laugardagur, janúar 31, 2004

Takk Hverfis.

Já það var líka svona feyki skemmtilegt í gær. Ég fór í bæinn í gærkvöldi með rútunni. Hef ekki farið með rútunni í bæinn í mörg ár og aldrei til að fara á djamm. Alveg merkilegt hvað það er langt frá hugsun manns einhvernveginn að fara með rútunni, ef maður hefur ekki bíl þá er bara lífsins ómögulegt að komast í bæinn. En þetta var bara fínt, þurfti ekkert að keyra, sat bara og hlustaði á Play með Moby og horfði útum gluggann og dottaði. Æðislegur diskur, og fínasta rútuferð. Svo kom ágætis drengur sem heitir Stjáni og sótti mig niður á BSÍ og skutlaði mér til Einars Þorgeirssonar þar sem voru fyrir Jóhann og Hjörleifur. Þar vorum við frameftir kvöldi, og spjölluðum og spiluðum á gítar og sungum. Þegar líða tók á kippuna fórum við svo í alveg stórskemmtilega tölvuleiki í PS2, með Eye-Toy myndavél. Það er bara algjör snilld að vera dálítið hífaður í slíkum leikjum, og eru þeir frábærir líka þar fyrir utan auðvitað. Fyrir þá sem ekki vita hvað þetta er þá er myndavél skellt ofan á sjónvarpið og maður stendur þar fyrir framan og tekur þátt í leiknum með því að baða út öllum öngum. Við spiluðum Kung Fu leik, gluggaþvottaleik (sem er ekkert smá fyndinn), dansleik (!) og boxleik meðal annars. Mikið hlegið.

Svo röltum við niður í bæ í ágætu en ísköldu veðri. Við Hjörleifur urðum af einhverjum ástæðum viðskila við Einar og Jóhann og röltum upp Laugarveginn. Röðin á Hverfis silaðist áfram á hraða skriðjökuls eins og einhver komst svo skemmtilega að orði um daginn og því fórum við frekar á Grand Rokk. Þar hittum við á tónleika með frábærri hljómsveit sem við komumst seinna að að hafi verið Dikta. Við Hjörleifur slömmuðum eins og sönnum rokkaðdáendum sæmir og létum öllum illum látum fyrir framan sviðið meðan allir hinir sátu. Það slógust nú fljótlega nokkrir í lið með okkur og þetta var þrusugaman. Frábærir tónleikar, alltaf gaman að fara á Grand Rokk. Takk Hverfis.

Það sem eftir var var nú frekar endasleppt. Við hittum Einar og Jóhann aftur og við fengum okkur að borða. Ég kíkti á Kapital og þar var geggjuð stemmning aldrei þessu vant (aldrei þessu vatn líka, því það kostaði 600 kall á barnum vatnið) en djammfélagar mínir voru litlir áhugamenn um hlusta á eða dilla sér við slíkan tónlistargjörning. Sem var mikil synd og saknaði ég þá eina mannsins sem ég þekki sem hefur álíka áráttu til að taka sporið í hópi e-pillu-poppandi techno áhugafólks. Ég dreg hann bara með mér næst. Þannig að við fórum fljótlega að lalla heim.

Ég tók fullt af skemmtilegum myndum en birti hér eina sem Jóhann tók af mér og fullyrti að það hefði verið algjör hunda-helvítis-heppni að hún skildi takast vel því hann kunni lítið fyrir sér í ljósmyndun. Ég held að það sé argasta lygi og að hann sé upprennandi atvinnuljósmyndari. Hann bara veit það ekki ennþá. Ég hendi inn fleiri myndum í myndarammann næstu daga frá þessu kvöldi, af action í Eye-Toy og arty-farty bangsamyndum. :) Góðar stundir.
Maggi.

föstudagur, janúar 30, 2004

Just do it

Í rútunni á leiðinni í vinnuna um daginn var ég að horfa útum gluggann og sá strák með skólatösku og stuttu síðar stelpu, og þau voru greinilega á röltinu heim úr skólanum. Þau röltu bæði mjög hægt og skoðuðu það sem þeim fannst áhugavert á leiðinni, hvort sem það var rusl eða grindverk eða eitthvað, bara eitthvað til að sparka í eða skoða í mestu makindum á leiðinni heim því nægur var tíminn. Ég man eftir þessu tímabili þegar maður sá eitthvað og fékk áhuga á því og veitti engu öðru í kringum sig neinn áhuga í smá stund. Maður var ennþá að uppgötva heiminn einhvernveginn, og sankaði að sér allskonar rusli sem maður hafði engin not fyrir en maður sá einhvern fjársjóð í. Svo sá ég líka tvær gamlar konur á gangi, í sömu makindunum, og stærsti munurinn á þeim og krökkunum var að þær voru búnar að uppgötva heiminn. Hættar að undrast á litlum hlutum og eiga tiltölulega rólegt líf framundan, stóru viðburðirnir eru búnir, og markmiðið bara að reyna að njóta lífsins með afkomendunum.

