miðvikudagur, mars 31, 2004

Stutt vísa

Já við vorum ekki lengi að fá vegabréfsáritun inní Víetnam. Við sendum passana okkar til Danaveldis og þeir voru komnir aftur eftir innan við viku með öllum stimplum og tilheyrandi. Þá er nú lítið annað eftir en að halla sér aftur og bíða eftir rússíbanaferðinni. Nei annars, það er nóg eftir að gera, og það sem hræðir mig pínulítið er að það sé fullt eftir að gera fyrir ferðina en við höfum bara ekki hugmynd um hvað það er því við erum svoddan grænjaxlar! Maður verður bara að vona það besta og hlusta á öll ráð sem maður fær og reyna að plana þetta passlega mikið fyrirfram, því maður vill auðvitað ekki heldur hafa þessa ferð njörvaða niður í einhver leiðindi. Við erum líka búnir að panta okkur miða með Iceland Express til London, já það minnir mig á að ég á eftir að panta miðann heim frá Köben, eins gott að gleyma því ekki! Sko! Það er örugglega eitthvað svona stórt sem ég er að gleyma og svo stöndum við einverstaðar útí heimi og förum að berja hausnum uppvið stein af því að við gleymdum einhverju svooo augljósu. Því bið ég þig lesandi góður, segðu mér, hverju er ég að gleyma fyrir 3ja mánaða heimsreisuna mína?
Maggi.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Kúlur

Það fór þá aldrei svo að þetta reddaðist ekki. [Það er svo gaman þegar allt reddast bara allt í einu. Kannski nokkur málefni sem hafa verið að angra mann í nokkra daga, jafnvel vikur, en svo tekur eitthvað alheimsafl í taumana og allt reddast bara á hálftíma! Virkilega skrítið og skemmtilegt. En þetta var nú útúrdúr.] Þegar ég kíkti á netið í dag var ferðaskrifstofan búin að fá greiðslurnar okkar og við erum endanlega búnir að borga þessar flugferðir allar saman. Fleiri hlutir redduðust í dag á svipuðum tíma og ég kem kannski inná þá hluti í annari færslu á komandi dögum.

Það var snjór í vinnunni í dag, sem og á öðrum stöðum í þessum landshluta. Í tilefni þess beygði ég mig niður og skóf tvær lúkur af snjó af jörðinni og skellti þeim saman milli lófa minna svo úr myndaðist kúla úr snjó. Þessa kúlu losaði ég mig síðan við með snöggri hreyfingu handleggsins framá við, og kúlan flaug í höfuð samstarfsmanns míns. Vakti það kátínu mína og annara sem sáu nema þeim ólukkulega samstarfsmanni sem skallaði kúluna óviljandi. Hann var miður hress, en hafði þó ekki nægar kúlur til að hefna sín á mér. :)
Maggi.

sunnudagur, mars 28, 2004

Orð dagsins: Lúffa

Helgin fór töluvert öðruvísi en planað var. Þó var hún afskaplega vel heppnuð og þakka ég öllum sem skemmtu mér og skemmtu sér með mér um helgina fyrir skemmtun helgarinnar. (?) Þess má geta að í mesta lagi ein manneskja les bloggið mitt af þeim sem ég var með um helgina, að ég held. Þetta endaði sem sagt þannig að ég fór í bústaðinn eins og ákveðið var á föstudaginn, en svo var ekkert far heim aftur á laugardeginum! Þá voru góð ráð dýr, því ég var búinn að plana að hitta pabba og fara svo í dinner með familíunni og í leikhús. Góðu ráðin voru meira að segja svo dýr að ég hafði engan vegin efni á þeim því þau hefðu eflaust snúist um einkaflugvélar eða þyrluna TF-Líf, því ég einfaldlega komst ekki heim. Því hringdi ég heim og baðst afsökunar því ég kæmist ekki í neitt af því sem planað var. Svo reyndi ég að gera gott úr því að vera fastur uppí sumarbústað, og gott betur en það því það var alveg hörku stemmning í bústaðnum og rosalegt fjör allan tíman! Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Það var mikið dansað og talað og hlegið. Spilaður fúsbolti og mót haldin og læti. Bjór drukkinn, dasað í potti, og flippað mikið. Ég skemmti mér semsagt konunglega alla helgina í bústaðnum (já, takk fyrir að leyfa mér að koma með Rósa) og er sérdeilis dasaður í dag. Á heimleiðinni var hlustað á PJ Harvey og stoppað í Litlu Kaffistofunni og matast. Súpan þar er alveg þrusugóð og mæli ég með að fólk kynnist því af eigin raun. Ekki spillir fyrir að stelpan sem vinnur þar er mjög sæt, og spilakassinn er einkar gjafmildur. :) Everything is going my way.
Maggi.

