miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Whales and words

Það hefur nú ekki farið framhjá nokkurri manneskju sem hingað álpast, hvort sem það er reglulega eða óreglulega, að ég hef verið að skrifa frekar langar færslur undanfarið í formi smásagna. Ég skrifaði þessar sögur fyrir sjálfan mig og ykkur, en þar sem ég er mjög háður því að skrifa bara það sem ég held að fólki líki við þá held ég ekki áfram með 1700 orða færslurnar (tilviljun að sögurnar urðu mjög svipaðar að lengd) nema þið viljið. Þannig að hvort sem þið lesið þær færslur eða ekki þá þætti mér fínt að fá að vita það. Ég skil það vel að það nenni ekki allir að lesa þær því þær eru töluvert lengri en hefðbundnar færslur í hvaða bloggi sem er, en þeir sem nenna að lesa mega alveg segja hvað þeim finnst svo ég geti gert betur næst og viti hvað lesendur mínir eru að hugsa.

Ég tognaði á fótboltaæfingu í kvöld, og ekki minna en í desember. Hundleiðinlegt að lenda í þessu helvíti því maður á svo lengi í þessu þótt þetta séu tiltölulega saklaus meiðsli. Einhverjum finnst ég örugglega eiga það skilið að togna í ljósi þess sem gerðist í janúar á fótboltamótinu, og lái ég þeim það ekki. Þetta er auðvitað lítið mál miðað við það sem hann þurfti (og þarf enn) að þola, en þetta er leiðinlegt samt sem áður.

Ég sá kvikmyndina Whale Rider í kvöld. Fyrir þá sem ekki vita er Keisha Castle-Hughes aðalleikkonan í þeirri mynd og hún er ekki nema þrettán ára. Það væri nú ekki frásögu færandi nema að hún er tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir þessa mynd núna í ár! Þar með er hún yngsta leikkonan sem hefur hlotið þann heiður. Myndin hefur líka fengið góða dóma og er hún þegar þetta er skrifað í 203. sæti yfir bestu myndir allra tíma á Imdb.com með 8.1 í meðaleinkunn. Þetta er fínasta mynd, þótt ég hefði nú ekki gefið henni alveg 8.1 eins og skalinn er á Imdb. Keisha leikur ótrúlega vel miðað við aldur og í einu atriðinu er hún alveg mögnuð og það er eitt best leikna atriði sem ég man eftir að hafa séð. Maður trúði henni algjörlega 100% að hún væri að meina allt sem hún sagði og þær tilfinningar sem hún sýndi. Alveg magnað. Ég býst ekki við að hún vinni, en tilnefningin er vissulega mikið afrek og á hún það skilið. Veit ekki hvort hægt er að nálgast myndina hér á landi, hún er ekki komin í bíó og ekki á myndband að ég held. Kannski er hún til á netinu, ég veit það ekki, en ég var svo heppinn að vinnufélagi minn lét kaupa hana fyrir sig á DVD í Ameríkunni og ég fékk hana lánaða. Lucky me. :) (eftir athugun þá sé ég að hún er til á Valhöll ef einhver hefur áhuga).
Maggi.
blog comments powered by Disqus