miðvikudagur, apríl 23, 2003

Dream


Mig langar að tala um drauma. Mig hefur dreymt afskaplega mikið undanfarið og hafið þið kæru lesendur þessa fleiðara fengið að lesa um nokkra af þessum draumum. Um daginn dreymdi mig draum, og ég spurði sjálfan mig í draumnum, "Ok, það er afskaplega ólíklegt að þetta gæti gerst, getur verið að mig sé að dreyma...?" Og svo leit ég í kringum mig og sá öll smáatriðin í öllu og mér leið ekkert eins og mig væri að dreyma, þannig að ég svaraði mér á móti, "Nei. Það getur ekki verið. Mig er ekki að dreyma." Ég hefði haldið að mér tækist aldrei að sannfæra mig um eitthvað svona. Við höfum talað um þetta í heimspekinni og því þótti mér afskaplega gaman að lenda í þessu. Ég var þess fullviss að mig væri ekki að dreyma. Þarna missti ég af góðu tækifæri til að stjórna draumnum mínum. Hefði ég sagt við sjálfan mig, "Jú, þetta er draumur", þá hefði ég getað stjórnað því sem ég gerði í draumnum.

Í gærnótt lenti ég í því nákvæmlega sama aftur í draumnum mínum. Allt í kringum mig var ótrúlega raunverulegt en aðstæðurnar ólíklegar þannig að ég stoppaði og spurði sjálfan mig, "Bíddu... er mig að dreyma?" En núna var svarið á aðra leið, "Jú, þetta getur ekki verið að gerast, mig ER að dreyma!" Þannig að ég var rosalega ánægður og ákvað að prófa það sem mig hefur langað að prófa svooo lengi. Ég tók við stjórninni í draumnum og réði atburðarásinni. Ég var niðrí gömlu sundmiðstöð og það voru einhverjir krakkar í sundlauginni. Ég ákvað að gera eitthvað sem ég myndi aldrei gera þannig að ég hoppaði útí laugina, synti að einni stelpu og kyssti hana. Kossinn var ekki góður en það kemur sögunni svosem ekkert við. En ég lokaði augunum við að kyssa stelpuna og þegar ég hætti því (fljótlega því það var ekkert gaman, hún kunni barasta ekkert að kyssa, skrítið, maður hefði haldið að ég gæti ráðið því líka!) þá var ég svo hræddur um að opna augun í alvörunni og vakna bara því ég svaf svo laust. Ég opnaði augun varlega, en var ennþá sofandi. En ég, í minni draumaheimsku, hélt að ég hefði vaknað. Þannig að ég missti alla stjórn á draumnum aftur. Ég var viss um að ég hefði vaknað þrátt fyrir að ég væri á sama stað, ennþá niðrí gömlu sundhöll! Fólkið sem hafði verið þar í draumnum var horfið og annað fólk komið í staðinn, þannig að aðstæðurnar breyttust eftir að ég opnaði augun, en það er samt heimskulegt að ég hafi misst stjórnina á draumnum bara af því að ég lokaði augunum of lengi.

Þetta var samt ótrúlega gaman og hvet ég alla til að prófa þetta. Það er nefnilega hægt. Hugsið vel um að ykkur sé að fara að dreyma eftir smá stund þegar þið eruð að fara að sofa. Verið svo reiðubúin að spyrja ykkur, "Getur verið að mig sé að dreyma?" Þið getið meira að segja hugsað um það sem ykkur langar að dreyma rétt áður en þið sofnið, því það er víst hægt að venja sig á það líka og ráða um hvað maður dreymir. En það að hafa stjórn á draumnum sínum og geta framkvæmt það sem mann langar er ótrúlega skrítið og frábær upplifun. Næst þegar þetta tekst ætla ég að prófa að fljúga því það eru alltaf skemmtilegustu draumarnir. Asnalegt samt að þessi stelpa hafi ekki getað kysst almennilega. Ekki sáttur við það. En maður verður nú bara að gefa henni annan sjens, þannig að ég er farinn að sofa aftur! Góða nótt, og dreymi ykkur skemmtilega!
..:: magchen ::..
blog comments powered by Disqus