föstudagur, mars 26, 2004

Röfl... ---> ROFL!!! :D

Það rættist heldur betur úr deginum eftir þessa röfl rasíu sem ég skrifaði í hádeginu og er hér fyrir neðan. Það var nákvæmlega ekkert planað það sem eftir var af deginum en svo var ég alltí einu dreginn í Reykjavík þar sem ég festi kaup á tveimur hlutum sem eru hver öðrum frábærari. Bakpoka, einkar handhægum fyrir heimsreisur, en þess má geta að ég ætla að nota hann í heimsreisunni minni sem nú eru rétt rúmar þrjár vikur í. Það er hægt að taka hann í sundur og nota annan hlutann sem minni bakpoka, mjög hentugt. Og svo er hægt að loka honum alveg að aftan (þar sem maður festir pokann á sig um axlir og mitti) sem er mjög gott þegar maður er að fljúga. Sem starfsmaður á flugvelli veit ég að böndin á þessum ferðabakpokum flækjast í öllu og slitna og eyðileggja stundum töskurnar. Hann er 60 lítar þessi poki og verður það bara að duga mér, óþarfi að vera að dröslast með eitthvað endalaust af drasli. Hinn hluturinn sem ég keypti var magnari sem magnar upp sjónvarpsmerkið sem kemur frá tölvunni minni og ég sendi niður í sjónvarpið þar. Merkið þarf nefnilega að fara svo langa leið að snjór var kominn á myndina þegar merkið loksins barst niður. En magnarinn leysti (loksins!!) þetta vandamál þannig að nú get ég horft á myndir sem ég sæki á netinu niðri í stofu í DVD gæðum eða svo gott sem. :D Hamingja hamingja.

But wait, there's more!! Svo kom í ljós núna rétt áðan að ég er að fara í sumarbústað í kvöld! Það þýðir að þetta er þriðja fríhelgin mín í röð sem ég fer í bústað! Ekki slæmur árangur það um miðjan marsmánuð! :D Á morgun hitti ég pabba síðdegis og svo fer ég út að borða og í Borgarleikhúsið með hele famelíen að sjá Chicago. Eftir það ætlum ég og Þorgeirz og Japönskuneminn að rölta niður í bæ að kíkja á stemmninguna og aldrei að vita nema maður gluggi í bjór. Þannig að þetta verður sko heldur betur viðburðarík helgi! Ég verð eflaust ekki líklegur til stórræða á sunnudaginn það get ég sko sagt ykkur. :D
Maggi.
Röfl vs. ROFL

Það fer í taugarnar á mér þegar það eina sem fólk getur bloggað um er hvað fer í taugarnar á því. Nöldrarar, röflarar, fílupúkar og almennir leiðindaseggir fá nefnilega margir hverjir útrás á netinu fyrir því sem fer í taugarnar á þeim. Það er ekki nema einstaka röflara sem tekst að vera með áhugavert röfl, og þá þykir mér það bara sorglegt að fólk sem kann að koma fyrir sig orði geti ekki nýtt þá gáfu í eitthvað annað en að röfla yfir öllu milli himins og jarðar. En það getur stundum verið gaman að þeim ég segi það ekki. Ég les oft Víkverja í Mogganum sem er rosalegur röflari, og ónefndur bloggari vinur minn röflar óheyrilega mikið þótt ekkert hrjái hann eða hans. Núna er komið að mér að röfla smá, því ég geri það líka stundum en í hóflegu magni þó.

Um daginn las ég grein þar sem var talað um að börn sem spiluðu á hljóðfæri stæðu sig betur í skóla en þau sem gerðu það ekki, og því ætti að hvetja börn í auknum mæli til að læra á hljóðfæri og æfa oft og mikið. Þetta fer rosalega í taugarnar á mér. Svona heimskulegar röksemdafærslur fyrir borðleggjandi hlutum. Þetta er eins og að segja "í fangelsum er vont fólk og því ættum við að hætta að setja fólk í fangelsi því þá verður það vont". Ok, ég veit að þetta er léleg samlíking, en hún sýnir um hvað málið snýst. Krakkar sem spila á hljóðfæri eru líklegast krakkar sem eiga foreldra sem hvöttu þá til þess að læra á hljóðfæri eða ýttu þeim jafnvel útí það. Líkur eru á að þeir foreldrar ætlist til mikils af börnunum sínum og láti þá heldur ekki komast upp með neitt múður þegar kemur að skólanum. Einnig er líklegt að krakkar af "betri" heimilum spili á hljóðfæri þar sem foreldrarnir eru vel lærðir og heimilishaldið er hvetjandi og skapandi. Fyrir utan það að krakkar sem halda sig við námið í hljóðfæraleik og seiglast þetta áfram eru líka líklegri til að geyma persónu sem stendur sig vel í skóla og heldur sig við efnið á þeim sviðum. En að segja að krakkar standi sig betur í skóla af því að þau spila á hljóðfæri er fáránlegt! Jújú, ef krakkar geta tileinkað sér þann aga sem þarf til að læra á hljóðfæri og hann skilar sér inn í námið þá getur vel verið að það hjálpi eitthvað til. En að segja að það sé hljóðfæraleiknum að þakka að krakkarnir standi sig vel í skóla finnst mér alveg út úr kú.

