sunnudagur, janúar 25, 2004

Ég undirritaður...

...sit í nýja skrifborðsstólnum sem ég fékk í jólagjöf frá móður minni með fullt af nammi fyrir framan mig og sneisafullt bjórglas... af kóki. Þetta væri kannski ekki svo skrítin sjón nema fyrir þá staðreynd að það er laugardagskvöld. Eins og ég minntist á í síðustu færslu hef ég ekki unnið heila helgi síðan í sumar ef minnið bregst mér ekki. Ég hef verið frekar mikið á djamminu... og satt best að segja hefur frekar lítið komið útúr því. Það eru fá sem ég man að hafi verið sérstaklega skemmtileg, öll voru þau eins og dægrastytting. Hmm... það er komin helgi, best að hoppa í sturtu og fara að djamma með strákunum.

Ég hef næstum alltaf farið á djammið undir forskriftinni "ég er ekkert að fara að reyna við stelpur heldur bara að skemmta mér og það gerist bara eitthvað ef það gerist". Það er nottla bara hálfur sannleikur. Ef við viljum orða það öðruvísi þá er það nottla bara haugalygi. En þetta segi ég sjálfum mér alltaf. Ég er alveg rosalega góður í að ljúga að sjálfum mér. Næstum jafn góður og ég er í að sannfæra sjálfan mig. Ég veit ekkert hvert ég er að fara með þessari færslu. Förum bara í áttina sem ég stefni í með þriðju síðustu setningunni í þessari málsgrein.

Ég er með nokkuð sterka samvisku. (Getur maður sagst vera með sterka samvisku? Æi who gives, þetta er mitt blogg, þegiðu bara.) Ég veg það upp á móti því að vera með rosalegan sannfæringarkraft á sjálfan mig. Í nær öllum ákvörðunum sem ég tek þarf ég að vega kostina upp á móti göllunum, og skoða staðreyndir málsins fyrst. Ekki misskilja mig, þetta er yfirleitt mjög stuttur prósess, en þetta geri ég. Það sem er farið að verða rosalega stór partur í öllum mínum ákvörðunum er faktorinn "hvað á ég skilið?". Ef spurningin er um hvort ég eigi að leyfa mér að gera eitthvað, sem hefur aðallega galla, en kosturinn er sá að það veitir mér ánægju, þá get ég alltaf fundið nóg af ástæðum á augabragði sem má burtu alla ókostina sem gætu t.d. verið "þetta kostar peninga" eða "þetta er óhollt" eða eitthvað álíka.

Að því leitinu til er ég farinn að dekra frekar mikið við sjálfan mig og leyfa mér flest sem mér dettur í hug. Þetta eru næstum alltaf mjög smávægilegar ákvarðanir, eins og t.d. "á ég að fá skiptivinnu og fara á djammið", eða "ætti ég að fara og kaupa mér rusl í sjoppunni og fara á rúntinn í staðinn fyrir að fara að sofa". En ég hef verið að hugsa um þessar ástæður sem ég hef fyrir því að gera þessa hluti. S.s. þessar ástæður fyrir því að ég leyfi mér of mikið af svona heimskulegu óþarfa dóti. Eru þær bara sjálfsvorkun? En það er virkilega farinn að vera allt of stór partur af þjóðfélaginu í dag, og ég vill svona innilega ekki að ég sökkvi mér of djúpt ofaní hana, sérstaklega af því að ég hef það alveg fáránlega gott miðað við marga. Eða ættu allar þessar smávægilegu spurningar allar að hafa svarið "já, af hverju ekki, þetta er þitt líf, lifðu því bara!". Ef svo er þá er það uppeldið á mér sem er að þvælast fyrir mér, því gagnrýnisaugun sem notuð eru til þess að horfa á alla óþarfa hluti á þessu heimili hafa vissulega smitast mikið í mig. Helvítis.

Annars er þessi færsla nú bara svar við sjálfri spurningunni sem hún setur fram. Ég of-spái-í-hlutunum (over-analyze) allt of mikið. En ég ætla ekki bara að stroka hana út (eins og þú veist því þá væriru ekki að lesa hana), því kannski eru einhverjir þarna úti sem spá í heimskulegum hlutum eins og ég. Ég vona það innilega því þótt ég svari játandi með stolti þegar einvhver spyr spurningarinnar "ertu eitthvað skrýtinn?" þá vona ég nú innst inni að ég sé bara skrítinn á þann hátt sem allir eru skrítnir. Bara passlega.
Undirritaður.
blog comments powered by Disqus