þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Smásaga eftir Magnús Svein Jónsson:

Flugferð



- Ég á víst að sitja þarna, segi ég og bendi á sæti 13 A. Maðurinn í 13 B horfir á mig eins og ég sé kengúra í trúðabúningi í tvær sekúntur en stendur svo upp og hleypir mér innfyrir. Ég kem mér fyrir í sætinu, sting heyrnartólunum í eyrun og spenni á mig beltið. Maðurinn stendur ennþá og ég lít á hann en hann horfir eins og hann sé að leita að einhverjum í vélinni. Ég hugsa ekki meira útí það, set á Play og hlusta. Raunveruleiki minn er enn og aftur orðinn lítið málmrör sem innan tíðar mun þjóta um himingeiminn.

Maðurinn, gengur hröðum skrefum út vélina og hugsar, -Ég sagði þeim þetta sérstaklega, ég margendurtók það, ég verð að fá að sitja einn! Tár rennur niður vinstri vanga hans þegar hann hleypur í átt að flugbyggingunni. -Af hverju, af hverju? Það eina sem ég vildi gera var að heimsækja mömmu í Reykjavík, af hverju mátti ég ekki sitja einn!? hugsar hann þegar hann keyrir á ofsahraða aftur uppí Síðuhverfi þar sem hann á heima. Taskan hans er á leið til Reykjavíkur í dimmu skoti í iðrum flugvélar.

Fyrir ofan töskuna, í sæti 13 A, sit ég. -Viltu slökkva á þessu? segir flugfreyjan, og bendir á eyrað á sér. Hún er á breytingarskeiðinu, maðurinn hennar er hættur að vilja sofa hjá henni, dóttir hennar fær alltaf hæstu einkunn í bekknum sínum á meðan sonur hennar nennir ekki að læra og skrópar í skólanum til að spila tölvuleiki. Ég brosi til hennar uppgerðarbrosi og tek tólið úr öðru eyranu í fimm sekúntur svo hún sé ánægð. Þegar hún er farin er brosið horfið og tólið komið aftur í eyrað.

Ég er að hlusta á Play með Moby. Reyndar er ég bara að hlusta á fjögur lög af þeim disk. Þau fjögur sem ég elska og fæ aldrei leið á. Númer þrjú, átta, fjórtán og átján. Reyndar hafa öll þessi lög sína sögu og sína merkingu í huga mínum. Ég kynntist hverju þeirra með löngu millibili, og öllum á sérstakan hátt. Þessi lög hafði á á Repeat alla flugferðina.

Flugfreyjan puðrar einhverju útúr sér á vondri íslensku og verri ensku um hvar björgunarvestin sé að finna og að hún muni gefa börnunum Svala á leiðinni. Þvílík manngæska. Ef hún vissi bara að hún væri að eyða tíma sínum að óþörfu í son sinn sem er alls ekki heimskur heldur fluggáfaður, og á sama tíma að eyðileggja sjálfsímynd dóttur sinnar sem vill ekkert frekar en viðurkenningu móður sinnar en fær enga athygli.

Lag númer þrjú. Ég lærði að elska það þegar það kom fyrir í bíómynd sem ég horfði oft og mörgum sinnum á. Það ómaði bara í bakgrunninum á skemmtistað í einu atriði myndarinnar, en það er mjög fallegt og eitt af þeim lögum sem snerta mig á góðan hátt í hvert einasta skipti sem ég heyri fyrstu tónana. Það lætur mig líða vel, og það er það sem ég leita eftir í tónlist. Að hún snerti mig, og breyti eða styrki ástand sálartetur míns. Þetta er jafnframt vinsælasta lagið á þessum disk, skiljanlega.

Ég uppgötva að maðurinn sem stóð upp til að hleypa mér innfyrir kom ekkert aftur, heldur gufaði upp þegar ég var upptekinn af sjálfum mér. Skrítið. Ég svipast um í vélinni en sé hann ekki. Vonandi var mamma hans ekki veik. Ég horfi útum gluggann og þegar vélin réttir sig við birtist Akureyri, eins og hún rísi uppúr djúpinu. Það er alveg heiðskýrt og niðamyrkur, og mér finnst sem ég sjái hvert einasta ljós sem skín í bænum. Það er fallegt, appelsínugulur ljósabær, og kyrrðin algjör. Af hverju pakkaði ég myndavélinni minni ofan í tösku? Jæja, augnablikið hefði hvort eð er ekki festst á filmu eins og ég man eftir því.

Lag númer átta. Þetta lag er fjörugra en um leið sorglegt. Ég man ekki hvenær ég heyrði það fyrst, en það er alltaf ein minning mjög steklega tengd því í mínum huga. Ég var staddur í líkamsræktarstöð í Keflavík og heyrði lagið útundan mér. Ég var nýbúinn að uppgötva það og leitaði það því uppi. Það kom frá sjónvarpstæki og var verið að spila myndbandið á MTV, og á skjánum birtist um leið ýmis fróðleikur um ellina og gamalt fólk. Röddin í laginu er nefnilega ellileg, og Moby klæddi sig upp sem gamall maður fyrir myndbandið. Í myndbandinu leikur líka Christina Ricci. Í Keflavík býr stelpa sem minnir mig alltaf á hana, og eitt sinn á djamminu sagði ég henni að ég væri skotinn í henni því hún minnti mig alltaf á Christinu Ricci. Alltaf síðan þá þegar ég hitti hana, þá kalla ég hana Christinu, og hún brosir alltaf svo fallega til mín. En hennar helsta áhugamál er að rugla í hausnum á mér. Hún heilsar mér og talar við mig eins og við séum aldagamlir vinir í nokkrar sekúntur en er svo horfin áður en ég næ að átta mig, og hún missir aldrei glerskóinn sinn þannig að ég hafi ástæðu til að tala betur við hana.