Svona fer fyrir þeim sem vilja ofgreina (overanalyze) allt, og leita skýringa á fáránlegustu stöðum í stað þess að horfa á hið augljósa. Mér dettur í huga að það er voðalega mikið gert úr því að fólk hafi dáið við að horfa á The Passion of the Christ í bíó. Og hvað með það? Það deyr örugglega fólk á hverjum degi í bíó, og það þarf ekkert að vera að það komi því neitt við hvað var verið að sýna! Þetta er ekki rökrétt. Marylin Manson var kennt um morðin í Columbine af einhverjum vileysingum af því að strákarnir sem skutu á samnemendur sína áttu diska með tónlistinni hans. Svona fer í taugarnar á mér og fólk verður að passa sig að leggja ekki bara saman tvo og tvo og fá út fjóra ef það eru miklu fleiri stærðir og breytur í jöfnunni.

Ah, þetta var hressandi. Spurning um að röfla meira og oftar?! Ætli það sé þó ekki áhrifaríkara að öskra hátt eða kýla í púða eða vegg eða eitthvað til að fá útrás. En það er bara svo mikið af fávitum í þjóðfélaginu að þeir sem sífellt reka augun í það (eða leita það uppi) verða bara að fá að koma því fá sér. Ég hataði Botnleðju á tímabili fyrir að gefa út disk með þessu nafni en ég hef komist að því að það er bara einfaldlega rétt hjá þeim; fólk er fífl.
Maggi.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Hahahaha! Ah... Wúú.

Það er gott að hlægja vel. Ég var að horfa á þáttinn sem ég minntist á um daginn (sem ég er nýbúinn að uppgötva) og kallast The O.C. Tónlistin í þáttunum er oft á tíðum góð, til dæmis hefur amk tvisvar komið lag með Mazzy Star (sem ég er nýbúinn að uppgötva) og fleiri góðum grúppum. Í þættinum sem ég var að horfa á byrjaði svo lag sem ég þekkti strax því þar var enginn annar á ferðinni en Damien Rice! (sem ég er nýbúinn að uppgötva).

Þetta er í sjálfu sér ekkert svo fyndið en ég gat bara ekki hætt að hlægja. Í þessum uppgerðarlega, fyrirsjáanlega, illa leikna (en þó stórskemmtilega) unglingadrama kom lag með þessum tilfinningaríka, yndislega, frábæra, heimspekilega þenkjandi tónlistarmanni, og ég er tiltölulega nýbúinn að uppgötva bæði hann og þáttinn. Þetta var svo algjörlega útúr kú og á sama tíma smellpassaði þetta svo saman, að ég gat ekki gert annað en að hlægja dátt. Eflaust finnst engum þetta fyndið en mér, en ég get svosem neytt þig til að lesa hvað sem ég skrifa þannig að who cares! :D

Ferðaskipulagning og bollalegging gengur upp og ofan. Þetta er allt að reddast svosem (sjö níu þrettán fimmtán nítján) en við erum að standa í fullt af reddingum og svona fram og til baka. Við erum t.d. búnir að redda okkur vegabréfsáritun til Taílands og munum líka redda árituninni til Kína hér á landi og frekar auðveldlega, en í þessum töluðu orðum eru vegabréfin okkar beggja á leiðinni til Danmerkur til að vera stimpluð í bak og fyrir svo við megum komast inní Víetnam. Þá eigum við bara eftir Kambódíu og næsta sendiráð er í Þýskalandi þannig að við þurfum örugglega að senda passana okkar þangað líka. Eins gott að við fáum þá til baka áður en við förum út því annars erum við ekkert að fara út á tilsettum tíma! Þetta reddast. Svo er eitthvað fokk í gangi með greiðsluna til ferðaskrifstofunnar en ég hef litlar áhyggjur af því, við erum búnir að borga og eigum kvittun fyrir því. Peningurinn hlýtur að skila sér á réttan stað. En núna, Gettu betur! Og svo Starsky And Hutch! :D
Maggi.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Grænt grænt grænt
er grasið útí haga...


Það er aldrei gott að staðna. Maður verður að reyna að lífga uppá hlutina í kringum sig. Bebba fær kærar þakkir fyrir að láta mig hafa kóðann af síðunni minni því greinilega nennti því enginn annar. Skammist þið ykkar ekkert? Þið ættuð að gera það. Ég sem hélt að ég ætti nokkra trygga og athugula lesendur. Hér eftir skrifa ég bloggið mitt bara fyrir Bebbu.

