miðvikudagur, janúar 21, 2004

Critical update

Síðan heldur áfram að taka breytingum, merkilegt hvað ég nenni að dunda mér í þessu þótt þetta sé nokkurnvegin komið. Ég verð alltaf að bæta einhverju við, smá enn, og svo þetta, og og og. Ætli þetta sé ekki fullkomnunarárátta í mér. Halla systir kom með hugmynd í kvöld sem ég hef verið að velta smá fyrir mér. Af hverju fer ég ekki bara að læra grafíska hönnun? Ég held að það eigi rosalega vel við mig. Ekki það að ég sé einhver snillingur í svona hlutum, en ég hef mjög gaman að allri svona hönnun og held að ég gæti vel unnið við svona hluti, því þetta er auðvitað mjög skapandi og það er það sem ég þarf. Það er bara aldrei að vita hvað maður gerir.

En já, hvað hefur drifið á daga mína síðan ég óskaði ykkur gleðilegra jóla hér á síðunni... Jólin voru bara fín hjá mér. Ég hélt að það væri rosa skrítið að vinna um jólin en ég vann bara tvo daga milli jóla og nýárs og mætti ekki í vinnu fyrr en 5 janúar! Flott jólafrí það, amk miðað við vaktavinnu. Ég kíkti til Akureyrar yfir áramótin og það var bara mjög gaman. Ég fór í Sjallann á gamlárskvöld og þar var auðvitað hellings stemmning. Gaman að djamma með Kristjönu stjúpsystur og vinkonum hennar. :)

Rétt fyrir jól fékk ég loksins myndavélina mína langþráðu. Canon PowerShot G5, flunkuný beint frá USA. Hún Bjarney var svo góð að koma með hana til landsins fyrir mig og þannig sparaði ég mér meira en helming á verði vélarinnar! Gerist ekki betra. Ég hef auðvitað verið að taka myndir og, tjah, ætli ég hendi ekki bara inn sýnishornum hér beint í þessa færslu:

Nokkrar flottar myndir úr nýju vélinni! :)

Myndin sem er hér til hægri á síðunni var tekin í leiðangri míns og Jóns Odds, og tók Jón Oddur þessa mynd ef mig minnir rétt. Það eru nokkrar fleiri myndir úr þeim myndaleiðangri á myndasíðunni. Hugmyndin er að hafa alltaf eina flotta nýlega mynd í þessu plássi. Vonum að ég hafi nennu til að uppfæra það oft svo þið neyðist til að kíkja hérna oft! :) Ætli við segjum ekki bara ein mynd vikulega að minnsta kosti. Byrjum á því.

Það kom svolítið fyrir mig um helgina sem ég mun án efa muna ævilangt. Ég var að keppa í fótbolta með vinnunni í bænum (á Hlíðarenda), þetta var svona fyrirtækjamót, bara til að hafa gaman að og sprikla aðeins. Við spiluðum hrikalega og töpuðum öllu, en það er nú ekki það sem er svona minnistætt. Í byrjun síðasta leiksins fæ ég boltann nokkuð frá markinu og ákveð að skjóta á markið. Það er strákur sem setur löppina fyrir mig til að fara fyrir boltann en ég næ að skjóta og við skellum saman. Ég lenti á öklanum á honum og hann brotnaði. Beinið fór alveg í tvennt og stakkst út úr löppinni að innanverðu. Þetta var auðvitað algjört slys, hvorki honum að kenna eða mér, bara algjör óheppni. Þetta var ekki skemmtileg reynsla og auðvitað alveg hrikalegt fyrir aumingja strákinn sem þurfti að bíða í 20 mínútur eftir sjúkrabíl, sárkvalinn. Hann stóð sig samt rosalega vel og harkaði þetta ótrúlega af sér. Ég veit að ég hefði örugglega hágrátið við svona sársauka.

Ég veit ekki hvað hann heitir eða neitt til að tjékka á honum, en hann verður lengi að jafna sig. Ef einhver sem les þetta veit eitthvað um þetta mál, hvað hann heitir eða eitthvað þá væri ég þakklátur fyrir upplýsingar. Hann var að keppa fyrir fyrirtæki sem ég held að hafi verið kallað BR hvað svo sem það þýðir, og hann hefur líklegast verið kringum 22ja ára.

Annars er ekki svo mikið af mér að frétta, ég hef bara verið að vinna, djamma og þetta nauðsynlegasta. Lenti á skemmtilegu djammi um daginn eftir Speedo tískusýningu (geggjuð módel í sundbolum og bíkíníum, ekki leiðinlegt), þar sem ég drakk hvítvín og datt í þennan rosalega dansgír. Dansaði við DJ Sóley þegar enginn í þessu Speedo partýi nennti að dansa áfram, og það var mjög gaman. Ég þarf deffinetlý að tjékka á henni aftur. Er hún annars ekki oft að spila á Vegamótum? Ég held að ég þurfi að fara að venja mig á að kíkja þangað. :)

Mig er farið að hungra í aðra sumarbústaðaferð. Ótúlegt hvað það er gaman og heppnast alltaf vel. Við fórum í eina rétt fyrir jól sem ég er ekkert búinn að minnast á á síðunni. Það var þvílíkt gaman, dóum næstum því í óveðri á leiðinni yfir heiðina, og gátum ekki opnað hliðið í götunni hjá bústaðnum þannig að við þurftum að bera allt draslið okkar lengri leið. Ok, kannski bara svona 50 metrum lengra en samt. Svo fórum við nottla í pottinn og spiluðum og spjölluðum og bulluðum og bulluðum. Einróma álit allra í ferðinni að hún hafi verið einstaklega vel heppnuð. Maður þyrfti helst að redda sér bústað í febrúar og halda smá partý, nóg er af fólkinu sem langar að mæta. :)

Segjum þetta gott af svaðilförum mínum í bili. Heilræði dagsins er: Farið varlega í íþróttum. Sérstaklega með mér því ég smita óheppnina mína í annað fólk svona rétt á meðan.
Maggi.

E.s: Já ég vill þakka Svabba fyrir að kynna mig fyrir Damien Rice, þeim tónlistarsnillingi. Úff hvað diskurinn hans er góður, ég mæli með að allir tjékki á honum og athugi hvort hann leggist jafn vel í ykkur og okkur vinina. Diskurinn heitir O. Já, bara bókstafurinn O. Ekki flókið það. Sjáumst. Bæbæ.
blog comments powered by Disqus