Ætli þetta sé tákn? Um leið og ég ætla að fara að blogga liggur blogger niðri. Því er ég að nýta besta forrit sem gert hefur verið í að rita hugsanir mínar, Notepad. Ég mun svo pósta þessu þegar þeir hjá blogger.com vilja hleypa mér aftur inná síðuna. Kannski eru þeir svona ósáttir því ég hef ekkert verið að blogga? Kæmi mér ekki á óvart.
Það er nefnilega pínulítið langt síðan ég bloggaði! Og meira að segja enn lengra síðan ég bloggaði almennilega. Ég kom með þá kenningu um daginn að ástæðan væri endurnýjunga-leysi á þessari blessaðri bloggsíðu. Ég hef alltaf búið til nýtt lúkk reglulega fyrir bloggið mitt og það hefur gefið mér aukinn kraft í að blogga því það er miklu skemmtilegra að skrifa inná síðu sem er flott og ný. Kannski er þarna (mjög illa) falin lausn á blogg-vandamálum mínum. Búa til nýja síðu. Kannski ég geri það bara fljótlega, hver veit.
Það sem á daga mína hefur drifiðFyrst maður hefur fallið í þá gryfju að skrifa frekar um það sem maður er að gera í stað þess sem maður er að hugsa (en eins og allir vita er mun skemmtilegra að lesa hugsana-blogg), ætli ég segi ykkur ekki aðeins frá því sem ég hef verið að bralla. Síðasta almennilega færsla sem ég skrifaði var þegar Biggi var á heimleið frá San Francisco og ég var á leiðinni í Road-Trip með sex öðrum NoMA-lingum. Það er skemmst frá því að segja að við keyrðum tæpa 3800 kílómetra á átta dögum og það var bara mjög gaman að því. Planið sem ég skrifaði um hélst nokkurnvegin, nema við fórum ekki í rússíbanagarðinn og ég fór ekki til Mexíkó. Á meðan hinir fóru til Mexíkó varð ég eftir í San Diego og hlaut höfðinglegar móttökur hjá Nonna og Elísabetu. Það var virkilega gaman, og það væsir sko heldur betur ekki um þau í flottu íbúðinni sinni í flotta hverfinu. :)
Það stærsta sem gerðist í ferðinni frá mínu sjónarhorni séð var að ég brann. Og ég brann ekkert æh-mig-svíður-svo-ég-verð-að-fá-mér-smá-after-sun. Ég brann æh-hvenær-ætlar-hjartslátturinn-í-andlitinu-á-mér-og-bólgan-og-blöðrurnar-að-fara?! Það var ekki skemmtilegt. Ég var svo rauður að ég var sjálflýsandi. Ég var líka veikur heilan dag á eftir og var alla ferðina og rúmlega það að ná mér eftir þetta í andlitinu og á fótunum. Ég flagnaði nokkrum húðlögum og fékk blöðrur á fæturna og svona skemmtilegheit. Úff, ég óska engum að lenda í svona.
***
En ég komst heim heill á húfi, og í fang Óskarinnar minnar. Síðan ég kom heim hef ég brallað ýmislegt. Ég hef að sjálfsögðu eytt öllum þeim tíma sem ég get með Óskinni minni. Við erum búin að vera saman í hálft ár núna í byrjun júní! Til hamingju með hálfs árs afmælið ástin mín. :*
Ég hef líka farið oft í sund og bíó og svona hluti sem eru lítt merkilegir að segja frá. Þannig að ég hefði kannski átt að sleppa því. Ég og Ósk fórum í Evróvisjón-útskriftar-partý hjá Pálu og Gulla sem var virkilega gaman. Við fórum líka í útilegu um síðustu helgi. Kíktum í Þjórsárdal og skemmtum okkur konunglega (þrátt fyrir klósettleysi). Við vorum þar fimmtán saman komin og helgin var mjög vel heppnuð. Alveg útaf fyrir okkur á ótrúlega fallegum stað í mjög fínu veðri. Gerist ekki betra.
