laugardagur, janúar 31, 2004

Takk Hverfis.

Já það var líka svona feyki skemmtilegt í gær. Ég fór í bæinn í gærkvöldi með rútunni. Hef ekki farið með rútunni í bæinn í mörg ár og aldrei til að fara á djamm. Alveg merkilegt hvað það er langt frá hugsun manns einhvernveginn að fara með rútunni, ef maður hefur ekki bíl þá er bara lífsins ómögulegt að komast í bæinn. En þetta var bara fínt, þurfti ekkert að keyra, sat bara og hlustaði á Play með Moby og horfði útum gluggann og dottaði. Æðislegur diskur, og fínasta rútuferð. Svo kom ágætis drengur sem heitir Stjáni og sótti mig niður á BSÍ og skutlaði mér til Einars Þorgeirssonar þar sem voru fyrir Jóhann og Hjörleifur. Þar vorum við frameftir kvöldi, og spjölluðum og spiluðum á gítar og sungum. Þegar líða tók á kippuna fórum við svo í alveg stórskemmtilega tölvuleiki í PS2, með Eye-Toy myndavél. Það er bara algjör snilld að vera dálítið hífaður í slíkum leikjum, og eru þeir frábærir líka þar fyrir utan auðvitað. Fyrir þá sem ekki vita hvað þetta er þá er myndavél skellt ofan á sjónvarpið og maður stendur þar fyrir framan og tekur þátt í leiknum með því að baða út öllum öngum. Við spiluðum Kung Fu leik, gluggaþvottaleik (sem er ekkert smá fyndinn), dansleik (!) og boxleik meðal annars. Mikið hlegið.

Svo röltum við niður í bæ í ágætu en ísköldu veðri. Við Hjörleifur urðum af einhverjum ástæðum viðskila við Einar og Jóhann og röltum upp Laugarveginn. Röðin á Hverfis silaðist áfram á hraða skriðjökuls eins og einhver komst svo skemmtilega að orði um daginn og því fórum við frekar á Grand Rokk. Þar hittum við á tónleika með frábærri hljómsveit sem við komumst seinna að að hafi verið Dikta. Við Hjörleifur slömmuðum eins og sönnum rokkaðdáendum sæmir og létum öllum illum látum fyrir framan sviðið meðan allir hinir sátu. Það slógust nú fljótlega nokkrir í lið með okkur og þetta var þrusugaman. Frábærir tónleikar, alltaf gaman að fara á Grand Rokk. Takk Hverfis.

Það sem eftir var var nú frekar endasleppt. Við hittum Einar og Jóhann aftur og við fengum okkur að borða. Ég kíkti á Kapital og þar var geggjuð stemmning aldrei þessu vant (aldrei þessu vatn líka, því það kostaði 600 kall á barnum vatnið) en djammfélagar mínir voru litlir áhugamenn um hlusta á eða dilla sér við slíkan tónlistargjörning. Sem var mikil synd og saknaði ég þá eina mannsins sem ég þekki sem hefur álíka áráttu til að taka sporið í hópi e-pillu-poppandi techno áhugafólks. Ég dreg hann bara með mér næst. Þannig að við fórum fljótlega að lalla heim.

Ég tók fullt af skemmtilegum myndum en birti hér eina sem Jóhann tók af mér og fullyrti að það hefði verið algjör hunda-helvítis-heppni að hún skildi takast vel því hann kunni lítið fyrir sér í ljósmyndun. Ég held að það sé argasta lygi og að hann sé upprennandi atvinnuljósmyndari. Hann bara veit það ekki ennþá. Ég hendi inn fleiri myndum í myndarammann næstu daga frá þessu kvöldi, af action í Eye-Toy og arty-farty bangsamyndum. :) Góðar stundir.
Maggi.
blog comments powered by Disqus