miðvikudagur, desember 11, 2002

Ég er svolítill áhugamaður um ljósmyndun og því þótti mér gaman þegar Ellert sendi mér fæl með nokkrum helvíti flottum myndum. Þetta voru fréttamyndir ársins og eru þarna nokkrar helvíti skemmtilegar. Allar eru þær góðar (auðvitað!) og því er það vel þess virði að fletta í gegnum þær. Ég ætla að setja þetta hérna inn en það mistókst eitthvað núna, FTP-forritið mitt er eitthvað að stríða mér. Þú kíkir bara aftur hingað fljótlega og færð að fletta í gegnum myndirnar.

Akkuru þurfti Ice Age að verða svona ógeðslega væmin í endann?! Það eyðilagði næstum fyrir mér myndina. Þetta var fínasta mynd, ágætis skemmtun (kemst samt ekki í hálfkvisti við Toy Sory 1&2 eða Monsters Inc.) en svo þurfti þetta að enda á algjöru væluatriði sem passaði alls ekki inn í myndina.
Það er sem kvikmyndagerðarmenn í henni Ameríku (norður þ.e.a.s.) barasta verði að fylgja einhverri formúlu sem segir meðal annars: "Myndin skal enda á væmnu ógeðisatriði og ef aðalpersónan deyr í lokaatriðinu til að toppa þetta allt þá verður myndin eflaust tilnefnd til óskarsverðlauna! Ef ein aðalpersónan deyr næstum því, en lifnar skyndilega upp frá dauðum þá er myndin þín líka algjört meisaraverk!" Ok, ég veit að það dó enginn í Ice Age (aðalpersóna það er), en að hann skuli ekki hafa dáið vondi-turned-2-good gaurinn er bara skandall.
Endirinn á Pay It Forward er eitt besta dæmið um svona þvælu. Ágætis mynd svosem og allt í lagi með það. En svo var allt nokkurnvegin fallið í ljúfa löð og tökum myndarinnar að ljúka þá fær leikstjórinn hugljómun og öskrar uppyfir sig: "Drepum strákinn! Drepum hann bara!!! Muhahahahahahaha!!!" og svo sendir hann son sinn inn á settið og hann dregur upp vasahníf og ristir Haley Joel Osment á hol! Þvílíkt meistarastykki! Fallega... það var nákvæmlega enginn tilgangur með því að drepa aumingja krakkann. Hann átti að vera voða hetja, bjarga stráknum því það var verið að stríða honum, en svo fékk hann bara hníf í magann og allt var búið. Myndavélunum pakkað saman, filmurnar sendar í klippingu og leikstjórinn plantaði leikstjórastólnum sínum fyrir framan bréfalúguna heima hjá sér og beið eftir boðskorti á Óskarsverðlaunahátíðina. Á hættu að hljóma eins og Einar vælukjói, þá fer amerísk kvikmyndagerð stundum í mínar fínustu...

Annars styttist í SigurRósar tónleikana... Ég hlakka svona 8,34 sinnum meira til að fara á þessa tónleika heldur en að fá að borða jólamatinn á aðfangadag. Að vísu hlakka ég alveg til jólanna. Aðfangadagur er alltaf góður dagur. Ég sef til hádegis og svo er maður bara að dunda sér eitthvað yfir daginn, sendast með nokkur jólakort og einhverja pakka. Ég fer alltaf í kirkju með ömmu og afa (því það nennir enginn annar) á þessum eina degi ársins sem ég er virkur í kristninni minni. Það kemur mér alltaf í rétta gírinn, alveg ekta jólaskap, og þegar maður kemur aftur heim í matarlyktina og óskar öllum gleðilegra jóla.... það toppar fátt þetta moment.
Við vorum alltaf langt fram á nótt (amk til svona eitt) að opna jólapakkana einu sinni því öll fjölskyldan safnaðist saman (13 manns eða e-ð), en í ár verður fámennt miðað við vanalega. Við verðum bara sex á aðfangadag, en svo er jólaboð hjá ömmu og afa á jóladag þar sem allir mæta og éta á sig gat. Svo á annan er það ball með Sálinni í Stapa, og held ég, nei, ég er viss um að það verði algjör snilld! Svo fer ég til pabba þriðja í jólum og verð fram á gamlársdag þegar ég kem heim til að horfa á alla vitleysingana sprengja í loft upp milljónir króna, og fara svo á brjálað áramótaball í Stapa! Það lítur allt útfyrir að jólin verði bara svona líka ótrúlega skemmtileg!
..:: jóla(maggi)sveinn ::..
blog comments powered by Disqus