Þá fór ég að hugsa með ellilífeyri, og ellina yfir höfuð. Það sem ég er að gera, þá meina ég að plana og fara í heimsreisu, er eitthvað sem ótrúlega marga langar að gera. Og því meira og oftar sem ég hugsa um það þá sannfærist ég um að þetta sé hárrétti tíminn til að gera það. Sumir sem langar að gera þetta segja bara "seinna, klára skólann fyrst" eða eitthvað álíka. Seinna, seinna, seinna. Og þegar maður er búinn með skólann, kominn í góða vinnu, jafnvel kominn með fjölskyldu og hús og bíl, þá gefst enginn tími til þess fyrr en maður er orðinn gamall. Og maður sér þetta mjög mikið. Gamalt fólk að ferðast útum heiminn að gera og sjá það sem það hafði alltaf langað til að gera. En það er ekki rétti tíminn að mínu mati. Rétti tíminn er þegar maður er ungur og fullur af lífsorku, og hefur ennþá vott af þessari ævintýraþrá. Er ekki búinn að uppgötva allt, og langar að lenda í ævintýrum sem maður getur sagt frá allt sitt líf. Þess vegna finnst mér sorglegt, því ég heyri rosalega mikla öfund hjá fólki útaf heimreisunni okkar, að svo margir eru að slá lífinu á frest til að ná einhverjum markmiðum fyrst. Það gefst nægur tími til að læra, eða eignast fjölskyldu eða bæði. Maður er ekki að missa af neinu. Því finnst mér frábært það sem Tommi og Klara eru að gera, fara bara í heimsreisu eftir Evrópureisuna, og leika sér áður en alvaran tekur við. Því maður gæti misst af tækifærinu sínu, og verður því að grípa gæsina meðan hún gefst.
Maggi.

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Oscar

Lost in Translation sem ég talaði um í síðstu færslu fékk fjórar tilnefningar til Óskarsverðlauna. Hún var tilnefnd sem besta mynd, Bill Murray sem besti leikari í aðalhlutverki og Sofia Coppola fékk tilnefningar sem besti leikstjóri og fyrir besta frumsamda handrit. Þetta sannar nú bara hvað þetta er góð mynd fyrir þá sem höfðu einhverjar efasemdir. Ég horfði á hana aftur í kvöld, og þetta er stysti tími sem hefur liðið hjá mér milli þess að sjá sömu mynd tvisvar. Strákarnir vildu allir sjá hana þannig að ég horfði aftur á hana með þeim og leiddist sko alls ekki. Er bara mest fúll að Scarlett Johansson hafi ekki fengið tilnefningu sem besta leikkona í aðalhlutverki. En fjórar tilnefningar verða víst að duga. :) Að vísu er ég nokkuð viss um að myndin hljóti í mesta lagi ein verðlaun, og það er fyrir besta handrit. Meira að segja mestar líkur á að hún hljóti engin verðlaun, því samkeppnin er svo rosalega mikil í þessum flokkum, enda stærstu flokkarnir. En hún er ekkert síðri fyrir það.

Önnur frábær mynd sem ég hef talað um á þessari síðu og mælt eindregið með er City of God, en hún fékk líka fjórar tilnefningar. Í flokkunum besti leikstjóri, besta handrit eftir öðru verki, besta myndataka og besta klipping. Hún á þessar tilnefningar svo sannarlega skilið enda falleg og vel gerð með eindæmum. Líkur eru á að hún fái fleiri verðlaun en Lost in Translation því hún keppir í minni flokkum, stóru nöfnin (Hollywood blockbusterarnir) vinna oftast stóru verðlaunin. Ég er hræddur um að Peter Jackson vinni flokkinn þar sem þessar myndir eru tilnefndar báðar líka, besti leikstjóri, og á hann það auðvitað fyllilega skilið og ég vona að hann vinni. Það verður spennandi að fylgjast með afhendingunni og verð ég límdur við skjáinn (hjá einhverjum af vinum mínum því ég er ekki með Stöð 2) þótt ég þurfi að mæta til vinnu klukkutíma eftir að athöfninni líkur. Ég birti minn lista yfir þá leikara og þær myndir sem ég held að vinni áður en að athöfninni kemur, og er ég viss um að ég hafi meirihlutann rétt eins og raunin var í fyrra. :) Ekki það að ég hafi nokkuð vit á þessu, enda bý ég bar á Íslandi, ekkí í Hollywood.
Maggi.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Lost in Translation

