föstudagur, febrúar 27, 2004

Ísskápurinn er að horfa á mig...

Aldrei hélt ég að ég myndi verða hræddur við ísskáp! En Requiem for a Dream breytti því í kvöld. Ísskápar eru hræðilegir. Nei nei, það er ekki alveg það sem maður lærði af þessari mynd. Það er langt síðan, líklegast síðan ég sá Irréversible, að mynd hafi náð að fanga mig í svo miklum hryllingi. Þetta er ekki hryllingsmynd en vá hvað hún er svakaleg. Kannski ætti ég ekki að eyða mörgum orðum í hana því hún er gömul (2000), þannig að þeir sem ætla að sjá hana hafa þegar gert það og þeir sem hafa ekki séð hana munu líklegast ekki gera það. En hún hafði bara það mikil áhrif á mig að ég verð að fá að tjá mig aðeins um hana.

Myndin fjallar um eiturlyf og hræðileg áhrif þeirra á líf fólks. Eins og einhver sagði á Imdb þá þýðir ekkert endilega að líf manns leggist í rúst ef maður tekur inn eiturlyf, en þetta sýnir vel það sem gæti gerst. Það er hægur stígandi í myndinni og alltaf niður á við. Aldrei verður neitt betra, bara verra og verra... og svo enn verra. Virkilega vel gerð og góð mynd, frábær leikstjórn og hlakka ég mikið til að sjá næstu mynd leikstjórans sem heitir Darren Aronofsky. Sú mynd heitir Flicker og kemur út á þessu ári, og bókin sem myndin er gerð eftir á víst að vera alveg frábær.

Svo hlakka ég til að sjá aðra mynd frá David Fincher sem gerði Fight Club en því miður er hann ekki með neitt á könnunni samkvæmt Imdb. Ég var að komast að því í kvöld að hann leikstýrði líka Se7en og The Game. Stúpid mí að vita þetta ekki fyrr, en hey, maður getur ekki vitað allt. Þetta eru auðvitað allt alveg frábærar myndir og því verður gaman að sjá hans næstu þótt erfitt verði fyrir kallinn að standa undir væntingum. Já þú gast þér rétt til, ég er búinn að eyða svolitlum tíma á Imdb.com í kvöld enda frábær síða. :)

Á morgun (föstudag) verður byrjað að sýna American Splendor í bíó hér á landi. Ég hlakka virkilega til að sjá hana eftir að hafa lesið um hana, og hún fær líka rosalega góða dóma. Hún hljómar eins og ekta mynd sem ég hef gaman af og vonandi er það rétt. Úbs, jæja, þetta átti að vera svakalega stutt færsla. Nú skil ég af hverju Jóhann nennir ekki að lesa bloggið mitt. Ó jæja, farið hefur fé betra. Múhaha.

Lag dagsins: Fade Into You með Mazzy Star af plötunni So Tonight That I Might See frá árinu 1993. :) Æðislegt lag. Repeat í marga klukkutíma! Gerist ekki betra.
Maggi.
blog comments powered by Disqus