Á sunnudaginn fór ég í bíó að sjá The Passion of the Christ (ég skil aldrei þennan ákveðna greini í þessum titli, af hverju ekki bara The Passion of Christ?) og hún var nokkuð góð. Þó þótti mér hún of blóðug og voru ekki allir sammála mér í því, eiginlega bara fæstir. En það vita allir að það eru ekki hundruð lítra af blóði í neinum manni, og ég held að Jesú hafi ekki verið blæðari. Það draup samt af honum blóðið í hverju atriði. Það er samt skilmysingur að þetta sé einhver "must see" bíómynd. Hún fer nákvæmlega eftir því sem stendur í Biblíunni og snýst bara um að sýna kvöl frelsarans á síðustu klukkustundunum í lífi hans. Myndin er samt góð og vel gerð og allt það, en ég sá hana samt bara því mér fannst ég verða að vera búinn að sjá hana. Hún er þung og það er mjög mikið ofbeldi í henni. Ég man meira að segja ekki eftir að hafa séð mynd sem snerist svona rosalega mikið um ofbeldi, Fight Club og Kill Bill blikna til dæmis við hliðina á henni þegar að því kemur. Svo fór í taugarnar á mér hve hermennirnir voru gerðir rosalega heimskir, bara eins og hirðfífl allan tímann. Blindfullir allan tímann og borderline þroskaheftir í einfaldleika sínum, hlægjandi að öllu og engu eins og fávitar. Hver segir að þetta hafi verið svona? Maður spyr sig.

Svo sá ég stórmerkilega mynd á mánudaginn sem heitir Bubba Ho-tep, en ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í hana því ég held að fáir sem þetta lesa eigi eftir á sjá hana. Hún fjallar um tvo gamla geðveika kalla á elliheimili. Annar heldur að hann sé Elvis og hinn (sem er svartur) heldur að hann sé John F. Kennedy. Saman berjast þeir við risakakkalakka og múmíu sem er að drepa vistmenn heimilisins með því að sjúga sálina þeirra útum rassgatið á þeim. Virkilega fyndin og áhugaverð mynd. Fær 8.0 á imdb.com sem er mjög hátt, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess um hvernig mynd er að ræða. (By the way, hún fær mun hærra en The Passion of the Crist sem fær aðeins 7.6) Ég skrifa meira mjög fljótlega, en núna, borða!
Maggi.

laugardagur, mars 20, 2004

Góður

Damien Rice var góður, virkilega skemmtilegir tónleikar. Ég hefði þó notið þeirra enn betur ef ég hefði áttað mig á því að neysla áfengis á fastandi maga, ásamt ofþreytu af sökum vinnu og svefnleysis, er ekki gáfuleg. En eftir að ég jafnaði mig á því skemmti ég mér mjög vel, enda var hann til fyrirmyndar sem tónlistarmaður á tónleikum, sagði sögur í kringum lögin, og var sjálfur orðinn hífaður og það gerði allt skemmtilegra. Blandaði meira að segja frægari lögum inn í sín eigin, og spilaði lög sem maður hefur ekki heyrt. Þvílík fagnaðarlæti eftir tónleikana líka, greinilega fleiri sem voru ánægðir, ég hélt að þakið myndi rifna af húsinu. Eftir tónleikana á Nasa, kíkti hópurinn á Grand Rokk og sá restina af Ælu (hmmm... kaldhæðni), þeir voru skemmtilegir, og Lokbrá voru mjög góðir líka sem spiluðu á eftir þeim. Svo fórum við að huga að því að halda heim á leið, þó ekki án þess að fara á Bæjarins bestu, og kíkja við á Nellys þar sem munaði ekki miklu að við hefðum lent í slagsmálum, og ég labbaði út með fimmþúsund kall í hundraðköllum í vasanum. Gaman að þessu spilakössum. :)

Í gær fengum við líka staðfest flugið okkar fyrir heimsreisuna. Þótt planið eigi eftir að breytast lítillega þá erum við komnir með nokkuð góða heildarmynd á þetta. Það helsta sem breyttist er að við förum ekkert til S-Ameríku, (ætluðum til Brasilíu, Argentínu og Chile), og heldur ekki til Egyptalands. Ekki er þetta þó alslæmt því það bættust við tveir staðir, Tahiti og Cook eyjar. Þannig að listinn lítur svona út í dag:

London, England
New York, New York, USA
Las Vegas, Nevada, USA 2 3
Los Angeles, California, USA
Papeete, Tahiti 2 3 4 5
Rarotonga, Cook eyjar 2 3
Auckland, Nýja Sjálandi
Sydney, Ástralíu
Singapúr
Malasía
Taíland
Kambódía
Víetnam 2 3
Peking, Kína 2
Tokyo, Japan
Róm, Ítalíu 2 3 4
Hróarskelda, Danmörk
London, England
Home "sweet" home!