Ég bloggaði örlítið um það að ég væri kannski að fá vinnu. Ég fékk semsagt vinnu hjá Víkurfréttum og er búinn að vera þar í þrjár vikur. Það er búið að vera virkilega fínt og ég er óðum að komast inní hlutina. Ég er svona allt-muligt maður hjá þeim, er bæði með blaðamönnunum og hönnunardeildinni. Þannig að ef ég ætti að telja upp það sem ég hef verið að gera þá myndi það hljóma einhvern vegin svona; taka upp vídjó, klippa vídjó, taka ljósmyndir, taka viðtöl, skrifa greinar á netið, skrifa greinar í blaðið, hanna auglýsingar í blaðið, vinna ljósmyndir fyrir blaðið, vinna ljósmyndir fyrir netið, hann flash borða fyrir netið... Þetta er ekki tæmandi listi. Það besta er að þetta er akkúrat það sem ég hef verið að læra og hef áhuga á! Og það hentaði líka ágætlega að ég byrjaði hjá þeim núna í þrjár vikur og lærði inná hlutina, og kæmi svo aftur af fullum krafti í júlí eftir Danmerkurför mína. Kannski er eitthvað til í því þegar fólk segir að ég sé heppinn. Ég tók þátt í Stóra-HM leiknum í dag. Það er aldrei að vita nema ég sé á leiðinni á úrslitaleikinn í Þýskalandi í júlí... ef heppnin er með mér. :)
FramhaldiðSumarið er rétt að byrja. Á mánudaginn þá fer ég til Kolding til að klára skólann minn. Ég tek próf á miðvikudaginn og útskriftarathöfnin er á föstudaginn. Það veður gaman að kíkja til Kolding enda átti maður nú heima þarna í eitt og hálft ár. Sú tilfinning að maður eigi heima þarna er samt alveg horfin. Núna er maður bara rétt að heimsækja og er svo farinn. Eftir þá viku fer ég svo til Jóa í Horsens. Þar verður sötraður bjór og horft á heimsmeistarakeppnina. Ég er ekki enn búinn að gera upp við mig með hvaða liði ég held. Það hlýtur að koma til mín í draumi fljótlega.
Svo er komið að Hróarskeldu. Eftir fyrsta skiptið mitt á Hróarskeldu sagði ég við sjálfan mig og hvern sem vildi hlusta að ég myndi fara á hátíðina næstu tíu ár þar á eftir. Þetta er fjórða árið mitt í röð. Þetta er nefnilega ansi skemmtilegt, og hátíðin í ár verður engin undantekning. Fullt af góðum böndum, góð stemmning og ef guð lofar, gott veður. Það skyggir samt mikið á að Óskin mín kemst ekki með mér. Það er ótrúlega súrt, en hún kemur með mér næst vona ég.
Svo er ég búinn að sækja um skóla í Kaupmannahöfn og kemst að öllum líkindum inn því þetta er áframhald á náminu mínu og þeir segjast taka við öllum sem eru búnir með þennan grunn. Þá þarf maður að fara í íbúðaleit og svoleiðis vesen. Hver veit nema Ósk komi með mér út, ég verð að halda í þá von. Ég held það sé pínu augljóst hvar hugur minn liggur í dag sem aðra daga.
Ég held að þetta sé komið nóg í bili. Ég ætla að sleppa því að byggja skip, þetta var nóg. :)
***
Nú er kominn nýr dagur og ég er mættur í vinnuna. Þeir hjá Blogger.com eru búnir að fyrirgefa mér og ákváðu að setja síðuna upp aftur þannig að færslan fékk að fara á netið. Til hamingju ef þú náðir að lesa hana alla. Verið góð við hvort annað, og í guðanna bænum, notið sólarvörn.
Magginn.