mánudagur, nóvember 25, 2002

VIÐ UNNUM BIKARINN!!!
Djöfull var gaman um helgina. Það verður bara að segjast að þetta er eitt skemmtilegasta sundmót sem ég hef farið á, og eru þau nú orðin nokkuð mörg. Ég sagði ykkur frá því síðast að ég væri að fara að synda 1500 skrið, sem ég og gerði á föstudaginn. Það gekk nú ekki alveg samkvæmt áætlun, en var ágætt þó. Eitt lærði ég á því að synda þetta sund, 1500 skrið er komið frá andskotanum! Ég fer ekkert ofan af því, þetta er ein sú mesta pína sem maður lendir í. Þvílíkt erfiði að synda þetta sund. En þetta lofaði bara nokkuð góðu hjá mér, og fæ ég því örugglega að synda það aftur í framtíðinni. Úff.
Hin sundin liðu nokkuð fyrir það að ég hafi synt afkvæmi djöfulsins á föstudeginum, þannig að hin sundin sem ég synti voru ekkert sérstök þótt þau hafi ekki verið mjög langt frá því sem ég gerði mér vonir um. Ég synti 200 skrið og 100 flug og svo tvisvar sinnum boðsund. Fyrra boðsundið átti að vera bulletproof íslandsmet, en allt kom fyrir ekki, enginn stóð við sitt og við rétt misstum af því. Bætum það bara upp á morgun, mánudag, þegar við reynum við þrjú íslandsmet á móta- og lágmarkamóti SH!
Við enduðum svo helgina á því að borða saman á Ránni, fengum þar hinn fínasta málsverð í boði sunddeildarinnar, og kláruðum restina af raddböndunum með nokkrum öskrum (eitthvað lítið um góða raddbeitingju hjá mér í augnablikinu eftir læti helgarinnar). Við fylltum Ránna af sundfólki og velunnurum, og í þeirra hópi var Árni Sigfússon bæjarstjóri með meiru, og hann var meira að segja í sundhöllinni bæði á laugardaginn og sunnudaginn að horfa á sitt fólk! Það kalla ég nú almennilegan bæjarstjóra og fékk hann þónokkra punkta í kladdann hjá mér fyrir þetta! Hann hrúgaði líka inn punktum þegar hann gaf sunddeildinni 200þús. kall og fór svo að tala um byggingu 50 metra innilaugar hér í bæ í ræðu sem hann tók á Ránni. Ef eitthvað er að marka orð hans, mun fyrsta skólfustungan vera tekin árið 2004, og er ég mjög sáttur við það enda hljómaði hann mjög sannfærður um að hann gæti fengið fjármagn til þess.
Ég veitti Morgunblaðinu þann heiður eftir að við höfðum tekið við bikarnum glæsilega að taka við mig smá viðtal sem fyrirliða (þrátt fyrir að þeir hafi ekki viljað bita greinina mína um daginn!) þannig að þið getið líklegast lesið bullið í mér í íþróttablaðinu á þriðjudaginn. En helgin var í langflesta staði mjög vel heppnuð og liðið sýndi frábæra samstöðu og góðan móral. Á svona stundum langar mann barasta aldrei að hætta að æfa sund! Þykir mér nú samt hæpið að ég verði enn að busla í löginni þegar ég er orðinn hálf-fimmtugur, en hvenær ég mun leggja skýluna á hilluna er óljóst. Vonandi alls ekki strax.
..:: rauður svamlar enn ::..
blog comments powered by Disqus