Þetta eru 15 flug, sem kosta okkur 230 þúsund, og það gerir rúmar 15 þúsund kr. á flug sem mér þykir vel sloppið. Að vísu eigum við eftir að hætta við eitt eða tvö flug (þó breytist planið ekki, ferðumst bara meira á landi), og þá gæti þessi tala lækkað eitthvað. Það er ennþá möguleiki að við förum til Egyptalands, því ef við eigum pening þegar við komum til Ítalíu þá er möguleiki að við skreppum þangað einn eða tvo daga til að kíkja á píramídana. Ástæðan fyrir því að við förum til London í byrjun og enda ferðarinnar er að við verðum að kaupa pakkaferð sem byrjar og endar þar. Við fljúgum til London 18. apríl, þannig að þetta er alveg að bresta á!
Maggi.

föstudagur, mars 19, 2004

Levity, The Cooler

Alveg er maður að missa sig í kvikmyndaglápi þessa dagana. Í dag horfði ég á tvær myndir (og ég fór líka á aukavakt í vinnunni sko, ekki eins og ég hafi bara hangið heima og horft á imbann!). Það voru Levity og The Cooler, báðar frá árinu 2003. Ekki veit ég hvort þær eru komnar út hér á landi, en ég býst við að þær fari báðar beint á vídjó ef þær koma. Þær eru samt báðar mjög góðar, þótt Levity hafi höfðað betur til mín. Billy Bob Thornton leikur alltaf jafn vel, og í myndinni eru frábærar og áhugaverðar persónur sem heldur henni uppi því atburðarásin er ekki hröð. Levity fjallar um mann sem, eftir 20 ára fangelsisvist, reynir að losna við byrðina á sálinni sem hann hefur eftir að hafa drepið mann. The Cooler fjallar um mann (William H. Macy) sem vinnur við að færa fólki ógæfu í spilavíti, og það sem gerist þegar ógæfan í lífi hans tekur að breytast í gæfu. Mæli með þeim báðum.

Damien Rice spilar á Nasa á morgun og ef ég verð heppinn verð ég þar í góðu stuði í góðu sæti. Ég ætla að reyna að mæta snemma og hlamma mér niður við eitt borðið áður en staðurinn troðfyllist. Ég held nefnilega að maður njóti þessara tónleika mun betur ef maður situr, frekar en að standa einhverstaðar í einhverjum troðningi og vitleysu. Anyhoo, vinna á morgun, og svo tónleikar og djamm um kvöldið! Frí á laugardaginn sem betur fer, ekki gaman að mæta draugþunnur í vinnuna, hef gert það einu sinni og geri það sko (vonandi) aldrei aftur. En síðan hvenær hefur maður lært af reynslunni?
Maggi.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Thirteen

Ég sá myndina Thirteen í kvöld og var bara nokkuð ánægður með hana. Þetta er svona troubled-teen mynd, þar sem stelpan, besta vinkonan og mamman eru í aðalhlutverkum. Vel leikin og áhrifarík mynd. Skilur eitthvað eftir sig. Mæli með henni.

Hmm. Ég ætlaði einhvernveginn að skrifa miklu meira um myndina en ég verð víst bara að bulla eitthvað annað. Það gengur eitthvað erfiðlega að fá þetta fólk í London til að díla við okkur. Ég hélt að þetta væri allt komið en svo tókst þeim að fokka þessu eitthvað upp. Vonandi náum við bara að panta þessi flug áður en það verður allt uppselt. Og vonandi dullast ég til að gera eitthvað í þessum vegabréfsáritunarmálum áður en það er of seint. Og vonandi drullast ég líka til að gera þessa möppu sem ég þarf að skila inn með umsókninni um LHÍ í byrjun apríl. Verst að ég er með ólæknandi sjúkdóm sem lýsir sér þannig að ég verð að gera allt á síðustu stundu. Ótrúleg leti. Maður getur ekki drullast til að gera svona hluti þótt þeir séu mjög nauðsynlegir og í sjálfu sér ekkert leiðinlegir. En það þarf að gera þá. Og maður dregur þá lengur og lengur þar til maður annað hvort verður bara að gera þá eða þá að það er of seint og maður bölvar sjálfum sér fyrir að vera svona heimskur að vera ekki löngu búinn að þessu og sver að maður ætli alltaf að drífa í að gera allt þaðan í frá. Svo gerir maður það nákvæmlega sama aftur næst þegar eitthvað þarf að gera. Óþolandi þessi breiskleiki mannana. Og minn sérstaklega. Úff. Breiski breiski breisk. Nuff said.

Og já, þær sökuðu mig um að vera ekki bitrari en þær! Þessar gellur eru greinilega ekki búnar að lesa mig lengi. Ég er bitur og breiskur. Veit ekki hvort ég er meira. Ég er meira að segja bitur útí breiskleikann í mér. Þvílíkt ástand. Ég held ég láti staðar numið áður en ég fer að sálgreina mig eitthvað meira, ég gæti grafið upp eitthvað sem bætti enn á biturleikann í mér. Úff. Svona gerist þegar maður bloggar svona þreyttur.
Maggi.

