Björgvin Halldórsson þenur röddina í útvarpinu og útvarpsmaðurinn kynnir hátíðlega hvað klukkan sé um leið og bankað er á hurðina á litlu biðstofunni á Sálfræðistofu Guðvalds. Ástfríður ritari lítur upp hissa, því enginn er vanur að banka. -Sa er opis! segir hún, því hún er svo smámælt að meira að segja þornin og eðin verða að essum. Inn um gættina stingur Heiðmar Gústafson ófrýnilegum hausnum, með rauðar kinnar og snjó á húfunni og fær sér sæti bakvið stóran bunka af þriggja ára gömlum Séð og heyrt blöðum.
Innan við litlu biðstofuna á ennþá minni skrifstofu situr Guðvaldur Sigrúnarson í óþægilegum stól sem er góður fyrir bakið. Hann er með tómlegan svip og stjarft augnaráð og horfir á tvær flugur elta hvora aðra á skrifborðinu hans. Hann er tæplega fertugur, dökkhærður, meðalmaður á hæð, ógiftur og er alltaf kalt á fótunum. -Heismar Gústafson er mættur! heyrist óþarflega hátt úr litlum gráum kassa á borðinu og Guðvaldur hrekkur við. Hann biður Ástfríði að vísa honum inn og Heiðmar silast inn um hurðina. Hann var búinn að ganga til Guðvalds í þónokkurn tíma, og ávallt voru tímar þeirra saman á sömu leið. Heiðmar talaði um vandamál sín og óstyrkleika í vinnu og hjónabandi, þeir skeggræddu þetta í tæpan klukkutíma og ávallt án niðurstöðu. Heiðmar og konan hans voru búin að reyna að eignast barn í nokkur ár án árangurs, og var útséð með að þau myndu nokkurntíman eignast barn á hefðbundinn hátt. Konan hans er þó algjörlega á móti öðrum aðferðum s.s. ættleiðingu eða tæknifrjóvgun og því hafði þetta vandamál vaxið og dafnað í kviði hennar í staðinn fyrir barnið. Guðvaldur kveið stundum fyrir því að þurfa að ganga í gegnum sömu rulluna með Heiðmari því honum fannst hann ekkert getað hjálpað honum. Einhverja huggun hlaut Heiðmar þó að finna í spjallinu við Guðvald, því alltaf mætti hann á slaginu fimm á þriðjudögum.
Guðvaldur var óvenju mikið utan við sig þennan daginn. Hann vissi ekki hver hann sjálfur var, og leitaði því stanslaust í spjaldaskránni í hausnum á sér að einhverju sem einkenndi hann og gerði hann að persónu. Persónan hlaut að vera þarna einhverstaðar í vannærðum og renglulegum líkamanum. Eftir stuttar hversdagslegar kveðjur settist Heiðmar í La-Z-Boyinn, horfði útum gluggann og tók að þylja upp nýjustu útgáfurnar af vandamálum sínum. Guðvaldur öfundaði stundum sjúklinga sína, eða skjólstæðnga eins og hann kaus að kalla þá, af því að fá að sitja í góða stólnum. Mamma hans hafði bent honum á þennan óþægilega skrifborðsstól sem var svo hollur fyrir bakið, og hann vildi ekki gera hana leiða með því að taka ekki ráðum hennar og keypti því stólinn. Hann sá fram á margra ára leiða yfir þessu smávægilega vandamáli um leið og hann settist í stólinn í fyrsta skipti, því hann vissi að hann myndi ekki nenna að skipta um stól.
Öðru hvoru sagði Guðvaldur -Aha. eða -Já og hvernig leið þér þá? en brá stundum útaf vananum með -Jahá! En þó var hann ekkert að hlusta. Hann var niðursokkinn í leitinni að Guðvaldi eins og hann þóttist þekkja hann. Heiðmar tók fljótlega eftir þessu og var virkilega móðgaður. Hann ákvað um leið að þetta yrði síðasti tíminn sem þeir myndu eiga saman. Hann fór að fara útfyrir efnið til að sjá hversu vel Guðvaldur fylgdist með. -Svo var Árni vinnufélagi minn að eignast barn. -Aha, svaraði Guðvaldur. -Það var með átján fætur og enga handleggi en konan hans er samt himinlifandi. -Aha. -Þau skírðu barnið Helmínflass Gární Filmbulsdóttir, og hún er byrjuð að drekka og reykja. -Jahá. - Mér líður oft eins og ég sé mörgæs og get ekki hugsað um annað en norðurpólinn sem er auðvitað fáránlegt. Hverskonar mörgæs er ég ef ég veit ekki að þær búa ekki á Norðurpólnum heldur Suðurpólnum. Konan mín hellti yfir mig brennandi feiti í gær. -Og hvernig leið þér þá?
