Starkaður og Hróbjartur
---- 2. hluti. ----
Hróbjartur situr efst í klifurgrindinni og Starkaður hangir á hvolfi með krosslagðar hendur og lokuð augu. Guli sandkassinn var ekki fýsilegur staður fyrir drengina gáfuðu til að rökræða í þessum leiktíma vegna efnahernaðar kattanna í hverfinu. Sumir krakkanna láta það ekki mikið á sig fá og Hróbjartur horfir uppá eina stelpuna stinga uppí sig vænni lúku af sandi og japla á honum eins og hann væri hnossgæti. Maður má allt þegar maður er bara tveggja ára.
Starkaður. Hvað helduru að ég geti hangið svona lengi?
(Hróz lét spurningu Starky sem vind um eyru þjóta.)
Hróbjartur. Ég sé næstum heim til mín héðan.
(Starky grípur í stöngina sem hann hangir sér í og vippar sér upp til vinar síns.)
Starkaður. Ég sé ekki næstum því heim. Óþolandi að eiga heima svona langt frá leikskólanum sínum. Hvað ætli þetta sé eiginlega langt? Örugglega 10 kílómetrar.
Hróbjartur. Hættu þessu væli, ég veit nákvæmlega hvað það er langt heim til mín. Mamma röltir þetta með mér alla morgna og þetta eru 314 skref fyrir mig. Hvað ætli ég hafi labbað þetta oft eiginlga? Eða það sem meira er, hvað ætli maður hafi tekið mörg skref yfir ævina? Alveg slatta get ég sagt þér. Eigum við að reikna það út?
Starkaður. Nei ég nenni því ekki.
(Starkaður var kominn aftur í sínar fyrri stellingar, hangandi á hvolfi í einum af rimlunum.) Þú gætir það hvort eð er aldrei. Ég meina, það eru allt of margir óvissuþættir. Þetta yrði svakalega ónákvæmt hjá þér.
Hróbjartur. Já ég veit, en það skaðar ekki að reyna. Ef ég væri fíll, ætli ég gæti þá munað öll skrefin sem ég hef tekið? Þeir muna víst ansi mikið. En hvað hafa þeir svosem að muna?
Hmmm.. Hvað ég gerði á þessum degi fyrir tólf árum? (Hróz reyndi að gera sig dimmraddaðann til að leika fíl.) Ég rölti niður að vatnsbóli og fékk mér 24 sopa. Vatnið var frekar heitt. Svo lagði ég mig. Þvílíkt líf að vera fíll, skrítið að hann geti munað allt, það hefur aldrei neitt gerst hjá honum! Einhver ætti að lána honum alfræðiorðabók og spyrja hann svo útúr henni. Hann gæti ekkert munað þá.
Starkaður. Hvað varstu að segja um mömmu þína?
Hróbjartur. Þegiðu. Mömmubrandarar voru kanski fyndnir þegar við vorum tveggja.
Starkaður. Jeje. En þetta skrefadæmi er svoldið áhugavert. Nú hefur þú tekið ákveðinn fjölda skrefa um ævina. Það er alveg augljóst. Sama hvort þú munir það, sama þótt öllum í heiminum sé alveg sama og enginn muni hugsa útí það aftur, þá hefur þú tekið ákveðinn fjölda af skrefum um ævina ekki satt?
Hróbjartur. Jú það gefur augaleið. Ég hef tekið X mikið af skrefum um ævina. Hvað ertu að fara?
Starkaður. En þú veist ekki hvað þú hefur tekið mörg skref. Þú gætir reiknað það nokkurnveginn út, en þú gætir aldrei vitað það fyrir víst. Samt erum við búnir að fullyrða að þessi tala sé til. Talan sem enginn veit. En er þessi tala þá til? Er þessi vitneskja til um atburði sem augljóslega hljóta að hafa átt sér stað?
Hróbjartur. Neeeiii. Hún er ekki til.
Starkaður. En við vorum að segja að þú hafir tekið ákveðinn fjölda skrefa! Við vitum það fyrir víst. Segjum sem svo að mamma þín hafi haldið skrá í huganum yfir öll skref sem þú hefur tekið, eins bjánalega og það kann að hljóma, en eins og fram hefur komið gleyma fílar aldrei.
(Starky glotti og var ánægður að hafa komið þessu skoti einu sinni enn að. Hann var sko ekki vaxinn uppúr mömmubröndurunum.) Þá væri vitneskjan til. Spurningin er sú, þarf einhver að vita eitthvað til að hægt sé að vita það?
Hróbjartur. Nú ertu kominn útí spurninguna um hvort það heyrist hljóð þegar tré fellur í skóginum og enginn heyrir það.
Starkaður. Já, ekki langt frá því enda er sú spurning löngu orðin klassísk.
Hróbjartur. En ok. Ég geng í svefni og stundum rekst mamma á mig þegar hún er ekki komin í rúmið líka. Segjum að ég hafi gengið í svefni í nótt. Mamma var farinn að sofa og Lísa systir líka. Enginn sá mig, og ég man ekkert eftir því af því að ég var sofandi. Ertu þá að segja að ég hafi ekki gengið í svefni?
Starkaður. Nei, þú ert að misskilja spurninguna. Það er hljóðið í spurningunni með tréið sem er vandamálið. Auðvitað hreyfðist loftið og titringur myndaðist, þannig að ef einhver hefði verið nálægt þá hefði hann heyrt tréið falla. Skrigreiningin okkar á hljóði er að einhver heyri það ekki rétt? Hvernig getur hljóð verið til ef enginn heyrir það?
Hróbjartur. Mér finnst spurningin mín vera alveg eins.
Starkaður. Það væri betra að spyrja hvort hægt væri að vita hvort þú gekkst í svefni ef engar sannanir liggja fyrir.
Hróbjartur. Jájá Sherlock. Þú ert ágætur. Ég nenni þessu ekki lengur. Hvað ætlaru annars að hanga þarna lengi?
(Starky er orðinn verulega rauður í framan.)
Starkaður. Þar til ég dett niður. Ég gæti verið hérna í marga daga.
(Hróz klifrar niður og hleypur til stelpunnar sem borðaði sandinn og hvíslar einhverju að henni. Hún stendur upp með fulla lúku af sandi og lallar yfir til Starky sem hangir enn. Áður en hann getur beitt nokkrum vörnum við skellir hún framan í hann sandinum og hann öskrar upp yfir sig og dettur niður með skell. Stelpan röltir sallaróleg yfir til Hróz og réttir fram höndina. Hann lætur hana hafa karamellu að launum, og fer að klifurgrindinni þar sem Starky er að hreinsa framan úr sér sandinn.)
Hróbjartur. Ætli það sé nokkur möguleiki að vita af hverju stelpugreyið gerði þetta? Er sú vitneskja möguleg Starky?
(Hróz nær ekki að halda andlitinu og hlær hátt þegar Starky hreynsar útúr nefinu með því að halda fyrir aðra nösina og blása útum nefið.)
Starkaður. Maður þarf nú ekki að heita Sherlock til að komast að því. Segðu mér, varstu búinn að komast að því hver stal síðustu kjötbollunni þinni í hádeginu?
(segir Starky og glottir. Upphefst mikill eltingaleikur, enda verður maður stundum að fá að hlaupa þegar maður er bara fjögurra ára.)
..:: magchen in action ::..