föstudagur, febrúar 27, 2004

Ísskápurinn er að horfa á mig...

Aldrei hélt ég að ég myndi verða hræddur við ísskáp! En Requiem for a Dream breytti því í kvöld. Ísskápar eru hræðilegir. Nei nei, það er ekki alveg það sem maður lærði af þessari mynd. Það er langt síðan, líklegast síðan ég sá Irréversible, að mynd hafi náð að fanga mig í svo miklum hryllingi. Þetta er ekki hryllingsmynd en vá hvað hún er svakaleg. Kannski ætti ég ekki að eyða mörgum orðum í hana því hún er gömul (2000), þannig að þeir sem ætla að sjá hana hafa þegar gert það og þeir sem hafa ekki séð hana munu líklegast ekki gera það. En hún hafði bara það mikil áhrif á mig að ég verð að fá að tjá mig aðeins um hana.

Myndin fjallar um eiturlyf og hræðileg áhrif þeirra á líf fólks. Eins og einhver sagði á Imdb þá þýðir ekkert endilega að líf manns leggist í rúst ef maður tekur inn eiturlyf, en þetta sýnir vel það sem gæti gerst. Það er hægur stígandi í myndinni og alltaf niður á við. Aldrei verður neitt betra, bara verra og verra... og svo enn verra. Virkilega vel gerð og góð mynd, frábær leikstjórn og hlakka ég mikið til að sjá næstu mynd leikstjórans sem heitir Darren Aronofsky. Sú mynd heitir Flicker og kemur út á þessu ári, og bókin sem myndin er gerð eftir á víst að vera alveg frábær.

Svo hlakka ég til að sjá aðra mynd frá David Fincher sem gerði Fight Club en því miður er hann ekki með neitt á könnunni samkvæmt Imdb. Ég var að komast að því í kvöld að hann leikstýrði líka Se7en og The Game. Stúpid mí að vita þetta ekki fyrr, en hey, maður getur ekki vitað allt. Þetta eru auðvitað allt alveg frábærar myndir og því verður gaman að sjá hans næstu þótt erfitt verði fyrir kallinn að standa undir væntingum. Já þú gast þér rétt til, ég er búinn að eyða svolitlum tíma á Imdb.com í kvöld enda frábær síða. :)

Á morgun (föstudag) verður byrjað að sýna American Splendor í bíó hér á landi. Ég hlakka virkilega til að sjá hana eftir að hafa lesið um hana, og hún fær líka rosalega góða dóma. Hún hljómar eins og ekta mynd sem ég hef gaman af og vonandi er það rétt. Úbs, jæja, þetta átti að vera svakalega stutt færsla. Nú skil ég af hverju Jóhann nennir ekki að lesa bloggið mitt. Ó jæja, farið hefur fé betra. Múhaha.

Lag dagsins: Fade Into You með Mazzy Star af plötunni So Tonight That I Might See frá árinu 1993. :) Æðislegt lag. Repeat í marga klukkutíma! Gerist ekki betra.
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

On the other hand, you have different fingers.

Ég er búinn að horfa á fyrstu tvo þættina af Angels in America. Það er mini-serían sem fékk fimm Golden Globe verðlaun um daginn ef ég man rétt. Þetta byrjar mjög vel (er bara fimm þættir, klukkutími hver), og þrátt fyrir að þættirnir séu mjög dramantískir þá finnst mér þeir fyndnir líka. Virkilega vel leiknir og bara ótrúlega gott sjónvarpsefni. Ætti nottla að vera bíómynd en fimm klukkutíma mynd virkar bara ekki. Þannig að þetta er bara betra. Mæli með því að allir sjái þessa þætti þegar Stöð 2 nælir sér í sjónvarpsréttinn! Ég tel engar líkur á því að þeir láti þetta framhjá sér fara.

En best að fara að horfa á Requiem For A Dream. :)
Maggi.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Gæsahúð

Dagurinn í dag var merkilega ágætur þrátt fyrir að ég hafi þurft að sitja á frekar slöppu námskeiði frá níu til fjögur (sem var að vísu furðu fljótt að líða). Ég reddaði nefnilega deginum með því að fara í hálfsex bíó með Jobu Kretz og Torgeirz. Við dirfum okkur nefnilega að sjá heimildarmyndina merkilegu um fuglana áður en þeir taka hana úr sýningu. Myndin heitir Le Peuple migrateur á frummálinu (frönsku) eða Heimur farfuglanna. Þessi mynd er alveg frábær og rosalega falleg. (8.0 á imdb.com) Hún er algjört möst sí fyrir kvikmyndatökuáhugamenn því kvikmyndatakan í henni er alveg ótrúleg og vart hægt að lýsa henni með orðum. Ég hef aldrei séð annað eins, enda hefur annað eins aldrei verið gert. Allt sem ég hef lesið um þessa mynd er satt. Ég meina þetta er engin epic stórmynd, ekki búast við því, en sem heimildarmynd er hún alveg æðisleg. Það er lítið sem ekkert talað í myndinni og þurfa því fuglarnir að halda henni uppi og tekst það alveg merkilega vel. Manni leiðist ekki (amk ekki mér) þótt uppistaðan í myndinni séu mismunandi myndskeið af fuglum á flugi. Náttúran og veðrið og fuglarnir mynda saman þvílíkt listaverk sem erfitt er að gleyma. Ég hvet þá sem hafa tækifæri til að sjá þessa mynd einhverntíman að gera það endilega, því þótt heimildarmynd um fugla hljómi ekki spennandi í eyrum allra, er hún virklega þess virði að sjá. Því miður skrifa ég þetta með þá tilfinningu að ég sé að tala fyrir daufum eyrum (eða skrifa fyrir blindum augum) en það má alltaf reyna. (þess má geta að svo fórum við á Burger King!! þannig að dagurinn varð ennþá betri.)

Ég sá líka Cold Mountain á sunnudaginn, þá ágætismynd. Hún á svosem alveg skilið einn eða tvo Óskara og skilar hlutverki sínu fullkomlega. En fyrir mér var þetta bara afþreying og góð sem slík. Get ómögulega litið á hana eins og hún sé einhver svakalega merkileg mynd því hún reynir það of mikið. En ég get alveg mælt með henni. Fín mynd.
Maggi.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Bofs

Ég gerði ekkert í dag. Ekki neitt. Ekki bofs. Ég ætlaði nú að gera mjög fáa hluti, en úr þeim varð ekkert. Þegar maður hefur lítið að gera kemur maður engu í verk. En stundum þegar maður hefur mikið að gera er maður eins og stormsveipur um allt og klára meira en maður ætlaði sér. Svona er maður skrítinn. Fínt að vísu að taka daginn bara í að slappa af eftir vinnuhelgina. Maður nennir nefnilega ekkert að fara snemma að sofa því það er helgi, en samt þarf maður að vakna klukkan hálf fimm og fara að vinna. Ekki skrítið að maður sé þreyttur eftir svoleiðis helgi. En núna ætla ég að fara að sofa þótt klukkan sé ekki nema eitt. Þannig er mál með vexti (heimskulegt orðatiltæki) að ég þarf að mæta á námskeið uppí vinnu klukkan níu í fyrramálið! Maður fær ekki einu sinni að hafa frí á frídögum núorðið. Hvurslax. En ég ætla amk ekkert að mæta næstu helgi. Því get ég lofað ykkur öllum. En jæja, nú er nóg komið af tilgangslausu röfli í dag, ég lofa að koma mjög sjaldan með svona færslur sem er auðveldlega hægt að taka saman í eina setningu: Ég hef ekkert að segja.
Góða nótt.
Maggi.

mánudagur, febrúar 23, 2004

af hverju er ég ekki farinn að sofa?

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Gleðilegan konudag!