Ég sá mynd í morgun (!) sem kemst á topp tuttugu hjá mér, að minnsta kosti. Það er myndin Lost in Translation þar sem Bill Murray og Scrarlett Johansson fara með stærstu hlutverkin. Hún er alveg frábær að öllu leiti, rosalega vel leikin, falleg og áhrifamikil og sagan er mjög skemmtileg. Hún er frekar hæg, en mér fannst það ekki löstur á myndinni því þetta er þannig mynd. Ég er ekki sammála skilgreiningunni að þetta sé grínmynd, þótt hún sé alveg drepfyndin á stundum. Hún er frumsýnd hér í bíó 6. febrúar en er auðvitað komin á DC þar sem er hægt að sækja hana í DVD gæðum þannig að það er lítið síðra en að sjá hana í bíó. Ég er meira að segja ánægður að ég hafi horft á hana einn, því ég hefði ekki fílað hana vel hefðu of margir verið í kringum mig, þótt ég kunni ekki að útskýra það. Bill Murray fékk Golden Globe fyrir hlutverkið sitt, og Scarlett var tilnefnd en vann ekki þótt hún ætti það algjörlega skilið. Myndin var líka kosin besta grínmyndin á Golden Globe, og verður eflaust tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna.

Rosalega skemmtilegt hvað titillinn er illa þýddur hér á landi, "Glötuð þýðing", því um leið að vera nákvæmlega það sem hún segir, s.s. glötuð þýðing, þá tapast kaldhæðnin sem er í titlinum á ensku, þannig að er lost in translation. Algjör snilld. Allir að sjá þessa mynd.
Maggi.

mánudagur, janúar 26, 2004

BeatBoxes & Brain Brillance

Það var einhver gaur á Valhöll sem benti mér á video fæl á netinu sem mér finnst alveg hreint magnaður. Það er heimsmeistarinn (að ég held) í Human Beatbox, eða taktkjafti eins og einhver snillingurinn ákvað að það skyldi útleggjast á íslensku. Þessi gaur er ekkert smá góður, ég hef aldrei heyrt neitt þessu líkt, amk ekki svona vel gert. Þannig að ef þú tímir að dánlóda rúmum sex megabætum af erlendum server þá ættiru að kíkja á þetta, ég mæli með því. Myndskráin er hérna: beatbox.wmv

Ég er að vinna þvílíkt mikið þessa dagana og ætla því að gera það sem ég hef ekki gert í lengri tíma. Fara snemma að sofa. Þegar ég er búinn að skrifa þetta þá fer ég beint að sofa, s.s. svona hálf tíu. Það hefur ekki gerst hjá mér í mörg ár.

Ég sá alveg magnaða mynd í dag. Derren Brown, snillingurinn sem er með Mind Control þættina á Stöð 2 á mánudögum gaf út DVD disk með bestu atriðunum og þetta sótti ég á netinu. Þvílíkt sem maðurinn getur plantað hugsunum í hausinn á fólki, og lesið hvað það er að hugsa bara með því að horfa í augu þess eða heyra þau tala. Hann er ótrúlegur með spilastokk því hann er líka snillingur í minnisaðferðum. Hann getur lært heilu bækurnar utanaf á tuttugu mínútum því hann er með ljósmyndaminni, eða hefur amk þjálfað upp eitthvað svipað. Alveg hreint magnaður gaur. Verst að maður hefur ekki einbeitinguna eða nægan vilja til að þjálfa sig upp í að verða ótrúlega góður á einhverju sviði. Annað hvort eins og Derren Brown eða Beatbox heimsmeistarinn, en ég væri virkilega til í að geta þó ekki væri nema brot af því sem þeir geta. Þetta kalla ég sko snilligáfur í lagi. Kannski er bara málið að prófa sem flest og finna hvað maður er góður í og þjálfa það upp í nokkur ár. Þá hlýtur maður að geta orðið rosalega góður í einhverju. Það væri samt asnalegt ef maður gæti bara ropað hæst, eða sungið verst eða eitthvað, en maður hlýtur samt að hafa eitthvað. Það er samt ekki víst hvort maður hafi nokkra löngun til að komast að því hvað það er. Spurning.
Maggi.
21 Grams

Ég fór á 21 Grams í Regnboganum í kvöld. Hún er virkilega góð og mæli ég með henni fyrir þá sem hafa gaman af góðum myndum. Hún er ekki fyrir hvern sem er. Hún hoppar fram og aftur í tímanum og er ruglingsleg í byrjun en maður kemst yfir það ef maður hefur hugann við efnið. Hún er ótrúlega vel leikin og falleg, um leið og hún er rosalega drungaleg og sorgleg. Næstum því jafn góð og Amores perros. Bíómyndaáhugafólk ætti að vera búið að sjá þá mynd, því hún er alveg frábær. Spænskan virkaði meira að segja betur í mig því mér finnst tungumál sem maður heyrir ekki dags daglega koma með svo mikinn raunveruleika í bíómyndir, en það pirrar bara suma að skilja ekki hvað persónurnar eru að segja og þurfa að lesa það á skjánum. Þessi mynd er þó öll á ensku, en bæði handritshöfundur og leikstjóri eru frá Mexico.

