mánudagur, janúar 26, 2004

21 Grams

Ég fór á 21 Grams í Regnboganum í kvöld. Hún er virkilega góð og mæli ég með henni fyrir þá sem hafa gaman af góðum myndum. Hún er ekki fyrir hvern sem er. Hún hoppar fram og aftur í tímanum og er ruglingsleg í byrjun en maður kemst yfir það ef maður hefur hugann við efnið. Hún er ótrúlega vel leikin og falleg, um leið og hún er rosalega drungaleg og sorgleg. Næstum því jafn góð og Amores perros. Bíómyndaáhugafólk ætti að vera búið að sjá þá mynd, því hún er alveg frábær. Spænskan virkaði meira að segja betur í mig því mér finnst tungumál sem maður heyrir ekki dags daglega koma með svo mikinn raunveruleika í bíómyndir, en það pirrar bara suma að skilja ekki hvað persónurnar eru að segja og þurfa að lesa það á skjánum. Þessi mynd er þó öll á ensku, en bæði handritshöfundur og leikstjóri eru frá Mexico.

Og í allt annað mál. Ef einhver kann að ráða bót á því að það sjáist ekki myndir sem ég birti í með færslunum mínum (þær koma bakvið hvíta bakgrunninn í kössunum), þá væri það vel þegið. Þetta er sett upp í Style Sheet (.css) og ég er búinn að prófa að breyta þessu fram og til baka en alltaf hverfa myndirnar. Ég verð þó að hafa hvítan bakgrunn í kössunum þar sem textinn birtist því annars væri ekki hægt að lesa textann vegna röndótta bakgrunnsins.
Maggi.
blog comments powered by Disqus