Já, enn einn merkisdagurinn á dagatali Íslendinga er runninn upp! Konudagurinn. Og það er engin smá hrina í þessari viku. Konudagurinn, bolludagur, sprengidagur og öskudagur! Eigum við ekki bara að hafa fimmtudaginn skírdag eða sumardaginn fyrsta og hafa föstudaginn hinn langa! Laugardagurinn má svo alveg vera... hmmm... er enginn merkisdagur sem kemur alltaf upp á laugardegi? Jæja þá, hann er hvort eð er besti dagurinn í öllum vikum þannig að hann hefur það. Það þarf ekkert að bæta neinu við. Annars er bara sniðugt að hafa einn dag þar sem karlar neyðast til að vera góðir við konurnar sínar. Þær sem eru vanar því fá bara auka skammt og þær sem kynnast því sjaldan eru örugglega voða glaðar að fá blóm. Vonandi eru ekki til karlar sem eru vondir við konurnar sínar á konudaginn, það er auðvitað mjög slæmt, í dag sem alla daga. Jæja, nóg komið af konudagsbulli.

Vinnuhelgin er að renna sitt skeið og við tekur undirbúningur fyrir næstu helgi, sem er fríhelgi eins og lög gera ráð fyrir. Þá verður húllumhæ mikið, enda kemur fríhelgi bara upp tvisvar í mánuði. :) Ætti maður að skella sér á Burger King í kvöld? Það eru nú liðnir alveg fjórir dagar síðan ég fór síðast. Þetta er eitthvað til að hugsa um. :)
Maggi.

laugardagur, febrúar 21, 2004

Shake

Ég sá hlut á skrifborðinu mínu. Ég rétti úr handleggnum, opnaði lófann og greip um hlutinn. Þvínæst færði ég hlutinn nær andliti mínu og skoðaði hann. Þegar því var lokið setti ég hlutinn aftur á upprunalegan stað með því að rétta úr handleggnum og opna lófann. Þetta er dæmigerð færsla í The Dullest Blog In The World. Alveg snilld, gott skot á tilgangsleysi bloggsins.

Ég er búinn að vera með FM lagið Milkshake með Kelis á repeat í svolítinn tíma. Takturinn í þessu lagi er ekkert annað en snilld og fær mig til að dilla mér í hvert skipti sem ég heyri hann. Ef augnablikið sem ég heyri taktinn er ekki við dillihæfi þá hreyfi ég hausinn í kinkakollihreyfingu í takt við lagið. Ef vænlegast er í stöðunni að sýna engin merki um að mér líki tónlistin þá geri ég bara bæði inní hausnum á mér og dansa líka með. :) Svona er þetta með öll lög sem hafa svona góðan takt!

Placebo kemur til landsins í sumar!!! Þetta eru yndisleg tíðindi og það er hér með ákveðið að mitt fyrsta verk þegar ég kem heim eftir heimsreisuna mína er að fara á Placebo í Höllinni! Flott að koma beint af Hróarskeldu og fara daginn eftir á svaka tónleika í höllinni. Woohoo!! Ég er strax farinn að hlakka til. Yeah. Verð bara að fara að dæmi Mr. Torgeirz og fara með Haiku í tilefni þessara yndislegu frétta.

Placebo kemur,
ætla ég að slamma mjög.
Enginn má skrópa.

Læti í gestum,
svitaperlur á enni.
Þetta verður snilld.

Maggi.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Vinnuhelgi

Júúúhúú. Vinnuhelgi framundan. Þar sem líf mitt snýst að miklu leiti um helgarnar (ekki af því að ég er alki heldur af því að það er bara allt miklu skemmtilegra um helgar :þ ) þá er ekkert allt of gaman að þurfa að vera á tólf tíma vöktum föstudag fram á sunnudag. Merkilegt samt hvað vinnuhelgarnar geta orðið skemmtilegar. Ef það er eitthvað í gangi á kvöldin þá mætir maður bara samt, en er bara með "fulle fem" og hlær að hinum vitleysingunum og fer snemma heim og vaknar svo tiltölulega hress. Ég sem var svo ánægður með hvað ég þoldi lengi við í þessari vinnu, er orðinn svolítið þreyttur á henni. Er farinn að sjá að þetta á engan vegin við mig til lengri tíma. Ég verð að vera að gera eitthvað sem ég hef áhuga á. Ég geri mér grein fyrir því að það eru rosalega margir sem fara í vinnuna af því að þeir þurfa þess, þola það kannski ekki en reyna að gera það besta úr því. Mig langar að vera einn af þeim heppnu sem hefur ástríðu fyrir því sem hann er að gera og finnst ekki leiðinlegt að þurfa að mæta til vinnu. Kannski svolítið erfitt að biðja um það þegar maður hefur enga stefnu og enga hugmynd um hvað maður gæti hugsað sér að gera. En hey, mér eru allir vegir opnir, ég gæti orðið hvað sem ég vill, og þess vegna verður maður bara að stinga sér í djúpu lögina og prófa eitthvað og vona að maður finni sig fyrir rest. Eins gott að ég er búinn að æfa sund svona lengi!!! Hahahahahahahah vá hvað þetta var vondur brandari. Ég þyrfti að fara að kíkja í sund.

Sá Along Came Polly í kvöld. Fínasta mynd, átti sína spretti en engan vegin neitt meistaraverk. Afþreying. Ekki það að There's Something About Mary hafi ekki verið afþreying en hún hafði bara eitthvað æðislegt karma (for lack of a better word) við sig sem maður elskaði (samanburður útaf Ben nokkrum Stiller). Þessi mynd fellur í fjöldann. Það hefði verið hægt að gera töluvert skemmtilegri karaktera því myndin og söguþráðurinn bauð alveg uppá það, en manni var alveg sama hvernig hún endaði, og það er aldrei gott. Vonandi þarft þú annað hvort ekki að mæta í vinnu um helgina eða elskar það sem þú ert að gera svo mikið að þér er alveg sama! Nú og ef þú ert í skóla þá vona ég að það sé lítið að læra heima. :)
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

BUUURRRGGGEEERRR KIIIIINNNNGGG!!!!!

Já þetta er satt! Þessi merkisdagur er runninn upp!!! Fyrsti Burger King staðurinn hefur verið opnaður á Íslandi! Sem sannur aðdáandi þessara yndislegu matsölustaða fór ég auðvitað strax fyrsta daginn og fékk mér djúsí eldsteikta hamborgara! Úff hvað þeir voru góðir. Það þarf enga spákonu til að segja mér að ég á eftir að heimsækja Burger King oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á næstu vikum, mánuðum og árum. Annars er Burger King staðurinn flottur og á besta stað í Smáralind. Á móti miðasölunni í Smárabíó og hinum megin við ganginn hjá Pizza Hut. Það eina sem ég hef að setja útá er að maður þarf að skammta sér gosið sjálfur það eru smá leiðindi sérstaklega þegar það er mikið að gera. En annars bara algjör fullkomnun og maturinn yndislegur. Ég fékk mér tvo ostborgara og stóran skammt af laukhringjum og rann þetta allt ljúflega niður. Ég á eftir að verða feiiiitur. Burger King dagurinn hinn mikli verður átjándi febrúar kallaður hér eftir. Burger King var mér innblástur fyrir smá myndasyrpu hérna við tölvuna og leit fyrsta myndin svona út. Ég hélt auðvitað áfram og þetta var næsta mynd. Ég gat auðvitað ekki hætt og önnur mynd leit dagsins ljós. Ég kann mér auðvitað engin takmörk og fjórða og síðasta myndin var tekin en þá var nóg komið af listrænum tilburðum í tilefni dagsins og ég lagði frá mér myndavélina.