Og í allt annað mál. Ef einhver kann að ráða bót á því að það sjáist ekki myndir sem ég birti í með færslunum mínum (þær koma bakvið hvíta bakgrunninn í kössunum), þá væri það vel þegið. Þetta er sett upp í Style Sheet (.css) og ég er búinn að prófa að breyta þessu fram og til baka en alltaf hverfa myndirnar. Ég verð þó að hafa hvítan bakgrunn í kössunum þar sem textinn birtist því annars væri ekki hægt að lesa textann vegna röndótta bakgrunnsins.
Maggi.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Ég undirritaður...

...sit í nýja skrifborðsstólnum sem ég fékk í jólagjöf frá móður minni með fullt af nammi fyrir framan mig og sneisafullt bjórglas... af kóki. Þetta væri kannski ekki svo skrítin sjón nema fyrir þá staðreynd að það er laugardagskvöld. Eins og ég minntist á í síðustu færslu hef ég ekki unnið heila helgi síðan í sumar ef minnið bregst mér ekki. Ég hef verið frekar mikið á djamminu... og satt best að segja hefur frekar lítið komið útúr því. Það eru fá sem ég man að hafi verið sérstaklega skemmtileg, öll voru þau eins og dægrastytting. Hmm... það er komin helgi, best að hoppa í sturtu og fara að djamma með strákunum.

Ég hef næstum alltaf farið á djammið undir forskriftinni "ég er ekkert að fara að reyna við stelpur heldur bara að skemmta mér og það gerist bara eitthvað ef það gerist". Það er nottla bara hálfur sannleikur. Ef við viljum orða það öðruvísi þá er það nottla bara haugalygi. En þetta segi ég sjálfum mér alltaf. Ég er alveg rosalega góður í að ljúga að sjálfum mér. Næstum jafn góður og ég er í að sannfæra sjálfan mig. Ég veit ekkert hvert ég er að fara með þessari færslu. Förum bara í áttina sem ég stefni í með þriðju síðustu setningunni í þessari málsgrein.

Ég er með nokkuð sterka samvisku. (Getur maður sagst vera með sterka samvisku? Æi who gives, þetta er mitt blogg, þegiðu bara.) Ég veg það upp á móti því að vera með rosalegan sannfæringarkraft á sjálfan mig. Í nær öllum ákvörðunum sem ég tek þarf ég að vega kostina upp á móti göllunum, og skoða staðreyndir málsins fyrst. Ekki misskilja mig, þetta er yfirleitt mjög stuttur prósess, en þetta geri ég. Það sem er farið að verða rosalega stór partur í öllum mínum ákvörðunum er faktorinn "hvað á ég skilið?". Ef spurningin er um hvort ég eigi að leyfa mér að gera eitthvað, sem hefur aðallega galla, en kosturinn er sá að það veitir mér ánægju, þá get ég alltaf fundið nóg af ástæðum á augabragði sem má burtu alla ókostina sem gætu t.d. verið "þetta kostar peninga" eða "þetta er óhollt" eða eitthvað álíka.

Að því leitinu til er ég farinn að dekra frekar mikið við sjálfan mig og leyfa mér flest sem mér dettur í hug. Þetta eru næstum alltaf mjög smávægilegar ákvarðanir, eins og t.d. "á ég að fá skiptivinnu og fara á djammið", eða "ætti ég að fara og kaupa mér rusl í sjoppunni og fara á rúntinn í staðinn fyrir að fara að sofa". En ég hef verið að hugsa um þessar ástæður sem ég hef fyrir því að gera þessa hluti. S.s. þessar ástæður fyrir því að ég leyfi mér of mikið af svona heimskulegu óþarfa dóti. Eru þær bara sjálfsvorkun? En það er virkilega farinn að vera allt of stór partur af þjóðfélaginu í dag, og ég vill svona innilega ekki að ég sökkvi mér of djúpt ofaní hana, sérstaklega af því að ég hef það alveg fáránlega gott miðað við marga. Eða ættu allar þessar smávægilegu spurningar allar að hafa svarið "já, af hverju ekki, þetta er þitt líf, lifðu því bara!". Ef svo er þá er það uppeldið á mér sem er að þvælast fyrir mér, því gagnrýnisaugun sem notuð eru til þess að horfa á alla óþarfa hluti á þessu heimili hafa vissulega smitast mikið í mig. Helvítis.

