laugardagur, mars 20, 2004

Góður

Damien Rice var góður, virkilega skemmtilegir tónleikar. Ég hefði þó notið þeirra enn betur ef ég hefði áttað mig á því að neysla áfengis á fastandi maga, ásamt ofþreytu af sökum vinnu og svefnleysis, er ekki gáfuleg. En eftir að ég jafnaði mig á því skemmti ég mér mjög vel, enda var hann til fyrirmyndar sem tónlistarmaður á tónleikum, sagði sögur í kringum lögin, og var sjálfur orðinn hífaður og það gerði allt skemmtilegra. Blandaði meira að segja frægari lögum inn í sín eigin, og spilaði lög sem maður hefur ekki heyrt. Þvílík fagnaðarlæti eftir tónleikana líka, greinilega fleiri sem voru ánægðir, ég hélt að þakið myndi rifna af húsinu. Eftir tónleikana á Nasa, kíkti hópurinn á Grand Rokk og sá restina af Ælu (hmmm... kaldhæðni), þeir voru skemmtilegir, og Lokbrá voru mjög góðir líka sem spiluðu á eftir þeim. Svo fórum við að huga að því að halda heim á leið, þó ekki án þess að fara á Bæjarins bestu, og kíkja við á Nellys þar sem munaði ekki miklu að við hefðum lent í slagsmálum, og ég labbaði út með fimmþúsund kall í hundraðköllum í vasanum. Gaman að þessu spilakössum. :)

Í gær fengum við líka staðfest flugið okkar fyrir heimsreisuna. Þótt planið eigi eftir að breytast lítillega þá erum við komnir með nokkuð góða heildarmynd á þetta. Það helsta sem breyttist er að við förum ekkert til S-Ameríku, (ætluðum til Brasilíu, Argentínu og Chile), og heldur ekki til Egyptalands. Ekki er þetta þó alslæmt því það bættust við tveir staðir, Tahiti og Cook eyjar. Þannig að listinn lítur svona út í dag:

London, England
New York, New York, USA
Las Vegas, Nevada, USA 2 3
Los Angeles, California, USA
Papeete, Tahiti 2 3 4 5
Rarotonga, Cook eyjar 2 3
Auckland, Nýja Sjálandi
Sydney, Ástralíu
Singapúr
Malasía
Taíland
Kambódía
Víetnam 2 3
Peking, Kína 2
Tokyo, Japan
Róm, Ítalíu 2 3 4
Hróarskelda, Danmörk
London, England
Home "sweet" home!

Þetta eru 15 flug, sem kosta okkur 230 þúsund, og það gerir rúmar 15 þúsund kr. á flug sem mér þykir vel sloppið. Að vísu eigum við eftir að hætta við eitt eða tvö flug (þó breytist planið ekki, ferðumst bara meira á landi), og þá gæti þessi tala lækkað eitthvað. Það er ennþá möguleiki að við förum til Egyptalands, því ef við eigum pening þegar við komum til Ítalíu þá er möguleiki að við skreppum þangað einn eða tvo daga til að kíkja á píramídana. Ástæðan fyrir því að við förum til London í byrjun og enda ferðarinnar er að við verðum að kaupa pakkaferð sem byrjar og endar þar. Við fljúgum til London 18. apríl, þannig að þetta er alveg að bresta á!
Maggi.
blog comments powered by Disqus