mánudagur, mars 15, 2004

Kjaftæði

Unglinga-mellódrama fallegu og viðbjóðsríku unglinganna í Orange County sem birtist á sjónvarpsskjánum mínum á mánudagskvöldum klukkan átta af völdum Extra og Skjás 1, þykir mér afar skemmtilegt. Ekki veit ég af hverju. Og þó, þetta eru svona þættir sem stíga svo svakalega útfyrir öll velsæmismörk í hallærisleik sínum og sápuóperulegum tilþrifum (nema þetta er ekki eins vel leikið) og því hef ég algerlega tekið þá í sátt og dáist að fegurð fólksins um leið og ég hlæ að vandamálum þeirra. Þó skil ég mætavel þá sem kunna að hata þessa þætti, og einnig þá sem sjá sér ekki einu sinni fært að gefa þeim sjens. En ég datt inní einn þáttinn og hef horft á þá síðan. Hvet alla sem samsvara sér enganvegin með fólki sem á milljónir dollara, ekur um á brjálæðislegum sportbílum, og hefur aldrei séð óaðlaðandi manneskju til að horfa á svosem eins og einn þátt og athuga hvort þeir komi ekki á óvart sem fínasta afþreying á annars gloomy mánudögum. Ekki slæm upphitun fyrir Survævor sem er alveg að meika það feitt í þessari seríu, þvílík snilld sem þessir þættir eru. Mánudagskvöld eru einu kvöldin sem ég horfi á sjónvarp, and with good cause. Allt annað suxor.
Lag dagsins: Gloomy Sunday í hinum ýmsu útgáfum, en þó helst með Björk okkar Guðmundsdóttur.
Maggi.

sunnudagur, mars 14, 2004

Hraunborgir

Við vinirnir kíktum í sumarbústað um helgina til að fagna því að Biggi sé orðinn nafni minn (hann er sem sagt orðinn sveinn í rafvirkjun, og ég heiti Magnús Sveinn, alltaf góðir brandarar sem maður þarf að útskýra!) og það var bara feykigaman. Ég held ég láti bara myndirnar sem ég tók að tala sínu máli um það. Mikið tekið af myndum að venju, kringum 300 í þetta skiptið. Ég leyfi 16 myndum að fljóta hér með því ég var svo duglegur að henda þeim saman í síðu. Myndin í rammanum er af mér eins og glöggir lesendur sjá. Ekki man ég hvaða óskunda ljósmyndarinn hafði gert til að verðskulda svona tákn af minni hendi, en það hefur eflaust verið saklaust.

Svo setti ég inn nýjan dálk hérna til hægri með myndunum sem ég hef nennt að setja nýlega á netið. Vonum að það bætist mikið við í hann á næstunni. Og svo er einn nýr blogglinkur! Nornirnar eru hressar.

Orð helgarinnar: Super-nuclear-wedgie!
Lag dagsins: Remember me með Blueboy. Smá nostalgía. :)
Maggi.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Herra Hrísgrjón

Ég á miða á Damien Rice! Og ég er búinn að redda mér fríi á laugardeginum eftir tónleikana! Og ég þarf ekki að vinna núna á sunnudaginn eins og ég hélt og það er bústaður um helgina! Vúppí!!! Næstu tvær helgar verða skemmtilegar. :)
Lag dagsins: Ást með Ragnheiði Gröndal.
Maggi.
Oh happy day...

Í dag (s.s. í gær, þriðjudag) hringdi ég næstmerkilegasta símtal ævi minnar. Ég hrindi til Trailfinders á Piccadilly í London og talaði þar við Alice sem bókaði hvorki meira né minna en fimmtán flug fyrir mig og Bigga! Eða hún ætlar að minnsta kosti að gera sitt besta til að ferðin geti litið út eins og við vildum hafa hana. Eitthvað mun þó breytast, vonandi ekki allt of mikið, en það skiptir ekki öllu máli því núna getum við bara hallað okkur aftur og farið að hlakka til ferðarinnar! Þetta verður geggjað. Ég neita að trúa því að ég geti gert mér of háar vonir til þessarar ferðar því hún verður alveg brilliant. Svo er ónefndur maður jafnvel að spá í að fórna öllu til að geta komið með okkur í þetta ævintýr! Nefni engin nöfn að svo stöddu. :)
Maggi.

þriðjudagur, mars 09, 2004

Around the world

Ég og Biggi ætlum að hringja til Bretlands á morgun og panta flugfarið okkar. Það er það síðasta sem við sem við þurfum að gera fyrir ferðina, amk af því stærsta. Við eigum að vísu eftir að redda vegabréfsáritunum til fjögurra landa en það ætti ekki að vera svo erfitt. Við leitum okkur svo bara upplýsinga á netinu eftir því sem nær dregur um þá staði sem skemmtilegt gæti verið að sjá. Annars ætlum við að spila þetta voðalega frjálslega, sjá til í hverju landi hvað við ætlum að gera og svona. Þetta verður geggjað. Vonandi þurfum við bara ekki að breyta ferðinni mikið eftir því hvað ferðaskrifstofan segir. Fingers crossed! :)
Lag dagsins: Into Dust með Mazzy Star.
Maggi.

