föstudagur, mars 26, 2004

Röfl vs. ROFL

Það fer í taugarnar á mér þegar það eina sem fólk getur bloggað um er hvað fer í taugarnar á því. Nöldrarar, röflarar, fílupúkar og almennir leiðindaseggir fá nefnilega margir hverjir útrás á netinu fyrir því sem fer í taugarnar á þeim. Það er ekki nema einstaka röflara sem tekst að vera með áhugavert röfl, og þá þykir mér það bara sorglegt að fólk sem kann að koma fyrir sig orði geti ekki nýtt þá gáfu í eitthvað annað en að röfla yfir öllu milli himins og jarðar. En það getur stundum verið gaman að þeim ég segi það ekki. Ég les oft Víkverja í Mogganum sem er rosalegur röflari, og ónefndur bloggari vinur minn röflar óheyrilega mikið þótt ekkert hrjái hann eða hans. Núna er komið að mér að röfla smá, því ég geri það líka stundum en í hóflegu magni þó.

Um daginn las ég grein þar sem var talað um að börn sem spiluðu á hljóðfæri stæðu sig betur í skóla en þau sem gerðu það ekki, og því ætti að hvetja börn í auknum mæli til að læra á hljóðfæri og æfa oft og mikið. Þetta fer rosalega í taugarnar á mér. Svona heimskulegar röksemdafærslur fyrir borðleggjandi hlutum. Þetta er eins og að segja "í fangelsum er vont fólk og því ættum við að hætta að setja fólk í fangelsi því þá verður það vont". Ok, ég veit að þetta er léleg samlíking, en hún sýnir um hvað málið snýst. Krakkar sem spila á hljóðfæri eru líklegast krakkar sem eiga foreldra sem hvöttu þá til þess að læra á hljóðfæri eða ýttu þeim jafnvel útí það. Líkur eru á að þeir foreldrar ætlist til mikils af börnunum sínum og láti þá heldur ekki komast upp með neitt múður þegar kemur að skólanum. Einnig er líklegt að krakkar af "betri" heimilum spili á hljóðfæri þar sem foreldrarnir eru vel lærðir og heimilishaldið er hvetjandi og skapandi. Fyrir utan það að krakkar sem halda sig við námið í hljóðfæraleik og seiglast þetta áfram eru líka líklegri til að geyma persónu sem stendur sig vel í skóla og heldur sig við efnið á þeim sviðum. En að segja að krakkar standi sig betur í skóla af því að þau spila á hljóðfæri er fáránlegt! Jújú, ef krakkar geta tileinkað sér þann aga sem þarf til að læra á hljóðfæri og hann skilar sér inn í námið þá getur vel verið að það hjálpi eitthvað til. En að segja að það sé hljóðfæraleiknum að þakka að krakkarnir standi sig vel í skóla finnst mér alveg út úr kú.

Svona fer fyrir þeim sem vilja ofgreina (overanalyze) allt, og leita skýringa á fáránlegustu stöðum í stað þess að horfa á hið augljósa. Mér dettur í huga að það er voðalega mikið gert úr því að fólk hafi dáið við að horfa á The Passion of the Christ í bíó. Og hvað með það? Það deyr örugglega fólk á hverjum degi í bíó, og það þarf ekkert að vera að það komi því neitt við hvað var verið að sýna! Þetta er ekki rökrétt. Marylin Manson var kennt um morðin í Columbine af einhverjum vileysingum af því að strákarnir sem skutu á samnemendur sína áttu diska með tónlistinni hans. Svona fer í taugarnar á mér og fólk verður að passa sig að leggja ekki bara saman tvo og tvo og fá út fjóra ef það eru miklu fleiri stærðir og breytur í jöfnunni.

Ah, þetta var hressandi. Spurning um að röfla meira og oftar?! Ætli það sé þó ekki áhrifaríkara að öskra hátt eða kýla í púða eða vegg eða eitthvað til að fá útrás. En það er bara svo mikið af fávitum í þjóðfélaginu að þeir sem sífellt reka augun í það (eða leita það uppi) verða bara að fá að koma því fá sér. Ég hataði Botnleðju á tímabili fyrir að gefa út disk með þessu nafni en ég hef komist að því að það er bara einfaldlega rétt hjá þeim; fólk er fífl.
Maggi.
blog comments powered by Disqus