miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Þetta er helvíti flott!
Ég hitti pabba í kvöld. Hann var að halda fyrirlestur í Heiðarskóla og við kíktum aðeins á hann eftir það. Hann leyfði okkur systkinunum að heyra svolítið sem var ansi flott. Hann var með vasadiskó með spólu sem á var tæplega fimm mínútna löng kynning á fyrirbæri sem nefnist Virtual Audio. Þetta er nýjasta tækni í upptöku á hljóðum og ekki þykir mér ólíklegt að innan fárra ára verði þetta mikið notað í upptöku á tónlist, hljóði í bíómyndum og fleiru.
Þú verður eiginlega að heyra þetta til að skilja hvað er svona sérstakt við þetta. Í kynningunni, sem ég ætla að leyfa þér að ná í hér á síðunni, færðu að heyra allskonar hljóð allt frá flugeldum til blaðaskrjáfurs og það er ótrúlegt hvað þetta er raunverulegt. Þetta er þrívíddarhljómur. Þú skynjar alveg hvaðan hljóðið kemur (eða þér heyrist það amk!) og þér finnst þetta vera að gerast allt í kringum þig en ekki bara í eyrunum á þér eins og með flestar upptökur.
Þegar ég heyrði þetta fyrst núna áðan þá skríkti ég bara eins og krakki því þetta var svo skrítið! Eftirá þótti mér ótrúlegt að öll þessi hljóð skuli bara hafa komið úr venjulegum stereo heyrnartólum og vasadiskói! Þetta er ekki surround eða neitt, bara miklu, miklu flottara! Það sem þú átt að gera er að ná í MP3 skrána hér að neðan, setja á þig heyrnartól, tengja þau við tölvuna og spila þetta passlega hátt. Passaðu að snúa heyrnartólunum rétt, semsagt að hafa vinsta og hægra við rétt eyra. Það er sniðugt að loka augunum og þá sérðu algjörlega fyrir þér hvað er að gerast og hvar. Þú verður bara að heyra hvað þetta er flott! Það er smá suð því ég tók þetta upp af vasadiskói en það breytir engu hvað hljóminn varðar.
Sæktu skrána hérna!
..:: nýjungagjarni ::..
blog comments powered by Disqus