Ég fór í bíó eftir ferðina á Burger King og sá ég myndina Paycheck. Henni er leikstýrt af John Woo og það var ástæðan fyrir því að ég skemmti mér konunglega. Torgeirz er nefnilega mikið á móti honum og öllu sem hann skilar frá sér. Myndin er líka uppfull af pretentious arty farty kjaftæði eins og fer svo rosalega mikið í taugarnar á áðurnefndum bloggara. Byssukúlur í slow motion, gler að brotna í slow motion eða dúfur í slow motion eru í hverju einasta atriði og svona. Ég mátti hafa mig allan við að springa ekki úr hlátri þegar dularfull hurð opnaðist og snjóhvít dúfa í ultra-slowmo flögraði í gegn í átt að myndavélinni. Sérstaklega útaf þessari teiknimynd sem Torgeirz birti á síðunni sinni fyrir skömmu. Þvílíkt skot (og mjög verðskuldað) á John Woo. Ef maður hefur húmor fyrir þessu þá er alveg frábært að horfa á þessa mynd. Ef manni er alveg sama og vill bara frekar hefðbundna spennumynd þá er hún líka fín sko. Uma Thurman er hot, og Ben Affleck mjög áhyggjufullur og talar heimspekingslega og hegðar sér eins og James Bond þótt hann eigi að vera verkfræðingur. Mjög Hollywoodlegt og frábært bara. :)

Myndirnar frá því á laugardaginn (ég náði loksins í myndavélina mína í dag) pössuðu ekki í rammann þannig að ég ákvað að sýna ykkur bara tvær í staðinn. Önnur er af mér og Björk og hin er af Jóhanni og Einari Frey. Annars voru flestar myndirnar úr fókus eða illa lýstar sögum birtuleysis og bjórneyslu. :)

Ég hef sterkan grun um að helgin 27. - 29. febrúar eigi eftir að verða alveg fáránlega skemmtileg. Já alveg fáránlega segi ég og skrifa. Segi kannski meira um það og skrifa þegar nær dregur.
Maggi.

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Whales and words

Það hefur nú ekki farið framhjá nokkurri manneskju sem hingað álpast, hvort sem það er reglulega eða óreglulega, að ég hef verið að skrifa frekar langar færslur undanfarið í formi smásagna. Ég skrifaði þessar sögur fyrir sjálfan mig og ykkur, en þar sem ég er mjög háður því að skrifa bara það sem ég held að fólki líki við þá held ég ekki áfram með 1700 orða færslurnar (tilviljun að sögurnar urðu mjög svipaðar að lengd) nema þið viljið. Þannig að hvort sem þið lesið þær færslur eða ekki þá þætti mér fínt að fá að vita það. Ég skil það vel að það nenni ekki allir að lesa þær því þær eru töluvert lengri en hefðbundnar færslur í hvaða bloggi sem er, en þeir sem nenna að lesa mega alveg segja hvað þeim finnst svo ég geti gert betur næst og viti hvað lesendur mínir eru að hugsa.

Ég tognaði á fótboltaæfingu í kvöld, og ekki minna en í desember. Hundleiðinlegt að lenda í þessu helvíti því maður á svo lengi í þessu þótt þetta séu tiltölulega saklaus meiðsli. Einhverjum finnst ég örugglega eiga það skilið að togna í ljósi þess sem gerðist í janúar á fótboltamótinu, og lái ég þeim það ekki. Þetta er auðvitað lítið mál miðað við það sem hann þurfti (og þarf enn) að þola, en þetta er leiðinlegt samt sem áður.

Ég sá kvikmyndina Whale Rider í kvöld. Fyrir þá sem ekki vita er Keisha Castle-Hughes aðalleikkonan í þeirri mynd og hún er ekki nema þrettán ára. Það væri nú ekki frásögu færandi nema að hún er tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir þessa mynd núna í ár! Þar með er hún yngsta leikkonan sem hefur hlotið þann heiður. Myndin hefur líka fengið góða dóma og er hún þegar þetta er skrifað í 203. sæti yfir bestu myndir allra tíma á Imdb.com með 8.1 í meðaleinkunn. Þetta er fínasta mynd, þótt ég hefði nú ekki gefið henni alveg 8.1 eins og skalinn er á Imdb. Keisha leikur ótrúlega vel miðað við aldur og í einu atriðinu er hún alveg mögnuð og það er eitt best leikna atriði sem ég man eftir að hafa séð. Maður trúði henni algjörlega 100% að hún væri að meina allt sem hún sagði og þær tilfinningar sem hún sýndi. Alveg magnað. Ég býst ekki við að hún vinni, en tilnefningin er vissulega mikið afrek og á hún það skilið. Veit ekki hvort hægt er að nálgast myndina hér á landi, hún er ekki komin í bíó og ekki á myndband að ég held. Kannski er hún til á netinu, ég veit það ekki, en ég var svo heppinn að vinnufélagi minn lét kaupa hana fyrir sig á DVD í Ameríkunni og ég fékk hana lánaða. Lucky me. :) (eftir athugun þá sé ég að hún er til á Valhöll ef einhver hefur áhuga).
Maggi.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Önnur smásaga eftir Magnús:

Guðvaldur og Gullfoss


Björgvin Halldórsson þenur röddina í útvarpinu og útvarpsmaðurinn kynnir hátíðlega hvað klukkan sé um leið og bankað er á hurðina á litlu biðstofunni á Sálfræðistofu Guðvalds. Ástfríður ritari lítur upp hissa, því enginn er vanur að banka. -Sa er opis! segir hún, því hún er svo smámælt að meira að segja þornin og eðin verða að essum. Inn um gættina stingur Heiðmar Gústafson ófrýnilegum hausnum, með rauðar kinnar og snjó á húfunni og fær sér sæti bakvið stóran bunka af þriggja ára gömlum Séð og heyrt blöðum.

Innan við litlu biðstofuna á ennþá minni skrifstofu situr Guðvaldur Sigrúnarson í óþægilegum stól sem er góður fyrir bakið. Hann er með tómlegan svip og stjarft augnaráð og horfir á tvær flugur elta hvora aðra á skrifborðinu hans. Hann er tæplega fertugur, dökkhærður, meðalmaður á hæð, ógiftur og er alltaf kalt á fótunum. -Heismar Gústafson er mættur! heyrist óþarflega hátt úr litlum gráum kassa á borðinu og Guðvaldur hrekkur við. Hann biður Ástfríði að vísa honum inn og Heiðmar silast inn um hurðina. Hann var búinn að ganga til Guðvalds í þónokkurn tíma, og ávallt voru tímar þeirra saman á sömu leið. Heiðmar talaði um vandamál sín og óstyrkleika í vinnu og hjónabandi, þeir skeggræddu þetta í tæpan klukkutíma og ávallt án niðurstöðu. Heiðmar og konan hans voru búin að reyna að eignast barn í nokkur ár án árangurs, og var útséð með að þau myndu nokkurntíman eignast barn á hefðbundinn hátt. Konan hans er þó algjörlega á móti öðrum aðferðum s.s. ættleiðingu eða tæknifrjóvgun og því hafði þetta vandamál vaxið og dafnað í kviði hennar í staðinn fyrir barnið. Guðvaldur kveið stundum fyrir því að þurfa að ganga í gegnum sömu rulluna með Heiðmari því honum fannst hann ekkert getað hjálpað honum. Einhverja huggun hlaut Heiðmar þó að finna í spjallinu við Guðvald, því alltaf mætti hann á slaginu fimm á þriðjudögum.