mánudagur, mars 08, 2004

Maggi goes down

Ef það er eitt orð sem lýsir skapi mínu núna þá er það orðið úff. Veit ekki alveg af hverju. Ég er voðalega upp og niður þessa dagana bæði í orku og atgervi. Atgervi er gott orð. Allir hafa sitt atgervi. Allir eru gervi. Enginn er alvöru. Ég horfði á Igby Goes Down í kvöld með strákunum og mér fannst hún frábær. Skoðun mín er örugglega að hluta til komin af því að ég elska Catcher in the Rye og þessi mynd er ótrúlega lík þeirri bók. Aðalkarakterinn, Igby, er skuggalega líkur Holden Caulfield sem er aðalpersónan í Catchernum. Ég elska svona persónur. Svona rebellious þrælgáfaða uppastráka sem gera allt til að brjóta reglurnar en eru samt góðu strákarnir. Ég held að það sé af því að mig langar að vera svoleiðis. Mig langar að vera róttækur og hafa eitthvað til að rísa gegn. Uppeldið mitt er bara ekki þannig. Það er of gott, eða ætti ég frekar að segja of mellow? Vá hvað ég hata að vera mellow. Ef ég væri litur þá væri ég ekki rauður eins og hárið á mér. Ég væri beige. Rjómahvítur, eða hvað sem hann heitir. Ég þoli ekki að lesa blogg hjá fólki sem er miklu gáfaðara en ég. Ég öfunda fólk sem er miklu gáfaðara en ég. Ef fólk á rosalega mikinn pening þá hugsa ég bara hey, flott hjá þér, vonandi geturu keypt þér hamingju, en ég get verið öfundsjúkur útí fólk sem er (eða virðist amk vera, því hvað veit ég) gáfaðara en ég. Og/eða hamingjusamara ef útí það er farið. Og það er ekki að hjálpa til að ég er í starfi þar sem greindavísitala mín lækkar töluvert á hverjum einasta degi. Ekki gott. Ég þarf að fara að drífa mig í skóla og nota heilann eitthvað. Hann er farinn að leggjast í dvala. Ég verð að passa mig að liðka hann reglulega. Af hverju les ég ekki fleiri bækur? Mig langar að vera víðlesinn og vita mikið, en af einhverjum ástæðum fæ ég sjálfan mig ekki til að mynda einhverja ástríðu gagnvart bókum. Enda kannski ekki skrítið, maður myndar ekki ástríðu á einhverju innra með sjálfum sér er það? Ef þú varst eitthvað að spá í það þá er ástæða fyrir því að ég gerði engin greinaskil í þessari færslu (og ekkert samhengi í textann ef útí það er farið) og hún er sú að ég ætlaðist svosem ekkert til að fólk myndi nenna að lesa þetta. Þetta er svona breinstorm færsla sem leyfir mér að fá smá útrás. En það virkaði bara ekkert í þetta skiptið. Og það sem meira er að þetta var svo mikið breinstorm að ég þurfti að stoppa í eitt skiptið og tjékka í réttritunarorðabók hvernig ætti að skrifa eitt orðið í færslunni! (segi ekki hvaða orð.) Ef það segir ekki bara allt sem segja þarf um málefnið sem ég var að viðra. a) ég er að verða heimskari með hverjum degi. og b) ég er að berjast gegn þeirri þróun með því að senda þó frá mér þokkalega gáfulegan texta. Held ég hafi þó hent frá mér þeim möguleika með því einu að byrja að blogga í því ástandi sem ég er í. Linsurnar eru ekkert á því að það sé eitthvað góð hugmynd að vera að opna augun aftur þegar ég blikka. Þannig að ég þarf að berjast við þær og slíta augnlokin laus til að sjá eitthvað framfyrir mig. Og það sem ég sé er beige tölvuskjárinn. Ef líf mitt er ekki bara einn stór kaldhæðnislegur brandari hjá einhverjum guði (Exphylius, god of the nerds) þá veit ég ekki hvað. Það eru sex vikur í heimsreisu. Sex vikur! Ég gæti lent í því að blikka augunum og þá skellur þetta allt saman á! Sjúff, ég veit ekkert hvað ég er að fara útí. Ég held að þetta verði miklu meira ævintýri en ég og Biggi gerum okkur grein fyrir. Er hægt að halda það? Er ég ekki búinn að eyðileggja setninguna með því að segja hana? Nú er ég kominn í hringi. Þannig að ég er að spá í að hringa mig ofan í rúmið mitt eins og köttur með 1984 eftir George Orwell og reyna í fimmta skiptið að koma mér almennilega inní hana. (eftir að ég er búinn að slíta úr mér helvítis linsurnar auðvitað.) Einhvernveginn efast ég þó um að ég nenni að fara að lesa. Og þó, aldrei að segja aldrei. (önnur setning sem maður eyðileggur með því að segja hana.) Vonandi helst boðskapurinn í næstu setningu þótt ég segi hana. Góðar stundir. Jess!
Maggi.

laugardagur, mars 06, 2004

Saturday night and I ain't got nobody...!

Leiðinlegt að þurfa að vinna í fyrramálið. Leiðinlegara er þó að eiga nörda vini sem þurfa að spila roleplay leiki á laugardagskvöldum á meðan mér leiðist mest í heimi! Úff. Pæliði íði. Sjénsinn að ég nenni að spila með þeim. Þannig að ég hef semsagt engann til að láta leiðast með mér og því verð ég að gera það í einrúmi. Sem er miklu leiðinlegra! Dem. Erfitt líf. Nenni ekki að segja neitt meira. Það yrði eflaust líka bara leiðinlegt.
Maggi.
Single crowd

Lag dagsins: Alone In Kyoto úr hinni yndislegu kvikmynd Lost in Translation. Hljómsveitin Air flytur.

