föstudagur, janúar 30, 2004

Just do it

Í rútunni á leiðinni í vinnuna um daginn var ég að horfa útum gluggann og sá strák með skólatösku og stuttu síðar stelpu, og þau voru greinilega á röltinu heim úr skólanum. Þau röltu bæði mjög hægt og skoðuðu það sem þeim fannst áhugavert á leiðinni, hvort sem það var rusl eða grindverk eða eitthvað, bara eitthvað til að sparka í eða skoða í mestu makindum á leiðinni heim því nægur var tíminn. Ég man eftir þessu tímabili þegar maður sá eitthvað og fékk áhuga á því og veitti engu öðru í kringum sig neinn áhuga í smá stund. Maður var ennþá að uppgötva heiminn einhvernveginn, og sankaði að sér allskonar rusli sem maður hafði engin not fyrir en maður sá einhvern fjársjóð í. Svo sá ég líka tvær gamlar konur á gangi, í sömu makindunum, og stærsti munurinn á þeim og krökkunum var að þær voru búnar að uppgötva heiminn. Hættar að undrast á litlum hlutum og eiga tiltölulega rólegt líf framundan, stóru viðburðirnir eru búnir, og markmiðið bara að reyna að njóta lífsins með afkomendunum.

Þá fór ég að hugsa með ellilífeyri, og ellina yfir höfuð. Það sem ég er að gera, þá meina ég að plana og fara í heimsreisu, er eitthvað sem ótrúlega marga langar að gera. Og því meira og oftar sem ég hugsa um það þá sannfærist ég um að þetta sé hárrétti tíminn til að gera það. Sumir sem langar að gera þetta segja bara "seinna, klára skólann fyrst" eða eitthvað álíka. Seinna, seinna, seinna. Og þegar maður er búinn með skólann, kominn í góða vinnu, jafnvel kominn með fjölskyldu og hús og bíl, þá gefst enginn tími til þess fyrr en maður er orðinn gamall. Og maður sér þetta mjög mikið. Gamalt fólk að ferðast útum heiminn að gera og sjá það sem það hafði alltaf langað til að gera. En það er ekki rétti tíminn að mínu mati. Rétti tíminn er þegar maður er ungur og fullur af lífsorku, og hefur ennþá vott af þessari ævintýraþrá. Er ekki búinn að uppgötva allt, og langar að lenda í ævintýrum sem maður getur sagt frá allt sitt líf. Þess vegna finnst mér sorglegt, því ég heyri rosalega mikla öfund hjá fólki útaf heimreisunni okkar, að svo margir eru að slá lífinu á frest til að ná einhverjum markmiðum fyrst. Það gefst nægur tími til að læra, eða eignast fjölskyldu eða bæði. Maður er ekki að missa af neinu. Því finnst mér frábært það sem Tommi og Klara eru að gera, fara bara í heimsreisu eftir Evrópureisuna, og leika sér áður en alvaran tekur við. Því maður gæti misst af tækifærinu sínu, og verður því að grípa gæsina meðan hún gefst.
Maggi.
blog comments powered by Disqus