Guðvaldur var óvenju mikið utan við sig þennan daginn. Hann vissi ekki hver hann sjálfur var, og leitaði því stanslaust í spjaldaskránni í hausnum á sér að einhverju sem einkenndi hann og gerði hann að persónu. Persónan hlaut að vera þarna einhverstaðar í vannærðum og renglulegum líkamanum. Eftir stuttar hversdagslegar kveðjur settist Heiðmar í La-Z-Boyinn, horfði útum gluggann og tók að þylja upp nýjustu útgáfurnar af vandamálum sínum. Guðvaldur öfundaði stundum sjúklinga sína, eða skjólstæðnga eins og hann kaus að kalla þá, af því að fá að sitja í góða stólnum. Mamma hans hafði bent honum á þennan óþægilega skrifborðsstól sem var svo hollur fyrir bakið, og hann vildi ekki gera hana leiða með því að taka ekki ráðum hennar og keypti því stólinn. Hann sá fram á margra ára leiða yfir þessu smávægilega vandamáli um leið og hann settist í stólinn í fyrsta skipti, því hann vissi að hann myndi ekki nenna að skipta um stól.

Öðru hvoru sagði Guðvaldur -Aha. eða -Já og hvernig leið þér þá? en brá stundum útaf vananum með -Jahá! En þó var hann ekkert að hlusta. Hann var niðursokkinn í leitinni að Guðvaldi eins og hann þóttist þekkja hann. Heiðmar tók fljótlega eftir þessu og var virkilega móðgaður. Hann ákvað um leið að þetta yrði síðasti tíminn sem þeir myndu eiga saman. Hann fór að fara útfyrir efnið til að sjá hversu vel Guðvaldur fylgdist með. -Svo var Árni vinnufélagi minn að eignast barn. -Aha, svaraði Guðvaldur. -Það var með átján fætur og enga handleggi en konan hans er samt himinlifandi. -Aha. -Þau skírðu barnið Helmínflass Gární Filmbulsdóttir, og hún er byrjuð að drekka og reykja. -Jahá. - Mér líður oft eins og ég sé mörgæs og get ekki hugsað um annað en norðurpólinn sem er auðvitað fáránlegt. Hverskonar mörgæs er ég ef ég veit ekki að þær búa ekki á Norðurpólnum heldur Suðurpólnum. Konan mín hellti yfir mig brennandi feiti í gær. -Og hvernig leið þér þá?

Heiðmar hafði ekki lengur gaman að þessu. Hversu leiðinlegur og niðurdrepandi þarf maður að vera til að sálfræðingurinn manns hlusti ekki einu sinni á mann? Hann fór að segja hluti sem hann meinti vitandi að þessi glataði sálfræðingur væri enn í eigin heimi. -Annars er ég að hugsa um að binda bara enda á þetta allt saman. Ég er hættur að sjá ástæðuna fyrir því af hverju ég ætti að nenna framúr á morgnana. Týndur í ástlausu hjónabandi, vinn sem járnsmiður þótt mig hafi alla tíð dreymt að vera listamaður. Ekkert endilega frægur, bara að fá að tjá mig og vera viðurkenndur af öðrum. En ég er hæfileikalaus í því eins og öðru. -Já, svarar Guðvaldur, og hvað ertu að hugsa núna? -Ég er að hugsa hvað væri besta leiðin til að losa heiminn við byrði eins og mig. Mér finnst eins og það þurfi að vera listrænt, eitthvað sem enginn hefur gert, eitthvað sem fólk mun muna eftir. Stundum hugsa ég um að henda mér framaf klettunum hjá Gullfossi. Þannig myndi ég vilja deyja.

Heiðmar stóð upp, kvaddi og strunsaði út, þótt ekki væri liðinn nema fjórðungur af tímanum hans. Guðvaldur áttaði sig ekki á því fyrr en hann skellti hurðinni á eftir sér, þá hrökk hann í kút og skimaði í kringum sig eins og hann hefði verið að vakna af draumi. Ástfríður kom inn til hans forviða og sagði -Hvas va nú setta? Guðmar sagðist ekki vita það og reyndi að hugsa til baka hvað hafði getað framkallað þessi viðbrögð. Þá áttaði sig hann á því að hann hafði ekkert verið að hlusta. Eða hvað? Bíddu, hann rámaði í eitthvað, eitthvað um Gullfoss og Geysi og að losna við einhverja byrði...

Skyndilega stökk hann uppúr stólnum vonda og greip grænu úlpuna sína í því sem hann rauk út. Hvernig gat hann hunsað svona augljóst kall eftir hjálp!? Hann sá bílinn hans Heiðmars þjóta út eftir götunni þegar hann kom út, og dreif sig uppí Corolluna sína og elti fast á hæla Heiðmars. Það var sem hann grunaði, hann var á leiðinni útúr bænum. Guðvaldur leit á bensínmælinn. Ætli þetta dugi inn að Gullfossi? hugsaði hann. Hann varð að vona það.

Hann missti sjónar á bílnum þegar þeir voru rétt ókomnir útúr bænum, en hann vildi enga sjénsa taka og tók því stefnuna á Gullfoss. Lítill sjóntittlingur lét lífið undir einu dekki bílsins á leiðinni og var það ekki til að minnka hugarangist söguhetju okkar því hann var mikill dýravinur. Eða það hélt hann að minnsta kosti. Ekki nóg með það að hann væri farinn að hrekja skjólstæðinga sína útí opinn dauðann þá var hann tekinn til við að valta yfir saklaus dýr á ofsahraða. Dagurinn gæti ekki versnað mikið, eða svo hélt Guðvaldur.

Þegar hann renndi inná flughált bílastæðið nálægt Gullfossi sá hann bíl Heiðmars. Hann var illa búinn en það þýddi ekkert að hugsa um það, hann yrði að stoppa manninn í að fleygja sér í hálffrosinn Gullfoss í stórhríð. Hann óð skaflana í átt að niðinum og sá loks glitta í mannveru nálægt brúninni. -Heiðmar! öskraði Guðvaldur. -Heiðmar ekki stökkva!! Heiðmar leit við og ranghvolfdi í sér augunum. Hann settist niður á snjóskafl og fljótlega kom Guðmar til hans móður og másandi. -Ég heyrði alveg hvað þú sagðir Heiðmar, bara svolítið eftirá sko. Þú mátt ekki stökkva. -Af hverju ekki? Annars var ég búinn að ákveða að gera það ekki sko, ég er búinn að vera hér í smá tíma. Djöfull varstu lengi á leiðinni. -Já ég er svo hræddur að keyra í hálku.

Guðvaldur var enn ekki sannfærður um ákvörðun Heiðmars um að hætta við og tók því að dásama allt sem hann hafði. Góða eiginkonu sem var honum trú og góð þrátt fyrir vandamál, sem væru líka alveg yfirstíganleg. Mikla hæfileika í vinnu sinni og hús og bíl og hund og næstum allan pakkann. Honum tókst að kæta Heiðmar nokkuð með ræðu sinni þarna á brúninni undir dynjandi nið fossins fallega, þrátt fyrir mikinn kulda. -Og svo er aldrei of seint að snúa við blaðinu, hélt Guðvaldur áfram, -þú getur alveg orðið listamaður því þú vinnur með járn og það er fyrirtaks efniviður í skúlptúra! Guðvaldur var farinn að öfunda Heiðmar alveg helling eftir þessa ræðu, því hann hafði ekkert af þessu. Hann var ekki giftur eða í sambandi, var í starfi sem hann hataði, og sá ekkert framundan í lífinu sem var þess virði að lifa fyrir.

-Þetta er rétt hjá þér Guðvaldur, ég ætla að snúa við blaðinu og hætta þessari sjálfsvorkun. Lagfæra hjónaband mitt því ég elska konuna mína ennþá þrátt fyrir allt, og ég ætla að hætta í vinnunni minni og prófa eitthvað nýtt! Takk fyrir, takk fyrir allt saman Guðvaldur. Hann gerði sig líklegan til að faðma Guðvald en Guðvaldur í stundarbrjálæði vegna ræðu sinnar vék sér undan og stuggaði við Heiðmari. Honum skrikaði fótur og féll með veini niður klettinn. Það eina sem heyrðist þegar hann hvarf úr sjónum Guðvalds var niðurinn í fossinum og kuldaboli hélt áfram að narta í kinnar Guðvalds.

