, enda er ég partur af þessu þjóðfélagi eins og allir Íslendingar. Og ég er ekki að segja að ég sé betri fyrir að hafa farið í þessa heimsreisu, alls ekki. Kanski í mesta lagi að hún hafi opnað augu mín fyrir ýmsu sem ég kom ekki auga á áður. Það er þessi smáboraraháttur í öllu. Það sem er í umræðunni er svo innilega léttvægt og skiptir engu máli. Einhver fáránleg rifrildi um pólitík og hluti sem í raun breyta engu fyrir þjóðina. Veltum okkur uppúr asnalegum hlutum því við höfum í raun ekkert að kvarta yfir.
Við höfum það svo gott. Erum rík og hamingjusöm þjóð, en auðvitað með alveg jafn mikla þörf fyrir að bæði röfla yfir hlutum og tala vel um hluti, skemmta okkur og og svo framvegis. En í svona litlu þjóðfélagi þá verður þetta svo fáránlegt. Við elskum hluti eins og Júróvisjón því við fáum að keppa við stóru þjóðirnar þó við séum svo lítil, og við elskum að keppast við alla og reyna að vinna. Svo snúum við baki við þeim sem gengur illa um leið. Við dýrkum Ísland og allt sem íslenskt er, en á sama tíma þolum við það ekki, hvorki menninguna né þjóðarandann og tölum illa um allt (eins og ég er að gera).
Ég veit ekki hvort hægt sé að lýsa þessari tilfinningu almennilega og því reyni ég ekki meira í þetta skiptið. En ég verð bara að segja að ég er pínulítið feginn að hún þurfi ekki að halda sér lengi því ég er að fara að flytja til Danmerkur. Eftir tvö ár þar gæti alveg eins verið að hún hafi bara magnast upp og að ég geti ekki hugsað mér að búa hérna heima. Áður fyrr sagði ég alltaf að ég gæti hvergi annarstaðar búið, en núna er ég alls ekki svo viss. Núna langar mig miklu frekar að búa í stærra landi og kynnast annari menningu og að ég tali nú ekki um öðruvísi þjóðaranda. Ég er alls ekki að segja að Ísland sé alslæmt eða að ég muni ekki búa hérna í framtíðinni því auðvitað er það óráðið eins og allt annað, en ég finn fyrir því að ég þarf að víkka sjóndeildarhringinn.
myndir
Það hlýtur bara að fara að koma að því að ég nenni að setja inn restina af myndunum úr ferðinni. Af nógu er að taka og fullt af flottum myndum sem ég á eftir að henda inn á netið við tækifæri. Langar ykkur annars ekki að sjá fleiri myndir úr reisunni? ég trúi ekki öðru. :)
Maggi.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum