miðvikudagur, janúar 28, 2004

Oscar

Lost in Translation sem ég talaði um í síðstu færslu fékk fjórar tilnefningar til Óskarsverðlauna. Hún var tilnefnd sem besta mynd, Bill Murray sem besti leikari í aðalhlutverki og Sofia Coppola fékk tilnefningar sem besti leikstjóri og fyrir besta frumsamda handrit. Þetta sannar nú bara hvað þetta er góð mynd fyrir þá sem höfðu einhverjar efasemdir. Ég horfði á hana aftur í kvöld, og þetta er stysti tími sem hefur liðið hjá mér milli þess að sjá sömu mynd tvisvar. Strákarnir vildu allir sjá hana þannig að ég horfði aftur á hana með þeim og leiddist sko alls ekki. Er bara mest fúll að Scarlett Johansson hafi ekki fengið tilnefningu sem besta leikkona í aðalhlutverki. En fjórar tilnefningar verða víst að duga. :) Að vísu er ég nokkuð viss um að myndin hljóti í mesta lagi ein verðlaun, og það er fyrir besta handrit. Meira að segja mestar líkur á að hún hljóti engin verðlaun, því samkeppnin er svo rosalega mikil í þessum flokkum, enda stærstu flokkarnir. En hún er ekkert síðri fyrir það.

Önnur frábær mynd sem ég hef talað um á þessari síðu og mælt eindregið með er City of God, en hún fékk líka fjórar tilnefningar. Í flokkunum besti leikstjóri, besta handrit eftir öðru verki, besta myndataka og besta klipping. Hún á þessar tilnefningar svo sannarlega skilið enda falleg og vel gerð með eindæmum. Líkur eru á að hún fái fleiri verðlaun en Lost in Translation því hún keppir í minni flokkum, stóru nöfnin (Hollywood blockbusterarnir) vinna oftast stóru verðlaunin. Ég er hræddur um að Peter Jackson vinni flokkinn þar sem þessar myndir eru tilnefndar báðar líka, besti leikstjóri, og á hann það auðvitað fyllilega skilið og ég vona að hann vinni. Það verður spennandi að fylgjast með afhendingunni og verð ég límdur við skjáinn (hjá einhverjum af vinum mínum því ég er ekki með Stöð 2) þótt ég þurfi að mæta til vinnu klukkutíma eftir að athöfninni líkur. Ég birti minn lista yfir þá leikara og þær myndir sem ég held að vinni áður en að athöfninni kemur, og er ég viss um að ég hafi meirihlutann rétt eins og raunin var í fyrra. :) Ekki það að ég hafi nokkuð vit á þessu, enda bý ég bar á Íslandi, ekkí í Hollywood.
Maggi.
blog comments powered by Disqus