-Nei!! Hvað hef ég gert!? öskraði Guðvaldur þótt enginn heyrði til. -Nei ég trúi þessu ekki. Loksins þegar maðurinn var að ná lífi sínu á réttan kjöl fyrir tilstilli mína þá drep ég hann útaf heimskulegri öfund!!! hugsaði hann og reyndi að ákveða hvað hann skildi taka til bragðs. -Ég mun fara í fangelsi og missa alla skjólstæðinga mína. Ég hef ekkert til að lifa fyrir lengur. Hann var farinn að snökta. Hann bakkaði í átt að brúninni, breiddi út faðminn og lét sig detta afturábak eins og þegar maður ætlaði að gera snjóengil þegar maður var krakki hugsaði hann. Hann rakst utan í klettinn á leiðinni niður en lenti svo á syllu með stórri snjóbingju rétt fyrir neðan, við hliðina á Heiðmari...

-Hvað varstu að gera fávitinn þinn!? Þú reyndir að drepa mig djöfulsins hálfviti!! öskraði Heiðmar og hélt áfram. -Ég held ég sé handleggsbrotinn! -Ff... fyrirgefðu, sagði Guðvaldur aumingjalega og horfði niður fyrir sig. Þeir stóðu upp og Heiðmar stökk á Guðvald. -Ég drep þig! öskraði Heiðmar og réðst á sálfræðinginn sinn. Fossinn niðaði í bakgrunninum og snjóflyskurnar héldu áfram að falla til jarðar eins og ekkert hafði í skorist. Þeir byltust um í smá stund en það leið ekki að löngu uns snjóbyngjan brast og Guðvaldur og Heiðmar hröpuðu í ískalda straumharða ána. Enginn komst að leiða þeirra til lífsins og enginn gat útskýrt dauðdaga þeirra. Einu ummerkin sem þeir skildu eftir sig hurfu innan skamms í snókomunni. Maðurinn má sín lítils gegn náttúrunni, og enn minna gegn sjálfum sér.

Magnús Sveinn Jónsson.
My name is Keitaro Urishima

Ég átti nokkur áhugaverð samtöl í gærkvöldi, í nótt og í morgun. Ég kíkti á Torgeirz og hitti þar einnig Bjørk, Jobu Kretz og Freysier. Við áttum mjög fínt kvöld saman sem dróst á langinn og endaði ekki fyrr en hálf átta um morguninn en þá voru nú aðeins þrjár hugrakkar sálir eftir uppistandandi. Takk fyrir kvöldið þið öll.

Ég fór á pílumót í fyrsta skipti í gær og það var ágætt. Gekk illa en skemmti mér ágætlega samt sem áður. Á eflaust eftir að prófa það aftur seinna, en ég sé núna að ég þarf að æfa mig töluvert til að eiga eitthvað erindi þangað. Rosalega margir góðir og nokkrir algjörir snillingar.

Ég lærði á nokkrar nýjar hljómsveitir í gær og á eftir að sækja efni með þeim og mynda mér mínar eigin skoðanir á þeim. Kannski læt ég vita hérna hvað mér finnst þess virði að kíkja á. Eflaust mun ég fíla þetta allt því að fólkið sem var með mér í gær hefur ágætan tónlistarsmekk.

Það þýðir ekkert fyrir mig að reyna að skrifa eitthvað skemmtilegt hérna því ég er í þannig skapi. Ég komst að því að það voru þónokkrir sem lásu smásöguna mína og hefur hún bara fengið ágæta dóma mér til mikillar kátínu. Ég er að spá í að skrifa aðra fljótlega (kannski bara á morgun). Ég er að spá í að láta hana vera farsa. Eða kannski sambland af farsa og hádramantík. Svona eins og líf mitt er. En ef maður blandar því saman fær maður þá ekki bara út smekklausan farsa? Jæja, það er bara ein leið til að komast að því.

Ný mynd komin í rammann. Þessa tók ég á föstudaginn í Hagkaup (því myndavélin mín er enn heima hjá Torgeirz síðan í gær og ég kemst því ekki í myndirnar sem ég tók þá) og sýnir hún Jómba reyna að gera upp barnæsku sína með fyrirsætustörfum. Drengurinn er fæddur til módelstarfa segi ég. Mér er heitt. Góða nótt.
Maggi.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Klósettpappír

Já, það er allt til. Kíktu hingað og lestu gagnrýni um klósettpappír! Alveg merkilegt helvíti. Ef þú vilt skoða umsagnir um fleiri tegundir þá ferðu hingað. Annars má alveg benda á það að það er alveg fáránlega ódýrt að versla á netinu. Kannski ekki klósettpappír, en til dæmis er myndavélin mín (sami pakki með aukahlutum) kominn á 38 þúsund kall (ég borgaði 52 þús í desember). Þótt við bætist sendingarkostnaður og skattur hérna þá er það samt meira en helmingi ódýrara en að kaupa hér á landi. Þannig að ef þig langar í myndavél eða álíka dót þá er núna rétti tíminn til að gera það meðan dollarinn er svona fáránlega ódýr miðað við krónuna. Góður tími til að skella sér í heimsreisu líka auðvitað! :) Þetta var allt planað með okkur í huga þú skilur.

Annars er ég svolítið fúll yfir því að bara tveir hafi nennt að lesa smásöguna mína. Ég veit amk bara um tvo sem hafa gert það, og mig langaði virkilega mikið að fá komment á hana til að vita hvort þið hafið gaman af að lesa eitthvað svona og hvort ég ætti að skrifa meira. Ætli kommentleysið sé ekki bara til vitnis um að ég eigi bara að halda mig fá slíkum skrifum? HRMPH! Þið um það! Ég pósta bara því sem mér sýnist! Hver segir að þið séuð svona frábær, ha!? Svona stælar sko, alltaf sami kjafturinn á ykkur.
Maggi.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Spontant

Ég hringdi í Bigga í gær og hann talaði um að fara í bæinn með Atla og Eyjó að gera "eitthvað". Ég huxaði nottla strax "bjór" og "ég kem með". Þannig að það var úr, við skelltum okkur í bæinn, fengum okkur að éta, kíktum á Jómba og fengum okkur bjór, og skelltum okkur svo niður í bæ. Þetta var ekkert fyllerí, bara smá pöbbarölt á fimmtudegi, og var líka bara svona helvíti gaman! Við fórum á Grand Rokk þar sem Röskva var með kosningavöku því H-skólakosningarnar voru fyrr um daginn. Röskva tapaði, en samt var miklu betri stemmning þar heldur en hjá Vöku sem var á Pravda. Við sátum og spjölluðum (á Grand Rokk) og spiluðum póker og höfðum gaman. Þar hitti ég líka Betu í fyrsta skipti og það var gaman, hún er ennþá sætari "in person" eins og sumir eru. Lýsir upp allt í fimmtíu metra radíus með því að brosa. :)

Svo röltum við strákarnir um bæinn, spjölluðum við einhverja Frakka og einn ónefndur var næstum búin að höstla gorgeus tvíbura (segir hann). Við fundum okkur ekkert að borða því klukkan var rúmlega tvö og allt að loka og enginn vildi hleypa okkur inn. (Mental note: það lokar allt í bænum klukkan tvö á fimmtudögum.) Þannig að við dröttuðumst heim til Jómba aftur og rotuðumst þar um alla íbúð.