Fyrir framan mig í flugvélinni situr nunna. Haha, fljúgandi nunna! Var það ekki teiknimynd? Jú ég held það. Ætti ég að pikka í hana og spyrja hvort það væri ekki ódýrara að fljúga bara sjálf? Nei, það er heimskulegt. Auðvitað er allt of kalt til þess, og því notar hún Flugfélag Íslands á veturna. Af hverju er nunna annars að fljúga? Hvað gera nunnur annars? Á hún ekki bara að vera í klaustrinu að biðja? Nei annars, nunnur eru líka fólk. Nunnur hafa örugglega sínar breisku hliðar eins og við hin. Hún hugsar kannski stundum, -Hvernig ætli það sé að sofa hjá karlmanni?, en sér svo að sér og iðrast mjög. Hún hegnir sjálfri sér með því að lesa í Biblíunni í marga klukkutíma, og neita sér um mintusúkkulaðimolann eftir matinn eins og hinar nunnurnar fá. Nema hún sé svona líbó-nunna, og stundi villt BDSM kynlíf á Akureyri um helgar, en er svo voðalega stillt í Hafnarfirði á virkum dögum. Maður veit nefnilega voða lítið um nunnur.

Lag númer fjórtán. Það uppgötvaði ég frekar seint. Það byrjar eins og annar hátalarinn sé bilaður, eða það heyrist amk bara í öðrum þeirra fyrstu mínútuna. Það skildi ég ekki og þegar ég tók diskinn fyrst upp á minispilarann minn þá tók ég þetta lag upp nokkrum sinnum og hélt að eitthvað væri að snúrunum mínum, því aldrei heyrðist öðru megin í byrjun. Þannig uppgötvaði ég hvað þetta lag er gott, og ég hlustaði á það margoft endilangur í rúminu mínu heima. Stillti Volume-ið hátt og leyfði laginu að vinna á sálinni minni, því það er líka mjög mikil tilfinning í þessu lagi. Þetta finnst mér vera gleymda lagið á diskinum, því ég hef engan heyrt lýsa hrifningu sinni á því nema mig. Það er mjög sorglegt, og ef ég ætti að gera myndband um lag, þá myndi ég velja þetta lag og hafa myndbandið rosalega sorglegt. Sorgleg tónlist talar miklu meira til mín heldur en hress, því það er meiri tilfinning í henni. Nema ég sé bara svona sorgmæddur drengur. Nei, það er bara stundum. Og þá hlusta ég á góða sorglega tónlist.

Flugfreyjan rúllar stálinu framhjá mér og spyr hvort hún megi bjóða mér eitthvað. Hún reynir ekki einu sinni að sýna mér uppgerðarbrosið sitt í þetta skiptið, enda er maðurinn hennar að íhuga hvort hann eigi að fá sér viðhald. Það er nefnilega svo falleg kona sem býr á hæðinni fyrir neðan sem er alltaf að gefa honum hýrt auga. Svo vinnur konan hans á svo hentugum tímum, oft burtu á kvöldin og svona. Ef hún bara vissi. Ég sýni henni þó uppgerðarbrosið en sé eftir því. Ég bið um eplasvala þótt hún hafi tekið fram að þeir væri bara fyrir börnin, og hún segir að hún eigi aðeins venjulegan, ekki sykurskertan, og réttir mér hann ásamt servíettu. Skrítið, síðast þegar ég flaug bað ég líka um eplasvala og þá fékk ég sykurskertan án þess að biðja um það, og enga afsökunarbeiðni. Ætli það sé eðlilegra að fá sér sykurskertan? Hann var að vísu betri, sykurinn skemmdi bara eplabragðið.

Lag númer átján. Biggi liggjandi á stofugólfinu heima eftir partý heima hjá mér, hjúfrar sér uppað hátalaranum og hækkar ennþá meira í lokalagi disksins. Þetta er minningin sem ég tengi við þetta lag, og þykir mér það mjög fallegt líka, en þó síst af þessum fjórum. Hann hlustaði á það oft í röð, og hækkaði meir og meir, og sussaði á alla sem reyndu að tala, en flestir voru að fara að haska sér niður í bæ að leita að meiri stemmningu en nýjasta tónlistaruppgötvun Bigga hafði uppá að bjóða. Partýið var búið, og ég var búinn áðí, og fagnaði tónlistarvali Bigga því ég var meira í stuði fyrir rólegheit heldur en fjör. Þar lærði ég að meta þetta lag.

Flugstjórinn byrjar að röfla eitthvað og ég slekk á Moby í smástund. Það var farinn að myndast ís á hreyfilsblöðunum og hann gaf meira inn til að losa ísinn frá, það var skýringin á aukna hávaðanum sem ég hafði ekkert tekið eftir. Mér er alveg sama enda ekkert flughræddur.

Ég týnist í egin hugsunum og hlusta aftur á lögin fjögur. Reykjavík birtist í öllu sínu veldi, ekki síður falleg en Akureyri. Hundraðþúsund sálir þjóta framhjá mér, hver með sínar hundraðþúsund hugsanir, vandamál jafnt sem hamingju. En í mínum augum eru þau bara lítil ljós sem mynda falleg mynstur langt fyrir neðan mig.

Við lendum og allir standa upp í einu þannig að enginn kemst leiðar sinnar. Nunnan tegir sig í litla svarta tösku sem ég er fullviss um að innihaldi mintusúkkulaði, biblíu og handjárn. Við göngum hænuskref í átt að útganginum. Flestir örugglega að hugsa um rúmið heima. Ég var bara feginn að raunveruleikinn minn var ekki lengur málmrör á flegiferð um himingeiminn.

Magnús Sveinn Jónsson
blog comments powered by Disqus