Annars er þessi færsla nú bara svar við sjálfri spurningunni sem hún setur fram. Ég of-spái-í-hlutunum (over-analyze) allt of mikið. En ég ætla ekki bara að stroka hana út (eins og þú veist því þá væriru ekki að lesa hana), því kannski eru einhverjir þarna úti sem spá í heimskulegum hlutum eins og ég. Ég vona það innilega því þótt ég svari játandi með stolti þegar einvhver spyr spurningarinnar "ertu eitthvað skrýtinn?" þá vona ég nú innst inni að ég sé bara skrítinn á þann hátt sem allir eru skrítnir. Bara passlega.
Undirritaður.

laugardagur, janúar 24, 2004

Úff

Fór að sjá Keflavík tapa fyrir franska liðinu Dijon í kvöld. Það var ekki gaman. Þeir spiluðu bara illa og áttu alveg skilið að tapa með fimmtán stigum. Ég hefði nottla viljað sjá þá vinna því þá hefðu þeir komist eitthvað lengra í keppninni en þetta var víst síðasti leikurinn, þeir eru dottnir út.

Það lítur út fyrir að ég vinni alla helgina. Ég hef ekki unnið heila helgi síðan í sumar. Hef alltaf tekið mér eitthvað frí. En hver veit. Helgin er ekki á enda enn, aldrei að segja aldrei. Annars er ég að spá í að vinna alla næstu helgi líka svo ég geti með góðri samvisku tekið mér frí helgina þar á eftir til að fara með strákunum í sumarbústað. Það má nú varla missa af því, enda er það ekkert smá gaman! Og loksins bústaður sem er ekki á mínum vegum þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að eitthvað brotni eða bili eða klikki. Ekki gaman að vera fullur og þurfa að hafa sífelldar áhyggur, eyðileggur svoldið mikið fyrir. Ég ætla því að reyna allt sem ég get til að redda mér fríi, og eins og dæmin sanna þá tekst það yfirleitt. :)
Maggi.

föstudagur, janúar 23, 2004

Adventure

Ég og Biggi höfum verið að hittast nokkur kvöld núna í janúar til þess að plana þessa heimsreisu okkar. Við erum komnir með ágætis plan, kringum tuttugu lönd, tólf flugferðir, tæpir 80 dagar, og áætlun uppá u.þ.b. 700 þúsund krónur. Þetta er nokkurn vegin það sem við töluðum um í upphafi og við erum bara ánægðir með þetta. Það á þó örugglega eftir að breytast töluvert, við eigum eftir að endurskoða þetta allt saman, en erum búnir að setja saman grófa áætlun þannig að við getum farið að panta flugmiðana og farið í bólusetningu og svona. Við förum af stað í apríl, og komum heim 5. júlí eftir Hróarskeldu. Eins og planið lítur út í dag eru þetta löndin og stærstu borgirnar sem við förum til:

USA (New York, Las Vegas, Los Angeles)
Kólumbía (Bogotá)
Brasilía (Sao Paolo)
Argentína (Buenos Aires)
Chile
Páskaeyjar
Tahiti og eða Fiji
Ástralía (Sydney)
Japan (Tokyo)
Kína (Peking, Hong Kong)
Víetnam
Thailand
Malasía (Kuala Lumpur)
Singapore
Egyptaland
Ítalía
...og svo gegnum nokkur Evrópulönd til Danmerkur.

Þetta er ekkert leiðinlegur listi! :) Svo er bara að surfa á netinu og finna það helsta til að skoða og gera á hverjum stað. Annars ætlum við að láta þetta mikið til ráðast á staðnum, t.d. með gistingu. Við verðum með tjald og ef eitthvað klikkar með ódýra hótel eða hostel gistingu þá hendum við bara upp tjaldinu á einhverri umferðareyju.

Annars erum við að gera ansi heimskulega hluti, t.d. að fara til Kólumbíu, en það er frekar hættulegt og þess vegna er það ennþá meira spennandi. Svo verðum við í Egyptalandi í eyðimörkinni á heitasta tíma ársins, þannig að við snjóhvítu rauðhærðu Íslendingarnir eigum ekki mikinn sjens á að lifa af. En þetta verður allt eitt allsherjar ævintýri og vonandi munum við eiga milljón sögur til að segja alla ævina frá þessum tíma. :)
Maggi ævintýragjarni.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Maria Mena

Vinur minn sagði mér um daginn fá stelpu sem hann hitti á djamminu og fór að tala við. Þetta var myndarleg stelpa sagði hann, solítið þybbin eins og gengur og gerist. En hún hafði víst orðið það viljandi, þybbin það er að segja. Hún var orðin leið á strákum sem vildu vera með henni af því að hún var svo flott og falleg (sem hún hafði verið) þannig að hún fitaði sig markvisst til að losna við þannig athygli. Ég er ekki að segja að hún hafi orðið ljót (ekki að ég hafi hugmynd um það , ég sá hana aldrei), en hún fékk amk öðruvísi athygli þegar hún var orðin þybbin. Þá komst hún kannski frekar í kynni við stráka sem fíluðu hana útaf persónuleika hennar en ekki bara útlitinu.