Í dag fórum við svo í Kringluna og á Laugarveginn og svona. Keyptum mest lítið, ég keypti ammælisgjöf handa Fjólu systur (verður mjööög fróðlegt að sjá hvernig henni líkar), en ég tók þeim mun meira af myndum. Rúmlega 250 myndir af öllu og engu. Nokkrar voru mjög flottar og ég birti hérna eina af krökkum sem ég sá í Kringlunni. Þau voru bara að bíða eftir foreldrunum sem voru í Hagkaup og sátu og horfðu á sjónvarpið fyrir ofan innganginn í Skífunni, og á fólkið í kring. (Smelltu á myndina, þetta er bara hluti af henni) Já, þetta var góður dagur.
Maggi.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Smásaga eftir Magnús Svein Jónsson:

Flugferð



- Ég á víst að sitja þarna, segi ég og bendi á sæti 13 A. Maðurinn í 13 B horfir á mig eins og ég sé kengúra í trúðabúningi í tvær sekúntur en stendur svo upp og hleypir mér innfyrir. Ég kem mér fyrir í sætinu, sting heyrnartólunum í eyrun og spenni á mig beltið. Maðurinn stendur ennþá og ég lít á hann en hann horfir eins og hann sé að leita að einhverjum í vélinni. Ég hugsa ekki meira útí það, set á Play og hlusta. Raunveruleiki minn er enn og aftur orðinn lítið málmrör sem innan tíðar mun þjóta um himingeiminn.

Maðurinn, gengur hröðum skrefum út vélina og hugsar, -Ég sagði þeim þetta sérstaklega, ég margendurtók það, ég verð að fá að sitja einn! Tár rennur niður vinstri vanga hans þegar hann hleypur í átt að flugbyggingunni. -Af hverju, af hverju? Það eina sem ég vildi gera var að heimsækja mömmu í Reykjavík, af hverju mátti ég ekki sitja einn!? hugsar hann þegar hann keyrir á ofsahraða aftur uppí Síðuhverfi þar sem hann á heima. Taskan hans er á leið til Reykjavíkur í dimmu skoti í iðrum flugvélar.

Fyrir ofan töskuna, í sæti 13 A, sit ég. -Viltu slökkva á þessu? segir flugfreyjan, og bendir á eyrað á sér. Hún er á breytingarskeiðinu, maðurinn hennar er hættur að vilja sofa hjá henni, dóttir hennar fær alltaf hæstu einkunn í bekknum sínum á meðan sonur hennar nennir ekki að læra og skrópar í skólanum til að spila tölvuleiki. Ég brosi til hennar uppgerðarbrosi og tek tólið úr öðru eyranu í fimm sekúntur svo hún sé ánægð. Þegar hún er farin er brosið horfið og tólið komið aftur í eyrað.

Ég er að hlusta á Play með Moby. Reyndar er ég bara að hlusta á fjögur lög af þeim disk. Þau fjögur sem ég elska og fæ aldrei leið á. Númer þrjú, átta, fjórtán og átján. Reyndar hafa öll þessi lög sína sögu og sína merkingu í huga mínum. Ég kynntist hverju þeirra með löngu millibili, og öllum á sérstakan hátt. Þessi lög hafði á á Repeat alla flugferðina.

Flugfreyjan puðrar einhverju útúr sér á vondri íslensku og verri ensku um hvar björgunarvestin sé að finna og að hún muni gefa börnunum Svala á leiðinni. Þvílík manngæska. Ef hún vissi bara að hún væri að eyða tíma sínum að óþörfu í son sinn sem er alls ekki heimskur heldur fluggáfaður, og á sama tíma að eyðileggja sjálfsímynd dóttur sinnar sem vill ekkert frekar en viðurkenningu móður sinnar en fær enga athygli.

Lag númer þrjú. Ég lærði að elska það þegar það kom fyrir í bíómynd sem ég horfði oft og mörgum sinnum á. Það ómaði bara í bakgrunninum á skemmtistað í einu atriði myndarinnar, en það er mjög fallegt og eitt af þeim lögum sem snerta mig á góðan hátt í hvert einasta skipti sem ég heyri fyrstu tónana. Það lætur mig líða vel, og það er það sem ég leita eftir í tónlist. Að hún snerti mig, og breyti eða styrki ástand sálartetur míns. Þetta er jafnframt vinsælasta lagið á þessum disk, skiljanlega.

Ég uppgötva að maðurinn sem stóð upp til að hleypa mér innfyrir kom ekkert aftur, heldur gufaði upp þegar ég var upptekinn af sjálfum mér. Skrítið. Ég svipast um í vélinni en sé hann ekki. Vonandi var mamma hans ekki veik. Ég horfi útum gluggann og þegar vélin réttir sig við birtist Akureyri, eins og hún rísi uppúr djúpinu. Það er alveg heiðskýrt og niðamyrkur, og mér finnst sem ég sjái hvert einasta ljós sem skín í bænum. Það er fallegt, appelsínugulur ljósabær, og kyrrðin algjör. Af hverju pakkaði ég myndavélinni minni ofan í tösku? Jæja, augnablikið hefði hvort eð er ekki festst á filmu eins og ég man eftir því.

Lag númer átta. Þetta lag er fjörugra en um leið sorglegt. Ég man ekki hvenær ég heyrði það fyrst, en það er alltaf ein minning mjög steklega tengd því í mínum huga. Ég var staddur í líkamsræktarstöð í Keflavík og heyrði lagið útundan mér. Ég var nýbúinn að uppgötva það og leitaði það því uppi. Það kom frá sjónvarpstæki og var verið að spila myndbandið á MTV, og á skjánum birtist um leið ýmis fróðleikur um ellina og gamalt fólk. Röddin í laginu er nefnilega ellileg, og Moby klæddi sig upp sem gamall maður fyrir myndbandið. Í myndbandinu leikur líka Christina Ricci. Í Keflavík býr stelpa sem minnir mig alltaf á hana, og eitt sinn á djamminu sagði ég henni að ég væri skotinn í henni því hún minnti mig alltaf á Christinu Ricci. Alltaf síðan þá þegar ég hitti hana, þá kalla ég hana Christinu, og hún brosir alltaf svo fallega til mín. En hennar helsta áhugamál er að rugla í hausnum á mér. Hún heilsar mér og talar við mig eins og við séum aldagamlir vinir í nokkrar sekúntur en er svo horfin áður en ég næ að átta mig, og hún missir aldrei glerskóinn sinn þannig að ég hafi ástæðu til að tala betur við hana.

Fyrir framan mig í flugvélinni situr nunna. Haha, fljúgandi nunna! Var það ekki teiknimynd? Jú ég held það. Ætti ég að pikka í hana og spyrja hvort það væri ekki ódýrara að fljúga bara sjálf? Nei, það er heimskulegt. Auðvitað er allt of kalt til þess, og því notar hún Flugfélag Íslands á veturna. Af hverju er nunna annars að fljúga? Hvað gera nunnur annars? Á hún ekki bara að vera í klaustrinu að biðja? Nei annars, nunnur eru líka fólk. Nunnur hafa örugglega sínar breisku hliðar eins og við hin. Hún hugsar kannski stundum, -Hvernig ætli það sé að sofa hjá karlmanni?, en sér svo að sér og iðrast mjög. Hún hegnir sjálfri sér með því að lesa í Biblíunni í marga klukkutíma, og neita sér um mintusúkkulaðimolann eftir matinn eins og hinar nunnurnar fá. Nema hún sé svona líbó-nunna, og stundi villt BDSM kynlíf á Akureyri um helgar, en er svo voðalega stillt í Hafnarfirði á virkum dögum. Maður veit nefnilega voða lítið um nunnur.

