mánudagur, janúar 27, 2003

Magnaðar draumfarir

Alveg er þetta nú með eindæmum. Nú í annað skiptið á stuttum tíma vakna ég með líka þennan magnaða draum í hausnum. Í bæði skiptin hef ég gripið símann minn og skrifað langt SMS til sjálfs míns, semsagt stikkorð til að muna hvað það var sem mig var að dreyma svona mikið. Aftur var ég í vinnunni og aftur var sumarbústaður. En það gerðist miklu meira í þetta skiptið. Þetta var einhvernvegin svona...


Ég veit ekkert hvað af þessu kom fyrst en þetta var einhvernvegin svona. Ég var í risastórum sundlaugagarði, og hann var örugglega í Brasilíu. Til að fara í rennibrautirnar þurftiru að borga með sérstökum péningum sem voru hvítir, en ég tók eftir því að munstrið á þeim var eins og á íslenskum tíköllum. Með mér í garðinum var eitthvað af vinum mínum, en ég man bara eftir Nonna og Elísabetu, norsurunum semsagt, og Írisi sundstelpu. Ég og Nonni fórum í stærstu rennibrautina og þurftum að labba upp margar hæðir og bíða í biðröð en Nonni var búinn að finna góða aðferð til að svindla sér þannig að við þurftum ekki að bíða lengi. Nonni fer á undan en þegar það er komið að mér fer ég svo hratt að ég þeytist upp úr brautinni alveg efst uppi! Ég er í frjálsu falli svoldinn tíma, og man vel eftir svakalegum fiðring í maganum! Ég lendi í sundlauginni og fer til krakkanna til að segja þeim hvað gerðist, en við héldum til í einhverjum stigagangi þarna í garðinum. Þess má geta að sundlaugagarðurinn var svo stór að það var risa hótel inná honum hvorki meira né minna.

Ég veit ekki fyrr en ég er kominn í vinnuna (úr garðinum en samt rétt hjá), og er á leiðinni heim. Ég og Jón Oddur sundkall vorum að labba til að ná rútunni heim (þetta er semsagt vinnan hjá IGS í hlaðdeildinni) en ég hafði gleymt peysunni minni og veskinu í stigaganginum. Ég hleyp því til baka og er heillengi að leita að þessu og villist meðal annars inn á hótelið. Þess má geta að mig hefur dreymt þetta hótel áður en þá festist ég í liftunni og hrapaði alla leið niður og var það óskemmtilegt mjög. Ég fann dótið mitt en þá var ég kominn upp í sumarbústað.

Þetta var ekki bústaðurinn hjá ömmu og afa, heldur framsóknarbústaður sem afi hafði lánað mér þar rétt hjá. Einhver kallar á mig og ég fer út og sé risastóran flottan bústað í ljósum logum nálægt okkur. Slökkvistarf er í fullum gangi og ég hringi í afa til að segja honum þetta en hann vissi þetta fyrir. Vinur hans átti bústaðinn. Þegar við horfum á slökkvuliðið berjast við eldinn sjáum við annan bústað sem er úr plasti, steypast á hvolf niður hæðina og fólkið inní honum. Þetta var allt saman rosalega fyndið. Ég fer inn og þá er mamma búin að baka einhverjar skringilegar kartöflur og ég og Gilli frændi gæðum okkur á þeim.

Síðan er ég staddur í einhverjum skemmtigarði en man mest lítið eftir honum. Ég man eftir fjarstýrðum bílum sem við stýrðum inn í litla flugvél. Afi Hannes flaug henni svo af stað en ég og lítill strákur vorum í teppalögðu herbergi í flugvélinni með fjarstýrðu bílunum. Hann var ekki nema svona tveggja ára og ég þekkti hann í draumnum en þetta var enginn sem ég þekki í alvörunni. Hann var hræddur því flugvélin var lítil og hristist og ég hélt því á honum á þessari stuttu flugferð sem endaði inn á Akureyri. Afi var að vísu næstum búinn að brotlenda vélinni áður, en það reddaðist allt. Þegar við komum út man ég eftir pabba og Möggu konunni hans að bera eitthvað dót, bedda og eitthvað inn í húsið sitt á Akureyri.

Ekki man ég fleira úr þessum draumi en hann var allur hinn skemmtilegasti og vonast ég eftir fleiri löngum og skemmtilegum draumum til að hafa ofan af fyrir mér svona rétt yfir blánóttina.
..:: macdream ::..
blog comments powered by Disqus