Heiðmar hafði ekki lengur gaman að þessu. Hversu leiðinlegur og niðurdrepandi þarf maður að vera til að sálfræðingurinn manns hlusti ekki einu sinni á mann? Hann fór að segja hluti sem hann meinti vitandi að þessi glataði sálfræðingur væri enn í eigin heimi. -Annars er ég að hugsa um að binda bara enda á þetta allt saman. Ég er hættur að sjá ástæðuna fyrir því af hverju ég ætti að nenna framúr á morgnana. Týndur í ástlausu hjónabandi, vinn sem járnsmiður þótt mig hafi alla tíð dreymt að vera listamaður. Ekkert endilega frægur, bara að fá að tjá mig og vera viðurkenndur af öðrum. En ég er hæfileikalaus í því eins og öðru. -Já, svarar Guðvaldur, og hvað ertu að hugsa núna? -Ég er að hugsa hvað væri besta leiðin til að losa heiminn við byrði eins og mig. Mér finnst eins og það þurfi að vera listrænt, eitthvað sem enginn hefur gert, eitthvað sem fólk mun muna eftir. Stundum hugsa ég um að henda mér framaf klettunum hjá Gullfossi. Þannig myndi ég vilja deyja.
Heiðmar stóð upp, kvaddi og strunsaði út, þótt ekki væri liðinn nema fjórðungur af tímanum hans. Guðvaldur áttaði sig ekki á því fyrr en hann skellti hurðinni á eftir sér, þá hrökk hann í kút og skimaði í kringum sig eins og hann hefði verið að vakna af draumi. Ástfríður kom inn til hans forviða og sagði -Hvas va nú setta? Guðmar sagðist ekki vita það og reyndi að hugsa til baka hvað hafði getað framkallað þessi viðbrögð. Þá áttaði sig hann á því að hann hafði ekkert verið að hlusta. Eða hvað? Bíddu, hann rámaði í eitthvað, eitthvað um Gullfoss og Geysi og að losna við einhverja byrði...
Skyndilega stökk hann uppúr stólnum vonda og greip grænu úlpuna sína í því sem hann rauk út. Hvernig gat hann hunsað svona augljóst kall eftir hjálp!? Hann sá bílinn hans Heiðmars þjóta út eftir götunni þegar hann kom út, og dreif sig uppí Corolluna sína og elti fast á hæla Heiðmars. Það var sem hann grunaði, hann var á leiðinni útúr bænum. Guðvaldur leit á bensínmælinn. Ætli þetta dugi inn að Gullfossi? hugsaði hann. Hann varð að vona það.
Hann missti sjónar á bílnum þegar þeir voru rétt ókomnir útúr bænum, en hann vildi enga sjénsa taka og tók því stefnuna á Gullfoss. Lítill sjóntittlingur lét lífið undir einu dekki bílsins á leiðinni og var það ekki til að minnka hugarangist söguhetju okkar því hann var mikill dýravinur. Eða það hélt hann að minnsta kosti. Ekki nóg með það að hann væri farinn að hrekja skjólstæðinga sína útí opinn dauðann þá var hann tekinn til við að valta yfir saklaus dýr á ofsahraða. Dagurinn gæti ekki versnað mikið, eða svo hélt Guðvaldur.
Þegar hann renndi inná flughált bílastæðið nálægt Gullfossi sá hann bíl Heiðmars. Hann var illa búinn en það þýddi ekkert að hugsa um það, hann yrði að stoppa manninn í að fleygja sér í hálffrosinn Gullfoss í stórhríð. Hann óð skaflana í átt að niðinum og sá loks glitta í mannveru nálægt brúninni. -Heiðmar! öskraði Guðvaldur. -Heiðmar ekki stökkva!! Heiðmar leit við og ranghvolfdi í sér augunum. Hann settist niður á snjóskafl og fljótlega kom Guðmar til hans móður og másandi. -Ég heyrði alveg hvað þú sagðir Heiðmar, bara svolítið eftirá sko. Þú mátt ekki stökkva. -Af hverju ekki? Annars var ég búinn að ákveða að gera það ekki sko, ég er búinn að vera hér í smá tíma. Djöfull varstu lengi á leiðinni. -Já ég er svo hræddur að keyra í hálku.