Mér finnst þetta alveg stórmerkilegt, og fékk mig til að hugsa. Það er algengt að stelpur sem eru mjög fallegar og flottar og örugglega oftast góðar manneskjur, byrji með strákum sem eru... hvað skal ég segja... ekki góðir fyrir þær. Oft þessar töffaratýpur, stákar sem vilja frekar vera með flottum stelpum sama hvernig mann þær hafa að geyma. Eins og það er algengt þá er það ótrúlega sjaldgæft að að þær átti sig á því. Að þær sjái það að strákar sem veit þeim athygli eru ekki endilega að sækjast eftir neinu nema útliti þeirra. Ég er ekki að segja að allar flottar og fallegar stelpur eigi að grípa til svona aðgerða til að losona við óæskilega athygli, heldur að hætta að væla yfir því að þær endi alltaf með svo ömurlegum gaurum og hætta frekar að hoppa í fangið á þessum kvennabósum. Er virkilega svona erfitt að þekkja stráka í sundur? Eða vilja stelpur þessa stáka sem fara illa með þær svo þær hafi eitthvað til þess að gráta yfir með vinkonum sínum?

En sagan af þessari stelpu fannst mér mjög merkileg. Ég veit ekki hvort þetta hafi virkað og að hún hafi fundið hinn fullkomna strák sem elskar hana fyrir það sem hún er, en það er vonandi. Ég vildi að ég þyrfti að gípa til aðgerða til þess að minnka áhuga kvenfólks á mér, en það er eins langt frá mínum huga eins og hægt er. Það væri frekar akkúrat öfugt hjá mér. Annars hef ég verið að líta yfir farinn veg hjá mér, og ég er farinn að gera mér grein fyrir því að ég hef klúðrað alveg ótúlega borðleggjandi tækifærum í stelpumálum. Þannig að vandamálið liggur eflaust að stærstum hluta hjá mér. Og það er slæmt, því maður breytist ekkert bara eins og hendi sé veifað þótt maður átti sig á vandanum. Og það væri töluvert auðveldara ef vandinn lægi bara hjá öllum öðrum en ekki mér. En það er víst ekki svo einfalt. Merkilegt, eftir því sem ég blogga seinna á nóttinni endar það oftar í röfli um kvennamál. Þetta er eflaust ekki mjög áhugavert þannig að ég held ég láti staðar numið núna. Og já, þetta er sniðugt.
Maggi.

E.s: Ég hata blogger.com. Ég var búinn að skrifa þetta allt upp og póstaði þessu en þá birtist þetta bara allt með spurningamerkjum í staðinn fyrir íslensku stafina! Og ég þurfti að skrifa þetta allt upp aftur! Vá hvað svona er pirrandi. Mental note; alltaf gera copy áður en maður póstar, því maður veit aldrei! Með þessum orðum lýkur pistli mínum sem átti að vera töluvert styttri. Hann verður þó sem betur fer ekki lengri.
Hallelujah

Jolene Blalock er ótrúlega falleg manneskja. Fannst ég bara verða að koma þessu að. Ég býst ekki við að neinn kannist við þetta nafn en nokkrir kannast örugglega við hana þegar þeir sjá mynd af henni. Það kannast þó örugglega enn fleiri við hana í þessu hlutverki. Hún er nefnilega Star Trek gella. Ef ég horfði nokkurntíman á Star Trek, sem ég geri ekki, þá væri það útaf henni. :)

Ég fékk upplýsingar um strákinn sem fótbrotnaði. Þetta land kemur manni sífellt á óvart. Við erum svo lítil þjóð. En allavega, upplýsingarnar komu ofan af Akranesi (takk Anna), og heitir strákurinn Sölvi og er jafn gamall mér, sem sagt tuttuguogtveggja á árinu. Mig langar að hafa samband við hann en hvað myndi ég segja? "Blessaður, þetta er gaurinn sem fótbraut þig. Ertu ekki hress bara?" Nei ég held að það sé ekkert gaman að fá þannig símtal eða heimsókn. Þannig að ég er að spá í að senda honum eitthvað. Ég efast um að hann langi í blóm, enda karlkyns, þannig að ég er að spá í að senda honum kassa af bjór. Ég veit að ég yrði glaður ef einhver sendi mér kassa, og hann hlýtur bara að drekka bjór.

Enn hef ég ekki fengið gagnrýni á síðuna frá neinum, hún hlýtur því bara að vera fullkomin eins og hún er. Það eru nú ekki margir sem lesa hana, en ég er búinn að heyra af nokkrum sem eru farnir að lesa aftur. Ef ég skoða ip tölurnar sem koma á síðuna þá sé ég að það er aðallega sama fólkið sem kemur aftur og aftur, ekki svo mikið af nýju. Það var aðallega á meðan Beta var með link á mig að nýtt fólk kom á síðuna í hrönnum.

