miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Gæsahúð

Dagurinn í dag var merkilega ágætur þrátt fyrir að ég hafi þurft að sitja á frekar slöppu námskeiði frá níu til fjögur (sem var að vísu furðu fljótt að líða). Ég reddaði nefnilega deginum með því að fara í hálfsex bíó með Jobu Kretz og Torgeirz. Við dirfum okkur nefnilega að sjá heimildarmyndina merkilegu um fuglana áður en þeir taka hana úr sýningu. Myndin heitir Le Peuple migrateur á frummálinu (frönsku) eða Heimur farfuglanna. Þessi mynd er alveg frábær og rosalega falleg. (8.0 á imdb.com) Hún er algjört möst sí fyrir kvikmyndatökuáhugamenn því kvikmyndatakan í henni er alveg ótrúleg og vart hægt að lýsa henni með orðum. Ég hef aldrei séð annað eins, enda hefur annað eins aldrei verið gert. Allt sem ég hef lesið um þessa mynd er satt. Ég meina þetta er engin epic stórmynd, ekki búast við því, en sem heimildarmynd er hún alveg æðisleg. Það er lítið sem ekkert talað í myndinni og þurfa því fuglarnir að halda henni uppi og tekst það alveg merkilega vel. Manni leiðist ekki (amk ekki mér) þótt uppistaðan í myndinni séu mismunandi myndskeið af fuglum á flugi. Náttúran og veðrið og fuglarnir mynda saman þvílíkt listaverk sem erfitt er að gleyma. Ég hvet þá sem hafa tækifæri til að sjá þessa mynd einhverntíman að gera það endilega, því þótt heimildarmynd um fugla hljómi ekki spennandi í eyrum allra, er hún virklega þess virði að sjá. Því miður skrifa ég þetta með þá tilfinningu að ég sé að tala fyrir daufum eyrum (eða skrifa fyrir blindum augum) en það má alltaf reyna. (þess má geta að svo fórum við á Burger King!! þannig að dagurinn varð ennþá betri.)

Ég sá líka Cold Mountain á sunnudaginn, þá ágætismynd. Hún á svosem alveg skilið einn eða tvo Óskara og skilar hlutverki sínu fullkomlega. En fyrir mér var þetta bara afþreying og góð sem slík. Get ómögulega litið á hana eins og hún sé einhver svakalega merkileg mynd því hún reynir það of mikið. En ég get alveg mælt með henni. Fín mynd.
Maggi.
blog comments powered by Disqus