Maggi.

föstudagur, mars 05, 2004

Helvítis hrós

Já gaman frá því að segja að ég fékk soldið mikið hrós í gær. Eða það fannst mér í það minnsta. Ég fór nefnilega um kvöldið til að kaupa mér ís því ég er svoddan ískall. Það var gömul kona sem afgreiddi mig í bílalúgunni á Ný-Ung og ég sagði henni hvað ég vildi og keyrði svo áfram að næstu lúgu. Þar var ung og sæt stelpa sem spurði mig hvort hún gæti aðstoðað. Ég sagði að það væri verið að aðstoða mig og þá sagði hún "Helvítis!" og fór að afgreiða næsta bíl. Þetta fannst mér skrítnasta hrós sem ég hef fengið. Sem sagt, orðið helvítis getur líka verið hrós. :)

Og já, ég sá myndina American Splendor í kvöld í H-skólabíói. Hún er mjög skemmtileg og öðruvísi. Mæli með henni fyrir áhugamenn um kvikmyndir, góðan leik, frumlegheit, myndasögur, raunasögur, raunsæi eða hversdagsleikann, en það fíla hana örugglega ekki allir.
Maggi.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Smá

Úbs ég gleymdi að skrifa um myndina í gær. Já ég sá 50 First Dates í gær og hún var skemmtileg. Sá In The Cut í dag og hún var góð og mér finnst hún vanmetin því ég hafði heyrt misgóða hluti um hana. Þessi færsla verður ekkert mikið lengri. Bara smá.
Maggi.

mánudagur, mars 01, 2004

Vó, hvað ætli gerist næst í Survivor?

The clock rings. Tick. It's Monday... again. Já góðir hálsar, áhugaverð helgi að baki vægast sagt. Á föstudaginn skellti ég mér í sumarbústað með nokkrum vinum og vinkonum og eyddi þar helginni. Þetta var nú ekki fjölmennt, enda lítill (en æðislegur) bústaður. Þetta var bara þrusu gaman, mikið hlegið og allir skemmtu sér mjög vel að venju leyfi ég mér að fullyrða. Ég hef nefnilega verið iðinn við kolann þegar kemur að því að skipuleggja bústaðaferðir enda eru þær alltaf frábær skemmtun. Við tókum alveg ótrúlega mikið af myndum, margar skemmtilegar, aðrar miður skemmtilegar. :) Myndavélin gengdi nefnilega stóru hlutverki um helgina og potturinn líka (og sturtan ef útí það er farið). :þ Ég held ég fari samt ekkert útí nánari lýsingar af virðingu við alla sem áttu hlut að máli.

Svo kíkti ég til Jómba í gærkvöldi og horfði á Óskarinn með honum og Bigga. Gaman að því, ótrúlegt afrek hjá LOTR auðvitað, og Sofia Coppola fékk verðlaun sem ég var líka ánægður með. Það sem ég var mest fúll með var að City of God fékk engin verðlaun, því hún er meistaraverk. Hvernig stendur á því að það er alveg hægt að líta framhjá þessari mynd þegar hún fær langbestu einkunn á virtasta kvikmyndamiðli á netinu (IMDB.com) af þeim myndum sem komu út á árinu? (fyrir utan Return of the King auðvitað). Þessi mynd er æðisleg og ef þú ert ekki búin/n að sjá hana þá áttu að drífa þig í því strax!

Hátíðin var nottla mjög löng og það endaði með því að ég horfði á hana alla og hljóp svo út þegar síðustu verðlaunin voru afhent til að ná rútunni í vinnuna. Gaman að því, og ótrúlegt hvað ég hef verið lítið þreyttur í dag. Ég einhvernvegin komst bara yfir þreytuna. Var smá þreyttur í morgun en náði svo smá lúr milli traffíka í vinnunni og hef verið góður síðan þá. Er samt að fara í háttinn núna þótt klukkan sé ekki nema rétt að verða tíu. Gaman að prófa svona svefnlausa nótt fyrir vinnu. Það sannaðist bara að ég get það alveg, og er ágætt að hafa þá vitneskju bakvið eyrað ef eitthvað merkilegt kemur upp. :)

Annars er bara gott að frétta af mér. Á morgun fer ég á fótboltaæfinu eftir kvöldmat og horfi svo á 50 First Dates með Adam Sandler og Drew Barrymore sem ég er búinn að sækja á netinu. Auðvitað hendi ég inn færslu þegar ég er búinn að horfa á hana og læt ykkur vita hvort hún sé eins góð og ég held að hún sé. Until then! Bless, takk, og ekkert snakk! :)

Já, lag dagsins er ennþá Fade Into You með Mazzy Star. :)
Maggi.