fimmtudagur, desember 12, 2002

Kúúúúl.
Ég var að horfa á snilldar bíómynd. Það kemur æ oftar fyrir að ég tek myndir eða fer í bíó á myndir og ég bara veit... ég bara veit, því það sem ég hef heyrt um myndina segir mér það, að ég muni elska þessa mynd. Ég er maður sem neitar að trúa því að það geti verið slæmt að búast við því besta. Af hverju ættum við að búast við því versta? Það gerir okkur bara óhamingjusöm á meðan biðinni stendur. Að velta sér uppúr því slæma sem gæti mögulega gerst? Það er heimskulegt í mínum augum. Frekar að vera bjartsýn og hugsa; ég held að þetta verði frábært. Þá líður okkur vel. Og ef það sem við vonuðum að yrði svona frábært verður það ekki, hvað með það? Það er engin ástæða fyrir því að velta sér uppúr því heldur. Taka hlutunum eins og þeir eru. En umfram allt vona það besta.
En þetta er ekki það sem ég ætlaði að tala um. Ég var að sjá Mullholland Drive í fyrsta skipti. Það eina sem ég var búinn að heyra um hana var að hún væri góð en óskiljanleg. Ég elska myndir sem láta mann hugsa, segja manni ekki allan sannleikann og jafnvel ekki alla söguna. Þessi mynd gerir það og svo miklu meira. Hún er listaverk, eins og allar bestu bíómyndirnar eru.
Ég fór nottla beint á netið (fíkill þú skilur) og skoðaði það sem ég fann í fyrstu atrennu um myndina. Ég las mjög skemmtilegt viðtal við David Lynch, leikstjóra myndarinnar, og þar kom ýmislegt skemmtilegt fram um hann sem og gerð myndarinnar. Hann var spurður um hvað myndin þýddi og komið var með tilgátu um hvað hún ætti að þýða en hann bara hló og sagði að það væri fyrir áhorfandann að komast að niðurstöðu (ef það er hægt) fyrir sjálfan sig. Ég er farinn að bera meiri og meiri virðingu fyrir þeim sem svara spurningum um verk sín á þessa leið. Ég man að í 10. bekk þegar Einar Már Guðmundsson kom til okkar og las uppúr Englum alheimsins. Eftir upplesturinn fengum við að spyrja hann um það sem við vildum, og sama hvað við reyndum gátum við ekki veitt neitt uppúr honum hvað þetta og hitt í bókinni þýddi. Hvað hundurinn og hestarnir stóðu fyrir o.s.frv. En hann vildi ekki segja neitt, sagði bara að það væri okkar að skilgreina ef við vildum, og að okkar útskýringar væru engan veginn verri en hans! Mér þótti þetta frekar skrítið á þeim tíma, en auðvitað var hann að segja okkur að við sem lesedur ættum að læra að túlka hlutina útfrá okkur sjálfum, ekki fylgja einhverri formúlu sem er matreidd ofan í okkur.
Mullholland Drive átti upprunalega að vera sjónvarpsþáttur og myndin er eignilega "pilot" þessarar seríu sem aldrei varð til. David Lynch er nefnilega sjónvarpsleikstjóri líka, gerði meðal annars Twin Peaks þættina. En ABC sjónvarpsstöðin hataði pilotinn algjörlega og neitaði að sýna hann eða framleiða þættina. Þá kom upp sú hugmynd að gera úr þessu bíómynd. David Lynch settist niður og bætti við atriðum og breytti myndinni verulega. Hann sagði í þessu viðtali góða sögu og held ég að svona hlutir einkenni stíl hans sem leikstjóra. Það var nefnilega þannig að umboðsmaður hans með unga spænska söngkonu til að syngja fyrir hann lag eftir Roy Orbison (sem hann hafði mikið dálæti á). Um leið og þau komu í heimsókn hentust þau inn í upptökuver á heimili Davids og hún söng spænska útgáfu af þessu lagi. Það var einmitt þessi upptaka, sem var gerð fimm mínútum eftir að þau hittust í fyrsta skipti, sem endaði í myndinni. Og það er ekkert smá flott í myndinni þegar hún tekur lagið (í leikritinu). Allavega, allir sem hafa áhuga á svona myndum að sjá hana, en þeir sem ekki fíluðu eftirfarandi myndir ættu að halda sig frá henni! : Memento, Vanilla Sky og Pulp Fiction.

Annars eru SigurRósar tónleikarnir á morgun! Jibbí! Það verður gaman. Þú færð að heyra meira af þeim, það get ég sko sagt þér. En klukkan er orðin rúmlega tíu (kortér í fjögur) þannig að ég ætti að fara að sofa. Ég er internetfíkill, ég er alveg búinn að komast að því. Hlakka til þegar ég get keypt mér buxur eða gleraugu eða eitthvað með nettengingu. Það er kúl.
..:: maggholland drive ::..
blog comments powered by Disqus