Það eina sem heldur aftur af mér í niðurhali á Valhöll er diskpláss. Ég held að það sé raunin hjá fleirum. Ég er búinn að sækja næstum alla þættina af Will & Grace því ég var að fatta að mér finnst þeir algjör snilld! Vá hvað ég get hlegið af þessu. Kannski er það bara í hausnum á mér en mér finnst þeir meira clever en flestir svona sitcom þættir. Endalausir homma og alkóhólista og fitubrandarar, og það er bara ekkert sem þau gera ekki grín að. Taka sig sko ekki alvarlega. Og þeir eru líka vel leiknir, amk oftast. Er ekki búinn að vera jafn duglegur að horfa á bíómyndir. Horfði þó á Monster með Charlize Theron og Christina Ricci. Það er fínasta mynd, og Christina Ricci er alltaf jafn sæt, en maður kemst bara ekki yfir hvað Charlize er gerð hrikalega ljót fyrir þetta hlutverk. Eins og hún er nú gullfalleg. En myndin er fín fyrir því. Veit ekki hvort hún hefur komið út hér á landi í bíó eða á spólu. En það má alveg sækja hana á netinu.

Spirited Away fékk fjórar stjörnur í Mogganum og skal engan undra. Hún er bara æðisleg, og ef þú ert ekki búin/n að sjá hana þá skaltu bæta úr því hið fyrsta! Þetta gengur ekkert svona. :)

Ég fann Hallelujah í útgáfu Rufus Wainright á Valhöll áðan. Æðislegt lag og hann fer vel með það. Tjékkaðu endilega á því. Þetta er útgáfan sem var í Shrek. :)
Maggi.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Critical update

Síðan heldur áfram að taka breytingum, merkilegt hvað ég nenni að dunda mér í þessu þótt þetta sé nokkurnvegin komið. Ég verð alltaf að bæta einhverju við, smá enn, og svo þetta, og og og. Ætli þetta sé ekki fullkomnunarárátta í mér. Halla systir kom með hugmynd í kvöld sem ég hef verið að velta smá fyrir mér. Af hverju fer ég ekki bara að læra grafíska hönnun? Ég held að það eigi rosalega vel við mig. Ekki það að ég sé einhver snillingur í svona hlutum, en ég hef mjög gaman að allri svona hönnun og held að ég gæti vel unnið við svona hluti, því þetta er auðvitað mjög skapandi og það er það sem ég þarf. Það er bara aldrei að vita hvað maður gerir.

En já, hvað hefur drifið á daga mína síðan ég óskaði ykkur gleðilegra jóla hér á síðunni... Jólin voru bara fín hjá mér. Ég hélt að það væri rosa skrítið að vinna um jólin en ég vann bara tvo daga milli jóla og nýárs og mætti ekki í vinnu fyrr en 5 janúar! Flott jólafrí það, amk miðað við vaktavinnu. Ég kíkti til Akureyrar yfir áramótin og það var bara mjög gaman. Ég fór í Sjallann á gamlárskvöld og þar var auðvitað hellings stemmning. Gaman að djamma með Kristjönu stjúpsystur og vinkonum hennar. :)

Rétt fyrir jól fékk ég loksins myndavélina mína langþráðu. Canon PowerShot G5, flunkuný beint frá USA. Hún Bjarney var svo góð að koma með hana til landsins fyrir mig og þannig sparaði ég mér meira en helming á verði vélarinnar! Gerist ekki betra. Ég hef auðvitað verið að taka myndir og, tjah, ætli ég hendi ekki bara inn sýnishornum hér beint í þessa færslu:

Nokkrar flottar myndir úr nýju vélinni! :)

Myndin sem er hér til hægri á síðunni var tekin í leiðangri míns og Jóns Odds, og tók Jón Oddur þessa mynd ef mig minnir rétt. Það eru nokkrar fleiri myndir úr þeim myndaleiðangri á myndasíðunni. Hugmyndin er að hafa alltaf eina flotta nýlega mynd í þessu plássi. Vonum að ég hafi nennu til að uppfæra það oft svo þið neyðist til að kíkja hérna oft! :) Ætli við segjum ekki bara ein mynd vikulega að minnsta kosti. Byrjum á því.

Það kom svolítið fyrir mig um helgina sem ég mun án efa muna ævilangt. Ég var að keppa í fótbolta með vinnunni í bænum (á Hlíðarenda), þetta var svona fyrirtækjamót, bara til að hafa gaman að og sprikla aðeins. Við spiluðum hrikalega og töpuðum öllu, en það er nú ekki það sem er svona minnistætt. Í byrjun síðasta leiksins fæ ég boltann nokkuð frá markinu og ákveð að skjóta á markið. Það er strákur sem setur löppina fyrir mig til að fara fyrir boltann en ég næ að skjóta og við skellum saman. Ég lenti á öklanum á honum og hann brotnaði. Beinið fór alveg í tvennt og stakkst út úr löppinni að innanverðu. Þetta var auðvitað algjört slys, hvorki honum að kenna eða mér, bara algjör óheppni. Þetta var ekki skemmtileg reynsla og auðvitað alveg hrikalegt fyrir aumingja strákinn sem þurfti að bíða í 20 mínútur eftir sjúkrabíl, sárkvalinn. Hann stóð sig samt rosalega vel og harkaði þetta ótrúlega af sér. Ég veit að ég hefði örugglega hágrátið við svona sársauka.

