föstudagur, júlí 16, 2004

Hanná ammælí dag (á morgun)

Ég heiti Magnús Sveinn Jónsson. Fyrir tuttugu og tveimur árum kom ég í heiminn á Ísafirði af öllum stöðum. Þar bjó ég í hamingjusamlegri fáfræði æsku minnar þar til ég komst til vits og ára og varð fimm ára. Þá áttaði ég mig á því að Ísafjörður var ekki að uppfylla bernskudrauma mína og ég fluttist til Akureyris. Þar hóf ég nám og eltist og vitkaðist með hverju árinu. Ég hraktist burt frá Akureyri eftir skilnað foreldra minna þá rétt tæplega tíu ára gamall, og settist að í Keflavík. Þar hef ég svo búið í hvorki meira né minna (að vísu aðeins meira) en tólf ár! Og nú er komið nóg...

...enda hygg ég á breytingar. Eftir að hafa tekið einn rúnt um jarðarkringluna sem við búum á (og þykjumst nokkuð viss um að sé eina plánetan í heiminum með nokkru viti, hvað er málið með það?) áttaði ég mig á því að Ísland er ekki miðja alheimsins, og þaðan af síður Keflavík. Því mun ég flytjast til Danmerkur og loksins læra að standa á eigin fótum (vonandi) og læra meira um það áhugamál mitt sem þessi heimasíða er afsprengi af. Nefnilega hönnun og vefsíðugerð, og heitir námið því feykifína nafni, margmiðlun.

Í Danmörku verður heimabær minn (í þau tvö ár sem námið stendur yfir) Kolding á Jótlandi. Þar er öllum guðvelkomið að heimsækja mig og sandgerðismærina Rebekku sem verður meðleigjandi minn. Þetta verður eflaust mjög skemmtilegur tími og námið lofar góðu. Ég er farinn að hlakka virkilega til að yfirgefa klakann á ný og lenda í fleiri ævintýrum.

En í sambandi við afmælið á morgun þá eru pakkar vel þegnir, harðir sem mjúkir, litlir sem stórir (en ef þeir eru litlir þá verða þeir að vera þeim mun verðmætari). Blóm og kransar afþakkaðir (en gjafabréf í ÁTVR gæti komið þeirra í stað). Ég verð að vísu ekki á heimili mínu um helgina, heldur mun ég kíkja í sumarbústað með góðum vinum og fagna þessum merka áfanga í lífi mínu.
Maggi ammælisbarn.
blog comments powered by Disqus