Lag númer fjórtán. Það uppgötvaði ég frekar seint. Það byrjar eins og annar hátalarinn sé bilaður, eða það heyrist amk bara í öðrum þeirra fyrstu mínútuna. Það skildi ég ekki og þegar ég tók diskinn fyrst upp á minispilarann minn þá tók ég þetta lag upp nokkrum sinnum og hélt að eitthvað væri að snúrunum mínum, því aldrei heyrðist öðru megin í byrjun. Þannig uppgötvaði ég hvað þetta lag er gott, og ég hlustaði á það margoft endilangur í rúminu mínu heima. Stillti Volume-ið hátt og leyfði laginu að vinna á sálinni minni, því það er líka mjög mikil tilfinning í þessu lagi. Þetta finnst mér vera gleymda lagið á diskinum, því ég hef engan heyrt lýsa hrifningu sinni á því nema mig. Það er mjög sorglegt, og ef ég ætti að gera myndband um lag, þá myndi ég velja þetta lag og hafa myndbandið rosalega sorglegt. Sorgleg tónlist talar miklu meira til mín heldur en hress, því það er meiri tilfinning í henni. Nema ég sé bara svona sorgmæddur drengur. Nei, það er bara stundum. Og þá hlusta ég á góða sorglega tónlist.

Flugfreyjan rúllar stálinu framhjá mér og spyr hvort hún megi bjóða mér eitthvað. Hún reynir ekki einu sinni að sýna mér uppgerðarbrosið sitt í þetta skiptið, enda er maðurinn hennar að íhuga hvort hann eigi að fá sér viðhald. Það er nefnilega svo falleg kona sem býr á hæðinni fyrir neðan sem er alltaf að gefa honum hýrt auga. Svo vinnur konan hans á svo hentugum tímum, oft burtu á kvöldin og svona. Ef hún bara vissi. Ég sýni henni þó uppgerðarbrosið en sé eftir því. Ég bið um eplasvala þótt hún hafi tekið fram að þeir væri bara fyrir börnin, og hún segir að hún eigi aðeins venjulegan, ekki sykurskertan, og réttir mér hann ásamt servíettu. Skrítið, síðast þegar ég flaug bað ég líka um eplasvala og þá fékk ég sykurskertan án þess að biðja um það, og enga afsökunarbeiðni. Ætli það sé eðlilegra að fá sér sykurskertan? Hann var að vísu betri, sykurinn skemmdi bara eplabragðið.

Lag númer átján. Biggi liggjandi á stofugólfinu heima eftir partý heima hjá mér, hjúfrar sér uppað hátalaranum og hækkar ennþá meira í lokalagi disksins. Þetta er minningin sem ég tengi við þetta lag, og þykir mér það mjög fallegt líka, en þó síst af þessum fjórum. Hann hlustaði á það oft í röð, og hækkaði meir og meir, og sussaði á alla sem reyndu að tala, en flestir voru að fara að haska sér niður í bæ að leita að meiri stemmningu en nýjasta tónlistaruppgötvun Bigga hafði uppá að bjóða. Partýið var búið, og ég var búinn áðí, og fagnaði tónlistarvali Bigga því ég var meira í stuði fyrir rólegheit heldur en fjör. Þar lærði ég að meta þetta lag.

Flugstjórinn byrjar að röfla eitthvað og ég slekk á Moby í smástund. Það var farinn að myndast ís á hreyfilsblöðunum og hann gaf meira inn til að losa ísinn frá, það var skýringin á aukna hávaðanum sem ég hafði ekkert tekið eftir. Mér er alveg sama enda ekkert flughræddur.

Ég týnist í egin hugsunum og hlusta aftur á lögin fjögur. Reykjavík birtist í öllu sínu veldi, ekki síður falleg en Akureyri. Hundraðþúsund sálir þjóta framhjá mér, hver með sínar hundraðþúsund hugsanir, vandamál jafnt sem hamingju. En í mínum augum eru þau bara lítil ljós sem mynda falleg mynstur langt fyrir neðan mig.

Við lendum og allir standa upp í einu þannig að enginn kemst leiðar sinnar. Nunnan tegir sig í litla svarta tösku sem ég er fullviss um að innihaldi mintusúkkulaði, biblíu og handjárn. Við göngum hænuskref í átt að útganginum. Flestir örugglega að hugsa um rúmið heima. Ég var bara feginn að raunveruleikinn minn var ekki lengur málmrör á flegiferð um himingeiminn.

Magnús Sveinn Jónsson

mánudagur, febrúar 09, 2004

STOPzilla! In The Name Of Love

Úff, ég er búinn að eyða miklum tíma á netinu í að finna crack fyrir þetta blessaða forrit, og það tókst að lokum! Jay! Forritið er semsagt STOPzilla og er algjört möst ef þú notar Internetið að einhverju ráði (og fyrst þú ert að lesa þetta þá býst ég við að þú sért í þeim hópi). Það stoppar þessar helvítis popup auglýsingar sem eru alltaf að birtast þegar maður fer inná fjölmargar heimasíður. Svo hindrar forritið líka að einhver brjótist inní tölvuna þína, eða njósni um þig og svona. Voða sniðugt. Ef þig langar í crackið (og ég þori að veðja að þú finnir það ekki) af nýjustu útgáfunni þá sendiru mér bara póst og ég meila því á þig.

Ég flýg heim í kvöld. Þessi flunkufína dvöl mín hér á Akureyri er á enda. Strákarnir (sem festust í Borgarnesi) komust hingað til Akureyrar á laugardeginum og við djömmuðum saman, fórum í Sjallann og svona. Það var bara mjög fínt, þótt dvölin þeirra hér í höfuðborginni (Norðurlands) hafi verið frekar stutt í annan endann. Ég er ekkert smá feginn að hafa hætt við að keyra með þeim og flogið hingað á undan. Hefði ekki haft geðheilsuna í að vera fastur í bíl hálfa helgina. Ég tók slatta af skemmtilegum myndum, og þið fáið að sjá eitthvað af þeim hérna á síðunni auðvitað. Myndin sem ég setti inn núna er af Andrési og Eyjó, Andrés stekkur ofan af húsþaki (á íbúðinni sem strákarnir leigðu) og Eyjó er með vídjókameruna fyrir neðan að taka allt upp. Fleiri flottar myndir af snillingum í snjósköflum birtast fljótlega. Vonandi áttuð þið góða helgi og vonandi er ekki alltof mikill mánudagur í ykkur.
Maggi.

föstudagur, febrúar 06, 2004

Hahahaha!

Strákarnir eru fastir í Borgarnesi! Mér finnst það ekkert smá fyndið. Og djöfull er ég feginn að vera ekki með þeim. :) Þorlákur kom með flugi til Akureyrar núna í kvöld því strákarnir nenntu ekki að bíða eftir því að hann kláraði að vinna. Við erum semsagt tveir hér á Akureyri hjá pabba, og það er komið brjálað verður þannig að við komumst ekki langt. Við ætluðum þó niður í bæ, en það verður víst lítið úr því. :) Strákarnir eru að drekka í Borganesi og ætla að reyna að skapa einhverja stemmingu, og svo ætla þeir að reyna að leggja í hann snemma í fyrramálið. Það verður örugglega eitthvað fróðlegt.
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

KORN!!!

