þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Þú ert á sjó. Á einhverjum skítadalli sem þú hatar meira en lífið, og ef þú hatar eitthvað meira en þennan ógeðslega bát, þá er það áhöfnin sem er búin að velkjast með þér á bátnum undanfarnar sex vikur. Þú ert aðframkominn. Það eina sem þú hefur fengið að éta er lítt skammtaður soðinn fiskur, engar kartöflur, og bara vatn að drekka. Kokkurinn er vanhæfari en flestar rotturnar um borð. Þær sem eftir eru amk, því flestar gáfuðu rotturnar stukku fyrir borð strax í fyrstu vikunni. Þú hefur oft hugsað um að myrða kokkinn í svefni, og næstum látið verða af því, en hugsaðir á síðustu stundu að fangelsismaturinn væri örugglega lítið skárri. Þegar skipið leggst að bryggju í Hafnarfirði stekkuru strax frá borði og rýkur beint í bílinn þinn eins og óður maður og keyrir á 110 alla leið. Alla leiðina á eina staðinn sem þú hefur getað hugsað um síðan þú sást landið fjarlægjast fyrir allt of mörgum vikum síðan. Þú hleypur inn um hurðina og ryðst framfyrir alla í röðinni! Þú öskrar hástöfum: "ÉG ÆTLA AÐ FÁ SEX TOWER ZINGER BARBEQUE BORGARA! STRAX!!!" Þú sest niður, grípur um borgarann, lítill taumur af barbeque sósu rennur niður á diskinn þinn, og þú sérð bara hvað kartöfluskífan er stökk. Osturinn er örlítið bráðnaður, og salsa- og barbequesósu lyktin fyllir öll vit. Þú bítur stóóran bita og lygnir aftur augunum. Ahhh... Þetta augnablik var jafnvel yndislegra en þú hafðir getað ýmindað þér. KFC er himnaríki í þínum augum. Þú horfir brosandi á borgarann í hendi þér og segir: "Aldrei aftur, við skulum aldrei skilja svona lengi aftur."
Ertu nokkuð svangur? Þessi litla saga var tileinkuð Nonna Norska sem kemst ekki á KFC í Noregi. Aumingja hann. Ég hinsvegar kemst, daglega, og orð fá ekki lýst ánægju minni með það.
..:: r.e.d. = k.f.c. ::..
blog comments powered by Disqus