Guðvaldur var enn ekki sannfærður um ákvörðun Heiðmars um að hætta við og tók því að dásama allt sem hann hafði. Góða eiginkonu sem var honum trú og góð þrátt fyrir vandamál, sem væru líka alveg yfirstíganleg. Mikla hæfileika í vinnu sinni og hús og bíl og hund og næstum allan pakkann. Honum tókst að kæta Heiðmar nokkuð með ræðu sinni þarna á brúninni undir dynjandi nið fossins fallega, þrátt fyrir mikinn kulda. -Og svo er aldrei of seint að snúa við blaðinu, hélt Guðvaldur áfram, -þú getur alveg orðið listamaður því þú vinnur með járn og það er fyrirtaks efniviður í skúlptúra! Guðvaldur var farinn að öfunda Heiðmar alveg helling eftir þessa ræðu, því hann hafði ekkert af þessu. Hann var ekki giftur eða í sambandi, var í starfi sem hann hataði, og sá ekkert framundan í lífinu sem var þess virði að lifa fyrir.
-Þetta er rétt hjá þér Guðvaldur, ég ætla að snúa við blaðinu og hætta þessari sjálfsvorkun. Lagfæra hjónaband mitt því ég elska konuna mína ennþá þrátt fyrir allt, og ég ætla að hætta í vinnunni minni og prófa eitthvað nýtt! Takk fyrir, takk fyrir allt saman Guðvaldur. Hann gerði sig líklegan til að faðma Guðvald en Guðvaldur í stundarbrjálæði vegna ræðu sinnar vék sér undan og stuggaði við Heiðmari. Honum skrikaði fótur og féll með veini niður klettinn. Það eina sem heyrðist þegar hann hvarf úr sjónum Guðvalds var niðurinn í fossinum og kuldaboli hélt áfram að narta í kinnar Guðvalds.
-Nei!! Hvað hef ég gert!? öskraði Guðvaldur þótt enginn heyrði til. -Nei ég trúi þessu ekki. Loksins þegar maðurinn var að ná lífi sínu á réttan kjöl fyrir tilstilli mína þá drep ég hann útaf heimskulegri öfund!!! hugsaði hann og reyndi að ákveða hvað hann skildi taka til bragðs. -Ég mun fara í fangelsi og missa alla skjólstæðinga mína. Ég hef ekkert til að lifa fyrir lengur. Hann var farinn að snökta. Hann bakkaði í átt að brúninni, breiddi út faðminn og lét sig detta afturábak eins og þegar maður ætlaði að gera snjóengil þegar maður var krakki hugsaði hann. Hann rakst utan í klettinn á leiðinni niður en lenti svo á syllu með stórri snjóbingju rétt fyrir neðan, við hliðina á Heiðmari...
-Hvað varstu að gera fávitinn þinn!? Þú reyndir að drepa mig djöfulsins hálfviti!! öskraði Heiðmar og hélt áfram. -Ég held ég sé handleggsbrotinn! -Ff... fyrirgefðu, sagði Guðvaldur aumingjalega og horfði niður fyrir sig. Þeir stóðu upp og Heiðmar stökk á Guðvald. -Ég drep þig! öskraði Heiðmar og réðst á sálfræðinginn sinn. Fossinn niðaði í bakgrunninum og snjóflyskurnar héldu áfram að falla til jarðar eins og ekkert hafði í skorist. Þeir byltust um í smá stund en það leið ekki að löngu uns snjóbyngjan brast og Guðvaldur og Heiðmar hröpuðu í ískalda straumharða ána. Enginn komst að leiða þeirra til lífsins og enginn gat útskýrt dauðdaga þeirra. Einu ummerkin sem þeir skildu eftir sig hurfu innan skamms í snókomunni. Maðurinn má sín lítils gegn náttúrunni, og enn minna gegn sjálfum sér.
Magnús Sveinn Jónsson.