Eðal-hljómsveitin KORN er að koma til landsins!! Þetta las ég hér á vef Morgunblaðsins. Ég held að það sé ekkert verra að sjá þá á Hróarskeldu því þeir verða þar líka. Hinsvegar þá hefði ég rosalega verið til í að sjá þá í höllinni, en þeir spila akkúrat þegar ég og Biggi verðum í heimsreisunni okkar. :/ En jæja, það verður að hafa það. Við sjáum þá hvort eð er á Skeldunni. Góða skemmtun þið hin! :)
Maggi.
Easy Like Thursday Morning

Ah hvað þetta var eitthvað góður dagur. Ég vaknaði á hádegi og fór niður og fékk mér tebolla og tvær brauðsneiðar. Svo hafði ég til sundföt, setti minispilarann minn í vasann og klæddi mig vel og fór útí kuldann. Ég hafði myndavélina mína við höndina allan tímann og tók alveg fullt af myndum á leiðinni niður í sundlaug. Svo slakaði ég á í heitu pottunum og kíkti í gufu og synti smá áður en ég lagði af stað niður í bæ. Batteríið kláraðist að vísu þegar ég var að taka myndir af öndunum á andapollinun þannig að ég gat ekki tekið jafn mikið af myndum og ég hefði kosið. Svo rölti ég niður á göngugötu og kíkti í bakarí, þar sem ég keypti mér upphitaða ostaslaufu, negrakoss og kókómjólk. Þetta borðaði ég á röltinu um bæinn. Svo kíkti ég í nokkrar búðir til að sjá hvort ég fyndi á mig skyrtu, sem fannst þó ekki. Svo rölti ég aftur upp gilið og alla leið heim í makindum. Ég hlustaði á spilarann allan tímann, fyrst á ( ) með SigurRós, og svo á Musick með Maus.

Ákaflega gott að eiga svona áhyggjulausan og rólegan dag. Ég kem myndunum líklegast inní tölvuna hans pabba í kvöld og þá set ég einhverjar flottar inn. Ég hef grun um að þær hafi nokkrar heppnast ansi vel sem ég tók. Nú held ég að ég leggi mig eða glápi á vídjó eða eitthvað álíka áreynslulaust.
Maggi.
Snjór!!

Það er snjór á Akureyri. Og það sem meira er, ég líka!! Um klukkan fimm seinnipartinn í dag flaug sú fluga í hausinn á mér að ég gæti alveg kíkt til Akureyrar í kvöld. Klukkan átta sat ég á sófanum heima hjá pabba hér fyrir norðan að borða þennan fína grænmetisrétt. Svona er lífið fljótt að gerast. Skyndiákvarðanirnar eru oftast þær bestu. Ég ákvað að þar sem ég hafði ekkert að gera í kvöld né á morgun að ég gæti alveg eins hangið á Akureyri, því það er líka miklu skemmtilegra. Allir strákarnir koma svo hingað á föstudaginn og þá verður sko djammað! Og Stjana systir að halda uppá tvítugsammælið sitt á laugardaginn, allt að gerast. Meira á morgun, og ég set örugglega inn myndir af snjónum, það er sko ekkert smá. Það er allt á KAFI! :)
Maggi.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Changes

Nýr bakgrunnur og ný mynd í rammann. Þetta er mynd af geimskipi sem ég tók um daginn. Hver hefur séð þetta geimskip og hvar? Túkall í verðlaun fyrir alla sem giska á hvaða geimskip þetta er en þeir sem giska á rétt fá ekki neitt. Því miður, þetta eru reglurnar. Núna sjáum við loksins hverjir það eru sem verða alltaf að hafa rétt fyrir sér, og hverjir hinir fégráðugu aurapúkar eru. Ef þú hinsvegar tekur ekki þátt ertu aumingi sem þorir aldrei að taka áhættu. Mjög áhugaverð könnun.
Maggi.
Góðar fréttir

Já ég sparaði mér hellings pening í dag! Reyndar gerð ég það ekki, ég komst bara að því að ég þarf ekki að borga fyrir nærri jafn miklar bólusetningar og mér hafði verið talin trú um. En það er einskonar sparnaður er það ekki? Við fórum aftur til Sigrúnar hjúkrunarfræðings í dag og hún var búin að tala við þennan sérfræðing í bænum, og hann var bara ánægður með það sem komið var og sagði að við þyrftum ekkert meira! Ég var alveg að búast við því að við þyrftum alveg helling í viðbót og að þetta myndi kosta tuttugu til þrjátíu þúsund kall! En þegar upp var staðið kostaði þetta ekki nema níu þúsund.

Og nú stefnir allt í það að ég muni eiga töluvert meiri pening en ég hafði reiknað með þegar við förum út. Ekki af því að við þurftum fáar bólusetningar, heldur af því að ég þarf líklegast að segja upp vinnunni, og þá fæ ég borgað orlofið mitt og sumarfríið og vetrarfríið sem ég verð búinn að vinna mér inn. Svo hef ég verið duglegur í aukavinnu undanfarið og ætla að halda því áfram og þá bætist við peningur líka. Svo þarf ég bara að halda áfram að spara og þá verð ég kominn í tæpa milljón þegar ég fer út! Ég væri amk alveg sáttur við 900 þúsund kall. Kostnaðaráætlunin hljómar sem stendur uppá 700 þúsund, en það er nottla bara skot útí loftið, og gæti því breyst töluvert. Annars benti mér einhver á að fara í bankann núna og kaupa dollara fyrir hellings pening því hann er svo svakalegri lægð núna, hann fer varla mikið lægra. Eða hvað? Ég meina, 68 krónur! Það er ekki neitt.

Ég hef verið að spá í hvort ég ætti að skipta yfir á MovableType, s.s. hætta hjá Blogger. Ég nenni því varla, koma mér inní nýtt kerfi og svona. Ég geri það samt eflaust einhvern daginn. Kannski næst þegar ég skipti um útlit. Sem verður (ef ég þekki sjálfan mig rétt, and I think I do) áður en við förum í heimsreisuna okkar. Þá verður sko bloggað! Ég var annars að hugsa um hvort ég ætti að tala við mbl.is og hafa pistla þar ef það væri einhver sjéns. Ég hef nú gert það áður, þegar við vorum í Ástralíu skrifuðum við reglulega pistla og sendum þeim myndir þarna á mbl.is og það gekk bara mjög vel. Ég býst ekkert við borgun, bara að fá smá athygli og útrás fyrir tjáningarþörf minni í stærri stíl en vanalega. :) En ég ætla að fara að reyna að njóta dagsins. Ég fór ekki í vinnuna því ég er búinn að vinna svo marga daga í röð að bakið á mér er farið að kvarta meira en eðlilegt getur talist. Og fæturnir á mér líka ef útí það er farið. Og ég er kominn með fullt af sárum á hendurnar vegna kulda. Ég er bara allur í hönk. Þá er bara málið að slappa af, og það er sko mín sérgrein.
Maggi.
Tickled pink

Ég var að skoða síður sem unnu blogg verðlaun The Guardian í Englandi. Fullt af skemmtilegum bloggum þar, og sérstaklega hafði ég gaman af þessu og þessu, sem fengu verðlaun fyrir skemmtilegar ljósmyndir. Mikið af virkilega skemmtilegum myndum á þessum síðum.

Ég tók myndavélina mína mína í vinnuna í dag og ætlaði kannski að taka rúnt um svæðið ef tími gæfist til og taka myndir. Ég er nefnilega oftar og oftar að taka eftir flottu myndefni útum allt, og oftar en ekki eru það myndir sem hver sem er gæti ekki tekið því ekki allir fá að koma svona nálægt flugvélum á hverjum degi. Ég rétt kíkti eftir vinnu og reyndi að taka 360° mynd sem heppnaðist þó ekki. Þarf meiri tíma og helst þrífót. Þarf endilega að fara að redda mér þrífót, gengur ekki svona. Best að henda inn nýrri mynd svona fyrst ég er nú að blogga á annað borð. Þessi er tekin með Bebbu og Hjörleifi á leið heim úr Reykjavík á laugardaginn. Takk fyrir farið aftur. :)

En núna slípí tæm. Fleiri bólusetningar á morgun. Rosalega er svakalega dýrt að láta hjúkku sprauta sig með sjúkómum, það setur mann bara á hausinn! Við fórum síðasta þriðjudag, aftur á morgun, þriðjudag, og svo aftur eftir mánuð. Þetta verða einhverjir tugir þúsunda. Suss hvað heimsreisan kostar. Eins gott að það verði ekki leiðinlegt. Eins og það sé hætta á því. ;)
Maggi.