fimmtudagur, desember 05, 2002

Ég er í þessum skrifuðu orðum að horfa á auglýsingaplakat sem auglýsir tónleika SigurRósar núna í desember. Nei, ég er ekki á Laugarveginum með ferðatölvu að blogga eins og þú hefðir getað haldið væriru módel (hint hint). Ég er inní herbergi hjá mér, því á föstudagskvöldið gerðist ég svo djarfur að ráðast á saklausan rafmagnskassa niðri í miðbæ Reykjavíkur og hirða af honum það eina verðmæta sem hann hafði að bjóða. Þetta forláta plakat. Það prýðir nú vegg í herberginu mínu og mun gera um ókomna tíð. Ekki minnkar það tilhlökkun mína enda er það ekki tilgangurinn og er varla hægt.

"Revolving door" er eitthvað sem við könnumst öll við. Það er hurðin sem þú gengur oftast inn um þegar þú ferð inn í stórt verslunarhúsnæði eða aðrar byggingar sem hafa tileinkað sér þessa sniðugu/pirrandi (eftir því sem við á) uppfinningu. En hvað heitir þetta fyrirbæri á íslensku? Snúningshurð? Neeeii, það hljómar bara asnalega. Við í aðlinum mínum veltum þessari spurningu fyrir okkur og komum með nokkrar tillögur, en enga sem við vorum sátt við. Það virðist vera sem enginn viti hvað þetta fyrirbæri heitir á okkar ylhýra móðurmáli. Ef þú hefur einhverja hugmynd endilega láttu mig vita.

Ég hef undanfarin misseri sérhæft mig í afhnökkun manna. Afhnökkun snýst um að taka eitt stykki hnakka og snúa honum til betri vegar og heilbrigðari lífsstíls. Orðabók menningarsjóðs skilgreinir hnakka sem svo: "Maður á aldrinum 17-25 ára með aflitað hár og ekur helst um á kraftmiklum sportbíl þar sem hann blastar FM957 músík og daðrar við smástelpur."
Þótti mér nóg komið um daginn þegar ég sá að FM957 hyski var farið að yfirtaka minn heimabæ. Ég tók mig til og opnaði aðstöðu á Hafnargöfunni og kaus að kalla hana "Afhnökkun Magga". Þar getur fólk sem er komið í vandræði með hnakkann sinn mætt á svæðið, og með minni leiðsögn afhnakkað sína nánustu vini og ættingja.
Aðferðafræðin bakvið afhnökkunina er nokkuð flókin. Fyrst er hnakkanum komið fyrir í stól þar sem hann er reyrður niður. Þetta reynist yfirleitt auðvelt þar sem flestir koma með hnakka sína ofurölvi eða handrotaða, því flestir hnakkar sjá ekki villu síns vegar og vilja alls ekki láta afhnakka sig. Þetta breytist þó að sjálfsögðu og þakka mér allir "recovering hnakkar" fyrir að afhnökkun lokinni. En áfram með lýsinguna. Eftir að hnakkinn rankar við sér er útskýrt fyrir honum hvar hann sé og hvað muni eiga sér stað næstu klukkutímana. Hinn týpíski hnakki bregst þá við með öllum illum látum og hótar öllum viðstöddum lífláti, því hann þekki tuttugu sterabolta sem bíði bara froðufellandi eftir símtali til að fá að berja einhvern eða handrukka.
Þá komum við með inn í herbergið (eða dýflissuna eins og ég kýs að kalla það) tvær litlar átta ára stelpur sem fá að berja hakkann eins og þeim lystir á meðan ég og aðstandendur viðkomandi horfa á og hlægja sem mest þeir mega. Snýst þetta um að brjóta niður hnakkann til að byggja hann upp aftur í annarri mynd. Stelpurnar eru í engri hættu því hnakkinn er vel reyrður og köllum við jafnvel til skáta í verstu tilfellin. Þegar smástelpurnar hafa lokið við að lemja skátann er kveikt á skjávarpa sem lýsir upp þann vegg dýflissunnar sem er á móti hnakkanum. Á þessu stigi yfirgefa ég og aðstandendur herbergið því engum heilbrigðum manni er ráðlagt að sjá það sem hnakkinn er að verða vitni að.
Við spilum myndband í nokkrum hlutum. Fyrst er Brittney Spears sett á fóninn, hækkuð í botn, og á meðan lög hennar spilast eru sýnd ofbeldisatriði ýmiskonar og mikil og ógeðsleg myndskeið sýnd. Ekki geri ég lesendum það að fara í nánari útlistingu á því, því tónlist hennar er þvílíkur viðbjóður að það er ekki lesendum bjóðandi. Því næst tekur við Euro-popp af verstu gerð og enn er aukið við ofbeldið á skjánum. Við þetta brotnar einstaklingurinn niður og fær viðbjóð og ógeð á allri þeirri tónlist sem FM957 hefur á sínum playlistum. Þá er gert stutt hlé og einstaklingnum leift að gráta. Ég fer inn í herbergið og spreyja hár hans svart og festi gaddabelti um hálsinn á honum. Tekur þá við eðal-rokkmúsík af bestu gerð, gömul og ný. Leyft er að fljóta með hinum ýmsu tegundum tónlistar svosem hip-hop tónlist, jazz, ambient og fleira, því það sem einkennir hnakkann er grunnhyggja hans og einfaldleiki. Á meðan þessar tónlistarstefnur hafa fengið að njóta sín eru spiluð myndbönd hinna ýmsu sveita, og fallegar og einfaldar senur fyrir einfaldan huga hins iðrandi hnakka.
Hinn nýji einstaklingur er síðan leystur úr fjötrum af fjölskyldumeðlimum sínum og fellur undantekningalaust í faðm þeirra og þakkar þeim fyrir að opna augu hans. Fyrir þá sem telja sig þurfa er starfræktur klúbburinn Hnakkaholics Anonymus og hittast þeir hálfsmánaðarlega og ræða það sem liggur þeim á hnakka. Nú hef ég afhnakkað u.þ.b. 30 hnakka og fleiri eru á biðlista. Ef hnakki leynist á heimili þínu, ekki hika. Hringdu í 877-HNAK, og ég svara skilaboðum um leið og tími losnar.


Jæja, vonandi er enginn fúll. Hnakkar eru líka fólk. Eða svona næstum. Þessi texti var einungis innlegg mitt í nýjustu keppni "Kristinn vs. Maggi; Blogg Battle". Nú er málið að kíkja á bloggsíðu Kristins, lesa hans innlegg og kjósa svo hvor er betri afhnakkari!
..:: rauður ::..



blog comments powered by Disqus