Einu sinni
Einu sinni drógu hestar menn í kerrum og fluttu þá þannig á milli staða, jafnvel landshlutanna á milli. Nú draga menn hesta í kerrum á eftir 5 milljón króna jeppanum sínum á 38 tommu dekkjum og með krómaðan stuðara og milljón króna spoilerkit. Einu sinni átu Íslendingar súran eða myglaðan mat þegar liðið var á veturinn til að halda í sér lífinu því það var ekkert annað að fá. Nú dressar fólk sig upp í sitt fínasta púss og keyrir á jeppanum sínum til að hitta annað fólk og éta sama viðbjóðinn og horfa á skemmtiatriði. Einu sinni hætti fólk lífi sínu til að komast yfir landið, fór gangandi á fjöll og varð stundum úti. Nú keyrir fólk á jeppanum sínum uppá fjöll og leikur sér á vélsleðum og lætur svo björgunarsveitina koma að ná í sig ef það kemur vont veður. Einu sinni var fólk heppið ef það fékk að fara til Danmerkur til að mennta sig og upplifa eitthvað annað en vesældina á Íslandi. Nú gráta mannabörnin ef þau fá ekki að fara til Mallorca í sumarfríinu sínu til að sleikja sólina og borða ís og leika sér. Einu sinni frétti fólk það helsta sem hafði gerst þegar það komu gestir sem vissu eitthvað sem heimisfólkið vissi ekki. Núna má enginn sem leikið hefur í bíómynd fara á stefnumót án þess að það séu 50 fréttastofur búnar að skrifa um það á netið og allir í heiminum vita af því. Einu sinni var það gleðiefni þegar pósturinn kom einstöku sinnum með bréf frá ættingjum eða vinum og fólkið hópaðist saman til að heyra hvað skrifað var. Í dag röflar fólk yfir því hvað það er mikill ruslpóstur allstaðar og getur sent bréf til vina sinna í Kína og það er komið til skila eftir tvær sekúntur. Já, hvernig ætli heimurinn verði eftir hundrað ár?
Check it. Myndavélin mín til sölu á kassi.is.
..:: rauður ::..
Halló heimur!
Fyrir 2 árum