Ég veit ekki hvað hann heitir eða neitt til að tjékka á honum, en hann verður lengi að jafna sig. Ef einhver sem les þetta veit eitthvað um þetta mál, hvað hann heitir eða eitthvað þá væri ég þakklátur fyrir upplýsingar. Hann var að keppa fyrir fyrirtæki sem ég held að hafi verið kallað BR hvað svo sem það þýðir, og hann hefur líklegast verið kringum 22ja ára.

Annars er ekki svo mikið af mér að frétta, ég hef bara verið að vinna, djamma og þetta nauðsynlegasta. Lenti á skemmtilegu djammi um daginn eftir Speedo tískusýningu (geggjuð módel í sundbolum og bíkíníum, ekki leiðinlegt), þar sem ég drakk hvítvín og datt í þennan rosalega dansgír. Dansaði við DJ Sóley þegar enginn í þessu Speedo partýi nennti að dansa áfram, og það var mjög gaman. Ég þarf deffinetlý að tjékka á henni aftur. Er hún annars ekki oft að spila á Vegamótum? Ég held að ég þurfi að fara að venja mig á að kíkja þangað. :)

Mig er farið að hungra í aðra sumarbústaðaferð. Ótúlegt hvað það er gaman og heppnast alltaf vel. Við fórum í eina rétt fyrir jól sem ég er ekkert búinn að minnast á á síðunni. Það var þvílíkt gaman, dóum næstum því í óveðri á leiðinni yfir heiðina, og gátum ekki opnað hliðið í götunni hjá bústaðnum þannig að við þurftum að bera allt draslið okkar lengri leið. Ok, kannski bara svona 50 metrum lengra en samt. Svo fórum við nottla í pottinn og spiluðum og spjölluðum og bulluðum og bulluðum. Einróma álit allra í ferðinni að hún hafi verið einstaklega vel heppnuð. Maður þyrfti helst að redda sér bústað í febrúar og halda smá partý, nóg er af fólkinu sem langar að mæta. :)

Segjum þetta gott af svaðilförum mínum í bili. Heilræði dagsins er: Farið varlega í íþróttum. Sérstaklega með mér því ég smita óheppnina mína í annað fólk svona rétt á meðan.
Maggi.

E.s: Já ég vill þakka Svabba fyrir að kynna mig fyrir Damien Rice, þeim tónlistarsnillingi. Úff hvað diskurinn hans er góður, ég mæli með að allir tjékki á honum og athugi hvort hann leggist jafn vel í ykkur og okkur vinina. Diskurinn heitir O. Já, bara bókstafurinn O. Ekki flókið það. Sjáumst. Bæbæ.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

En það bar til um þessar mundir...

...að boð kom frá Magnúsínusi bloggara, að hefja skyldi bloggár fyrir alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta bloggið er gert var á árinu, þá er Davíðus Oddsoníus var landstjóri á Íslandi. Fóru þá allir til að láta bloggsetja sig, hver til sinnar borgar. Jæja, þetta er komið útí vitleysu. En nú skal hefja nýtt bloggár, og þótt fyrr hefði verið. Ég ákvað beint og óbeint, aðalega óbeint, að taka mér pásu, það svona bara eiginlega gerðist. Ég ákvað að rumpa af svosem eins og einu nýju lúkki og er bara nokkuð sáttur með það. Það er mun einfaldara en það gamla og var það ætlunin. Ég á enn eftir að laga smá bögga, það sjást engar myndir með færslunum og svona, en það ætti að vera hægt að redda því fljótlega. Ég mun líka fljótlega, s.s. á morgun, skrifa færslu um það sem drifið hefur á daga mína síðan ég bloggaði síðast og þar kennir sko ýmissa grasa skal ég segja þér. Endilega segðu mér ef þér finnst eitthvað mega betur fara í þessu lúkki, eða ef það birtist eitthvað á skjön í tölvunni sem þú ert í.

Það er vinnudagur á morgun þannig að það er löngu kominn háttatími. Vonandi næ ég að rífa upp stemmninguna á þessu bloggi, hún var orðin frekar döpur undir það síðasta á árinu 2003. Nýjir og betri tímar. Breiðið endilega út fagnaðarerindið (og jólaguðspjallið), Magnúsínus bloggari hefur tekið aftur til starfa, og nú skal sko spýtt í lófana látið hendur standa fram úr ermum.

Lifið heil. Magnúsínus.