fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Ný keppni er hafin milli mín og Kristins. Ef þú lest lengra verður ekki aftur snúið. Þá ertu strax orðinn virkur þáttakandi í illkvittnum vélabrögðum okkar og losnar seint undann þeirri ábyrgð sem á þeim hvíla sem hætta sér lengra...

Blogg nefnist nýtt æði sem hefur tröllriðið landsmönnum undanfarin misseri. Er það á fárra vitorði hvaðan þetta merka fyrirbæri kemur, en á rölti mínu gegnum fornbókabúð eina í höfuðborg þessa skrítna lands varð ég margs vísari um fyrirbærið. Ég var að svipast um eftir gömlum kortum af Íslandi þegar lítil rykug bók féll fyrir fætur mér af einu borðanna í búðinni. Ég tók hana upp og opnaði varlega því hún virtist viðkvæm, en í henni stóð ekkert. Þó var eins og hún hefði verið lesin oft því hún var þvæld, en samt óskemmd. Þegar ég gáði betur á forsíðuna gat ég séð greypt í leðukápuna í einu horninu, " BLOGG ".
Ég kallaði á skrögginn sem átti búðina og spurði hvað gripurinn kostaði. Hann sagðist ekkert kannast við hana og sagði að ég mætti eiga hana ef ég vildi. Ég var orðinn mjög forvitinn, en gat ekki hugsað mér að hirða af gamla kallinum bókina, hann hafði eflaust bara gleymt að hann ætti hana til. Flest í búðinni leit út fyrir að hafa ekki verið hreyft í mörg ár. Því borgaði ég honum þúsund krónur og dreif mig út í þokuna.
Þegar heim var komið opnaði ég bókina aftur og var bókin þá alls ekki tóm. Þvert á móti var hún stútfull af texta, mjög gömlu letri og var hún öll handskrifuð. Sum orðin voru vart læsileg en þó gat ég skilið innihaldið nokkurn vegin. Þar var sagt frá listformi nokkru, svokölluðu bloggi. Fyrir um níu hundruðum ára var bóndi nokkur á austfjörðum í talsverðum vandræðum með lífið. Heimilisfólkið hegðaði sér undarlega, uppskeran var rýr, kýrnar mjólkuðu lítið og sjálfur var hann allur hinn undarlegasti, hálf veikur alla daga. Allt þetta hrjáði mjög huga hans, og fann hann ekkert sem létt gæti þessum álögum. Lítið dugði að tala við fjölskylduna því allir virtust uppteknir eða annars hugar og sömuleiðis starfsfólkið. Hóf hann því að rista rúnir á trjábút nokkurn sem hann fann og var tilvalinn til skrifta.
Hann hripaði fyrst nokkur tákn, sagði frá vandamálum sínum og hvað angraði hann, en fyrr en varði var hann farinn að sökkva sér ofan í djúpar pælingar um lífið og tilveruna. Hann lét ekki nægja trjábútinn heldur fann sér skinn stórt og mikið og tók að hripa niður hugsanir sínar. Þetta gerði hann daglega og leið betur og betur eftir hvert skipti. Heimilisfólkið komst í skriftirnar, og þeir sem kunnu að lesa rúnir lásu upp fyrir hina og höfðu allir gaman af. Fréttist þetta út um sveitir og tíðkaðist lengi vel hér á landi meðal bænda sem kunnu að rita rúnir.
Meira skildi ég ekki af því sem stóð í bókinni. Höfundur hennar var maður að nafni Jónas. Maðurinn sem ritaði fyrstu hugsanirnar á trjábútinn hét Björn Logmundur Oddverji Guðmundar gráa. Var því þessi siður nefndur blogg eftir upphafsmanni þess. Nú hefur þessi gamli og góði siður ratað aftur á borð landsmanna og geta þeir nú dreift boðskap sínum enn víðar með tilkomu internetsins. Megi sem flestir iðka þennan aldagamla sið í minningu forfeðra okkar.


Þessi saga var hluti af "Kristinn vs. Maggi, Blogg Battle!", og nú er það hlutskipti þitt að velja hvor stóð sig betur. Keppnin snerist einfaldlega um það hvor gæti komið með betri sögu um uppruna bloggsins. Nú skalt þú fara á heimasíðu Kristins, lesa söguna hans og kjósa svo hvor stóð sig betur!
..:: skáldar ::..


blog comments powered by Disqus